fbpx

Þorbjörn Guðmundsson skrifar:

Lands­fundur LEB lýsti miklum áhyggjum af stöðu eldra fólks vegna við­var­andi skorts á hjúkr­un­ar­heim­il­um.

Hjúkr­un­ar­heim­ili eru fyrir mikið veikt fólk sem ekki getur lengur séð um sig sjálft m.a. vegna heila­bil­un­ar. Fólk sem þarfn­ast sól­ar­hrings­þjón­ustu ást og virð­ing­ar. Eldra fólk sem er orðið svona veikt er í veikri stöðu og verður að reiða sig alfarið á aðra. Fólk í þess­ari stöðu er varn­ar­laust og alfarið komið upp á aðra með þjón­ustu og hags­muna­gæslu.

Það er sárt að horfa upp á fram­komu stjórn­valda sem koma í veg fyrir að mjög veikt gam­alt fólk fái notið lög­bund­innar þjón­ustu og hjúkr­unar með aðgerða­leysi og tak­mörk­uðum fjár­munum til upp­bygg­ingar hjúkr­un­ar­heim­ila. Lýs­ing Mart­eins Sverr­is­sonar í Frétta­blað­inu 15. júní sl. af sam­skiptum sínum við kerfið vegna veikrar móður er átak­an­legt en ekk­ert eins dæmi.

Hans nið­ur­staða er að stjórn­völdum sé sk… sama.

Nú bíða um rúm­lega 400 ein­stak­lingar eftir plássi og þar af liggja tæp­lega 100 ein­stak­lingar á LSH og bíða eftir að geta útskrif­ast og kom­ist á heim­ili þar sem þeir geta fengið þjón­ustu og aðbúnað við hæfi.

Í skýrslu Hall­dórs S. Guð­munds­sonar frá júní 2021 „Virð­ing og reisn“ er lagt mat á þörf­ina fyrir hjúkr­un­ar­heim­ili fram til árs­ins 2035 miðað við óbreytt hlut­fall 80 ára og eldri sem þarfn­ast búsetu á hjúkr­un­ar­heim­il­um.

Í dag eru tæp­lega 3000 hjúkr­un­ar­rými í rekstri en miðað við óbreytt hlut­fall verður þörfin tæp­lega 4800 árið 2035.

Til að mæta þörf­inni telur Hall­dór að það þurfi rúm­lega 130 ný rými á ári sem er árleg fjár­fest­ing upp á 6 til 7. millj­arða kr.

Bjarni Guð­munds­son, trygg­inga­fræð­ingur hefur rann­sakað ald­urs­bundna dán­ar­líkur og að með­al­tali hafa lífslíkur á Íslandi auk­ist um 2,25 mán­uði á ári frá árinu 1988 eða sem nemur einu ári á hverju fimm ára tíma­bili. Allt bendir til að lífaldur Íslend­inga haldi áfram hækka og fleiri nái því að verða 80 ára og hóp­ur­inn sem verður 90 ára eldri mun stækka á næstu ára­tug­um. Þetta er jákvæð þróun en hún krefst þess að sveit­ar­fé­lög og ríki bregð­ist við á jákvæðan hátt en horfi ekki á þessa þróun sem óleys­an­legt vanda­mál.

Í fjár­lögum árs­ins 2022 og í drögum að fjár­mála­á­ætlun fyrir tíma­bilið 2023-2027 er gert ráð fyrir að fjár­festa í hjúkr­un­ar­heim­ilum fyrir 19,5 millj­arða kr. Miðað við mat Hall­dórs á bygg­ing­ar­kostn­aði við bygg­ingu hjúkr­un­ar­heim­ila ætti þessi upp­hæð að duga til að byggja um 400 rými eða um 70 rými á ári. Þetta er vænt­an­lega ofmat þar sem hluti fjár­muna muni fara í end­ur­bætur og við­hald. Þar til við­bótar kemur fram­lag sveit­ar­fé­lag­anna.

Það er ljóst að fram­an­sögðu að mark­mið stjórn­valda duga skammt til að mæta brýnni þörf til að full­nægja grunn­rétti eldra fólks, það er að tryggja því öruggt heim­ili og þjón­ustu við hæfi þegar heilsan er farin að gefa sig og það getur ekki séð um sig sjálft. Við blasir að útskrifta­vandi LSH er ekki í sjón­máli og hann mun flytj­ast inn á nýjan spít­ala að öllu óbreyttu.

Fjörgam­alt fólk situr lasið heima og fær ekki þá aðhlynn­ingu sem það þarfn­ast og á rétt á og aðstand­endur eru örmagna.

Á und­an­förnum árum hafa margar nefndir verið skip­aðar um rekstur og upp­bygg­ingu hjúkr­un­ar­heim­ila og í hillum ráðu­neyta er góður bunki af skýrsl­um. Því er ljóst að við þurfum ekki fleiri nefndir og skýrslur heldur fjár­magn­aða fram­kvæmda­á­ætlun og verk­efna­stjórn. Sam­hliða í stór­átaki upp­bygg­ingu hjúkr­un­ar­heim­ila þarf að tryggja aðra og fjöl­breytt­ari búsetu­kosti fyrir eldra fólk sem tryggir greiðan aðgang að fjöl­breyttri þjón­ustu, öryggi og sam­veru.

Þol­in­mæði eldra fólks og aðstand­enda er þrot­in. Krafan er ein­föld, stjórn­völd hætti að níð­ast á mjög veiku gömlu fólki sem er varn­ar­laust gagn­vart aðgerða­leysi þeirra og tryggi því lög­bund­inn rétt að til geta búið við öryggi og fengið þjón­ustu við hæfi.

Mart­einn Sverr­is­son komst að þeirri nið­ur­stöðu að stjórn­völdum væri sk.. sama um hægi eldra fólks. Eftir sam­skipti við stjórn­völd síð­ustu miss­eri er stutt í að ég kom­ist að sömu nið­ur­stöðu.

Höf­undur, Þorbjörn Guðmundsson, er for­maður kjara­nefndar Lands­sam­bands eldri borg­ara (LEB).

 

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 20. júní 2022