fbpx

Útdráttur: Heilsustofnun NLFÍ stendur frammi fyrir að skera niður endurhæfingu um 700 eldri borgara.

 

Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði mun mögulega þurfa að hætta endurhæfingu eldra fólks ef fram heldur sem horfir með fjárveitingar ríkisins til stofnunarinnar. Það eru um 700 manns af eldri kynslóðinni sem hafa árlega sótt endurhæfingu í Hveragerði. „Við erum hér með um 40 manns í endurhæfingu alla daga“, segir Haraldur Erlendsson framkvæmdastjóri og yfirlæknir þar, en stofnunin fær einungis þriðjung og jafnvel ekki nema fjórðung af því fé sem aðrar endurhæfingastofnanir fá greitt  með hverjum sjúklingi.

Fólk greiðir það sem Sjúkratryggingar ættu að borga

Heilsustofnunin hefur síðast liðin tvö ár freistað þess að fá ríkið til að hækka framlög til stofnunarinnar, en miðað við kostnaðinn hjá Heilsustofnun eru það 250 milljónir króna sem útaf standa árlega. Gjöldin sem sjúklingarnir greiða sjálfir, hafa verið notuð til að brúa bilið. „Við höfum þannig gengið á okkar höfuðstól og erum komin í þrot“, segir Haraldur. Hann segir að húsnæðið sé að grotna niður og ekki hafi verið unnt að endurnýja tækjabúnað. Samkvæmt þjónustusamningi tekur ríkið ekki þátt í að greiða gistingu þeirra sem dvelja í Hveragerði.  Þær tekjur sem Heilsustofnun hefur haft vegna þess hefur hins vegar þurft að nýta til að niðurgreiða meðferðarstarfið, þar sem greiðslur skv. þjónustusamningi við Sjúkratryggingar hrökkva ekki fyrir þeim kostnaði.  Það sé  óeðlilegt að fólk sé þannig í raun að borga sjálft heilbrigðiskostnað sem Sjúkratryggingar Íslands eigi lögum samkvæmt að greiða.

Þarf að skera niður um 30-50%

Haraldur segir að samningaviðræðum við ríkið sé ekki endanlega lokið, en menn séu orðnir vondaufir eftir tveggja ára samningaviðræður sem hafi engu skilað. „Menn eru mjög ánægðir með þjónustuna hér og hvað hún er ódýr, en finnst ekki rangt að borga einni endurhæfingastofnun eitt og annarri annað“, segir hann og telur niðurskurð á bilinu 30-50% blasa við, verði fjárveiting til stofnunarinnar ekki hækkuð. „En ég vona að ríkið komi til móts við okkur“ segir hann.

Fólk fær þá ekki þessa þjónustu

Ef af þessum niðurskurði verður, segir Haraldur að endurhæfingu eldra fólks verði mögulega hætt. Það fólk muni þá þurfa í sjúkraþjálfun á stofum úti í bæ og fái ekki þá heildrænu þjónustu sem veitt hafi verið í Hveragerði. Það sé viðhorfið hjá ríkinu að sveitarfélögin eigi að sjá um endurhæfingu eldra fólks. „Allt í lagi“, segir Haraldur „En hún er bara ekki til hjá sveitarfélögunum. Hún verður það kannski eftir 20 ár“.  Hann segir endurhæfinguna í Hveragerði hafa gefist afar vel. Það borgi sig að aðstoða eldra fólk við að halda sér í góðu formi, en eftir 65 ára aldur fari menn að bæta við sig sjúkdómum á nokkurra ára fresti. Endurhæfingin hafi mikil áhrif og minnki þörf fyrir dvöl á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum. „ Það er alvarlegt að hér er verið að skera niður eitthvað sem á eftir að kosta miklu meira í framtíðinni“, segir hann.