Starfslok eru tímamót í lífi hvers manns og fela í sér miklar breytingar. Auðveldara er að takast á við slíkar breytingar með undirbúningi, þ.e. ef maður er búinn undir það sem koma skal, svo skrefið inn í nýja tíma verði ekki erfitt heldur frekar fullt af tilhlökkun. En hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að starfslokum?
Vinnan
Vinnustaðurinn er sá staður þar sem flestir eyða hvað mestum tíma sínum í gegnum ævina. Vinnan hefur oftast nær þann tilgang fyrir einstaklinginn að afla tekna. Þegar betur er að gáð þá gerir vinnan miklu meira en það, hún viðheldur félagslegum tengslum, hún er staður þar sem fólk hittist og tilheyrir ákveðnum hópi. Vinnan veitir líka ákveðna viðurkenningu og fólk upplifir sig eins og það skipti máli.
Lífeyrissjóðir
Á Íslandi er algengast að fólk hefji töku lífeyris við 67 ára aldur. Sumir starfa þó lengur en aðrir skemur. Þetta er misjafnt eftir ráðningarsamningum, mannauðsstefnu fyrirtækja eða til dæmis ákvæðum í kjarasamningum. Til að mynda hafa sum stéttarfélög það sem kallast 95 ára regla, en með henni er átt við samanlagðan iðgjaldatíma og lífaldur. 95 ára reglan gerir þeim starfsmönnum sem falla undir hana kleift að hefja töku lífeyris fyrir 65 ára aldur.
Til að öðlast rétt á greiðslu ellilífeyris frá Tryggingastofnun þarf einstaklingur almennt að hafa náð 67 ára aldri og hafa í það minnsta búið hér á landi í þrjú ár á aldrinum 16-67 ára. Einstaklingar á íslenskum vinnumarkaði safna einnig upp rétti til lífeyris með lífeyrissparnaði. Almennt hefja lífeyrissjóðir útborgun lífeyris við 67 ára aldur en nokkrir sjóðir geta heimilað sjóðfélögum sínum að fresta töku lífeyris til 70 ára aldurs eða flýta henni um allt að fimm ár.
Starfslok
Tíminn eftir starfslok, eftirlaunaárin, getur verið álíka langur þeim tíma sem fólk er á vinnumarkaði, eða um 20-30 ár. Því eru það miklar breytingar í lífi fólks þegar kemur að starfslokum og eftirlaunin taka við.
Starfslok eru tímamót sem starfsmann, maka og aðra fjölskyldumeðlimi hefur gjarnan dreymt um. Þau eru skilgreind sem tækifæri til að upplifa frelsi frá þrýstingnum sem verður til í starfi, ábyrgðinni og takmörkun frítíma. En einnig geta þetta verið tímamót sem margir kvíða fyrir, vinnan hefur lengi verið hluti af lífi fólks og skapað ákveðna rútínu. Við það að missa þessa hefðbundnu rútínu sem vinnan gaf getur fólk upplifað sig vonsvikið og ráðvillt og jafnvel fundið til þunglyndis. Rannsóknir sýna að til þess að fólk geti tekist á við þessar miklu breytingar í lífi sínu skiptir miklu máli að undirbúa sig fyrir tímamótin til að fylla upp í það skarð sem vinnan skilur eftir sig. Helstu áhyggjuefnin og jafnframt þau atriði sem sérstaklega er mikilvægt að undirbúa af fremsta megni fyrir starfslok eru fjármál, heilsa, að halda virkninni og ástvinamissir.
Félagsleg virkni
Það að vera félagslega virkur og halda áfram að hitta og eiga í samskiptum við annað fólk er talið eitt af lykilatriðunum til að fólki líði vel og njóti sín á eftirlaunum. Félagsleg virkni kemur í veg fyrir að fólk einangrist og það upplifir sig áfram sem þátttakanda í samfélaginu. Upplifir að það hafi einhvern tilgang og hlutverk.
Mikilvægt er að fólk finni eitthvað sem veitir því ánægju og tilgang, eitthvað sem það hefur lengi langað til að gera og veitir bæði andlega og líkamlega hreysti.
Rannsóknir sýna að þýðingar- og afkastamikil virkni, oftast í samhenginu vinskapur, skyldleiki og þátttaka í skipulagðri starfsemi, er lykill að heilbrigði og eykur jafnframt lífslíkur seinni hluti ævinnar. Sú félagslega virkni sem helst hefur verið í boði fyrir fólk eftir að það hættir að vinna eru félagsmiðstöðvar eldri borgara. Þar geta eldri borgarar hist, tekið þátt í tómstundastarfi, notað þá þjónustu sem er í boði og viðhaldið þátttöku sinni í samfélaginu.
Heilsa
Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) er heilbrigði skilgreint sem ástand fullkominnar líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar, ekki aðeins að fólk sé laust við sjúkdóma og heilsubresti. Líffræðilega ferlið felur í sér að eftir því sem fólk verður eldra verður heilsan verri. En það er ekki bara hækkandi aldur sem hefur áhrif á heilsuna heldur einnig lífið sjálft, hvernig fólk lifir lífi sínu. Það er því mikilvægt að huga vel að heilsunni, með góðri heilsu eykur fólk líkurnar á að lifa lengur og á auðveldara með að taka þátt og gera það sem það hefur alltaf langað til að gera.
Starfslokanámskeið
Starfslokanámskeið eru haldin á Íslandi. Markmið þeirra er að undirbúa fólk fyrir starfslokin. Þegar kemur að eftirlaunaaldrinum er mikilvægt að fólk sé búið að aðlaga sig breyttum aðstæðum og búa sig undir að halda áfram að lifa innihaldsríku lífi. Þess vegna eru starfslokanámskeið tilvalin fyrir fólk sem nálgast þessi tímamót en þau eru í boði fyrir fólk 60 ára og eldri og eru þátttakendum að kostnaðarlausu.
Að mörgu er að huga þegar kemur að starfslokum og fólk veit ekki fyrir víst hvert það á að leita eftir upplýsingum sem starfslokum tengjast. Slík námskeið geta komið í veg fyrir þá óvissu sem fólk getur upplifað. Einnig má segja að þessi námskeið fái fólk til að koma kollinum af stað. Fólk áttar sig á því að þessi tímamót eru að nálgast og að byrja þurfi tímanlega að huga að þeim.
Gott að hafa í huga þegar starfslok nálgast
- Hugaðu að starfslokunum tímanlega, frekar fyrr en seinna.
- Í flestum tilfellum er auðveldara að takast á við miklar breytingar þegar maður er undirbúinn, starfslok eru þar ekki undanskilin.
- Starfslokanámskeið eru mjög góð sem fyrsta skref í undirbúningnum. Þau eru aðgengileg öllum þeim sem hafa náð 60 ára aldri. Á slíkum námskeiðum eru margir fagaðilar sem halda fyrirlestra og svara spurningum, til dæmis frá lífeyrissjóðunum, félagsstarfi eldri borgara og fleirum.
- Kynntu þér fjárhagslega stöðu þína, hvernig staða þín verður þegar þú ferð á eftirlaun. Ef tekjutapið verður mikið getur þú aðlagað þig því. Þessi mál geta líka verið flókin og því gott að vera búinn að kynna sér þau og hvaða rétt þú hefur.
- Hugsaðu vel um heilsuna, bæði andlega og líkamlega. Heilsan er mikilvæg í gegnum allt lífið, en sérstaklega á efri árum. Gott mataræði, hreyfing og andleg vellíðan eru grunnurinn að farsælu lífi.
- Finndu þér hreyfingu sem hentar þér, gönguferðir, sund, leikfimi eða hjólreiðar eru góð dæmi. Eitthvað sem veitir þér ánægju.
- Áhugamál, til dæmis að föndra eða sauma, spila golf, veiða, prjóna og margt fleira. Allir ættu að eiga sér góð áhugamál en sérstaklega eru þau mikilvæg þegar fólk hættir að vinna og frítíminn verður meiri. Félagsstarf tengt eldri borgurum er í flestum bæjarfélögum og í boði fyrir fólk 60 ára og eldri. Þar er ýmislegt í boði.
- Halda góðum tengslum við vini og ættingja.
- Að fara inn í þessi tímamót með opnum huga, þetta eru miklar breytingar en með jákvæðum huga og góðum undirbúningi geta þetta verið ánægjuleg ár, tíminn þegar þú getur loksins gert það sem þig hefur alltaf langað til að gera og haft nægan tíma til.
- Þegar að starfslokum kemur er gott að mynda ákveðna rútínu, setja sér dagskrá og fylgja henni til að detta ekki niður í leti.
Greinin birtist fyrst á vef TM