fbpx

Íslenskur verkfræðingur, kominn á níræðisaldur, flutti nýverið til Íslands eftir langa starfsævi í Noregi. Hann hafði ekki dvalið lengi í föðurlandinu að hann afréð að hafa samband við ritstjórann sem hér heldur á penna og segja honum frá því hvað hann skammaðist sín mikið fyrir að vera aldraður maður á Íslandi; hér á landi væri komið fram við hans líka eins og einhverja umframframleiðslu sem ekkert pláss væri fyrir.

Hann bætti því við að hann vildi helst ekki ræða hlutskipti sitt við gömlu skóla-félagana frá því á námsárunum úti í Noregi, en allir hefðu þeir hlakkað til efri áranna á síðustu misserum starfsævinnar, enda vissu þeir upp á hár hvað biði þeirra.
Og allt gekk það eftir, bætti verkfræðingurinn við, í tilviki norsku vinanna hans, en þeim bæri öllum saman um að aldrei hefðu þeir haft það betra en einmitt eftir að þeir komust á eftirlaun. Og væri hann ekki sjálfur sáttur eftir að hafa flust aftur heim til Íslands, spurðu þeir auðvitað til baka, en verkfræðingurinn kvaðst hafa eytt því tali.
Af skömm.

Við Íslendingar höfum þann háttinn á að leggja fátæktargildrur fyrir gamalt fólk. Og svo niðurlægingin gagnvart þessum aldurshópi sé ekki nógu mikil eigum við líka heimsmet í skerðingaráráttu almannatryggingakerfisins, að því er Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, sagði í sjónvarpsþættinum Kjör aldraðra, sem sýndur var á Hringbraut um helgina, en hann er sá fræðimaður hér á landi sem mest og lengst hefur rannsakað efnahag íslenskra ellilífeyrisþega.

Í sama þætti var fjallað á opinskáan hátt um neyðarópið sem berst nú um stundir úr hópi aldraðs fólks á Íslandi sem uppgötvar margt hvert við enda starfsævinnar að það mun verða fátækt gamalmenni, ævina á enda. Einkum og sér í lagi á þetta við um konur sem hafa unnið láglaunastörf um sína daga – og mjög líklega stopult vegna barneigna og uppeldisstarfa, en það er einbeittur vilji almannatryggingakerfisins að koma fram við þann hóp okkar landsmanna af óvirðingu. Og hafi það skrimt á lægstu laununum allan sinn starfsaldur, sem vel að merkja er undir framfærsluvið-miðunum hins opinbera, má heita nóg að það fái 75 prósent af því kaupinu í ellilaun.
Þetta er skömmin sem gamalt fólk á Íslandi þorir ekki að tala um við vini sína í útlöndum.
-Sigmundur Ernir Rúnarsson

Greinin birtist í leiðara Fréttablaðsins 14. September 2021.

Hér er hægt að horfa á sjónvarpsþáttinn: KJÖR ALDRAÐRA