fbpx

 

Þær Ingi­björg Ólöf Isak­sen formaður starfshóps um lífskjör og aðbúnað aldraða og Þór­unn Sveinbjörns­dótt­ir formaður Landssambands eldri borgara hvetja til heilsueflingar eldra fólks.

Á dögunum var veittur ríflegur styrkur frá félagsmálaráðuneytinu til ÍSÍ og LEB til að efla heilsueflingu eldra fólks, sem var m.a. afrakstur starfshópsins sem þær sátu báðar í.

Eldri borg­ar­ar hafa marg­ir hverj­ir þurft að þola skerta sam­veru og fé­lags­lega ein­angr­un vegna Covid-19-far­ald­urs­ins. Það hef­ur meðal ann­ars haft þau áhrif að marg­ir hafa ekki haft tök á að stunda reglu­bundna hreyf­ingu líkt og áður. Með hækk­andi sól og fleiri bólu­sett­um lands­mönn­um horf­um við sem bet­ur fer fram á bjart­ari tíma. Því er afar mik­il­vægt að virkja þenn­an ald­urs­hóp aft­ur til hreyf­ing­ar, því fyrr, því betra.

Öll erum við meðvituð um já­kvæð áhrif skipu­lagðrar hreyf­ing­ar. Þau sem ná eft­ir­launa­aldri í dag eru mun lík­legri til að njóta fleiri ára með góða hreyfigetu en sam­bæri­leg­ur ein­stak­ling­ur gerði ein­ung­is fyr­ir nokkr­um ára­tug­um. Þessi staða býður upp á nýj­ar áskor­an­ir en einnig upp á tæki­færi sem við þurf­um að nýta okk­ur til fulls. All­ar nýj­ar rann­sókn­ir sýna okk­ur að hreyf­ing og styrkt­arþjálf­un ásamt hollu mataræði get­ur bætt lífs­gæði og seinkað öldrun allt upp í 5 ár eða meira.

Eldri borg­ar­ar eru breiður hóp­ur fólks með ólík­ar þarf­ir og mark­miðið er að all­ir geti búið sem lengst heima við ör­yggi og verið sjálf­stæðir í lífi og starfi. Síðustu ár hafa orðið nýj­ar áhersl­ur sem taka mið af áskor­un­um eldra fólks og auðvelda því að halda áfram virkri þátt­töku í sam­fé­lag­inu. Þar má t.d. benda á heilsu­efl­andi sam­fé­lög sem er heild­ræn nálg­un sem embætti land­lækn­is vinn­ur að í sam­starfi og sam­ráði við sveit­ar­fé­lög, op­in­ber­ar stofn­an­ir, frjáls fé­laga­sam­tök o.fl. þar sem mark­visst er unnið að því að skapa um­hverfi og aðstæður sem stuðla að heil­brigðum lifnaðar­hátt­um, heilsu og vellíðan íbúa.

Fé­lags- og barna­málaráðherra gerði ný­verið samn­inga við Lands­sam­band eldri borg­ara og Íþrótta- og ólymp­íu­sam­band Íslands um að aðstoða áhuga­söm sveit­ar­fé­lög um land allt við að inn­leiða með mark­viss­um hætti heilsu­efl­ingu til framtíðar sem fel­ur í sér skipu­lagða þjálf­un og aukið heilsu­læsi aldraðra m.t.t. hreyf­ing­ar, nær­ing­ar og annarra þátta sem skipta sköp­um fyr­ir heilsu þeirra og líðan. Lögð verði áhersla á nám­skeið, fræðslu og ann­an fag­leg­an stuðning til þjálf­ara eft­ir því sem við á, og annarra sem koma að heilsu­efl­ingu aldraðra á hverj­um stað. Áhersla verði lögð á sam­starf hlutaðeig­andi aðila á hverj­um stað, s.s. fé­lög eldri borg­ara, íþrótta­fé­lög og lík­ams­rækt­ar­stöðvar. Mark­miðið er að auka lífs­gæði aldraðra með betri lík­am­legri og and­legri heilsu. Með þessu er verið að skapa enn frek­ari um­gjörð fyr­ir þenn­an ald­urs­hóp og fjölga tæki­fær­um til hreyf­ing­ar og koma hreyf­ingu bet­ur inn í dag­legt líf þeirra.

Aðstaða til heilsu­efl­ing­ar

Aðstaða í sveit­ar­fé­lög­um til íþróttaiðkun­ar hef­ur tekið mikl­um fram­förum og hafa mörg sveit­ar­fé­lög unnið að því að bæta aðstöðu til fjöl­breyttr­ar hreyf­ing­ar, inn­an dyra sem utan. Inniaðstaða í íþrótta­hús­um, útiæf­inga­tæki, upp­hitaðir göngu­stíg­ar og bekk­ir til að hvílast á með reglu­legu milli­bili á vin­sæl­um göngu­leiðum eru nokk­ur dæmi sem vert er að nefna. Fé­lags­starf er líka í boði með fjöl­breyttri afþrey­ingu og virkni á veg­um sveit­ar­fé­laga, fé­laga eldri borg­ara, íþrótta­fé­laga og annarra fé­laga­sam­taka. Íþrótta­fé­lög um land allt bjóða mörg hver upp á skipu­lagðar æf­ing­ar fyr­ir þenn­an ald­urs­hóp en íþrótta­hreyf­ing­in á Íslandi hef­ur allt sem þarf til að vel tak­ist, menntaða þjálf­ara, fag­legt starf og góða aðstöðu. Þörf­in fyr­ir inniaðstöðu fer sí­fellt vax­andi með aukn­um fjölda þeirra sem vilja vera á hreyf­ingu að vetri til og því er mik­il­vægt að efla enn frek­ar mögu­leika á fjöl­breyttri inniaðstöðu fyr­ir alla ald­urs­hópa.

Hver er ávinn­ing­ur­inn?

Sam­kvæmt skil­grein­ingu Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar er heilsa lík­am­leg, and­leg og fé­lags­leg vellíðan en ekki ein­ung­is það að vera laus við sjúk­dóma og ör­orku. Heilsu­efl­ing er því mik­il­væg­ur liður í mark­vissu lýðheils­u­starfi. Reglu­leg hreyf­ing hef­ur fjölþætt gildi fyr­ir heilsu og líðan á öll­um ævi­skeiðum. Rann­sókn­ir staðfesta mik­il­vægi hreyf­ing­ar fyr­ir aldraða, m.a. betri heila­heilsu, minni lik­ur á föll­um og al­mennt aukna getu til að sinna dag­leg­um at­höfn­um. Hreyf­ing stuðlar auk þess að betri and­legri og lík­am­legri heilsu og ýtir und­ir fé­lags­leg sam­skipti og virkni al­mennt. Þörf­in fyr­ir styrk­ingu vöðvamassa vex með ár­un­um sem mót­vægi við því tapi sem á sér stað frá miðjum aldri, það er því til mik­ils að vinna. Marg­ir átta sig ekki á hvað vöðva­styrk­ur er af­ger­andi þátt­ur í að kom­ast leiðar sinn­ar og vera virk. Því má aldrei hætta í að styðja við þá styrkt­arþjálf­un sem efl­ir vöðvamass­ann.

Mik­il­vægi heilsu­efl­ing­ar til auk­inna lífs­gæða verður seint of­metið en um­fram allt eyk­ur reglu­leg hreyf­ing lík­urn­ar á því að fólk lifi leng­ur, við betri heilsu og betri lífs­gæði en ella.

Sú heilsu­efl­ing sem nú er stefnt að með þeim styrkj­um og fræðslu sem verður í boði er ætlað að snúa vörn í sókn á öll­um sviðum lýðheilsu. Því er mik­il­vægt að all­ir hjálp­ist að við það að virkja göngu­hópa og hreyfi­hópa á sem fjöl­breytt­ast­an hátt og hvetja hvert annað í góðum lífs­stíl.

 

Ingibjörg Ólöf Isaksen og Þórunn Sveinbjörnsdóttir