fbpx

Tilslakanir frá samkomubanni og sóttvarnarráðstöfunum vegna COVID-19 sem taka gildi 4. maí 2020

Leiðbeiningar frá Embætti landlæknis sem gilda fyrir:

  • Akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og aldraða
  • Félagsmiðstöðvar fyrir fullorðna – félagsstarf eldri borgara
  • Íbúðir fyrir eldri borgara

Tilslakanir frá samkomubanni taka gildi þann 4. maí og snúa einkum að fjöldatakmörkunum auk þess sem þjónustu sem lokað var vegna mikillar nándar við viðskiptavin er heimilt að opna á ný. Þó mikið hafi áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn. Markmiðið er áfram að verja þá sem eru í áhættuhópum gegn smiti og starfsmenn í þjónustunni og því mikilvægt er að fara með ítrustu gát. Í þessum leiðbeiningum eru settar fram almennar leiðbeiningar um sóttvarnarráðstafanir sem eiga við um alla velferðarþjónustu auk sérstakra leiðbeininga fyrir þá þjónustuþætti sem eru taldir upp hér að ofan. Leiðbeiningarnar eru unnar með hliðsjón af leiðbeiningum um tilslakanir á heimsóknabanni og öðrum sóttvarnarráðstöfunum á hjúkrunarheimilum og í dagdvölum aldraðra sem embætti landlæknis hefur gefið út.

ATHUGIÐ: Ef smit vegna COVID-19 aukast aftur getur þurft að endurskoða leiðbeiningar á ný og ganga til baka í þrengra samkomubann.

Almennar leiðbeiningar sem gilda frá 4. maí 2020

Áfram er lögð áhersla á að skipta notendum velferðarþjónustu þar sem við á upp í svokallaða sóttvarnarhópa með það að markmiði að takmarka samneyti við fjölda fólks svo forðast megi veikinda margra, komi upp smit.

Notendur velferðarþjónustu og starfsmenn eru hvattir til þess að hlaða niður smitrakningarappi almannavarna og hvetja vini og vandamenn til þess að gera slíkt hið sama. Appið er að finna hér á www.covid.is

Áfram gilda almennar reglur:

  • Mikilvægi handþvotts og sóttvarna.
  • Haldið 2ja metra fjarlægð á milli fólks.
  • Takmarkið náið samneyti við ákveðinn fjölda fólks.

Almenna reglan er að einstaklingar í sama sóttvarnahópi fái þjónustu á sama tíma.

Markmið verður áfram að starfsfólk vinni sem mest með sama hópi og fari ekki á milli í meira mæli en bráð nauðsyn krefur.

Ekki er gert ráð fyrir opnun á milli sameiginlegra rýma þar sem lokað var í sóttvarnarskyni fyrr en í júní.

Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk og aldraða

Áfram skal gæta að ítrustu varúð í akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og aldraða.
Gæta skal fyllstu sóttvarnarráðstafana og á það bæði við um þjónustuaðila og farþega.

Nánari leiðbeiningar:

  1. Farþegar þvo hendur og spritta fyrir brottför og eftir akstur.
  2. Halda 2ja metra fjarlægð milli farþega eins og unnt er.
  3. Eftir sem áður mega fleiri vera í bíl þegar um er að ræða einstaklinga sem tilheyra sama sóttvarnarhópi.
  4. Mælst er til þess að í bílum sé sótthreinsandi lögur til yfirborðshreinsunar (t.d. Virkon eða spritt), bréfþurrkur, handspritt og hanskar.
  5. Farið er yfir bíl eftir hverja notkun með tilliti til sóttvarna og snertifletir sótthreinsaðir, s.s hurðahúnar og haldföng.
  6. Farþegar og/eða þjónustuaðilar þurfa að upplýsa þjónustuveitanda ef grunur um smit vaknar.

Athugið að farþegar mega ekki nýta almenna akstursþjónustu ef þeir:

  1. Eru í sóttkví.
  2. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
  3. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
  4. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverki, beinverki, þreytu, kviðverki,niðurgang o.fl.).

Í sérstökum tilvikum er hægt að verða við beiðni um akstursþjónustu ef ofangreint á við. Þá skal hafa samband við akstursþjónustuna sem skoðar möguleika á sértækum akstri skv. viðbragðsáætlun. Dæmi: Farþegi með grun um smit þarf að fara á annan stað til að vera í sóttkví.

Þegar leigubílar eru notaðir þurfa farþegar og þjónustuaðilar einnig að gæta fyllstu sóttvarnar- ráðstafana, bæði farþegar og þjónustuaðilar, sjá leiðbeiningar fyrir leigubílstjóra.

 

Félagsmiðstöðvar fyrir fullorðna – félagsstarf aldraðra

Frá og með 4. maí 2020 er hámarksheimild í hverju rými 50 manns en félagsmiðstöðvar fyrir aldraða eru beðnar um að virða áfram reglu um 20 manna hámarksfjölda í hverju rými sem tilheyra þá sama sóttvarnarhópi.

Ekki er gert ráð fyrir að félagsmiðstöð sem deilir húsnæði með hjúkrunarrými, opni fyrr en í júní. Ef aðeins inngangur er sá sami er óhætt að opna en gæta þarf þess að ekki verði samgangur í forstofunni.

Hver félagsmiðstöð tekur mið af sinni stærð og sínum aðstæðum.

Áfram skal gæta að handþvotti og sóttvörnum og virða 2ja metra fjarlægðartakmarkanir sem fremi sem unnt er.

Skipta þarf notendahópnum áfram upp í sóttvarnarhópa og miða við að einstaklingar í sama hópi séu saman í starfinu.

Markmiðið er áfram að starfsfólk vinni sem mest með sama hópi og fari ekki á milli hópa/svæða í meira mæli en bráð nauðsyn krefur.

Ef um hópþjálfun er að ræða er nauðsynlegt að halda 2ja metra regluna og hámarksfjöldi í rými miðast við að þessi regla haldi. Hópþjálfun skal áfram vera takmörkuð við að einstaklingar í sama sóttvarnarhópi séu saman við æfingar.

Það getur þurft að taka upp skráningu fyrir fram í viðburði til að tryggja að fjöldi á hverjum tíma fari ekki yfir 20 manns í rými á hverjum tíma og hægt sé að halda grundvallarsmitgát og 2ja metra fjarlægð.

Það getur þurft að miða þjónustuna við tiltekna viðburði og takmarka opið hús við ákveðinn hóp þátttakenda sem bjóðist að koma í opið hús á ákveðnum dagsetningum með ákveðnum hópi.

Athugið að ekki má koma í félagsstarf ef þátttakendur:

  1. Eru í sóttkví.
  2. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
  3. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
  4. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverki, beinverki, þreytu, kviðverki,niðurgang o.fl.).

Matur í félagsmiðstöðvum

Hægt verður að bjóða upp á hádegisverð fyrir þá sem sækja félagsmiðstöð hverju sinni, enda sé gætt að 2ja metra reglunni, góðum smitvörnum og tekið mið af skiptingu þátttakenda í sóttvarnarhópa.

Þannig er ekki gert ráð fyrir að hádegisverður verði opinn fyrir gesti og gangandi heldur eingöngu þá sem taka þátt í félagsstarfinu á hverjum tíma. Í sumum sveitarfélögum/hverfum getur áfram þurft að bjóða upp á heimsendingu matar þar sem erfitt er að framfylgja 2ja metra reglunni í matsal sem og fyrir þá sem ekki treysta sér út af heimili sínu.

Hárgreiðsla, fótaaðgerðir og önnur þjónusta í félagsmiðstöðvum

Þjónusta sem er í boði inni í félagsmiðstöðvum má hefjast á nýjan leik fyrir þá sem stunda félagsstarfið hverju sinni.

Gæta verður að handþvotti og sótttvörnum sem og að halda 2ja metra fjarlægð á milli viðskiptavina.

Viðskiptavinir sem ekki eru þátttakendur í félagsstarfi geti sótt þjónustuna á sérstökum opnunartímum og samgangur á milli einstaklinga og hópa verði þannig takmarkaður.

Dæmi: Opið í hárgreiðslu/fótaaðgerð einn dag í viku fyrir aðra en þátttakendur í félagsstarfi félagsmiðstöðvar.

Eldri borgarar og starfsmenn eru hvattir til að hlaða niður smitrakningarappi almannavarna sem finna má hér.

Íbúðir fyrir eldri borgara

Deili félagsstarf eldri borgara húsnæði með íbúðum fyrir aldraða þarf að huga að sóttvörnum. Óhætt er að opna félagsstarf eldri borgara ef inngangur er sá sami en gæta þarf að samgangi í forstofu.

Ef íbúðir fyrir eldri borgara deila húsnæði með hjúkrunarrými er ekki gert ráð fyrir að opnað verði á milli fyrr en í júní og verður það endurmetið 2. júní.

Í íbúðum fyrir eldri borgara er mikilvægt að gæta áfram varkárni, fara eftir almennum grundvallarreglum varðandi handþvott og sóttvarnir, viðhalda 2ja metra fjarlægð eins og unnt er og takmarka náið samneyti við ákveðinn fjölda fólks með það að markmiði að forðast smit.

Á www.covid.is eru góð ráð um hvernig forðast má smit og leiðbeiningar til fólks í áhættu.

Eldri borgarar sem og aðrir þjóðfélagsþegnar eru hvattir til að hlaða niður smitrakningarappi almannavarna og hvetja vini og vandamenn og þá sem koma í heimsókn til þess að gera slíkt hið sama. Appið er að finna hér á www.covid.is

Hver og einn miðar fjölda heimsókna og gesta að sínum aðstæðum og leiðbeiningum sóttvarnarlæknis fyrir einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19.

Góð ráð til þess að forðast smit:

  1. Gestir þvo hendur og spritta í kjölfarið við komu og við brottför.
  2. Gott er að forðast beina snertingu eins og hægt er.
  3. Gestir eru beðnir að virða 2ja metra fjarlægðartakmarkanir eins og verða má.
  4. Gestir eru beðnir um að dvelja sem styst í sameiginlegum rýmum heimilis.

 

Þetta eru leiðbeiningar sem snúa fyrst og fremst að eldri borgurum.
Tilmæli landlæknis í heild sinni, má lesa hér.