fbpx

Tæknilæsi fyrir fullorðna er Facebooksíða sem er hugsuð sem kennslusíða fyrir eldra fólk sem vill læra á spjaldtölvur og snjallsíma í þeim tilgangi að verða virkari þátttakendur í hinum rafræna heimi. Aðgangur að kennsluefninu er algjörlega ókeypis. 

Að síðunni Tæknilæsi fyrir fullorðna stendur ungt hugsjónafólk, gefum þeim orðið:

„Í ljósi þess að nú gengur yfir landið okkar, já yfir alla jörðina hreinlega, heimsfaraldur, vildum við í tæknilæsisteyminu vekja athygli á verkefninu okkar sem er að efla tæknilæsi fullorðinna. Upphaflega planið var að vera með kennslu í raunheimum og svo myndum við skoða það að vera með fjarkennslu. En nú er bara ekki hægt að bíða eftir þeim lúxus og verðum við því bara að hendast í það að útbúa fjarkennslu sem fyrst.

Teymið okkar samanstendur af mæðginunum Rannveigu og Hugin Þór, Frans og Úlfi. Við komum frá Skema og velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Einnig höfum við leitað til Guðrúnar Jóhönnu iðjuþjálfa og Arnars hjá velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar.

Við héldum fyrsta tilraunanámskeiðið okkar vikuna 17.-21.febrúar, sem gekk glimrandi vel og var planið að halda framhaldsnámskeið 3 vikum seinna. Það gekk því miður ekki eftir vegna Covid-19 veirunnar. En tekið var viðtal við mæðginin í síðasta tölublaði Félags eldri borgara og má lesa það á s. 32-33.

Nú er teymið á fullu að semja efni fyrir fjarkennslu og munum við henda inn hingað á síðuna þegar fyrstu myndbönd verða tilbúin.
Við þurfum því miður að vera bundin við þennan vettvang eins og er en stefnum á að ná að birta kennsluefnið okkar á fleiri stöðum, sem nái víðar út í samfélagið.“

HÉR er hægt að nálgast kennslumyndböndin

Endilega vingist við (lækið) Facebooksíðuna Tæknilæsi fyrir fullorðna

 

Nánar um unga hugsjónafólkið sem stendur að Tæknilæsi fyrir fullorðna:

Úlfur Atlason er verkefnastjóri og kennari í teyminu.

Hann er 19 ára og hefur unnið fyrir Skema í rúm 6 ár. Hann er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og telst því Gaflari.

Úlfur er vísindamiðaður og hefur verið það frá blautu barnsbeini. Úlfur hóf skólagöngu í Lækjarskóla í Hafnarfirði en undir lok níunda skólaársins bauðst honum að fara í Flensborgarskólann og hefja nám þar. Í Flensborg kláraði hann náttúrufræðibraut en lagði mikla áherslu á stærð- og eðlisfræði. Eftir stúdentsprófið lá leiðin til Háskóla Íslands þar sem hann hóf nám í Eðlisfræði. Þegar fyrsta árið í eðlisfræði lauk var kominn tími á breytingar. Úlfur tók sér leyfi frá námi og hóf störf sem verkefnastjóri Skema í Háskólanum í Reykjavík. Hann áætlar að snúa sér aftur að námi haustið 2021 en markmiðið hans er að sérhæfa sig í skammtafræði.

Úlfur tekur virkan þátt í góðgerðarstarfsemi og er sitjandi ritari í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar, sem veitir reglulega styrki og gjafir til ýmissa stofnanna, einstaklinga og félaga. Þegar Úlfur er ekki að vinna, læra eða sinna góðgerðarmálum notar hann gjarnan tímann til að sinna áhugamálunum sínum. Áhugamál hans eru þó nokkur en af þeim má nefna tölvuleiki, eðlisfræði, saumaskap og íslenska tungu.

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, en hana ættu eflaust einhverjir að þekkja sem loftslagsaðgerðarsinna sem sló í gegn í borgarspjalli RÚV fyrr í vetur þar sem loftslagsmálin voru einmitt rædd.

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir er 17 ára nýstúdent úr Hveragerði. Hún byrjaði að kenna 15 ára hjá Kóder, þar sem hún var m.a. einn skipuleggjenda fyrstu forritunarbúða landsins, en hefur verið að kenna hjá Skema núna í ár. Gunnhildur kláraði stúdentinn í desember frá Tækniskólanum, á brautinni K2, þar sem hún lagði áherslu á vísindi, tækni og frumkvöðlafræði. Gunnhildur og hennar vinir hafa einnig stofnað fyrirtækið Ró-Box, sem framleiðir vélmenna-kit fyrir krakka til að læra á vélmenni. Einnig var hún forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema, og er ein þeirra í skipulagsteymi loftslagsverkfallana. Í haust mun Gunnhildur svo byrja í Harvard háskóla í umhverfisverkfræði og mun þar vafalaust láta til sín taka.

Francesco Barbaccia er fæddur og uppalinn á Ítalíu og kom til landsins árið 2012 fylgjandi eftir íslenskri ástmey sinni.

Frans hefur frá barnsaldri haft áhuga á tölvutækjum sem byrjaði snemma þegar hann fékk sína fyrstu tölvu sex ára gamall (sem hann á enn til í dag). Síðan blandaði hann þessu saman áhugamáli við sína náttúrulegu málkennd og hóf nám í fjölmiðla-og auglýsingatæknifræði í Háskóla á Ítalíu, sem hann kláraði með lokaverkefni um rafræn markaðssamskipti í samstarfi við íslenskt fyrirtæki. Í dag er hann að klára meistaranám í markaðsfræði við Háskóla Reykjavíkur.

Starfandi hjá Reykjavíkurborg síðan 2013, en í dag starfar hann sem virkniþjálfi og sér um félagsstarf fyrir fullorðna í þjónustuíbúðum við Norðubrún 1. Þar mótaði hann fyrstu snjalltækjakennsluna sem hann hefur þróað með tímanum með því markmiði að efla nýtæknifærni fullorðinna. Hefur hann unnið í góðu samstarfi við Rannveigu sem einnig er í teyminu og virkniþjálfi hjá Reykjavíkurborg og m.a. komið á Dalbraut 27 og kennt tæknilæsi þar við mjög góðar undirtektir.

Útivistavera, við fyrstu tækifæri hoppar hann upp í bíl til að kanna landið og mynda fegurð þess…ef hann er ekki upptekinn að elda einhverja ítalska rétti!

Huginn Þór Jóhannsson er 19 ára nemandi í Tækniskólanum á upplýsingatæknibraut. Huginn byrjaði fyrst að læra á forritun 10 ára gamall þegar faðir hans kenndi honum forritun eitt sumarið. Síðan þá hefur hann haft mikla ástríðu fyrir tækni og tölvum.

Huginn hefur unnið hjá Velferðarsviði Reykjarvíkurborgar í þjónustuíbúðum aldraðra, Dalbraut 27, frá sumrinu 2018 og þar er hann mjög vel liðinn. Samhliða því hefur hann unnið hjá Skema við að kenna börnum og unglingum forritun, frá sumrinu 2019. Fékk hann þá hugmyndina í lok ágúst 2019 að sameina þessi tvö starfssvið og setja í gang verkefni sem hefði það markmið að tæknivæða fullorðið fólk, sem hefði litla sem enga reynslu af tækni.

Huginn hefur margþætta reynslu og mikinn áhuga af hópastýringu og hópavinnu, meðal annars í gegnum fjölda stjórna félagasamtaka hér og þar í samfélaginu, t.d. sem formaður Nemendasambands Tækniskólans og mismunandi hlutverk innan stofnana eins og MORFÍs, Ungmennaráði UN-Women, Ungum Pírötum, og fleiru.

Meðal áhugamála Hugins eru tölvuleikir, skylmingar, hlutverkaspil, knúsa mömmu sína og froskar.


Rannveig Ernudóttir
er virkniþjálfi hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, sem hefur í rúm fjögur ár séð um og skipulagt félagsstarf fullorðinna í Dalbrautarþorpinu í Laugardalnum. Þar áður sá hún um félagsstarfið hjá Hrafnistu í Hafnarfirði.

Rannveig er guðfræðingur sem og tómstunda- og félagsmálafræðingur og er einnig yogakennari, en til hliðar við félagsstarfið á hún það til að stökkva inn í borgarstjórn og leysa þar af ef þörf er á.

Rannveig, ásamt syni sínum, Hugin Þór, sem við kynntum einmitt fyrr í vikunni, vildi finna til hóp af fólki sem gæti unnið að því að efla tæknilæsi fullorðinna. Verkefni sem vakti fljótlega athygli víða og er það þeim öllum mikil ánægja að fá tækifæri til að vinna að þessu verkefni saman.

Rannveig er gift og á eitthvað af börnum, fyrir utan Huginn eru systkini hans samtals þrjú á aldrinum 24, 12 og 7 ára. Áhugamál Rannveigar eru fyrst og fremst að prjóna og hekla, útivera, heilsurækt, ferðalög og gæðastundir með fjölskyldunni og vinum. En einnig eru samfélagsmál henni hugleikin og hefur hún tekið þátt í ýmsum verkefnum og stjórnum ýmissa félaga, má þar m.a. nefna Garngönguna en Rannveig hefur fylgt henni frá stofnun og verður þar áfram.