Nýtt verkefni sem hefur fengið nafnið Spjöllum saman gengur út á að hringt er í allt fólk sem er 85 ára og eldri, býr einsamalt og hefur fengið þjónustu frá Reykjavíkurborg. Í símtalinu er líðan fólksins og aðstæður kannaðar og því boðið að eignast símaspjallsvin.
Þetta er samstarfsverkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Markmið verkefnisins er að draga úr félagslegri einangrun eldri borgara á meðan samskipti og nánd er skert vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Þetta er ekki síst gert til að sýna náungakærleik og standa saman á þessum óvenjulegu tímum.
Starfsfólk félagsmiðstöðva fullorðinna í Reykjavík hringja fyrsta símtal til einstaklinga sem um ræðir. Með símtalinu á að veita félagslegan stuðning í formi spjalls á forsendum hvers og eins. Starfsmenn segja frá verkefninu og frá sjálfboðaliðum í hverfinu sem langi til þess að sýna náungakærleika á meðan þetta ástand vari. Fólki er síðan boðið að sjálfboðaliði hafi samband símleiðis á næstu dögum. Sjálfboðaliðar eru í Landssambandi eldri borgara og Félagi eldri borgara í Reykjavík en auk þeirra er leitað að fleiri sjálfboðaliðum.
Viltu gerast símavinur?
Viltu leggja þitt að mörkum til að draga úr einangrun eldri borgara? Starfsfólk félagsmiðstöðva leitar nú að sjálfboðaliðum til að verða símavinir. Hver sjálfboðaliði fær fjögur til sex nöfn og símanúmer og hlutverk þeirra verður að veita þeim einstaklingum sem þeir tengjast félagslegan stuðning í formi símaspjalls næstu vikurnar. Með verkefninu er ætlunin að veita stuðning á tímum þar sem margt fólk upplifir félagslega einangrun og vanmátt og er það gert með símtali.
Verkefninu er ekki ætlað að koma í stað heimaþjónustu, heimahjúkrunar eða annarar þjónustu Reykjavíkurborgar heldur er það viðbót.
fyrir hönd borgarinnar leiðir Bryndís Hreiðarsdóttir verkefnið en hún er verkefnastjóri í Bústaða- og Háaleitishverfi. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, leiðir verkefnið hjá LEB og fyrir hönd Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni leiðir verkefnið framkvæmdastjóri félagsins, Dýrleif Guðjónsdóttir. Ef þú ert sjálfboðaliði eða langar til að gerast sjálfboðaliði skaltu hafa samband við ábyrgðaraðila í þínu hverfi.
- Vesturbær, Sigríður Guðný Gísladóttir sími 411-2700
- Miðbær, Drífa Baldursdóttir sími 411-9455
- Hlíðar, Ragnhildur Þorsteinsdóttir sími 535-2760
- Laugardalur, Bústaðir og Háaleiti Bryndís Hreiðarsdóttir sími 664-8314
- Breiðholt, Anna Kristín sími 665-4890
- Árbær og Grafarholt, Heiða Hrönn Harðardóttir sími 411-2730
- Grafarvogur, Kjalarnes og Bryggjuhverfi Birna Róbertsdóttir sími 411-2739
Hér eru leiðbeingar fyrir sjálfboðaliða í verkefninu Spjöllum saman: Leiðbeiningar fyrir Sjálfboðaliða