fbpx

Fundargerð landsfundar 2020

 

Landsfundur Landssambands eldri borgara,

haldinn í Súlnasal Hótel Sögu, 30. júní 2020

 

Fundargerð

 

Setning landsfundar.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður setti fundinn og bauð fulltrúa landsfundarins og gesti velkomna á þennan tvífrestaða aðalfund.

Eliza Reid, forsetafrú, flutti ávarp. Ræddi hún meðal annars um kynni sín af eldri borgurum og möguleika þeirra. Hún varaði við því að flokka fólk eftir aldri. Sagði að eldri borgarar væru fullgildir liðsmenn, hafi mörgu að deila til þeirra yngri og hefðu mikið af æðruleysi og þrautseigju til að bera.

Formaður þakkaði Elizu fyrir ávarpið. Fundargestir stóðu á fætur og þökkuðu fyrir ávarpið með lófaklappi.

1.  Kosning embættismanna fundarins.

 1. Kosning tveggja fundarstjóra: Magnús Norðdahl Reykjavík var kosinn fundarstjóri ásamt Valgerði Sigurðardóttur Hafnarfirði. Tóku þau til starfa. Fundarstjóri kannaði lögmæti fundarins. Þar sem enginn gerði athugasemd úrskurðaði hann fundinn lögmætan. Engin athugasemd var gerð við dagskrá fundarins og var hún því einnig úrskurðuð lögmæt.
 2. Kosning tveggja fundarritara: Hallgrímur Gíslason EBAK Akureyri og Hildigunnar Hlíðar FEB Garðabæ voru kjörin fundarritarar.
 3. Kosning kjörbréfanefndar: Erna Indriðadóttir, Sigurður Jónsson og Baldur Baldvinsson hlutu kosningu.

2.  Skýrsla stjórnar.

Formaður flutti árskýrslu stjórnar LEB fyrir starfsárið 2019-2020..

Líflegt ár að baki

Stjórnarfundir LEB voru 15 á starfsárinu og mjög mörg mál tekin fyrir. Stjórn LEB mætir vel á stjórnarfundi og hafa varamenn sótt langflesta fundi.
Stjórnin er skipuð: Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður, Haukur Halldórsson varaformaður, Valgerður Sigurðardóttir gjaldkeri, Dagbjört Höskuldsdóttir ritari og Ellert B. Schram meðstjórnandi.

Varamenn: Ólafur Örn Ingólfsson, Ingólfur Hrólfsson og Drífa Sigfúdóttir.

Aldurdreifing góð. Með þessari aldrursdreifingu næst að koma ólíkum sjónarmiðum að og finna líka hversu breiðum aldri aðildarfélög LEB eru að sinna.

Að mjög mörgum málefnum var unnið eins og undanfarin ár. Aðild okkar að nokkrum nefndum kallar á miklar fundarsetur. Þegar nefndin sem fjallaði um kjör þeirra verst settu lauk störfum í árslok 2018 lá fyrir ósk LEB um frekara starf að kjaramálum og velferðarmálum líka. Niðurstaðan var að skipaður var nýr starfshópur á vormánuðum 2019 en það tók félagsmálaráðuneytið marga mánuði að finna formann fyrir nefndina. Þar fór afar dýrmætur tími í ekkert. Nokkrir fundir voru svo haldnir á haustmánuðum og mörg mál rædd, en enn og aftur hægagangur og kjaramálin enganvegnin tekin nægjanlega föstum tökum. Fulltrúar LEB hafa lýst yfir óánægju með hversu lítill árangur er af starfi nefndarinnar. Þar stóð til að taka ákveðin mál og ljúka umræðu um þau og leggja fram tillögur. Slík vinnubrögð eru í órafjarlægð. Nú fyrrihluta árs 2020 hefur svo verið ítrekað ófært og síðan Covid 19.

Stjórn LEB tók ákvörðun um að fá Skúla M. Sigurðsson til að taka saman nýrri tölur um afkomu eldra fólks og skoða hvað hefði breyst frá síðustu samantekt.

Mörg samtöl við Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra og aðstoðarmann hans, Arnar Þór, eru vinsamleg en skila litlu.

Um nýliðin áramótin voru hækkanir á „ellilífeyri“ til eldri borgara aðeins 3,5%. Valin var verri leiðin, þar sem launaþróun var 4.7%. Hér um mjög vonda þróun að ræða sem eykur kjaragliðnun árlega. Loforð ráherranna eru miklar loftbólur.

Á árinu 2019 voru heilmiklar væntingar um blóm í haga og grösug tún. Víða voru gerðir samningar og fyrir þá lægst launuðu á vinnumarkaði komu inn verulegar kjarabætur sem hafa engan veginm verið leiðarljós fyrir ráðamenn um að gera betur við eldra fólk. Þessi mál hafa verið rædd á fundum með ráðherrum og alltaf gefinn ádráttur um að eitthvað komi og að leitað sé leiða fyrir þá verst settu. Enginn vill heyra minnst á að fátækt sé staðreynd meðal lægsta tekjuhóps eldra fólks. En það er staðreynd. Mýmörg dæmi um aðferðir hafa verið rakin: danska leiðin að skoða skattaframtöl og veita þeim sem eru allægstir uppbót auk allskonar auka greiðsna vegna hitunarkostnaðar og fl. – Sænska leiðin: Skattar lægri á vissu skeiði.

Næstu mál

Kjarasamingar og áhrif þeirra?

En hvað nú með nýja kjarasamninga í baklandinu. Þar eigum við enga aðild þó rætt hafi verið við Drífu Snædal forseta ASÍ og marga fleiri. Þau vilja okkur vel en vandinn er sá að við erum ekki eins og í t.d. Danmörku en þar vinnur LO (danska ASÍ) með hluta af sínum eftirlaunafólki og er það samstarf verulega náið.

Í dag vill hreyfing launafólks eiga samtöl um aukna samvinnu og samráð myndi aukast. Eðlilegt væri að þessi mál væru í föstum farvegi með samráðsfundum um málefni eldra fólks og vinnandi fólks svo báðir aðilar séu upplýstir um þá stöðu sem kemur upp við starfslok. Margir eiga áratuga réttindi í sínu félagi en eru settir út í kuldann stuttu eftir starfslok. Þessu verður að breyta. Réttindi sem hafa byggst upp í sjóðum svo sem starfsmenntunar- og fræðslusjóðir, orlofssjóðir og sjúkrasjóðir. Hvers vegna á fólk ekki lengri rétt í þeim?

Næstu baráttumál okkar eru mörg. Þar má nefna hjápartæki, en þar erum við langt á eftir hinum Norðurlöndunum. Húsbyggingar fyrir eldra fólk sem uppfylla ekki þarfir þeirra: Þar þarf að breyta byggingareglugerð og tala líka tæpitungulaust við arkitekta. Heilbrigðismálin: Þar eru félagsleg- og heilbrigðisleg mál úti s.s. heyrnartæki sem eru of dýr og niðurgreiðsla of lág, félagsleg þjónusta, hjúkrunarheimilin og aðlögun að geta búið sem lengst heima. Verðlagsmálin eru kafli útaf fyrir sig.

Hvar eru mannréttindin í það heila tekið þegar við eldumst?

Félagsmálin

Á árinu 2019 voru aðildarélög LEB jafn mörg og undanfarin ár og hefur félagsmönnum fjölgað jafnt og þétt. Starfssemi félaganna er með miklum blóma og eru öll að gera heil mikið. Nokkur félög voru heimsótt á árinu og er það ávallt gaman. Afmælisár á Ísafirði, en þangað var formanni boðið 26. september. Var það vel þegið og afar glæsilegur afmælisfagnaður og félaginu til sóma. Rakin var saga félagsins og inn í hana fléttuð saga LEB. Vel gert. Glæsileg skemmtiatriði og ávörp. Í bakaleið var innlit hjá Félagi eldri borgara á Hólmavík sem hefur aðstöðu í Flugskýlinu sem nú er aflagt sem slíkt. Öflugt félagsstarf er á Hólmavík og nærsveitum. Heimsókn í Garðabæ og Hafnafjörð þar sem setnir voru ársfundir félaganna. Mikil gróska er í starfi félaga innan LEB og glæsilegar dagskrár í félagsstarfinu. Þetta skiptir fólk miklu máli. Haldinn var stór fundur á Höfn í Hornafirði sem Dagbjört Höskuldsdóttir, ritari LEB, sótti og flutti þar ávarp. Einnig tók LEB þátt í Lýsu rokkhátíð samtalsins á Akureyri.

Velferð og hreyfing

LEB á aðild að verkefni hjá Landlækni sem er tengt við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina en þar á bæ hefur verið unnið að aðgerða áætlun um heilsueflandi samfélög. Alma Möller núverandi landlæknir fór víða á árinu 2019 til að fá sveitafélög í lið með embættinu og nú hafa um 70% sveitafélaga gerst heilsueflandi samfélög. Í þessu markmiði er sér kafli um heilsueflingu eldra fólks sem vert er að hafa að leiðarljósi í daglegu lífi. Kynning á verkefninu hefur farið víða fram og mun LEB tryggja að aðgengi að verkáætlun verði aðgengileg en hún er í vinnslu.

Nú er staðan sú að allir vildu Lilju kveðið hafa og því eru æ fleiri að vakna til lífs um að eldra fólk sé markhópur í heilsuvernd og heilsueflingu.

Dr. Janus Guðlaugsson hefur verið að í yfir 4 ár með heilsueflingu í nokkrum sveitafélögum og má þar nefna Hafnarfjörð, Reykjanesbæ, Grindavík og Vestmannaeyjar og fleiri á leiðinni. Þessi heilsuefling stendur yfir í 5 annir og er fólk í markvissri dagskrá og árangur mældur. Það er skemmst frá því að segja að gríðarlegur árangur hefur náðst. Fólk er að bæta heilsu og líðan mikið. Kasta lyfjum, sofa betur og líða betur. Það er til mikils að vinna. Þetta verkefni getur bætt um 5 árum við góð efri ár í lífsgæðum. Þessi mál eru stóru málin varðandi heilsueflingu eldra fólks.

Heilsugæslan hefur verið að fá aukin verkefni og er það mikilvægt að hún sé fyrsti viðkomustaður til að spara bráðamóttökuna. Skipulag á heilbrigðisþjónustu var á dagskrá á þingfundi heilbrigðisráherra s.l. haust.

Mikið er rætt um hjúkrunarheimilin og stöðu þeirra. Þar hefur verið bætt verulega í og t.d. opnast nýir möguleikar á Sléttuvegi í Reykjavík. Þar var tekið í notkun 99 herbergja nýtt og fullkomið hjúkrunarheimili Hrafnistu í febrúar 2020.

Spjaldtölvuverkefnið

Á árinu sem leið tókst að efla þekkingu á spjaldtölvur verulega með útgáfu LEB á kennslubæklingum og var m.a. hrundið af stað námskeiði í einni þjónusumiðstöð í Reykjavík með þeim. Kennsluefnið reynist vel og síðan hefur verið stígandi í málinu og eru í allt farnir um 1000 kennslubæklingar vítt og breitt um landið. Þetta er afar brýnt verkefni þar sem sífellt þrengir að fólki sem ekki er nettengt og þarf upplýsingar. Áframhaldandi hvatning verður um fræðsluna.

Félagsblað LEB og útgáfa

Á síðasta ári var aðeins gefið út eitt blað en það var veglegt og fékk góða dóma. 26.000 eintök prentuð og kláruðust næstum. Mikil vinna liggur á bak við eitt sílkt blað. Ritnefnd stóð sig mjög vel og ritstjórn í höndum Ernu Indriðadóttur flott. Nýtt glæsilegt blað hefur litð dagsins ljós, enn og aftur afar veglegt. Mikil aukning á fréttum á heimasíðu og á Facebook er meðal annars ástæðan fyrir að eitt blað kemur út á ári og einnig vegna kostnaðar. Önnur útgáfa hefur verið í formi bæklinga til fróðleiks og svo kennsluefnið á spjaldtölvur.

NOPO

NOPO eru norræn samtök fyrir eldra fólk á Norðurlöndunum. Þar á LEB sæti og getur mætt með 2 fulltrúa á fundi sem eru haldnir 2 x á ári. Þar eru reifuð öll álitamál eldri borgara og líka sigrarnir. Gífurlegur fjársjóður liggur í þessu norræna samstarfi því það hjálpar okkur að innleiða nýjungar þar sem hin Norðurlöndin eru gjarnan 5-10 árum á undan okkur í fjölmörgum málum s.s. tölvuvæðingu eldra fólks. Í rannsóknum og velferðartækni eru þau komin mun lengra. Við höfum svo sannarlega gagn af þessu samstarfi og finnum að við getum líka lagt okkar af mörkum.

Um rekstur skrifstofu LEB

Eins og fyrri ár er skrifstofan til húsa í Sigtúni 42 í Reykjavík í einni skrifstofu. Vandinn við að stækka og geta framkvæmt meira var m.a. aðstaðan og skortur á starfsfólki. Þess vegna var Viðar Eggertsson ráðinn til LEB í september 2019, fyrst í 35% vinnu en frá áramótum í 40% starf sem skrifstofustjóri . Hann hefur tekið við heimasíðu, Facebooksíðu og tölvusamskiptum við félögin innan LEB. Flestum fundarboðum o.fl., komið betra skipulagi á aðildarfélagaskrár og verið mjög virkur í að birta nýjar fréttir á heimasíðuna og á Facebook. Mjög góð reynsla er komin af hans störfum hjá LEB. Umræða um leiguna og aðstöðuna hefur staðið yfir á liðnu starfsári.

Ræðum aðeins um stjórn LEB verkefni hennar og árangur: Á liðnu ári var áfram unnið að verkefnum sem styrkir hafa fengist til. Unnið var í samvinnu við þá sem voru í samstarfi við LEB í umsóknunum sem fengu slíkt brautargengi. Þannig var unnið að bæklingi um Velferðartækni og hafði Guðrún Ágústsdóttir umsjón með því fyrir LEB. Einnig var undirbúið átak vegna einmanaleika og félagslegar einangrunar með stefnu á ráðstefnu í september 2020.

Nefndarstarf var mjög mikið og er aðild LEB orðin ansi víðtæk . Einu slíku verkefni lauk á síðasta ári en þar var fjallað um ofbeldi gagnvart eldra fólki. Samantekt um niðurstöðu má finna á netinu. Undirbúningur að umsóknum um fleiri verkefni tók líka sinn tíma svo og uppgjör verkefna. Nokkrum er enn ólokið. Þátttaka í mörgum stórum ráðstefnum með innleggi frá LEB gekk mjög vel og stendur þar hæst Heilbrigðisráðstefna í nóvember s.l. en þar voru um 400 mannns. Nýjar stefnur spruttu upp og sumt fór af stað. Tannlækningar voru líka ofarlega á baugi og fóru í það æði margir tímar. Það leiddi til innleiðingar á því að niðurgreiðsla hækkaði verulega til eldra fólks. Leitað var til lögfræðings vegna 70 ára reglunnar um starfslok. Málið enn í vinnslu. Starfslokanámskeið voru mörg en þar mætir formaður oft og fer yfir áhrif starfsloka á eldra fólk og hvað tekur við. Það stæsta af þeirri gerð fór fram í Hörpu í samvinnu við Íslandsbanka en áheyrendur voru yfir 400 manns. Afar mikilvæg fræðsla.

Kjaranefnd LEB og FEB-R

Virkni kjaranefndar er mikil og hafa verið haldnir margir fundir í nefndinni. Formaður kjaranefndar er Sigurður Jónsson. Kjaranefnd hefur sent inn ályktanir og verið mjög virk í að skoða og kynna sér leiðir til árangurs. Nefndarmenn hafa átt samtöl inn í pólitíkina til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Greinaskrif af hálfu formanns eru þakkarverð. Laganefnd vann að lagabreytingum sem var þörf á hélt hún nokkara fundi um lögin vel gert. Formaður laganefndar er Guðmundur Guðmundsson. Heilbrigðis- og velferðarnefnd var mjög virk og hélt nokkra fundi og tók saman ályktun fyrir landsfundinn. Formaður þar er Dagbjört Höskuldsdóttir.

Verkefnin eru óþrjótandi og eru verkefni á sviði kjarmála- velferðar- og félagsmála sífellt í skoðun og upp koma ný mál í hverjum mánuði.

Sameinuð erum við sterkust. Þannig sigrum við.

Fundarstjóri las upp nokkrar tilkynningar.

 1. a) Blaðið er tilbúið til afgreiðslu á neðri hæðinni.
 2. b) MS er með kynningarbás á svæðinu með Næringu+, bæklingur frá þeim liggur á borðum fundarmanna.
 3. c) Öryggismiðstöðin er einnig með bás og kynnir þar öryggishnappa o.fl. Bæklingur frá þeim liggur á borðum fundarmanna.
 4. d) Viðar Eggertsson, skrifstofustjóri LEB, bað þá sem eiga eftir að greiða fyrir kvöldverð að gera það sem fyrst.

3.  Ársreikningur fyrir árið 2019 yfirfarinn

Valgerður Sigurðardóttir gjaldkeri kynnti reikningana. Þeir eru áritaðir af löggiltum endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga og af stjórn.

Helstu niðurstöður ársins: Rekstrartekjur kr. 19.604.140, rekstrargjöld kr. 21.750.901. Tap án fjármagnsliða kr. 2.146.761. Fjármagnsliðir 337.015 og rekstrartap því kr. 1.809.746. Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 36.728.225.

Gjaldkeri kynnti einnig reikninga Styrktarsjóðs aldraðra, sem er frá 1981. Framlag frá LEB 400.000, fjármunatekjur 26.802. Rekstrarhagnaður kr. 426.802. Efnahagsreikningur samtals. kr. 1.727.551.

4.  Niðurstaða kjörbréfanefndar

Sigurður Jónsson kynnti niðurstöðuna. 123 fulltrúar félaga eru mættir á fundinn og eru þeir allir löglegir.

5.  Kynning þingnefnda

Þingnefndir eru þrjár:

Kjaranefnd:. Formaður Sigurður Jónsson.

Velferðarnefnd: Formaður Dagbjört Höskuldsdóttir

Laganefnd: Formaður Guðmundur Guðmundsson

6.   Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla ársreikninga.

Drífa Sigfúsdóttir, stjórnarmaður í LEB, þakkaði stjórnarmönnum og starfsmönnum sambandsins fyrir ötul starf og fengu þeim þakkað með lófaklappi.

Halldór Gunnarsson FEB Rang. las upp svohljóðandi tillögu:

Aðalfundur Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu, haldinn á Hellu 12. júní 2020, samþykkir að lýsa vantrausti á stjórn Landsambands eldri borgara, vegna þess að stjórnin hefur engum árangri náð í hagsmunabaráttu eldri borgara undanfarin 10 ár. Ef breytingar verða ekki á störfum stjórnarinnar, þannig að fyrst og fremst verði barist fyrir að leiðrétta kjörin og koma í veg fyrri óhóflegar skerðingar á greiðslum almannatrygginga, mun félagið íhuga að segja sig úr Landssambandi eldri borgara.

Ályktuninni fylgdi greinargerð til rökstuðnings tillögunni.

Geir Guðsteinsson Reykjavík benti á að það vantaði skýringar með ársreikningum og spurði um kostnaðarliðinn Kynningarmál.

Þorbjörn Guðmundsson, Reykjavík, sagði árangur baráttu okkar ekki næga og því þyrfti að beita árangursríkari aðferðum til að ná árangri.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir sagði þessa umræðu mikilvæga, ýmislegt hefði verið reynt en það þyrfti að taka upp harðari stefnu.

Sigurður Helgason FEB Borgarnesi, sem býr á Snæfellsnesi spurðist fyrir um endurgreiðslu á akstri vegna læknisþjónustu og ræddi það mál nokkuð.

Haukur Halldórsson, varaformaður FEB, gerði athugasemd við vantrauststillögu Rangæinga, sem næði í raun til stjórna LEB síðustu 10 ára  og benti á þann árangur sem hefði orðið á síðustu áratugum. Benti jafnframt á bakslag hefði orðið á síðustu árum og að svo lítill árangur hefði orðið af starfi kjaranefndar velferðarráðuneytisins að hann hefði neitað að vera formaður hennar á síðasta ári. Að lokum benti hann á góða frammistöðu formannsins í tengslum við Covid í fjölmiðlum.

Gjaldkeri svaraði Geir að kostnaður við kynningarmál væri stuðningur við þættina Lífið er lag á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.

Ársreikningarnir voru samþykktir samhljóða.

7.  Lagabreytingar

Guðmundur Guðmundsson kynnti þær tillögur sem borist höfðu frá laganefndinni og greinargerð með lögunum. Auk hans voru Drífa Sigfúsdóttir og Finnur Birgisson í nefndinni. Helstu tillögurnar snúast um aðild og aukaaðild að LEB, ásamt ákvæði um landsfund. Auk ofangreindra tillagna komu tillögur frá Finni Birgissyni, FEB Rang. og FEB Ísafirði. Tillögunum var öllum vísað til laganefndar til afgreiðslu.

8.  Lögð fram drög að fjárhagsáætlun

Valgerður Sigurðardóttir, gjaldkeri, fór yfir áætlunina sem byggir að mestu leyti á rekstri fyrri ára. Gert er ráð fyrir að 28.277 félagar greiði 700 kr. aðildargjöld til LEB. Í heildina er áætlað að tekjur verði kr. 30.496.900 og gjöld kr. 25.729.623. Áætlaður rekstrarhagnaður án fjármagnstekna kr. 4.767.277.

9.  Tillaga um árgjald 2021 og afgreiðsla hennar

Stjórn LEB leggur til að árgjaldið verði óbreytt, kr. 700 á félaga.

Tillaga kom einnig frá FEB Reykjavík, en hún kom of seint og var samþykkt með meginþorra greiddra atkvæða gegn tveimur að vísa henni til stjórnar.

HÁDEGISVERÐUR

10. Kynntar stjórnarályktanir og aðsendar ályktanir.

Sigurður Jónsson kynnti vinnuna við ályktun kjaranefndar. Skúli Sigurðsson vann upplýsingar um kjör eldri borgara. Megin áherslan lögð á lægstu laun.

Dagbjört Höskuldsdóttir kynnti ályktun velferðar- og heilbrigðisnefndar. Í nefndinni eru auk hennar þau Ómar Kristinsson, Katrín Fjeldsted og Guðrún Ágústsdóttir.

Tilkynnt var að LEB blaðið væri á neðri hæðinni tilbúið til afgreiðslu.

Finnur Birgisson benti á ályktanir kjaranefndar FEB Reykjavík um leið og hann gagnrýndi störf kjaranefndar LEB.

Fundarstjóri las upp ályktun frá FEB Rang, um stuðning við Gráa herinn.

Að þessu loknu tóku málefnanefndir til starfa.

11. Afgreiðsla ályktana.

Eftir um 75 mínútna vinnu málefnanefnda voru ályktanir teknar til afgreiðslu.

a) Ályktun landsfundar LEB – Landssambands eldri borgara – um kjaramál.

Landsfundur LEB 2020 lýsir yfir miklum vonbrigðum með það hversu lítið hefur gengið að leiðrétta launakjör eftirlaunafólks, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna fyrir síðustu alþingiskosningar. Lífeyrir frá almannatryggingum hefur ekki fylgt launaþróun síðustu ára eins og lög um almannatryggingar kveða á um.  Á tímabilinu 2010-2019 hækkuðu lágmarkslaun um 92%, en á sama tíma hækkaði grunnupphæð ellilífeyris frá TR einungis um 61,6%. Skerðing á lífeyri frá almannatryggingum vegna annarra tekna er meiri en þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Tekjur eftirlaunafólks eru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum og því skiptir samspil þessa tveggja kerfa öllu fyrir kjör þeirra. En hin mikla skerðing almannatrygginga, sem byrjar strax og greiðslur frá lífeyrissjóðnum ná 25 þús. kr. á mánuði, setur meirihluta eftirlaunafólks í þá stöðu að ávextirnir af áratuga lífeyrissparnaði hrökkva skammt til framfærslu. Í ofanálag vinnur þetta kerfi markvisst gegn því að fólkið geti bætt kjör sín af eigin rammleik með öflun viðbótartekna.
Þegar skerðing almannatrygginga leggst við tekjuskattinn og útsvarið, verður niðurstaðan grimmir jaðarskattar, sem leggjast á eftirlaunafólk og öryrkja og valda því að þau öldruðu halda í besta falli eftir 27 til 35 krónum af hverjum 100 krónum sem þau hafa í aðrar tekjur. Engum öðrum þjóðfélagshópum er ætlað að búa við slíka skattheimtu, enda er hún óboðleg og óásættanleg.

Landsfundur LEB 2020 skorar á stjórnvöld að taka strax afgerandi skref til að leiðrétta kjör eftirlaunafólks. Hækka verður lífeyri a.m.k. til jafns við lágmarkslaun og líta sérstaklega til þess hóps aldraðra sem er verst settur. Jafnframt verður að hækka almenna frítekjumarkið úr 25 þúsund krónum á mánuði í 100 þúsund krónur á mánuði sem fylgi svo vísitölubreytingum. Launuð vinna eldri borgara valdi ekki skerðingu greiðslna frá Tryggingarstofnun ríkisins.

Hafin verði vinna við uppstokkun á regluverki lífeyristrygginga, sem komið er í ógöngur vegna óhóflegra tekjutenginga og hárra jaðarskatta.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

b) Ályktun Landsfundar um að málsókn gegn ríkinu sé rétta leiðin til að ná fram réttlæti.

Landsfundur LEB 2020 fagnar því að ákvæði almannatryggingarlaga um tekjutengingu lífeyrisgreiðslna frá hinu opinbera skuli nú vera komin til kasta dómstóla. Fyrir tilstilli Málsóknarsjóðs Gráa hersins hafa verið höfðuð þrjú prófmál, og mun málflutningur fyrir héraðsdómi fara fram á haustmánuðum.

Lengi hefur kraumað mikil óánægja hjá eldri borgurum landsins vegna brattra tekjutenginga og ofur-jaðarskatta sem þeir þurfa að búa við og eru einsdæmi á Norðurlöndum. Jafnlengi hefur því verið haldið fram að þetta regluverk jafngildi eignaupptöku og stangist á við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.

Þegar álitamál af þessu tagi eru uppi, er það rétta leiðin, – jafnvel sú eina, – til að útkljá þau og komast að niðurstöðu að leggja þau fyrir dómstóla. Landsfundurinn fagnar því þess vegna að málið skuli loks vera komið í þann farveg, og að það liggur fyrir að aflað hefur verið nægilegs fjármagns frá einstaklingum og samtökum til þess að unnt verður að reka málið allt til enda.

Ályktun ekki borin upp til samþykktar.

c) Ályktun um stuðning LEB við Gráa herinn 

Landsfundur LEB haldinn í Rvík 30. júní 2020 samþykkir að LEB styðji Gráa herinn fjárhagslega og málefnalega í málsókn sinni gegn ríkinu varðandi skerðingar á greiðslum almannatrygginga vegna lífeyrissjóðsgreiðslna til eldri borgara.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

c) Ályktun um velferðarmál lögð fram á Landsfundi LEB 30. júní 2020.

Kjör aldraðra eru mismunandi og misjöfn eins og kjör allra annarra í samfélaginu. Landssamband eldri borgara hefur beitt sér fyrir margskonar endurbótum á kjörum þeirra sem eldri eru. Í mörgum málaflokkum hefur Landssambandið náð árangri þegar stjórnvöld hafa fylgt ráðleggingum þess og ábendingum. Til marks um þetta nefnir fundurinn kjör þeirra sem hafa búið við skertan lífeyrisrétt vegna búsetu erlendis en um 1000 manns hafa búið við slík kjör. Nú hefur Alþingi loksins samþykkt lög sem leiðréttir þetta óréttlæti, lögin um “félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.” Kjörin eru undirstaða fyrir heilbrigðan lífsstíl. Langvinn fátækt skaðar heilsu fólks. Þá bendum við á að áherslur okkar á uppbyggingu hjúkrunarheimila hafa haft áhrif þar sem um er að ræða myndarlegar áætlanir um hundruð nýrra rýma sem greinilega er fylgt eftir. Það er fagnaðarefni.

Landsfundurinn leggur áherslu á að enn er mikið starf óunnið og mun að sjálfsögðu halda áfram baráttu sinni við að tryggja og bæta réttindi eldri borgara.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar (hálfur lífeyrir) og hvetur Landsfundurinn til þess að frumvarpið verði að lögum sem fyrst. Sú samþykkt myndi bæta stöðu þess fólks sem er í almennu verkalýðsfélögunum og auðvelda þeim að eiga möguleika á sveigjanlegum starfslokum eins og aðrir hafa.

Landsfundurinn telur nauðsynlegt að áhersla sé lögð á samvinnu við sveitarfélögin og félagasamtök varðandi kjör aldraðra innflytjenda.

Áhugi aldraðra á heilsueflingu hefur aukist verulega sem eykur velferð og vinnur gegn ótímabærum veikindum og jafnvel einmanaleika. Þar skipta heilsustyrkir frá sveitarfélögunum mjög miklu máli og mikilvægt að koma þeim á sem víðast. Ennfremur ber að fagna áherslu á næringarrík og holl matvæli, sum sérstaklega ætluð öldruðum. Stór hópur aldraðra þarf á hjálpartækjum að halda til að geta tekið virkan þátt í mannlífinu. Má þar nefna bæði heyrnartæki og gleraugu. Stuðla þarf að því að efnahagur komi ekki í veg fyrir að aldraðir geti fengið slíkar nauðsynjar.

Landsfundurinn fagnar stefnumótun í málefnum fólks með heilabilun og aðgerðaráætlun sem nú hefur verið samþykkt og er komin til framkvæmda.

Fjölgun aldraðra kallar á nýjar áherslur og mikilvægi þess að gera þeim kleift að búa sem lengst heima. Þar mun velferðartækni skipta stöðugt meira máli og einfaldar og nauðsynlegar lausnir s.s. að tryggt sé að húsnæði ætlað þessum hópi uppfylli öll skilyrði um aðgengi. Landssambandið hefur tekið forystu í því að auðvelda fólki aðgengi að stafrænni tækni með bæklingagerð og opnað fyrir þekkingarleit á heimasíðu þess. Sú starfsemi verður efld.

Sú aukna þjónusta sem byggð hefur verið upp á vegum Heilsugæslunnar er ennfremur fagnaðarefni og hefur auðveldað öldruðum aðgengi að heilbrigðisþjónustunni. Þar ber sérstaklega að vekja athygli á verkefni hjá Reykjavíkurborg; Endurhæfing í heimahúsi sem er teymisvinna þar sem fulltrúar nokkurra starfsstétta sinna einstaklingum. Aðbúnaður á heimili er skimaður og gerð er áætlun um endurhæfingu. Þetta er verkefni þar sem náðst hefur mikill árangur í því að auka sjálfstæði og lífsgæði eldra fólks. Með þessari endurhæfingu verða margir einstaklingar sjálfsbjarga í þeim athöfnum sem skipta þá máli eins og dæmi sanna. Þessi þjónusta borgarinnar ætti að geta orðið öðrum sveitarfélögum fyrirmynd. Önnur sveitarfélög hafa á undanförnum árum unnið frumkvöðlastarf í bættum aðbúnaði aldraðra bæði á hjúkrunarheimilum og í heilsugæslunni.

Alltaf við gerð kjarasamninga

Landssamband eldri borgara mun beita sér fyrir því að kjör aldraðra verði dagskrárefni við gerð allra heildarkjarasamninga þannig að lífeyrir aldraðra hækki skilyrðislaust um leið og breytingar verða á almennum launamarkaði. Landssambandið skorar á verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda að gera þetta verkefni að skyldu við alla heildarkjarasamninga.

Áskorun á sveitarfélögin

Landssambandið leggur áherslu á að haldið verði áfram af krafti að byggja hjúkrunarheimili. Jafnframt er hér með skorað á sveitarfélögin að skapa samfellda þjónustustefnu við aldraða inni á heimilum þeirra. Fjölga þarf verulega dagdvalarrýmum og auka fjölbreytileika þeirra miðað við þarfir eldra fólks og aðstandenda þeirra. Brýnt er að stofna til skipulegs samráðs ríkis og sveitarfélaga  um alls konar þjónustu sem snýr að öldruðum. Það er óþolandi að skortur á samstarfi þessara aðila verði til þess að þjónustuþörf sé ekki sinnt. Það er verulegt áhyggjuefni hve margir aldraðir eru algjörlega bundnir yfir veikum maka og nauðsyn er á eflingu á þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Kannanir hafa sýnt að þar stendur Ísland sig mun verr en hin Norðurlöndin.

Annað:

Landsfundurinn hvetur heilbrigðisyfirvöld og sveitarfélögin, til að ná samkomulagi um rekstur hjúkrunarheimila sem allra fyrst, til að eyða óvissu.

Lýst var yfir áhyggjum af frumvarpi til laga um afgreiðslu á lyfjum þar sem það verður getur verið erfiðleikum bundið fyrir marga að láta sækja lyf fyrir sig.

Landsfundurinn telur mikilvægt að huga að fjölbreyttari búsetuúrræðum fyrir aldraða, s.s. þjónustuíbúðir eða sambýli.

Það þarf að verjast líka

Hlutfall aldraðra í samfélaginu á Íslandi fer hækkandi er nú 45 þúsund, 67 ára og eldri. Þess vegna þurfa Landssamtök aldraðra að búa sig undir að verja þau kjör sem aldraðir hafa náð að tryggja sér um leið og sótt er fram til endurbóta á þeim kjörum.

Samráðsvettvangur

Landsfundurinn telur að skapa  eigi samráðsvettvang um kjör aldraðra þar sem komi við sögu samtök atvinnurekenda, launafólks, sveitarfélaga, ríkisvaldsins og fulltrúar samtaka aldraðra. Þar verði fylgst reglulega með heildarkjörum aldraðra um leið og skapaðar verði forsendur til góðrar og vandaðrar þjónustu við alla þá sem þurfa á einstaklingsþjónustu að halda. Takist slíkur samráðsvettvangur vel má skoða hvort ástæða sé til að lögbinda hann.

Ofangreind áætlun var samþykkt samhljóða.

 

e) Laganefnd.

Guðmundur Guðmundsson, formaður nefndarinnar fór yfir tillögur að breytingum á lögum.

Helstu breytingar eru að liður 1.3 verður fremst í grein 2, en hún er öll ný. 4 gr. þar koma tveir nýir liðir um uppstillinganefnd og kjörbréfanefnd. 5. gr. víxlað er liðum 5.2 og 5.4. Liður 6.1.  Dagskrá landsfundar er nokkuð breytt og aðlöguð. 6.3 fundarritarar skulu vera tveir og breytt er tímafresti á skil fundargerðar. 7.9. viðbót að fjögurra ára reglan gildir um stjórnarmenn, þótt þeir hafi áður verið varamenn. 10. grein. Liðum 1 og 2 er víxlað.  11. gr. Bætt er við einum lið fremst um að aðildarfélög LEB skuli greiða árgjöld af öllum félagsmönnum sínum og að landsfundur ákveði árgjald.

Einnig lagði Guðmundur fram eftirfarandi álit laganefndarinnar.

Álit laganefndar á landsfundi LEB 30. júní 2020

Í laganefndinni störfuðu 7 fulltrúar.

Til nefndarinnar var vísað til umfjöllunar tillögum og greinargerð laganefndar LEB sem starfaði í vetur ásamt séráliti Finns Birgissonar. Einnig breytingartillögum frá Félagi eldri borgara í Ísafjarðarbæ og Félagi eldri borgara í Rangárvallasýslu.

Nefndin varð sammála um meðfylgjandi tillögu að lögum LEB (sjá fskj.) sem hún leggur fyrir fundinn.

Nefndin beinir því til stjórnar LEB að hún hvetji aðildarfélögin til frekari umræðu um lögin einkum varðandi aldursákvæði og mögulega aukaaðild. Einnig að laganefnd LEB verði starfandi allt árið.

 

Lög LEB með áorðnum breytingum fara hér á eftir.

 

Lög Landssambands eldri borgara

 1. gr. Heiti og heimili

1.1. Sambandið heitir Landssamband eldri borgara, skammstafað LEB.

1.2. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

 1. gr. Hlutverk og markmið

LEB er sjálfstætt starfandi landssamband félaga eldri borgara og hlutlaust gagnvart trúmálum og stjórnmálaflokkum.

Hlutverk LEB er að:

 • Vinna að því að á Íslandi sé gott að vera eldri borgari.
 • Hafa forystu í hagsmunabaráttu eldri borgara á landsvísu.
 • Stuðla að áhrifum eldri borgara í samfélaginu og þeir séu hafðir með í ráðum við ákvarðanir um eigin kjör.
 • Efla samstöðu og samkennd meðal eldri borgara.

 

Hlutverk sitt rækir LEB með því að:

2.1. Tala fyrir og vinna að framgangi málefna eldri borgara á landsvísu við: Alþingi, ríkisstjórn, önnur stjórnvöld, hagsmunafélög og samtök vinnumarkaðarins, aðra sem kunna að skipta máli vegna hagsmuna aldraðra.

2.2. Vinna að auknum skilningi og stuðningi annarra samfélagshópa við hagsmuni eldri borgara.

2.3. Vinna gegn aldursmismunun og allri annarri mismunun og stuðla að samvinnu fólks óháð uppruna.

2.4. Afla upplýsinga um aðstæður og kjör eldri borgara og miðla þeim til stjórnvalda, hagsmunafélaga og samtaka vinnumarkaðarins, eldri borgara og annarra þjóðfélagshópa.

2.5. Vinna að því að félög eldri borgara nái til allra eldri borgara í landinu.

2.6 Vinna og miðla fræðslu- og kynningarefni til aðildarfélaga.

2.7. Beita sér fyrir fræðslu og kynningarfundum varðandi málefni aldraðra.

2.8. Taka þátt í innlendu og erlendu samstarfi samkvæmt ákvörðun stjórnar.

 

 1. gr. Aðild

3.1. Aðild að sambandinu geta átt félög fólks, sem er 60 ára og eldra, og vinna að hagsmuna-, velferðar- og áhugamálum eldri borgara.

3.2. Þrátt fyrir aldursákvæði í 1. mgr. getur félag orðið aðili að LEB þó félagaaðild þess miðist við lægra aldursmark en réttindi og skyldur félagsins miðast við þá félagsmenn sem eru 60 ára og eldri.

3.3. Aðild nýrra félaga er háð samþykki landsfundar LEB en stjórn LEB getur veitt nýju félagi aukaaðild og rétt til þátttöku í starfsemi sambandsins án annarra réttinda fram að næsta landsfundi þar sem tillaga um aðild verður afgreidd. Umsókn nýrra félaga um aðild að LEB skal berast stjórn sambandsins eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir reglulegan landsfund.

3.4. Lög hins nýja aðildarfélags skulu fylgja umsókn um aðild og uppfylla skilyrði sem kveðið er á um í lögum LEB.

3.5. Stjórn aðildarfélags getur óskað eftir úrsögn úr LEB með sannanlegum hætti með 6 mánaða fyrirvara og tekur úrsögn gildi við næstkomandi áramót.

3.6. Félagsmaður, sem á aðild að fleiri en einu aðildarfélagi LEB, skal eigi njóta kosningaréttar um málefni LEB eða við kjör trúnaðarmanna sambandsins nema sem fulltrúi eins félags á fundum LEB.

 

 1. gr. Landsfundur

4.1. Landsfundur LEB fer með æðsta vald í málefnum sambandsins.

4.2. Landsfundur kemur saman ár hvert að vori til, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar LEB.

4.3. Stjórn LEB skal boða landsfund skriflega til aðildarfélaga og á heimasíðu sambandsins með minnst 6 vikna fyrirvara.

4.4. Dagskrá landsfundarins og tillögur, sem stjórn hyggst leggja fram, skulu fylgja fundarboði, sem og dagsetning og staðarval.

4.5. Tillögur ásamt greinargerð, sem aðildarfélög eða fulltrúar hyggjast leggja fyrir landsfund, skulu sendar stjórn LEB a.m.k. mánuði fyrir fundinn.

4.6. Minnst tveimur mánuðum fyrir landsfund skal stjórn skipa fimm manna uppstillingarnefnd sem gerir tillögur um fulltrúa í þau embætti stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanna og varaskoðunarmanna sem kjósa skal til á fundinum. Nefndin skal auglýsa á heimasíðu LEB eftir fólki í þau embætti sem kjósa skal til á komandi landsfundi. Einnig geta aðildarfélögin komið tilnefningum og/eða uppástungum á framfæri við nefndina.Tillögur nefndarinnar skulu liggja frammi á skrifstofu sambandsins og á heimasíðu LEB í minnst tvær vikur fyrir landsfund.

4.7. Minnst einum mánuði fyrir landsfund skal stjórn skipa þriggja manna kjörbréfanefnd. Nefndin yfirfer kjörbréf fyrir landsfundarfulltrúa og greinir frá niðurstöðu sinni á landsfundi.

4.8. Endurskoðaðir og áritaðir ársreikningar sambandsins ásamt skýrslu stjórnar skulu liggja frammi á skrifstofu sambandsins og á heimasíðu LEB í minnst eina viku fyrir landsfund.

4.9. Landsfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

 

 1. gr. Fulltrúar á landsfund LEB

5.1. Hvert aðildarfélag kýs fulltrúa til þess að sitja landsfund LEB á aðalfundi sínum eða á almennum félagsfundi, sem skal boðaður með sama hætti og aðalfundur viðkomandi félags.

5.2. Hvert aðildarfélag kýs fulltrúa á landsfund þannig að fyrir 1 – 150 félagsmenn fær félag einn fulltrúa, séu félagsmenn 151 – 300 fær félagið 2 fulltrúa og síðan einn fulltrúa fyrir hverja 300 félagsmenn til viðbótar, eða brot úr þeirri tölu.

5.3. Jafnframt kosningu fulltrúa á landsfund skal kjósa jafn marga varafulltrúa og raða þeim.

5.4. Félagsstjórn aðildarfélags gefur út kjörbréf fyrir landsfundarfulltrúa og skal senda það til stjórnar LEB a.m.k. 2 vikum fyrir landsfund, undirritað af formanni og ritara aðildarfélags.

5.5. Auk kjörinna fulltrúa til þátttöku á landsfundi eiga sitjandi stjórnarmenn LEB og varamenn þeirra og formenn fastanefnda LEB seturétt á landsfundi.

5.6. Félagatal aðildarfélaga LEB skal miða við næstliðin áramót fyrir landsfund, enda hafi viðkomandi aðildarfélag staðið skil á greiðslu árgjalds til LEB í samræmi við það samkvæmt gr. 11.1.

5.7. Stjórn LEB getur krafist þess að skrá um atkvæðisbæra (skuldlausa) félaga fylgi kjörbréfum fulltrúa félags á landsfund, svo og kröfu um aukalandsfund samkvæmt 10. gr.

 

 1. gr. Dagskrá landsfundar

6.1.      1. Kosning tveggja fundarstjóra og tveggja fundarritara.

 1. Niðurstaða kjörbréfanefndar.
 2. Skýrsla stjórnar um starfsemi sambandsins í liðnu starfsári.
 3. Ársreikningur lagður fram til umræðna og afgreiðslu.
 4. Starfs- og fjárhagsáætlun næsta starfsárs kynnt.
 5. Ákvörðun árgjalds.
 6. Tillögur um starfshópa fundarins.
 7. Málefnastarf.
 8. Samantekt starfshópa, afgreiðsla ályktana og tillagna.
 9. Lagabreytingar.
 10. Kosningar:
 11. a) kosning formanns til tveggja ára.
 12. b) kosning tveggja manna í stjórn  til tveggja ára.
 13. c) kosning þriggja varamanna til eins árs. Verði sjálfkjörið skal röð varamanna koma skýrt fram.
 14. d) kosning tveggja skoðunarmanna ársreikninga LEB og tveggja til vara, allra til eins árs.
 15. e) kosning nefnda sem starfa milli landsfunda.
 16. Önnur mál.

6.2. Stjórn er heimilt að fjölga dagskrárliðum svo sem um afmörkuð hagsmunamál aldraðra og ávörp gesta.

6.3. Fundarstjórar og fundarritarar landsfundar ganga frá fundargerð landsfundar til stjórnar LEB, sem skal senda aðildarfélögum sambandsins fundargerðina innan mánaðar frá landsfundi.

6.4. Komi ekki fram athugasemd frá aðildarfélögum innan tveggja vikna  þaðan í frá skoðast fundargerðin samþykkt og skal fundargerðin þá vera aðgengileg félagsmönnum á heimasíðu landsambandsins og með öðrum hætti.

 

 1. gr. Stjórn LEB

7.1. Stjórn LEB  fer með æðsta vald sambandsins og annast daglegan rekstur þess milli landsfunda. Hún er skipuð 5 mönnum, formanni kosnum annað hvert ár, og á hverjum aðalfundi skal kjósa tvo  menn til tveggja ára og þrjá varamenn til eins árs  í stjórn.

7.2. Á fyrsta fundi eftir landsfund skal stjórn skipta með sér verkum og velja varaformann,  ritara, og gjaldkera  úr hópi aðalmanna.

7.3. Stjórn LEB skal kappkosta að miðla upplýsingum um verkefni sambandsins til aðildarfélaganna þannig að þau geti jafnan sem best fylgst með framgangi og stöðu þeirra mála sem hún vinnur að.

7.4. Stjórn LEB skal halda a.m.k. fjóra stjórnarfundi á almanaksári. Stjórnarfundir skulu boðaðir með viku fyrirvara.

7.5. Fundargerðir stjórnarfunda skulu færðar til bókar og staðfestar með undirritun formanns eftir samþykki stjórnar.

7.6. Stjórn ræður starfsfólk LEB og semur um laun þeirra og starfskjör.

7.7. Stjórn LEB skal ráða löggiltan endurskoðenda til eftirlits með reikningshaldi sambandsins.

7.8. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur en fjögur ár samfellt í stjórn LEB.

7.9. Sá sem kosinn er formaður getur þó setið fjögur ár í því embætti, enda þótt hann hafi áður setið í stjórn sem aðalmaður. Á sama hátt getur stjórnarmaður setið fjögur ár samfellt í stjórn þó hann hafi áður verið varamaður.

 

8.gr. Nefndir og ráð

8.1. Þær nefndir sem kosnar eru á landsfundum skulu starfa á ábyrgð stjórnar LEB.

8.2. Stjórnin getur sett  þeim starfslýsingar og tímaramma og kallað eftir skýrslum um störf þeirra hvenær sem er á skipunartíma þeirra.

8.3. Stjórn LEB, nefndir og ráð skulu ekki hafa með höndum félagslega starfsemi sem aðildarfélög þess sinna að jafnaði.

 

 1. gr. Aukalandsfundir LEB

9.1. Krafa um boðun aukalandsfundar LEB þarf að berast frá 1/3 hluta aðildarfélaga LEB með tilgreindum ástæðum og tillögum til stjórnar LEB.

9.2. Málefni sem teljast fullnægja kröfu um boðun aukalandsfundar eru málefni sem hafa veruleg áhrif til skerðingar á hagsmunum eldri borgara eða starfsemi LEB.

9.3. Aukalandsfundur skal kallaður saman með minnst tveggja vikna fyrirvara.

9.4. Fundurinn getur aðeins fjallað um þau málefni, sem voru tilefni þess að hann var boðaður, nema fundurinn samþykki annað með 2/3 greiddra atkvæða fulltrúa.

9.5. Hafi nýir fulltrúar ekki verið kosnir í félögum, skulu sömu fulltrúar (varafulltrúar) og á síðasta reglubundna landsfundi fara með umboð félags.

 

 1. gr. Atkvæðagreiðslur og fundarsköp

10.1. Um stjórn funda LEB gilda almenn fundarsköp.

10.2. Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum við kosningar og afgreiðslu almennra mála á landsfundum og aukalandsfundum. Þó geta fimm aðildarfélög eða 8% þingfulltrúa hið minnsta óskað eftir að atkvæðavægi aðildarfélaga fari eftir félagafjölda hvers félags og ráði úrslitum í þeim málum sem varða verulegar fjárhagslegar skuldbindingar eða stefnumarkandi ákvarðanir. Um breytingar á lögum sambandsins fer þó samkvæmt 14. gr. og um sambandsslit samkvæmt 15. gr.

 

 1. gr. Fjármál

11.1. Aðildarfélög LEB skulu greiða árgjöld til sambandsins af öllum félagsmönnum sínum m.v. síðustu áramót. Landsfundur ákveður upphæð árgjalds.

11.2. Stjórn LEB ber ábyrgð á fjármálum og öllum rekstri sambandsins.

11.3. Allar ákvarðanir um óregluleg útgjöld og fjárhagslegar skuldbindingar sambandsins skulu teknar á formlegum stjórnarfundum LEB.

11.4. Stjórn LEB skal leitast við að haga rekstri í samræmi við tekjur af félagsgjöldum, framlögum og styrkjum.

11.5. Reikningsár sambandsins er almanaksárið. Ársreikninga hvers árs skal leggja fram á stjórnarfundi á fyrsta ársfjórðungi nýs árs, áritaða af löggiltum endurskoðenda og skoðunarmönnum reikninga sambandsins.

11.6. Stjórn LEB ber að beita sér fyrir öflun styrktaraðila.

 

 1. gr. Ferða- og dvalarkostnaður

12.1. Útlagður ferða- og dvalarkostnaður vegna fulltrúa á landsfundi greiðist allt að hálfu af LEB eftir athugun og ákvörðun stjórnar.

12.2. Ferða- og dvalarkostnaður fulltrúa í nefndum, sem starfa á vegum stjórnar LEB, skal greiddur af sambandinu eftir athugun og ákvörðun stjórnar.

 

13 gr. Kynningar- og útgáfumál LEB

13.1. Stjórn LEB ber ábyrgð á kynningarmálum sambandsins.

13.2. Stjórnin metur eftir aðstæðum hvort kynningarmálum er sinnt á vefrænan hátt eða með útgáfustarfi.

 

 1. gr. Lagabreytingar

14.1. Stjórn og/eða aðildarfélög geta lagt fram tillögur til lagabreytinga.

14.2. Tillögur til lagabreytinga skulu sannanlega hafa borist stjórn LEB með tveggja mánaða fyrirvara fyrir landsfund og er þá stjórn skylt að kynna þær aðildarfélögum í fundarboði og leggja þær fram á landsfundi.

14.3 Lögum þessum verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða landsfundarfulltrúa.

 

 1. gr. Sambandsslit

15.1.Tillaga um slit LEB skal kynnt stjórn LEB og aðildarfélögum með a.m.k. tveggja  mánaða fyrirvara fyrir boðaðan landsfund.

15.2. Við afgreiðslu tillögunnar þarf samþykki ¾ hluta atkvæðisbærra fulltrúa á landsfundi.

15.3. Verði tillaga um slit LEB samþykkt á landsfundi skal stjórn LEB þá sitja áfram og boða til aukalandsfundar fjórum til sex mánuðum síðar til lokaafgreiðslu tillögu um slit sambandsins.

15.4.Verði tillaga um slit samþykkt á síðari landsfundi skal leggja niður starfsemi landssambandsins og skulu það vera lögleg félagsslit.

15.5. Verði LEB þannig löglega lagt niður skulu eigur þess renna til stofnunar, stofnana eða aðildarfélaga LEB, sem stuðla að velferð aldraðra, eftir nánari ákvörðun aukalandsfundar sambandsins eða nefndar sem aukalandsfundur kýs til að ganga formlega frá félagsslitum.

 

 1. gr. Gildistaka

16.1. Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi fallin eldri lög LEB.

 

Fundarstjóri bar lögin í heild sinni upp til afgreiðslu og voru þau samþykkt með meginþorra atkvæða gegn fjórum.

 

12.  Kosningar

 1. a) Kosning tveggja aðalmanna til tveggja ára og þriggja varamanna til eins árs.

Listi uppstillingarnefndar var sjálfkjörinn, þar sem fleiri framboð höfðu ekki borist. Í aðalstjórn til tveggja ára voru kjörin Valgerður Sigurðardóttir Hafnarfirði og Ingibjörg H. Sverrisdóttir Reykjavík.

Áfram sitja í stjórn Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður, Haukur Halldórsson og Dagbjört Höskuldsdóttir.

Varamenn til eins árs voru kjörin þau Ingólfur Hrólfsson Mosfellsbæ, Þorbjörn Guðmundsson Reykjavík og Guðfinna Ólafsdóttir Selfossi.

 

KAFFIHLÉ

 1. b) Kosning tveggja skoðunarmanna ársreiknings LEB.

Skoðunarmennirnir voru sjálfkjörnir, Ástbjörn Egilsson Garðabæ og Árni Jósep Júlíusson Reykjanesbæ. Varamenn voru einnig sjálfkjörnar Hildigunnur Hlíðar Garðabæ og Guðrún Ágústsdóttir Reykjavík.

13.  Önnur mál.

 1. a) Jón Ragnar Björnsson FEB Rang. Hann sagði að eldri borgarar virtust áhrifalausir í þjóðfélaginu, þeir væru sundurlaus hópur sem vanti virðingu. Hvatti til meiri samstöðu hópsins og aukinnar virðingar til að hægt sé að herða á baráttuaðferðum. Það þurfi meira fjármagn, fleiri félaga. Landssambandið væri rétti vettvangurinn til að vinna þessu máli framgang.
 2. b) Ingvar Guðmundsson, formaður FEB Siglufirði. Fyrir síðustu kosningu var látið berast út á Siglufirði að eldri borgarar ætluðu að bjóða fram sér lista. Forsvarsmenn listanna urðu hræddir um að þeir næðu góðri kosningu og buðu því nokkrum á lista. Eldri borgarar eru fulltrúar í nefndum og hafa þar áhrif. Við þurfum sjálf að tala okkar máli. Áfram eldra fólk.
 3. c) Drífa Sigfúsdóttir. Eldri borgarar þurfa að vinna saman, vekja athygli á sér, skrifa í blöð, standa fyrir viðburðum, fundum, ráðstefnum og fleira.
 4. d) Sigurður Sigfússon. Hann er í stjórn VR, sem hefur stutt Gráa herinn myndarlega fjárhagslega og sagðist vera stoltur af samþykkt stuðningsyfirlýsingar við herinn.
 5. e) Þórunn Sveinbjörnsdóttir hvatti félaga til dáða. 17. september verður ráðstefna um einmanaleika og félagslega einangrun. Öldrunarráð Íslands er með ráðstefnu um öldungaráð sveitarfélaganna. LEB fékk styrk frá ráðuneytinu til gera rannsókn á þeim. Soffía Erlingsdóttir fékk styrk frá LEB til að vinna rannsóknina. Öldungaráðin hafa áhrif. Byrjað er að ræða um að fá réttargæslumann fyrir eldri borgara og einnig um samleið þeirra með stéttarfélögunum og Öryrkjabandalagini. Virðing fyrir eldri borgurum jókst í Covid.

Fræðsluerindi.

 1. a) Fjármál við starfslok og akstur á efri árum – nýjar leiðir.

Björn Berg Gunnarsson fræðslufulltrúi Íslandsbanka flutti. Hann sagði eldri borgara vera vaxandi hóp. 3.600 manns eru 66 ára. Nauðsynlegt er að huga að fjármálum við starfslok, einkum hvað varðar lífeyrissjóð, sölu eigna og skattamál. Kerfin eru flókin og er oft verið að breyta þeim. Skoða þarf kostnað við rekstur á eigin bíl og gera samanburð við aðra möguleika eins og að taka strætó, leigubíl og svo væru margar leiðir til að taka bíl á leigu. Bæklingur um akstur eldri borgara er að koma út. Fyrir 65 ára aldur þurfi að huga að skiptingu réttinda milli hjóna.

Formaður þakkaði fræðsluna og þær Stefanía formaður FEB í Garðabæ bentu á möguleikann á að fólk geti fengið aðgang að reikningum maka m.a. vegna útfararkostnaður. Formaður benti einnig á bækling frá Samgöngustofu og vinnu við að ekki þurfi að endurnýja ökuskírteini eins oft og nú þarf.

Að loknu erindinu færði formaður þeim Ólafi Erni Ingólfssyni og Drífu Sigfúsdóttur blóm sem þakklætisvott en þau eru að hætta í stjórn LEB.

 

Viðar Eggertsson kynnti fyrirkomulag vegna kvöldverðar.

 

 

 1. b) Áhrif heilsueflingar á eldri borgara.

Heilsuefling Janusar var kynnt af Ingva Guðmundssyni MSc í íþrótta- og heilsufræði og Daða Janussyni MSc í verkfræði. Í máli þeirra kom fram að verkefnið Fjölþætt heilsuefling fyrir 65+ er unnið í Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum og í Grindavík. Einnig á Spáni og í Litháen. Næsta haust er ætlunin að stofna opinn markað með það á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt lögum eru ríki og sveitarfélög skuldbundin til að sjá um heilsueflingu eldri borgara. Hjúkrunarleiðin er því miður oftast nýtt, en hún er mun dýrari en forvarnarleiðin. Fólk á að geta verið sem mest heima. Ýmis konar mælingar eru gerðar tvisvar á ári og eru eldri íþróttakennarar oft nýttir við þá framkvæmd. Samstarf er við lækna og hjúkrunarfræðinga á hverjum stað. Nauðsynlegt er að sinna bæði styrktar- og þolþjálfun, auk þess að huga að mataræðinu. Spáð er að eldri borgurum fjölgi úr 42,311 í 68.233 á næstu 15 árum og kostnaður vegna dvalar á hjúkrunarheimilum hækki samsvarandi. Kostnaður við 100 þátttakendur er sambærilegur við ársdvöl einstaklings á hjúkrunarheimili. Vakin var athygli á fyrirmyndarfordæmi Hafnarfjarðar með því að veita eldri borgurum góðan frístundastyrk.

Fundarslit.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður, þakkaði fyrirlesurum og bauð fólki að taka með sér fernu af Næringu+ frá MS. Las síðan upp eftirfarandi sem henni barst frá einum fundarmanni:

Fundur Landsfundar FEB 2020 haldinn 30. júní fagnar samþykkt orðunefndar til forseta Íslands um orðuveitingar þríeykisins, sem hefur sett í forgang umönnun veikra og aldraðra um allt land á þessum fordæmalausu tímum þegar Covid barst um allan heim. Alma Möller, Þórólfur Guðnason og Víðir Reynisson. Við skulum senda þeim þakkir og kveðjur fyrir að hafa verndað okkur eins vel og þau gerðu, því þau settu það algjörlega á oddinn að aldraðir nytu forgangs í allri vernd á þessum tíma.

Formaður sleit síðan fundi kl. 17.15.

 

Fundargerð rituðu: Hallgrímur Gíslason og Hildigunnur Hlíðar.