fbpx

Félagsmálaráðherra  og hluti starfshópsins sem vann skýrsluna að framkvæði hans.

Verst settir í hópi aldraðra eru þeir sem hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingum á Íslandi vegna fyrri búsetu erlendis, hafa áunnið sér lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum, lifa eingöngu eða nánast eingöngu á bótum almannatrygginga eða búa í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu eigin húsnæði. Líklegt þykir að hluti hóps aldraðra falli undir nokkra eða alla fyrrnefnda flokka og búi þannig að öllum líkindum við fátækt.

Þetta er niðurstaða starfshóps sem Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skipaði í apríl 2018 til að fjalla um kjör þess hóps aldraðra sem höllustum fæti stendur í íslensku samfélagi. Í honum störfuðu Haukur Halldórsson formaður, Arnar Þór Sævarsson, án tilnefningar, Bergþóra Benediktsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneytinu, Hilda Hrund Cortez, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti og síðan Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Þorbjörn Guðmundsson og Guðrún Árnadóttir, öll tilnefnd af Landssambandi eldri borgara.

Starfshópurinn leggur til að gripið verði til sértækra aðgerða til að bæta kjör þeirra verst settu. Þannig verði komið á fót félagslegu kerfi eða sérstökum viðbótarstuðningi fyrir þá sem ekki hafa áunnið sér full réttindi í almannatryggingum hér á landi, eða húsnæðisstuðningur aukinn.

Þá leggur starfshópurinn til að sett verði sérstök löggjöf um félagslega aðstoð ríkisins þar sem heimilt verði að veita þeim viðbótarstuðning sem ekki hafa búið nógu lengi á Íslandi til að öðlast full lífeyrisréttindi á Íslandi. Sá stuðningur verði á vegum ríkisins, eingöngu ætlaður þeim sem eru löglega búsettir og dvelja á Íslandi.

Áætlað er að það myndi kosta ríkið 300-400 milljónir króna á ári að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd.