fbpx

 

Finnur Birgisson formaður kjaranefndar FEB skrifar:

„Greiðslur almannatrygginga (…) skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

– Þannig hljóðar 62. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Þetta þýðir skv. almennum mál­skilningi að launaþróunin eigi að vera aðalviðmiðið. En ef svo skyldi ein­hverntíma vilja til að launin héldu ekki í við verðlagið, þá skuli verðlagið ráða, þ.e.a.s. sú viðmiðunin sem þá gefur hagstæðari niðurstöðu fyrir skjólstæð­inga almannatrygginga, – ekki fyrir ríkiskassann.

Klókindaleg formúla fjármálaráðuneytis

Bæði þessi viðmið eru skýr og ótví­ræð og birtast í mánaðarlegum launa- og neysluverðs­vísitölum Hagstofu Íslands. Það flækir samt óneitanlega málið, að ákvörðun Alþingis um fjárveitingar til almannatrygginga þarf hverju sinni að byggjast á spá um væntan­lega þróun vísitalnanna á komandi ári, og eins og Daninn sagði þá er erfitt að spá; sér í lagi um framtíðina. Nokkur síðustu ára hafa spárnar geigað verulega og alltaf á sama veg: Skjólstæðingum almanna­trygg­inga í óhag.

Það er þó ekki eina ástæðan fyrir því að greiðslur almannatrygginga hafa dregist langt aftur úr launaþróuninni á undanförnum árum, og jafnvel átt það til að halda ekki einu sinni í við framfærsluvísitöluna. Önnur ástæða er sú að fjármála­ráðuneytið hefur alla tíð álitið það mesta óráð að láta greiðslur almannatrygginga fylgja launaþróuninni. Það hefur því komið sér upp klókindalegri formúlu til að „leið­rétta“ tölur Hagstofunnar, – reikna launavísitöluna niður.

Kaupmáttur ellilífeyrisins dróst saman 2021 og 2022

Kjaragliðnunina, sem er afleiðing af þessu, má sjá á meðfylgjandi línuriti (Mynd 1). Það tekur til áranna sem ríkisstjórnir Katrínar Jakobsdóttur hafa setið en sú fyrri tók við völdum 30. nóvember 2017. Línurnar eru stilltar á 100 fyrir árið 2017 og sýna hvernig ársmeðaltöl verðlags, launa og ellilífeyris hafa þróast síðan þá.

Línuritið sýnir að launin hafa hækkað um 52% og framfærsluvísitalan um 33% á þessum 6 árum, sem þýðir að kaupmáttur launanna jókst um 14,3%. Aukningin varð einkum til og með 2021, en eftir það verða launa- og framfærslulínan nánast samsíða, sem þýðir að síðan þá hefur kaupmátturinn að mestu staðið í stað.

En hvað með ellilífeyrinn? Fyrstu ríkisstjórnarár Katrínar hækkaði hann aðeins brattar en framfærsluvísitalan og 2020 hafði kaupmáttur hans aukist um ca. 2,8% frá 2017, meðan kaupmáttur launa hafði aukist um 9,2%. En næstu tvö árin dróst kaupmáttur ellilífeyrisins saman aftur og árið 2022 var hann dottinn niður í nánast það sama og hann hafði verið 2017, meðan kaupmáttur launanna hafði aukist um 13%.

Súluritið á mynd 2 fjallar um það sama og línuritið, en sýnir það á annan hátt. Fyrir hvert ár eru tvær súlur, blá fyrir launin og rauð fyrir ellilífeyrinn, og tákna þær kaupmáttar­aukningu (eða -rýrnun) í prósentum frá næsta ári á undan. Dæmi: Árið 2018 jókst kaupmáttur launa um 3,8% frá árinu á undan, en kaupmáttur ellilífeyrisins um 2%.

4,6% kjaragliðnun á einu ári!

Af súluritinu sést glöggt hvernig kjaragliðnunin hefur aukist jafnt og þétt allt frá upphafi tímabilsins. Aldrei þó meira en 2021, þegar raunvirði ellilífeyrisins rýrnaði um 0,8% frá fyrra ári en kaupmáttur launanna jókst um 3,8%. Þar gleikkaði bilið milli launa og lífeyris í einu stökki um 4,6%!

Árið 2022 varð síðan sama og engin kaupmáttaraukning launanna, en þá lækkaði líka ellilífeyririnn um 1,8% að raungildi. Á yfirstandandi ári hefur þetta snúist aðeins við og kaupmáttur ellilífeyrisins aukist lítillega á ný, en þó ekki nóg til að vega upp rýrnunina ’21 og ’22.

– Því fer þannig víðs fjarri að í ríkistjórnartíð Katrínar hafi verið virt sú megin­regla almannatryggingarlaganna að láta ellilífeyrinn fylgja launaþróun. Tvö undangengin ár hélt hann meira að segja ekki í við framfærsluvísitöluna, heldur dróst saman að raungildi um samtals 2,6%. Samt kveða lögin á um að það megi ekki gerast, því þar segir í 62. grein: „ … þó þannig að þær (innsk.: greiðslurnar) hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Þegar svo almenna frítekjumarkið hefur í ofanálag staðið í stað í skitnum 25 þúsund krónum á mánuði síðan 2017, þarf engan að undra að meðal ellilífeyristaka ríki vonbrigði og reiði vegna þess algera tómlætis sem ríkisstjórnin sýnir kjörum þeirra.

Höfundur er formaður kjaranefndar FEB í Reykjavík og nágrenni

 

Greinin birtist fyrst á Vísi mánudaginn 25, september 2023.