fbpx

 

Það er einlægur ásetningur nýs formanns LEB, Helga Péturssonar, að heimsækja öll félögin 55 innan LEB við fyrsta tækifæri.

Þessu hét Helgi þegar hann var kjörinn formaður á landsfundi LEB í maílok 2021 að hann myndi gera og það má með sanni segja að hann sé þegar farinn að efna það loforð.

Fyrir nokkrum vikum hitti hann félaga í FEBRANG  á Hellu – fínn fundur og fjölmennur, þar sem Jón Ragnar Björnsson, formaður tók á móti. Það gleymdist að vísu að taka myndir, en menn geta nú ekki munað alllt.  Gaman að geta þess, að þeir Jón Ragnar og Ingólfur Hrólfsson, formaður í FAMOS í Mosfellsbænum tóku að sér að setja saman samanburðartöfluna um málefni eldra fólks og áherslur stjórnmálaflokkanna, sem birt var á heimasíðu LEB og víðar fyrir kosningar. Steinunn Valdimarsdóttir, verkefnastjóri okkar, sá um hönnun á skjalinu.

Sunnudaginn 3. október var Helgi formaður á fundi með FEBBN í Borgarnesi í síðdegiskaffi að góðum hópi félagsmanna. Sóley Sigþórsdóttir, nýr formaður félagsins, kynnti metnaðarfulla dagskrá framundan og eftir yfirferð formanns LEB um áhersluatriði eldra fólks, nutu fjölmargir gestir kaffiveitinga.

Dagana 6.- 8. október lá leiðin vestur á Firði, fyrst á Hólmavík þar sem Hanna Sverrisdóttir stýrir Félagi eldri borgara í Strandasýslu. Þar var góður fundur í félagsheimilinu þar sem um 40 félagar mættu.

Fimmtudaginn 7. oktober tók formaður LEB þátt í ráðstefnu sem Félag eldri borgara á Ísafirði og nágrenni hélt um hugmyndir að þjónustu við aldraða.  Frumælendur fyrir utan formann LEB voru Halldór S.Guðmundsson dósent við Háskóla Íslands og fyrrum forstjóri öldrunarheimila Akureyrar sem tekið hefur saman drög að stefnu í málefnum aldraðra til næstu áratuga, Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðar og Margrét Geirsdóttir, sviðsstjóri hjá Ísafjarðarbæ.

Formaður félagsins á Ísafirði er Sigrún C. Halldórsdóttir.  Aðsókn var mjög góð, um eitthundrað manns sóttu ráðstefnuna.

Nýkjörinn formaður félagsins í Bolungarvík, Björgvin Bjarnason, stjórnaði fínum fundi í nýju húsnæði félagsins í kjallara hjúkrunarheimilisins, sem nokkrir félagar hafa innréttað.

Loks sótti formaður LEB fund í Félagsheimilinu á Patreksfirði, en formaður þar er Rafn Hafliðason.

Hér er þakkað fyrir frábærar móttökur sem formaður LEB fékk á öllum þessu stöðum, þar sem í boði er fjölbreytt tómstundastarf, margvísleg listsköpun og samvist.

 

 

 

Fjölmenn og góð ráðstefna á vegum Félags eldri borgara á Ísafirði