Hæstiréttur Íslands hefur gefið leyfi til þess að áfrýjun þremenninganna í Gráa hernum gegn Tryggingastofnun ríkisins verði tekin fyrir í réttinum. Málið fer því ekki fyrir Landsrétt sem styttir málsmeðferðina verulega. Þetta mun aðeins vera í þriðja sinn sem mál fer beint til Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti.
Hæstaréttadómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson standa að baki þessarar ákvörðunar.
Telja dómararnir að mál þetta hafi þýðingu fyrir rétt fjölda einstaklinga til greiðslu ellilífeyris og varðar mikla hagsmuni þeirra og ríkisjóðs.
Mál þremenninganna í Gráa hernum, þeirra Ingibjargar H. Sverrisdóttur, Sigríðar J. Guðmundsdóttur og Wilhelm Wessman, snýst um eignarréttarákvæði laga og skerðingar ríkisins á greiðslum frá Tryggingastofnun á móti tekjum úr lífeyrissjóðum í almenna lífeyrissjóðakerfinu.
Þeir sem að málaferlunum standa eru mjög ánægðir með þessa þróun mála og Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara og fyrrum hershöfðingi Gráa hersins er ánægður með niðurstöðu Hæstaréttar.
„Þetta er stórmál og skiptir mjög miklu. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og hef tröllatrú á dómsstólunum í þessu tiltekna máli. Þarna eru í húfi gríðarlegir hagsmunir fyrir fjölda fólks og einnig fyrir ríkið. Við þurfum að fá úr þessu skorið, það er ekki hægt að hafa þetta hangandi í lausu lofti endalaust. Það hefur aldrei verið nægilega vel útskýrt hvers vegna farið var út í þessar miklu skerðingar eða breytingar á því hver fyrsta stoð kerfisins skyldi vera, né hver tók þá ákvörðun. Það skilur eftir vantrú á kerfinu og tilfinningu um mikla ósanngirni hjá fjölda fólks“, segir hann í samtali við vefinn Lifðu núna.