fbpx

Landsfundur LEB var haldinn á Hótel Reykjavík Natura, 14. maí 2024

Met þátttaka var á fundinum þar sem um það bil 150 fulltrúar tóku þátt.

Formaður LEB, Helgi Pétursson og fundarstjórar; Magnús J. Magnússon og Ásgerður Pálsdóttir

Formaður LEB, Helgi Pétursson setti fundinn og undir skýrslu stjórnar fór hann yfir það helsta sem hefur verið á dagskrá sambandsins sl. ár. Stærstu baráttumálin eru kjaramál og húsnæðismál. Helgi nefndi að fullt var út úr dyrum á málþingi LEB sl. haust, um kjör eldra fólks. Það er ógnvænleg staða að á bilinu 15 – 20 þúsund manns, í þessum aldurshópi, lifi undir framfærslu lágmarki. Vandinn liggur hjá stjórnvöldum sem virðast ekki hafa áhuga á að standa við gefin loforð um úrbætur á því kerfi sem skammtar eldri borgurum lífeyri. Helgi hvatti fundarmenn til að leggjast á árarnar og taka þátt í því að reyna að ná eyrum ráðamanna, í von um að bæta kjör eldri borgara, með áherslu á þá sem bágust hafa kjörin.

Í kosningum til stjórnar var Sigrún C. Halldórsdóttir, Ísafirði, endurkjörin sem aðalmaður. Auk hennar var Þóra Hjaltadóttir, Akureyri, kosin í aðalstjórn. Fyrir voru í aðalstjórn þau Helgi Pétursson, formaður, Drífa Sigfúsdóttir, varaformaður og Þorbjörn Guðmundsson.

Til varastjórnar var kjörin, Margrét Halldórsdóttir, Kópavogi. Fyrir í varastjórn voru þau Magnús J. Magnússon og Ásgerður Pálsdóttir.

Á fundinum voru samþykktar ályktanir, annars vegar um kjaramál og hins vegar um húsnæðismál sem verða birtar strax að loknum fyrsta fundi nýrrar stjórnar LEB.