fbpx

 

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB skrifar:

 

Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað á Íslandi að sífellt fleiri ná því að verða 67 ára og eldri. Margt bendir til að þessi þróun haldi áfram og fleiri og fleiri ná því að verða 90 ára og eldri. Það er full ástæða til að gleðjast yfir þessum árangri sem má þakka miklum félagslegum umbótum og framförum í læknavísindum. Stundum fær maður á tilfinninguna að  stjórnvöld skynji þetta sem ógn en ekki tákn um góðan árangur. Sinnuleysi stjórnvalda til langs tíma hefur leitt til þess að við erum ekki nægjanlega vel búin undir þær samfélagslegu breytingar sem fylgir því að hlutfall  eldra fólk  fer stækkandi. 

 

Eldra fólk lítur ekki á sig sem sérréttindahóp sem eigi rétt umfram aðra í samfélaginu en gerir kröfu til að samfélagsformið taki mið af þeirri einföldu staðreynd að eldra fólki fer fjölgandi og það kallar á nýjar áherslur bæð í þjónustu og skipulagsmálum. Til að ná því markmiði að eldra fólk geti og vilji búa sem lengst á eigin heimili kallar á nýjar áherslur og  lausnir.  

 

Það sem brennur helst á eldra fólki er skortur á fjárhagslegu öryggi og fjölbreytum búsetuformum sem  tryggi öryggi og samveru.  

 

Hægt er að fullyrða að helmingur þeirra sem taka lífeyri frá almannatryggingum hafi lágar eða mjög lágar tekjur. 30% eru með tekjur sem eru verulega undir umsömdum lágmarkslaunum sem eru 368.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Þeir sem eru verst settir er fólk sem er með lágan lífeyri, býr eitt og er með mikinn húsnæðiskostnað og/eða er á leigumarkaði.  

 

LEB – Landssamband eldtri borgara hefur lagt mikla áherslu á við stjórnvöld að fjárhagsleg afkoma eldra fólks sé tryggð en lítið ber á aðgerðum í þá veru. Til að tryggja fjárhagslegt öryggi, ekki síst þeirra sem minnst hafa, hefur LEB lagt áherslu á að verulega verði degið úr skerðingum í almennatryggingakerfinu og tekinn verði  upp lágmarkslífeyri til samræmis við lágmarkslaun. LEB hefur lagt til að tekið verði upp 100.000 kr. frítekjumark vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum, lágmarkslífeyri verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum  vinnumarkaði og það verði bundið í lög að árleg hækkun lífeyris frá almannatryggingum verði aldrei lægri en launavísitala Hagstofu Íslands. Þetta eru einfaldar breytingar sem munu hafa áhrif strax og engin ástæða til að tengja heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar. 

 

Við erum öll sammála um að kosti þess að eldra fólk geti búið sem lengst á eigin heimili en forsendan fyrir því er að fólk eigi kost á þjónustu við hæfi, búi við öryggi og geti notið samveru við annað fólk. Einn mikilvægur liður í að gera eldra fólki kleyft að búa sem lengst á eigin heimili er að það eigi kost á húsnæði þar sem auðvelt er að fara um og öll dagleg þjónusta sé í næsta nágrenni, umhverfið bjóði upp á útiveru bæði sumar og vetur t.d. með yfirbyggðum garði. 

 

LEB hefur lagt áherslu á að byggðir verði upp lífsgæðakjarnar (millistig) ætt við það sem Hrafnista hefur verið að byggja upp m.a á Sléttuveginum í Reykjavík og þekkist bæði í Svíþjóð (Bovieran – Upptäck framtidens boende) og Danmörk (Fremtidens seniorboliger under palmer i Bovieran seniorbofællesskab) 

Lífsgæðakjarnar er byggðakjarni þar sem saman fer valfrjáls búseta eldra fólks og fjölþætt þjónusta s.s. í tengslum við heilbrigðiskerfið og hjúkrunarheimili. Byggðakjarnar sem innihalda alla daglega þjónustu s.s. verslun, heilslugæslu, veitingastaði, hárgreiðlustofur  og aðstöðu til að vera með öfluga heilsueflingu. Í lífgæðakjarnanum er góð aðstað til að eiga  samskipti við annað fólk og stunda fjölbreytt félagsstarf og tómstundir. 

 

Til að gera lífgæðakjarna að veruleika þurfa margir að leggja hönd á plóg: sveitarfélög, ríki og samtök eldra fólks. Sveitarfélögin þurfa að gera ráð fyrir slíkum kjörnum í skipulagi, og ríki og sveitarfélög þurfa að koma sameignlega að þjónustu. Huga þarf að rekstarforminu en æskilegt er að um sjálfseignarstofnun verði að ræða sem haldi utan um rekstur íbúðana.  

 

Öllum ætti að vera orðið ljóst að núverandi fyrirkomulag þ.e. heimili eða hjúkrunarheimili gengur tæplega upp. Að öllu óbreyttu mun fjölga mjög hratt í hópi eldra fólks sem vill og getur búið á eigin heimili ef því stendur til boða búsetuform og þjónusta sem er aðlöguð að þeirra þörfum. Ef við gerum ekkert mun það leiða til þess að þörfin fyrir hjúkrunarheimili fer hratt vaxandi sem kallar á mikla fjárfestingu og kostnaðarsama þjónustu. (Virðing og reisn. Samþætting heilbrigðis-félagsþjónusta fyrir eldra fólk. Halldór S Guðmundsson bls. 22-23. Hjúkrunarheimili kostnaður) 

 

Veikleiki samtaka eldra fólks er að þau hafa ekki samningsrétt og eiga erfitt með að fylgja málum eftir. LEB hefur óskað formlega eftir samstarfi við ASÍ, BSRB og BHM þegar kemur endurnýjun kjarasamninga síðar á þessu ári. Eldra fólk telur eðlilegt að þegar gengið er frá starfskjörum fólks á vinnumarkaði sé tryggt að það sama gangi til þeirra sem eru komnir á eftirlaun. LEB bindur miklar vonir við þetta samstarf og væntir að framundan séu betri tímar. 

 

Mikilvægt er að í komandi sveitarstjórnarkosningum verði málefni eldra fólks á dagskrá, ekki sem vandamál heldur sem spennandi úrlausnarverkefni. Gleymun ekki að eldra fólk er flest búið að greiða skatta áratugum saman og eru enn skattgreiðendur þrátt fyrir að það hafi lokið atvinnuþátttöku. Eldra fólk er auðlind fyrir sveitarfélögin ef þau halda rétt á málum og skapa réttar aðstæður til að fólk geti sem lengst búið á eigið heimili.  

 

 

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB