fbpx

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB skrifar pistilinn:

 

 

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB

Á þremur fjölmennum fundum LEB, fyrst á Ísafirði og Akureyri og síðan í Reykjavík sem auk þess var streymt frá um land allt og hlaut mikið áhorf hefur LEB – Landssamband eldri borgara kynnt stefnumál sín í kjaramálum eldra fólks. Stefnan var unnin í víðtæku samráði við eldra fólk um allt land.

Stefnan skipist í þrjá megin flokka. Í 1. hlutanum eru almennar aðgerðir sem taka til flestra, í 2. hlutanum sértækar aðgerðir fyrir þau verst settu og í 3. hlutanum breytingar á lögum þ.e skattalögum og lögum um almannatryggingar.

Drífa Sigfúsdóttir varaformaður LEB og Ásgerður Pálsdóttir formaður Félags eldri borgara í Húnaþingi hafa gert grein fyrir 1. og 2. hluta í upplýsandi greinum; Drífa um 1. hluta HÉR og Ásgerður um 2. hluta HÉR.

Í þessari stuttu grein er ætlunin að gera grein fyrir 3. hlutanum.

 

Réttarbót með laga- og reglugerðabreytingum í þremur hlutum

Mikilvægt er að hafa í huga að þær tillögur sem LEB gerir um breytingar á lögum um almannatryggingar taka til afmarkandi þátta og snerta lífeyristaka með mismunandi hætti.

Allar þessar breytingar byggja á því að eyða miklu óréttlæti sem hefur viðgengis um langt árabil. Mikilvægt er að horfa á þessar tillögur um breytingar á lögum sem hluta af stærri pakka og er engin yfirlýsing um að ekki sé ástæða til að fram fari viðtækari endurskoðun á lögum um almannatryggingar.

Þrátt fyrir breytingar sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar og  komu til framkvæmda 1. janúar 2017 er mikill þörf á endurskoðun.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar 2020 um starfsemi Tryggingarstofnunar ríkisins er lögð áhersla á að skýra lögin og jafnframt að skoða hvort ekki sé rétt að aðskilja betur örorkulífeyri og ellilífeyri. Slík uppstokkun myndi gera lögin aðgengilegri og auðvelda framkvæmd þeirra. Þetta má gera með tvennum hætti, það er að vera með skýramkaflaskiptingu og/eða aðskilin lög.

Reynslan segir okkur að endurskoðun almannatrygginga tekur langan tíma og því óásættanlegt að bíða með nauðsynlegar breytingar sem skipta marga lífeyristaka miklu máli og kalla ekki á flóknar breytingar fyrir löggjafann.

Framkvæmd almannatrygginga byggir í fyrsta lagi á lögum og í öðru lagi á reglugerðum sem ráðherra setur.

LEB hefur kynnt þrjár breytingar sem brýnt er að ráðast í sem fyrst en ekki bíða með þær þar  til heildarendurskoðun á lögunum hefur á sér stað.

 

Í fyrsta lagi

Í fyrsta lagi er tillaga um að breyta útreikningi vegna frestunar töku lífeyris.

Í lögunum er kveðið á um að heimilt sé að fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs. Í reglugerð um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar er síðan gerð grein fyrir hvernig lífeyri skuli hækka í hlutfalli lengd frestunnar.  Þar stendur m.a. „Hafi töku ellilífeyris verið frestað skal fjárhæð ellilífeyris hækka hlutfallslega til frambúðar byggt á tryggingafræðilegum forsendum“.

Framkvæmd TR er að reikna hækkun lífeyris ofan á skertan lífeyri í stað þess að hækka grunntöluna fyrst vegna frestunar töku lífeyris og skerða þann grunn sem verður til með áhrifum frestunnar. Þetta skiptir miklu máli vegna þess að ávinningur af festunni er hlutfallslegur. Fresti lífeyristaki töku lífeyris til 70 ára aldurs er hækkunin á út greiddum lífeyri frá lífeyrissjóði allt að 23%. Lífeyri almannatrygginga á að hækka með hliðstæðum hætti en vegna aðferðarinnar sem TR styðst við verður heildar hækkunin nær 12%  sé horft til miðgildis lífeyris frá lífeyrissjóði. Hér er um mikið réttlætis mál að ræða sem hægt er að lagafæra með einfaldri breytingu á reglugerð.

 

Í öðru lagi

Í öðru lagi vill LEB að helmingur leigutekna reiknist sem tekjur gagnvart almannatryggingum eins og viðhaft er við álagningu fjármagnstekjuskatt.

Af leigutekjum er greiddur fjármagnstekjuskattur sem er 22% en aðeins helmingur tekna kemur til skattlagningar. Það er metið svo að helmingurinn sem ekki er greiddur skattur af sé ekki tekjur heldur kostnaður við rekstur eignarinnar. Þessu er öfugt farið gagnvart TR sem reiknar heildar leigutekjur sem tekjur og skerðir lífeyrinn um 45% af þeirri fjárhæð. Þessi aðferðafræði TR byggir á mjög hæfnum forsendum þar sem  almenn reglan er að það séu eingöngu tekjur sem skerða lífeyrinn. Skattayfirvöld hafa skilgreint helming leigutekna sem kostnað en ekki tekjur og sú skilgreining hlýtur að gilda einnig gagnvart almannatryggingum.

LEB gerir kröfur um að almannatryggingar viðhafi sömu skilgreiningu og skattayfirvöld og aðeins helmingur leigutekna verði skilgreindur sem tekjur

 

Í þriðja lagi

Í þriðja lagi vill LEB að 300.00 kr. frítekjumark fjármagnstekna gildi einnig gagnvart almannatryggingum.

Þegar frítekjumark fjármagnstekna var  sett á var ekki síst verið að horfa til almenns sparnaðar. Ekkert sérstakt frítekjumark fjármagna gildir gagnvart almannatryggingum og gildir þar einu hvort vextir eru jákvæðir eða neikvæðir. Þannig skerðir 45% af fjármagnstekjum lífeyrinn frá almannatryggingum sama hver upphæðin er. Enginn annar þjóðfélagshópur býr við slíka skattlagningu.

Ár hvert í ágústmánuði sendir TR út tugþúsundir kröfubréfa til lífeyristaka um  endurgreiðslu. Stærsti hluti þessara krafna er tilkomin vegna  lágra fjármagnstekna. Það myndi verða mikill einföldum að vera með sérstakt frítekjumark og því eðlilegt að miða við að frítekjumark fjármagnstekna sem er í skattalöggjöfinni taki einnig til almannatrygginga.

LEB gerir kröfu um að 300.000 kr. frítekjumark fjármagnstekna gildi einnig gagnvart almannatryggingum.

 

Nú er lag ef vilji er til – og vilji er allt sem þarf

Mikil þörf er fyrir að gera lagfæringar á framkvæmd laga um almannatryggingar og það sem hér nefnt er aðeins hluti þess sem þarf að lagfæra.

Það mikilvægt að hafa í huga að LEB er ekki að gagnrýna stafsfólk Tryggingarstofnunar, það vinnur samkvæmt þeim reglum sem stjórnvöld setja þeim hverju sinni.

Það er í gangi vinna við fjárlög fyrir árið 2024. Enn er því tækifæri fyrir stjórnvöld að stíga fram og gera nauðsynar lagfæringar á framkvæmd almannatrygginga.

 

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB

 

Pistillin byggir á framsöguerindi sem Þorbjörn flutti á málþingi LEB um kjaramál 2. október 2023. Erindi Þorbjörns fjallaði um þriðja og síðasta áherslu atriðið.

 

HÉR má sjá upptöku af málþingi LEB og lesa um Áhersluatriðin 3