fbpx

 

Félagsmálaráðuneytið, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og LEB – Landssamband eldri borgara fengu Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að gera fyrir sig könnun á högum og líðan aldraðra á Íslandi 2020.

Í niðurstöðum könnunarinnar Hagir og líðan aldraðra á Íslandi árið 2020 sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir félagsmálaráðuneytið, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Landssamband eldri borgara kemur fram að níu af hverjum tíu öldruðum telja andlega heilsu sína góða og 70% eru mjög sjaldan eða aldrei einmana. Þá sýna niðurstöðurnar einnig að 23% svarenda töldu sig hafa einangrast frekar eða mjög mikið eftir að Covid-19 faraldurinn byrjaði en 40% töldu sig ekki hafa einangrast í kjölfar faraldursins. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á opnum fjarfundi 7. apríl.

Þetta er í fimmta sinn sem könnun á högum og líðan aldraðra er lögð fyrir, en hún var fyrst gerð árið 1999, síðan árið 2006, svo árið 2012 og í fjórða sinn 2016. Í niðurstöðunum má sjá þróun frá fyrri könnunum, en einnig hefur verið bætt við nokkrum nýjum spurningum, meðal annars nokkrum spurningum varðandi líðan á tímum Covid-19 faraldursins. Tekið var 1800 manna tilviljunarúrtak fólks 67 ára og eldri úr þjóðskrá og spurningar lagðar fyrir ýmist í síma eða með netkönnun. Svarhlutfall var 60%.

Spurningarnar sem lagðar voru fyrir lúta meðal annars að almennu heilbrigði fólks 67 ára og eldri, viðhorfum þess til heilbrigðisþjónustunnar, spurt var um heilbrigðisútgjöld, hvort og hvaða aðstoð fólk fær inn á heimili sitt, eins var spurt um búsetuhagi, atvinnuhagi, fjárhag, félagslega virkni, tölvunotkun og notkun samfélagsmiðla og margt fleira.

HÉR er hægt að lesa skýrsluna