fbpx

Vellíðan er orð sem vekur hjá okkur tilfinningar um að hafa það þægilegt, vera hamingjusöm og líða almennt vel. Það sem veldur einum vellíðan veldur ekki endilega öðrum vellíðan og þó að okkur líði best þegar við erum við góða heilsu getum við samt sem áður notið vellíðunar þó við séum að glíma við einhverja kvilla. Vellíðan tengist því líka að upplifa að við ráðum við þær áskoranir sem felast í daglegu lífi okkar.

Bak á konu, horfir á Seljalandsfoss

Svefn

Svefninn er nauðsynlegur til að endurnæra okkur og gefa líkamanum hvíld. Of lítill svefn getur valdið almennri vanlíðan, þreytu og streitu og hefur áhrif á einbeitingu, minni og rökhugsun. Margt hefur verið skrifað um mikilvægi svefnsins í tengslum við streitu og andlega líðan, en svefnleysi getur líka haft neikvæð áhrif á ónæmiskerfi okkar og nær alla aðra líkamsstarfssemi.

Af hverju eru svona margir dauðþreyttir á morgnana og eiga erfitt með að vakna? Hvað hefur breyst á síðustu árum og áratugum sem truflar svefnvenjur okkar? Taugalífeðlisfræðingurinn Matthew Walker nefnir nokkur atriði sem hafa breyst í bók sinni „Why we sleep“ (2017). Hann talar um að við höfum flest greiðan aðgang að spennandi afþreyingarefni í ýmsu formi alla nóttina, við erum með raflýsingu og LED ljós, jafnt hitastig allan sólarhringinn og drekkum stundum of mikið af koffíndrykkjum yfir daginn eða áfengi á kvöldin.

Við höfum fæst gert okkur nógu góða grein fyrir mikilvægi svefnsins til að viðhalda góðri andlegri og líkamlegri heilsu. Menn hafa jafnvel talið 8 tíma svefn vera tímasóun eða veikleikamerki. Litið hefur verið til frægra einstaklinga sem sagan segir að hafi aðeins sofið 4-5 stundir á sólarhring. Þetta viðhorf er sem betur fer að breytast með aukinni umfjöllun sem byggð er á vönduðum rannsóknum. Menn hafa komist að því að það eru margar ástæður fyrir því að við sofum og að svefninn gagnast öllum kerfum líkamans.

 

Góður svefn bætir heilsu og eykur lífsgæði.

 

Góður svefn hefur margvísleg áhrif á virkni heilans og öll svefnstig hafa sínu hlutverki að gegna. Áhrif svefns á minnið eru sérlega augljós og hafa verið mikið rannsökuð. Svefninn hjálpar okkur að læra og að taka rökréttar ákvarðanir. Andleg heilsa okkar verður almennt betri ef við sofum vel, við erum ferskari, reiðubúnari til að takast á verkefni dagsins og erum meira skapandi. Við þekkjum flest að það borgar sig oft að „sofa á“ vandamálum til að eiga auðveldara með að leysa þau.

Svefninn hjálpar ónæmiskerfinu við að vinna á sýkingum og takast á við ýmiskonar veikindi. Hann hefur jákvæð áhrif á efnaskiptin, temprar matarlyst og hjálpar til við að viðhalda heilbrigðri þarmaflóru. Hann aðstoðar við að halda blóðþrýstingi í skefjum og stuðlar að heilbrigðara hjarta- og æðakerfi. Í stuttu máli þá bætum við lífsgæði og lengjum lífið með góðum svefni.

Þekkt er að hreyfing, svefn og mataræði skipta miklu máli fyrir heilsu okkar en Walker telur að svefninn sé mikilvægastur af þessu þrennu. Að missa svefn eina nótt hefur mun meiri andleg og líkamleg áhrif á líkamann en að fasta eða hreyfa sig ekkert í einn dag.

Nokkrir áhugaverðir punktar um svefn sem Walker nefnir:
  • Við borðum meira þegar við sofum verr vegna breytinga á hormónastarfsemi. Ef menn reyna að létta sig en sofa ekki nóg ganga þeir mest á vöðvamassa en ekki fitu, svo árangur verður lítill sem enginn.
  • Við mannfólkið erum eina dýrategundin sem neitar sér viljandi um svefn.
  • Rannsóknir virðast því miður sýna að erfitt er að bæta sér upp tapaðan svefn, t.d. stuttan svefn í vinnuvikunni með því að sofa lengur um helgar.
  • Um 40% einstaklinga vilja vakna snemma og fara snemma í háttinn (A), 30% fara seint að sofa og vilja vakna seinna (B) og 30% eru þarna á milli. Flest í þjóðfélaginu miðast við morgunhanana og því brennir B-fólkið kertið oft í báða enda, vakir fram eftir en þarf að mæta í skóla/vinnu áður en nægum svefni er náð.
  • Kaffi virkar vel til að minnka syfju eins og margir þekkja. Koffínið hindrar virkni adenosine í heila, en það safnast upp á vökutíma og gerir okkur syfjuð. Helmingunartími eins kaffibolla er 5-7 klst. að jafnaði, en það er einstaklingsbundið hve hratt lifrin hreinsar koffín úr líkamanum.
  • Tveir þriðju hlutar fullorðinna í þróuðu löndunum ná ekki þeim 8 tíma svefni sem mælt er með.
  • Það er ekki hættulegt eða slæmt að sofa lengi.

 

 

 

Því er oft haldið fram að miðaldra og eldra fólk þurfi minni svefn en þeir sem yngri eru en það er ekki á rökum reist segir Walker. Eldra fólk sefur þó oftast minna en það myndi helst vilja og þarf á að halda. Það vaknar oftar á nóttunni, stundum vegna sjúkdóma og lyfja sem tekin eru, eða vegna tíðari salernisferða. Djúpsvefn minnkar með aldrinum en hann er mikilvægur fyrir nám og minni. Hann tengist þeim svæðum heilans sem hrörna einna fyrst þegar við eldumst. Magn svefnhormónsins melatóníns og styrkur dægursveiflunnar minnkar einnig með tímanum.

Walker heldur því fram að ýmis heilsutengd vandamál sem eldra fólk glímir við geti orsakast af svefnleysi, en það kemur því miður ekki oft til tals í læknisheimsóknum og fæstir tengja versnandi heilsu við lakari svefn þrátt fyrir þekkt orsakatengsl þarna á milli.

 

Hæfni

Við þekkjum flest hve mikilvægt er að ná góðum nætursvefni áður en farið er í próf. Svefninn hjálpar okkur að festa upplýsingar í minni og stundum náum við líka að kalla fram efni sem við héldum að við værum búin að gleyma. Færri vita að góður svefn fyrir próflesturinn sjálfan og annað nám hefur einnig mikið að segja og hressir upp á hæfni okkar til að festa upplýsingar í minni. Svefninn gegnir einnig hlutverki við að gleyma úreltu efni, en með því móti eigum við auðveldara með að kalla fram upplýsingar sem við þurfum á að halda.

Walker ræðir áhugaverðar rannsóknir um áhrif svefns á hæfni fólks. Svo virðist sem nægur svefn hjálpi fólki að bæta ýmiskonar hæfni á meðan það sefur. Hann fékk áhuga á að rannsaka þetta þegar píanóleikari sagði frá því að hann hafi loks náð valdi á erfiðum kafla í verki eftir góðan nætursvefn. Hann náði sem sagt að bæta sig og ná erfiðasta hjallanum með því að sofa.

Til umhugsunar:
Tvær algengustu ástæður langvarandi svefnleysis eru áhyggjur og kvíði. Líf okkar einkennist af hraða og ofgnótt upplýsinga og oft er eini tíminn sem við „slökkvum á“ upplýsingaflóðinu og hugsum inn á við þegar við leggjumst á koddann á kvöldin. Það kemur því ekki á óvart að okkur gangi stundum illa að sofna. Við erum að hugsa um það sem við gerðum þann daginn, hverju við gleymdum og hvað þarf að gera næsta dag – fyrir utan allt mögulegt annað.

 

 

Góðar svefnvenjur

Regla á svefntíma. Mikilvægt er að fara að sofa á svipuðum tíma og vakna á svipuðum tíma. Líka á frídögum og um helgar.

Forðumst síðdegislúra. Hjálpum líkamsklukkunni að stilla sig rétt og tökum ekki blund síðdegis. Þeir sem sofa ekki vel um nætur þurfa til dæmis að gæta þess að falla ekki í þá algengu gryfju að dotta yfir sjónvarpinu á kvöldin.

Rólegheit í aðdraganda svefns. Mikilvægt er að aðdragandi svefnsins sé rólegur og ávallt með svipuðum hætti. Hver og einn þarf að finna hvaða venjur henta best. Mikið áreiti frá ljósi svo sem tölvu og sjónvarpi er ekki hentugt stuttu fyrir svefninn.

Svefnvænt umhverfi. Svefnherbergið þarf að vera hæfilega dimmt, hæfilega svalt og rúmið þægilegt. Stemma þarf stigu við hávaða eða annari truflun úr umhverfinu. Sjónvarp, tölvur eða handavinna í svefnherbergi er ekki til þess fallið að bæta svefn og gott er að klukka sé ekki áberandi í svefnherbergi. Rúmið er eingöngu ætlað fyrir svefn og kynlíf.

Förum framúr ef við getum ekki sofið. Forðumst mikið ljósáreiti, höldum umhverfi rólegu, leggjum kapal, ráðum krossgátu eða annað sem dreifir huganum og förum aftur upp í rúm þegar okkur syfjar.

– Ráðin má finna á vef Heilsuborgar.

Lærum slökun. Slökun af ýmsum toga getur bæði hjálpað okkur að sofna á kvöldin og auðveldað okkur að sofna aftur ef við vöknum upp um nætur. Streituhormónin eru fljót að trufla getu okkar til að sofna ef við látum pirringinn yfir svefnleysinu ná tökum á okkur.

Regluleg hreyfing á daginn. Dagleg hreyfing bætir gæði svefns auk þess að efla heilsuna almennt. Hreyfing vinnur gegn áhrifum streitu á miðtaugakerfið. Mikil átök stuttu fyrir svefn eru þó ekki svefnvæn.

Forðumst kaffi og aðra koffíndrykki. Koffín er örvandi efni sem er lengi að brotna niður. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir svefntruflun af völdum koffíns verða því að gæta þess að innbyrða það ekki síðla dags og jafnvel ekki eftir kl 14 á daginn.

Áfengi og reykingar trufla svefn. Áfengi er deyfilyf og því finna margir slökunaráhrif þegar þeir nota áfengi og telja það geta hjálpað til við að sofna. Niðurbrotsefni áfengis valda hinsvegar streituáhrifum í líkamanum og trufla svefn. Heildaráhrifin eru því svefntruflandi og forðast ætti notkun þess. Fráhvarf vegna reykinga truflar svefn.

Reglulegar máltíðir. Förum hæfilega södd að sofa og forðumst þunga máltíð fyrir svefn. Létt máltíð fyrir svefn getur hjálpað við að sofna.

Fleira um svefn

Á vefnum Heilsuvera má finna fleiri góð ráð til að stuðla að bættum svefni. Þar er einnig umfjöllun um svefnvandamál og svefnþörf eftir aldri.

Á síðu VR er grein um nauðsyn svefnsins og vítahring streitu og svefntruflana. Þar eru einnig birt ýmis ráð til að bæta svefn.

Tölur um svefn og líðan

Samkvæmt könnun Embættis landlæknis Heilsa og líðan Íslendinga 2017 meta þeir sem sofa of lítið (6 klst) andlega heilsu sína verr en þeir sem fá nægan svefn. Tæplega tveir af hverjum þremur sem sofa of lítið meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða á móti tæpum 80% þeirra sem fá nægan svefn (7-8 klst á nóttu). Þeir sem sofa of lítið meta sig síður hamingjusama (47% karla og 52% kvenna) en þeir sem fá nægan svefn (63% karla og 67% kvenna).

Rúmur fjórðungur fullorðinna Íslendinga fær of lítinn svefn (6 klst).

 

Bláa ljósið hefur sína myrku hlið

Bláa ljósið getur haft áhrif á svefn og mögulega á heilsu.

Raflýsing getur truflað líkamsklukku okkar og eru áhrif bláa ljóssins einna verst, en skjáir og nýrri perur gefa frá sér mikið af slíku ljósi. Ljósið er okkur gagnlegt yfir daginn og hjálpar til við einbeitingu, eykur viðbragðshraða og léttir skap, en það virðist trufla okkur heldur mikið á kvöldin. Ljósið getur haft áhrif á svefninn og mögulega á heilsu okkar. Fyrir tíma rafljósa fylgdi dægurklukkan sólarganginum hjá flestum og sparlega var farið með ljósgjafa á kvöldin. Nú getum við kveikt ljós þegar hentar, horfum á sjónvarp langt fram á kvöld og tökum svo gjarnan símann með upp í rúm. Við náum því varla að verða syfjuð áður en við slökkvum á tækjunum og eigum oft í stökustu erfiðleikum með að sofna með hugann fullan af fréttum, færslum, tónlist og myndbrotum.

Rannsókn frá Harvard sýndi fram á að það var munur á svefni hjá þátttakendum eftir því hvort þeir lásu bók á lestölvu (með ljósi) eða í prentútgáfu fyrir svefninn. Þeir lásu bók á skjá fimm kvöld í röð og á prentformi í sama dagafjölda. Þegar þeir notuðu lestölvuna fundu þeir síður til syfju og sofnuðu seinna en þegar þeir lásu bókina. Þeir losuðu minna melatónín í fyrra tilvikinu, dægurklukkunni seinkaði og REM-svefn minnkaði. Þeir fundu fyrir meiri syfju að morgni og það tók þá marga klukkutíma að ná sömu árvekni og þegar þeir lásu bókina, þrátt fyrir að sofa jafn lengi. Í þessari rannsókn voru þátttakendur að lesa bók og ljósin voru slökkt á tilteknum tíma, svo auðvelt er að álykta að munurinn væri ýktari ef þeir hefðu verið í hefðbundnu netrápi og án tímamarka.

Töluvert hefur verið fjallað um bláa ljósið á síðustu árum og mikilvægi svefnsins fyrir heilsuna. Margir eru farnir að átta sig á því að það er ekki góð hugmynd að taka símann eða aðra skjái með í rúmið og kemur þá margt til; ljósið sem truflar dægurklukkuna, efnið sem við skoðum og getur komið illa við okkur og tíminn sem týnist þegar netið er annars vegar og við gætum nýtt betur með því að sofa lengur. Ef kveikt er á skilaboðum bætist svo við áreiti sem gæti vakið okkur.

En hvað er til ráða? Best er að horfa ekki á skæra skjái 2-3 tímum fyrir háttinn. Ef erfitt er að takmarka skjánotkun fyrir svefninn er þó auðvelt og sjálfsagt að velja að minnka birtustig á skjám og sía út blátt ljós þar sem það er hægt en nýrri snjallsímar bjóða upp á þann möguleika. Ef við veljum að lesa rafbók fyrir svefninn í stað prentútgáfu borgar sig ekki að hafa skjáinn upplýstan. Góð regla er líka að setja sér tímamörk, því við finnum síður til syfju þegar við horfum á skjá og eigum það til að gleyma okkur.

 

  • Tómt rúm (massífur viður)

Næring

Holl og fjölbreytt fæða er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan. Embætti landlæknis hvetur til þess að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi og velja fyrst og fremst matvæli sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, gróft kornmeti, belgjurtir, fituminni mjólkurvörur, fisk, þorskalýsi, magurt kjöt og fleira.

Jafnvægi milli næringarefna er mikilvægt og það verður best tryggt með fjölbreyttu og hollu fæði. Fæðubótarefni eru oftast óþörf en Íslendingar, eins og aðrir sem búa á norðlægum slóðum, þurfa að taka þorskalýsi eða annan D-vítamíngjafa sérstaklega sem fæðubótarefni. Sjá nánar á vef landlæknis.

Í grein sem birtist í ársriti VIRK vorið 2018 er rætt um að skortur á D vítamíni geti valdið beinkröm hjá börnum og beinmeyru (osteomalaciu) hjá fullorðnum sem einkennist af óljósum verkjum og eymslum í beinum og vöðvum auk sífelldrar þreytu. Þessi einkenni eru nánast þau sömu og einkenni vefjagigtar en Dr. Holick, sem er sá aðili sem hefur rannsakað D-vítamín hvað mest, heldur því einmitt fram að beinmeyra sé oft misgreind sem vefjagigt, síþreyta eða jafnvel liðagigt.

Í greininni má lesa eftirfarandi:
  • Samkvæmt Laufeyju Steingrímsdóttur, næringarfræðingi hefur hver rannsóknin á fætur annarri síðustu áratugi sýnt að Íslendingar fá allt of lítið af D-vítamíni úr fæðunni og að styrkur D‐vítamíns í blóði þeirra sem hvorki taka lýsi né önnur fæðubótarefni sé töluvert undir viðmiðunarmörkum. Sérstaklega sé það áberandi að vetri til þegar sól er lágt á lofti og D‐vítamín nær ekki að myndast í húðinni.

  • Rannsókn frá árinu 2016 sýndi að einstaklingar með einkenni frá stoðkerfi og þ.m.t. sumir með greinda vefjagigt upplifðu minni verki í kjölfar D-vítamíngjafar.

  • Könnun á blóðhagi blóðgjafa á Íslandi á árunum 2015-2017 leiddi í ljós að tæplega fjórðungur nýskráðra kvenkyns blóðgjafa reyndist vera með járnskort.

  • Getur verið að „einfaldar“ orsakir einkenna á borð við depurð og útbreidda verki svo sem D-vítamínskortur, járnskortur, B-12 vítamín skortur og skjaldvakabrestur (vanstarfsemi skjaldkirtils) hafi þurft að víkja fyrir öðrum sjúkdómsgreiningum á borð við þunglyndi og vefjagigt? Í ársriti VIRK 2018 má lesa meira um þessar vangaveltur.

Í töflunni hér að neðan má sjá helstu einkenni kvíða, þunglyndis og vefjagigtar borin saman við helstu einkenni skorts á D-vítamíni, járni og B-12 vítamíni auk einkenna skjaldvakabrests. Upplýsingarnar eru fengnar af vefsíðum breska heilbrigðiskerfisins, NHS, og Mayo Clinic. Athugið að ekki er um tæmandi lista yfir einkenni að ræða.

 

  • Tafla úr greini IL

Hreyfing

Þekkt er að hreyfing er öflugt vopn gegn streitu og stuðlar að betri hvíld.
Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Hreyfing er ekki aðeins mikilvæg til að sporna gegn fjölmörgum sjúkdómum, heldur veitir hún styrk til að takast á við dagleg verkefni og stuðlar að betri svefni og hvíld almennt. Þekkt er að hreyfing er öflugt vopn gegn streitu.

Mikilvægt er að fullorðnir takmarki kyrrsetu og hreyfi sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu. Megin ráðleggingin er að fullorðnir stundi miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Heildartímanum má skipta í styttri tímabil yfir daginn.

Á vef Embættis landlæknis má finna ýmsar upplýsingar um hreyfingu, meðal annars bæklinginn Ráðleggingar um hreyfingu.
Á vef Heilsuveru má finna nokkrar styrktar- og teygjuæfingar.

Hreyfiseðlar

Hreyfiseðillinn er meðferðarúrræði við sjúkdómum eða einkennum þeirra sjúkdóma sem vitað er að regluleg hreyfing getur haft umtalsverð áhrif á. Spyrjast má fyrir um Hreyfiseðilinn á Heilsugæslustöðvum.

Sjá einnig um hreyfiseðilinn hér.

Í bók Sirrýjar Arnardóttur Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný ræðir Sirrý við konur sem hafa náð að byggja sig upp að nýju eftir að hafa örmagnast.

Áhugavert er að sjá að hreyfing var veigamikill þáttur í bataferli þeirra allraog lykill að því að ná upp orku. „Allar vanræktu þær hreyfingu áður en þær örmögnuðust eða lentu í kulnun og allar segja þær að hreyfing hafi gert mikið fyrir þær í uppbyggingunni“ segir Sirrý í lokakafla bókarinnar.

 

Greinin er byggð á efni frá VELVIRK sem er angi af forvarnarverkefni VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs.