fbpx

„Hugmynd um að framleiða næringardrykk af þessu tagi kviknaði fyrst fyrir fáeinum árum og ákveðið var svo í fyrra að hrinda henni í framkvæmd. Janus Guðlaugsson og Þórunn Sveinbjörnsdóttir sýndu verkefninu mikinn áhuga og hvöttu okkur til dáða. Það skipti miklu máli,“ segir Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri MS, í tilefni af því að fyrirtækið hóf núna í janúar að kynna orku- og próteinríkan næringardrykk, Næringu+, sem seldur er í 250 millilítra fernum.

Það átti því vel við  að Björn tæki á dögunum á móti Janusi Guðlaugssyni íþrótta- og heilsufræðingi og Þórunni Sveinbjörnsdóttur og Guðrúnu Ágústsdóttur frá Landssambandi eldri borgara til að fagna framtaki MS, bragða á drykknum og ræða málin.

Næring+ hentar þeim sem þurfa að þyngjast eða fyrirbyggja vöðvarýrnun og þyngdartap.   Drykkurinn hentar þannig til dæmis eldra fólki sem hefur litla matarlyst en þarfnast orku, próteina, vítamína og steinefna, án glútens og laktósa.

Grunnefnin í drykknum er íslensk mjólk og fyrst um sinn er Næring+ framleidd með kaffi- og súkkulaðibragði og með súkkulaðibragði. Höfð var hliðsjón af ráðleggingum landlæknis um næringarþörf hjá hrumu eða veiku eldra fólki þegar ákveðið var að hafa í drykknum meðal annars kalk, D-vítamín og B12-vítamín.

Janus Guðlaugsson nefndi á fundinum dæmi úr eigin ranni þar sem hann kveðst hafa séð jákvæð áhrif Næringar+ en tók fram að drykkurinn kæmi aldrei í stað matar heldur væri hann „áfylling“ nauðsynlegra næringarefna og ákjósanlegt millimál.

„Blasir ekki við að við kaupum frekar fernur en blóm eða konfekt framvegis, þegar við heimsækjum vandamenn og vini sem við vitum að drykkurinn nýi muni gera gott?“ varpaði Guðrún Ágústsdóttir fram að áliðnum fundinum í MS. Samþykkt samhljóða þar og hugmyndinni er þar með vísað hér á víðari völl til umhugsunar!