fbpx

Vaskir púttarar

Vistlegt og glæsilegt er aðsetur Félags eldri borgara í Vestmannaeyjum í Vinaminni í menningarhúsinu Kviku við Heiðarveg. Gestur að sunnan staldrar strax við málverk og ljósmyndir á veggjum og aðbúnað allan. Hann rekur svo í rogastans þegar opnast vængjahurð og inn af samkomusalnum blasir við stærðarinnar púttvöllur og inn af púttsalnum er komið í rúmgóða billjardstofu!

„Hér pútta menn daglega árið um kring og æfa sig í íþróttinni. Þetta er afar vinsælt og félagið hefur nokkur púttmót á vetrardagskránni. Vestmannaeyjabær innréttaði efstu hæðina í Kviku og afhenti félaginu hana til frjálsra afnota í lok árs 2016. Þar með urðu þáttaskil í starfseminni og hér er eitthvað um að vera alla virka daga,“ segir Þór Vilhjálmsson, formaður stjórnar Félags eldri borgara í Vestmannaeyjum, kjörinn á aðalfundi í janúar 2018 og fimmti stjórnarformaðurinn frá stofnun félagsins 7. janúar 1988.

Sigurvegar í félagsvistinni: Inga Halldórsdóttir og Haukur Guðjónsson.

Fljótlega eftir að eldri borgarar í Eyjum stofnuðu félagið skaut Sigurður heitinn Einarsson, eigandi og framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, yfir það skjólshúsi í gömlum pökkunarsal Ísfélagsins. Afdrepið dugði vel og fékk heitið Vinaminni en svo fjölgaði blessunarlega félaginu og það óx upp úr húsnæðinu. Þegar félagið færði sig í Kviku flutti það með sér sálina á gamla staðnum og heitið Vinaminni.

Skráðir félagsmenn eru um 320 en misjafnlega mikið virkir eins og gengur. Í Vinaminni er alltaf eitthvað um að vera: mánudagsviðburðir, boccia, línudans, handverk, söngæfingar og fagnaðarfundir af ýmsu tagi. Gleymum ekki þorrablótum, pútti og félagsvist.

Meðfylgjandi eru myndir voru teknar voru á spilakvöldi 14. febrúar og í púttsalnum daginn eftir.

Félagsvistin var spiluð af krafti í meira en tvo tíma,  sigurvegarar kvenna og karla krýndir og endað á kaffi og hnallþórum, brauðtertum og pönnukökum á hlaðborði – jafngildi fermingarveislu af betri gerð í boði Slysavarnardeildarinnar Eykyndils.

Úr ÍBV og allsherjarreddingun í FEBV

Þór Ísfeld Vilhjálmsson var formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja í 14 ár. Einn úr ÍBV-stjórn gerðist gjaldkeri Félags eldri borgara og hvatti Þór til að ganga til liðs við félagið. Þór tók áskoruninni og var skömmu síðar orðinn formaður FEBV. Í stjórninni með honum eru tveir aðrir fyrrum stjórnarmenn ÍBV: „Íþróttamafían tók yfir Félag eldri borgara,“ segir formaðurinn glottandi.

Þór vann áratugum saman í Vinnslustöðinni, fyrst sem verkstjóri, síðan matsmaður í skreið og saltfiski, þá starfsmannastjóri og loks allsherjarreddari. Hans er enn saknað í kaffitímum Vinnslustöðvarfólks þar sem hann sagði endalausar spaugsögur af mönnum og málefnum.

Sagnahefðin er bókstaflega í erfðavísum Eyjamanna og fátt er heilagt í frásögnum. Sögumenn hlífa þar ekki náunganum og því síður sjálfum sér, nánum vinum sínum eða aðstandendum.

Þór rær til fiskjar á trillunni sinni sem hann nefndi Dolla í Sjónhól eftir tengdaföður sínum, Adolfi Hafsteini Magnússyni. Dolli lést árið 2005 á níræðisaldri. Hann var sjómaður frá fimmtán ára aldri fram undir áttrætt. Þegar hann byrjaði til sjós óttaðist hann að vakna ekki þegar skipstjórinn gengi milli húsa síðla nætur til að ræsa út áhöfnina. Dolli batt þá snæri um fót sér og lét enda lafa út um glugga. Ef hann vaknaði ekki við ræsið gat skipstjórinn kippt í spottann og þá hlaut piltur að losa svefn á augabragði.

Þannig hljóða sögur í Vestmannaeyjum.

Ónefndur Eyjamaður var nýlega hættur að vinna og kominn á eftirlaun. Hann var spurður á götu hvernig ný tilvera legðist í hann. Ekki stóð á svari í tóntegund heimamannsins: „Það er nú ekki amalegt að vera eldri borgari því nú getur maður djammað um hábjartan daginn!“