fbpx

 

LEB hefur gert samning við U3A – Háskóla 3ja æviskeiðsins um aðgang að vikulegum áhugaverðum og skemmtilegum fyrirlestrum fyrir aðildarfélög LEB sem eru utan höfuðborgarsvæðisins og eru þeir aðildarfélögunum að kostnaðarlausu. Fyrirlestrarröðin er eingöngu til sýninga í húsakynnum aðildarfélaganna.

Þetta er fyrirlestrarröð sem U3A heldur vikulega í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík 8 mánuði ársins (janúar – maí / september – nóvember). Samningurinn tekur gildi frá 1.janúar 2024.

Fyrirkomulag:
Fyrirlestur er haldinn á þriðjudegi og í sömu viku sendir U3A LEB slóð á upptöku sem gildir í 10 daga.
Með slóðinni eru kynning á viðkomandi fyrirlestri. Einnig er hægt að sjá nokkuð fram í tímann hvaða fyrirlestrar eru væntanlegir á Heimasíðu U3A
LEB sendir slóðina um leið til formanna aðildarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins.
Formenn mega aðeins nota upptökurnar til að sýna í samkomusal fyrir félagsmenn sína, ekki dreifa upptökunum!

Þeir einstaklingar sem vilja njóta fyrirlestranna heima hjá sér, gerast einfaldlega félagsmenn í U3A og þá fá þeir senda fyrirlestrana á eigið netfang og geta notið hvers fyrirlesturs innan 10 daga eftir heimsendingu. Árgjald að U3A fyrir hvern einstakling er afar lágt, 2.000 kr. Hægt er að skrá sig sem félaga á HÉR

Tillaga að fyrirkomulagi hjá einstökum aðildarfélögum:
Lagt er til að stjórnir/formenn aðildarfélaga LEB komi á vikulegum, reglubundnum sýningum á fyrirlestrunum, sem hluta af starfsemi sinni.
Fyrsti fyrirlesturinn verður í annari viku janúar (þriðjudaginn 9. janúar) og þá er heppilegt að sýna hann ákveðinn dag í þriðju viku janúar. Síðan koll af kolli… 😊

Gert er ráð fyrir að hver fyrirlestur sé um 30 mínútur og í beinu framhaldi spurningar og svör í 10 mínútur. Samtals um 40 mínútur.

Af hverju bara utan höfuðborgarsvæðisins?
U3A eru frjáls, óhagnðardrifin félagasamtök sem byggir afkomu sína á félagsgjöldum sinna félagsmanna, og heldur úti öflugu starfi með aðsetur sitt í Reykjavík. Eldra fólk á höfuðborgarsvæðinu (Hafnarfjörður, Garðabær, Álftanes, Kópavogur, Seltjarnarnes, Reykjavík og Mosfellsbær) á betra tækifæri á að sækja fyrirlestra U3A en þau sem búa út á landi.

Þessi nýji samningur LEB og U3A er tilraunaverkefni til eins árs til að efla félagslíf utan höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega í dreifðum byggðum þar sem fólk hefur ekki sama aðgengi að fjölbreyttri fræðslu eins og gefst oft í þéttbýli sem höfuðborgarsvæðið er.