fbpx

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB á upplýsingafundi almannavarna miðvikudaginn 12. ágúst 2020

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir var gestur á upplýsingafundi almannavarna miðvikudaginn 12. ágúst 2020.
Eftirfarandi pistill er byggður á frétt Fréttablaðsins af fundinum.

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir mikilvægt að reyna finna aðrar lausnir en heimsóknarbönn á hjúkrunarheimili í þessari bylgju faraldursins. Hún var gestur á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Hún sagði að reynsla eldri borgara af heimsóknarbanninu í vor væri ekki góð en heilsa fólks hrakaði mikið. Hún benti á að dæmi voru um Alzheimers sjúklingar þekktu jafnvel ekki sína nánustu ættingja eftir að heimsóknarbanninu lauk.

„Það eru líka dæmi um það, að það leið stuttur tími og þá var fólk farið,“ sagði Þórunn á fundinum. „Þetta er náttúrulega gert í ákveðnum tilgangi en það er vert að hugleiða fleiri möguleika, einhverja aðra möguleika, til að hjálpa fólki að hittast. Leggja bara virkilega höfuðið í bleyti um hvernig við getum gert það,“ sagði Þórunn.

Hún sagðist skilja vel að þetta væri erfitt fyrir stóru hjúkrunarheimilin sem eru með tvö til þrjú hundurð íbúðir en sagði að „það hljóta að vera einhverjir aðrir möguleikar sérstaktaklega á minni heimilum.“

Sveitarfélögin hafa verið dugleg að annast félagsstarf fyrir eldri borgara en í vetur voru veittir styrkir til sveitarfélaganna til að annast slíkt starf.  Þórunn hrósaði sveitarfélögunum fyrir sitt starf og þá sérstaklega þeim á höfuðborgarsvæðinu sem hafa verið að kenna eldri borgurum á spjaldtölvur.

„Þörfin var greinilega mikil því þetta er fólk sem hafði ekki haft þennan möguelika áður. Það hjálpaði líka að hafa einhvern nálægt sér sem leiðbeindi,“ sagði Þórunn.

Einmanaleiki er vágestur

Þórunn hvatti alla eldri borgara sem glíma við einmanaleika að fá sér símavin. Sjálf væri hún með yndislegan símavin sem hún ræðir málefni líðandi stundar reglulega við.

„Það er bara það er svo dýrmætt og svo mikils virði. Það var byrjað að á að leita að áttatíu og fimm ára og eldri sem töldu sig þurfa á símavin að halda vegna einmanaleika og það eru margir enn með sinn símavin þrátt fyrir að við fengjum þarna smá hlé á Covid-inu,“ sagði Þórunn og bætti við að þetta væri nýr gluggi inn í samfélagið fyrir eldri borgara.

Hún hvatti jafnframt barnabörn og börn eldri borgara til þess að hringja reglulega í ömmu og afa. „Þessi tengsl, þessi íslenska fjölskylda, hún er svo mikilvæg,“ sagði Þórunn.

Landsamband eldri borgara framleiddi nýverið bækling um einmannaleika og er verið að dreifa honum til eldri borgara um þessar mundir. „Einmannaleiki er vágestur,“ sagði Þórunn og benti jafnframt á að allar þjóðir í Evrópu væru að glíma við þetta.

„Sannir gamlir víkingar eins og þið vitið“

Hún hvatti eldri borgara til að vera duglegir að hreyfa sig meðan á þessu ástandi stendur. „Hreyfingin er gríðarlega mikilvægt fyrir líkamsstarfsemina. Það hættulegasta sem fólk gerir, ég tala nú ekki um þegar veikindi eru í loftinu, er að setjast niður og gera ekki neitt,“ sagði Þórunn og bætti við að holl næring skipti einnig miklu máli.

Hún sagði jafnframt að ef allir eldri borgara spritta sig reglulega, nota grímur og hanska þegar þeir fara að versla, ættu þeir að vera á grænni grein. „Enda sannir gamlir víkingar eins og þið vitið,“ sagði hún að lokum.

HÉR er slóð á þáttinn í heild sinni.