„Fólk um fimmtugt þarf að fara að velta fyrir sér hvernig það ætlar að haga fyrstu árum eftirlaunaskeiðsins og spá í afkomu sína á efri árum. Þá kemur sér til dæmis vel að hafa lagt fyrir í séreignarsjóði því golfið er dýrt, skógræktin líka, góðir bílar kosta sitt og fleira sem menn hyggjast gera kostar umtalsverða fjármuni!
Margir spá lítið sem ekkert í þetta fyrr en starfslok eru á næsta leiti og vita lítið um hvað bíður þeirra. Slíkt þekkingarleysi er versti óvinur þeirra sem fara á eftirlaun.“
Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir veit hvað hún syngur í þessum efnum og ríflega það. Hún á að baki áratugastarf í verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðakerfinu og tók við formennsku í Landssambandi eldri borgara í fyrra eftir að hafa gegnt formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík. Hún er stjórnarmaður í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, skipuð þar til 2020.
Á síðasta kafla æviskeiðs minnka flestir verulega umsvif sín á vinnumarkaði eða hætta alveg, setjast í helgan stein eins og gjarnan er kallað. „Steinninn“ í orðatiltækinu merkir víst upprunalega klaustur í fornu máli. Víst er að hvorugt á við um Þórunni. Hún slær ekki af í vinnu og er enn síður á leið í klaustur.
24.000 manna bakland
Þórunn hefur í mörg horn að líta sem leiðtogi heildarsamtaka eldri borgara á Íslandi. Skráðir eru alls 24.000 manns í 52 félögum um allt land. Yfirbygging samtakanna er eins lítil og hugsast getur.
Þórunn er eini starfsmaðurinn og skrifstofan er að Sigtúni 42, reyndar á sömu hæð og aðsetur lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, Brúar. Öðrum starfsmanni verður mögulega bætt við í haust en ekki nema staða og fjárhagur leyfi, segir formaðurinn ákveðið.
Landsamband eldri borgara gefur út blaðið Listin að lifa tvisvar á ári og í samtökin er hóað af öllu mögulegu tilefni sem varðar hag, líf og starf félagsmanna. Nýlega gáfu samtökin út bækling um slysahættu og forvarnir í heimahúsum í samstarfi við Landsbjörg. Önnur mál á borði formannsins varða til dæmis velferðartækni, aldursvæna Reykjavík, tannlæknaþjónustu og hvernig hægt er að hægja á öldrun með hreyfingu, breyttu mataræði og jákvæðu viðhorfi til lífsins. Þórunn nefnir líka norrænt samstarf eldri borgara sem hún tekur þátt í og segir að sé lærdómsríkt og mikilvægt.
Svo eru kjaramál og aðstæður eldri borgara í samfélaginu eilífðarviðfangsefni og Þórunn er stöðugt á fartinni að sækja fundi, ráðstefnur og samkomur af öllu mögulegu tagi. Henni er meira að segja boðið á fundi hjá Lions, Rotary eða Kiwanis til að fjalla um málefni skjólstæðinga sinna. Ímynd þessara klúbba er sú að þar halli mjög á kvenkynið á félagaskrám en Þórunn er vön því að vera í karlaumhverfi í störfum sínum. Hún var til að mynda fyrsta konan og sú eina alla tíð í stjórn Sambands almennra lífeyrissjóða – SAL.
Þórunn var líka eftirsóttur fyrirlesari og leiðbeinandi á trúnaðarmannanámskeiðum verkalýðsfélaga og talar á námskeiðum ætluðum fólki sem nálgast starfslok eða er að hefja eftirlaunaskeiðið. Hún hefur af mörgu að miðla og segir að trúnaðarmaður verkalýðsfélags standi tæplega undir nafni nema vera viðræðuhæfur um lífeyrismál og frætt sitt fólk um lífeyrisjóði og lífeyrissjóðakerfi landsmanna.
Stjórnarseta í fjórum sjóðum og tvennum heildarsamtökum
„Ég tók við formennsku af Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur í Starfsmannafélaginu Sókn 1987 og hafði þá verið varaformaður stjórnar um hríð og tekið þátt í kjarasamningum. Aðalheiður var mikill karakter og minnisstæð. Hún hvarf fyrirvaralítið af vettvangi Sóknar vegna veikinda eiginmanns síns og ég tók við keflinu.
Jafnframt stjórnarformennsku í Sókn tók ég sæti í Lífeyrissjóði Sóknar og seinna á þessu sama ári fór ég í stjórn Sambands almennra lífeyrissjóða fyrir áeggjan Ásmundar Stefánssonar, forseta Alþýðusambands Íslands. Þar var ég í stjórn þar til SAL sameinaðist Landssambandi lífeyrissjóða og Landssamband lífeyrissjóða varð til 1999. Á þessum árum var ég í stjórnum Lífeyrissjóðs Sóknar og síðan lífeyrissjóðanna Framsýnar og Gildis.
Svo var ég í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða frá stofnun til 2007 og varð eftir það ráðherraskipaður stjórnarmaður Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Árin í stjórnum lífeyrissjóða og heildarsamtaka þeirra eru orðin 31 samfellt og tvö ár í viðbót eftir af skipunartímanum í Söfnunarsjóðnum.
Sjálfsagt má finna nokkra karla sem hafa álíka langa sögu að baki á þessum vettvangi en alveg örugglega enga aðra konu. Ég var fyrsta konan í stjórn SAL og alltaf var mikið karlatal í kringum mig í stjórninni. Mér líkaði það bara vel. Þetta voru allt miklir vinir mínir og eru enn!“
Umbrota- og sameiningartímar undir aldamótin
Þórunn upplifði mikla sameiningartíma í verkalýðshreyfingunni og sömuleiðis í lífeyrissjóðakerfinu á sama tíma. Þau umbrot voru að sjálfsögðu nátengd.
Nær aldamótum sameinuðust nokkur verkalýðsfélög, Dagsbrún, Framsókn, Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum, og hófu starfsemi sem Efling stéttarfélag í byrjun árs 1999. Iðja, félag verksmiðjufólks slóst í Eflingarhópinn ári síðar.
Lífeyrissjóðir Dagsbrúnar, Framsóknar, Iðju og Sóknar sameinuðust og urðu Framsýn í ársbyrjun 1997. Fáeinum árum síðar sameinuðust Framsýn og Lífeyrissjóður sjómanna og Gildi tók til starfa í ársbyrjun 2005.
Hátt örorkuhlutfall – mikil áhætta
„Lífeyrissjóðir landsins voru yfir 80 talsins þegar ég varð stjórnarmaður í Sóknarsjóðnum. Gunnar Zoega, löggiltur endurskoðandi, sá um sjóðinn og hafði líka Iðjusjóðinn á sinni könnu. Hann benti á að þessar rekstrareiningar væru of smáar og veikburða. Sama gerði Halldór Björnsson, formaður Dagsbrúnar, og Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri messaði yfir okkur af þessu tilefni líka.
Allir bentu þeir á að örorkuhlutfall Iðju- og Sóknarsjóðanna væri mjög hátt. Áhættan væri því mikil vegna umfangsmikilla skuldbindinga sem iðgjaldagreiðslur stæðu aldrei undir ef illa færi.
Sameining varð því niðurstaðan og þar var farsælt spor stigið. Karl Benediktsson var framkvæmdastjóri nýja sjóðsins, Framsýnar, til að byrja með og síðan Bjarni Brynjólfsson. Í tíð Bjarna var byrjað að skyggnast um eftir vænlegum og traustvekjandi verðbréfasjóðum erlendis til að fjárfesta í. Hrafn Magnússon, framkvæmdatjóri SAL, og fleiri fóru þá utan til að kynna sér málið. Þetta var aðdragandi fyrstu erlendu fjárfestinga SAL-sjóðanna af þessu tagi.“
Heilarlöggjöf lífeyrissjóða framsýn
Heildarlöggjöf um starfsemi lífeyrissjóða var samþykkt á Alþingi 1997, lög nr. 129/1997 sem oft og iðullega hefur verið vísað til undanfarna tvo áratugi. Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir var í nefnd sem starfaði að endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins á árunum 1995-1997.
„Aðdragandinn var endurskoðaður kjarasamningur á almennum vinnumarkaði sem samþykkur var 1995. Á grundvelli þess samnings varð til ný heildarlöggjöf um lífeyrissjóði. Verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda skipuðu fulltrúa sína í nefnd til að vinna að málinu. Við Gylfi Arnbjörnsson og Guðmundur Hilmarsson vorum þar á meðal og Þórarinn Viðar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, af hálfu atvinnurekenda, svo nokkrir séu nefndir.
Löggjöfin einkenndist af framsýni. Litið var á opinbera almannatryggingakerfið sem stoð nr. eitt í lífeyriskerfi landsmanna en á lífeyrissjóði sem stoð nr. tvö.
Síðan fór ríkisvaldið að skerða framlög almannatrygginga eftir því sem lífeyrissjóðirnir efldust og í tíð Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra voru hreinlega höfð endaskipti á hlutunum. Hún leit á lífeyrissjóðina sem stoð nr. 1 í kerfinu og um málið hafa skapast deilur sem sér ekki fyrir enda á.
Í lífeyrissjóðalögunum er kveðið á um að lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóðir veita miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds færi sjóðfélögum ævilangan lífeyri sem svari til 56% af mánaðarlaunum. Við sjáum nú að við þetta markmið verður ekki staðið að óbreyttu vegna þess að þjóðin lifir sífellt lengur og skuldbindingar lífeyrissjóða aukast að sama skapi.“
Óhæf lög um hálfan lífeyri
„Stórverkefni bíða baklands lífeyrissjóðakerfisins og forystufólks í Landssambandi lífeyrisjóða að glíma við. Lög um hálfan lífeyri eru til dæmis meingölluð og óhæf. Þeim verður að breyta strax. Skerðing lífeyris almannatrygginga og hringl með frítekjumarkið hvetur fólk, sem vill vinna lengur, til að vinna ekki.
Sama á við um lagaákvæði um að menn geti ekki greitt í lífeyrissjóði nema til sjötugs. Því „þaki“ ætti að lyfta og gera þeim mögulegt að vinna fram yfir sjötugt sem það vilja. Þeir hinir sömu greiða þá jafnframt lengur í lífeyrissjóði en kveðið er á um í gildandi lögum.
Menn eiga að geta aflað sér tekna seint á ævinni ef þeir svo kjósa. Er til dæmis ekki skortur á leiðsögufólki í ferðaþjónustu? Margir sækja sér leiðsöguréttindi og starfa sem slíkir á efri árum, langt fram yfir sjötugt. Samfélagið þarf á kröftum þeirra að halda sem vilja vinna, geta unnið og ganga að störfum vísum. Krafa og kall tímans er að auðvelda fólki á efri árum að vinna en ekki að refsa því.“