fbpx
Mynd með færslu
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara. Mynd: Freyr Arnarson – RÚV

Kennari sem sagt var upp vegna aldurs hefur stefnt Reykjavíkurborg fyrir ólögmæta uppsögn. Formaður Landssambands eldri borgara segir að málið sé fordæmisgefandi. Úrelt sé að segja starfsfólki upp vegna kennitölu, ríkið verði að breyta leikreglum sínum.

Kennara á sjötugsaldri var í fyrravor sagt upp vegna aldurs. Hún hefur nú stefnt Reykjavíkurborg fyrir ólögmæta uppsögn og krefst þess að ákvörðun um starfslok verði dæmd ógild eða að borgin verði dæmd skaðabótaskyld. Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Fyrsta málið af þessum toga

Samkvæmt lögum er starfsmönnum hjá ríki og sveitarfélögum sagt upp frá mánaðamótunum eftir að þeir verða sjötugir. Landsamband eldri borgara aðstoðar konuna í ferlinu. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður sambandsins segir að fjöldi manns hafi leitað til sambandsins í gegnum tíðina vegna þess að því var vísað af vinnumarkaði við tiltekinn aldur. „Þess vegna má segja að við höfum svolítið verið að leita að fólki sem er tilbúið að ganga lengra í þessu máli og það gerðist í fyrra“. Þar með hafi ferlið farið í gang, málið sé það fyrsta af þessum toga hérlendis og fordæmisgefandi.

Úrelt og tíðkast ekki lengur annars staðar í Evrópu

Þórunn segir að málið snúist um mannréttindi og frelsi fólks til að ákveða hvenær það hættir að vinna. Það verði sífellt algengara að fólk við hestaheilsu sé á vinnumarkaði langt fram yfir áttrætt þótt aðrir vilji ekki vinna svo lengi eða geti það ekki vegna heilsu. Það sé úrelt að segja starfsfólki upp eingöngu vegna aldurs og tíðkist ekki lengur í öðrum Evrópulöndum. Þar hafi málaferli yfirleitt unnist á grundvelli mannréttinda.

Ríkið verður að breyta leikreglum sínum

Þórunn segir að þingmenn hafi oft fjallað um málefnið og almenn vakning sé um að þetta sé brot á mannréttindum. „Að kennitalan þín segi, heyrðu nú ert þú vanhæfur til starfa. Okkur finnst það ganga of langt vegna þess að heilinn í okkur hættir ekkert að starfa þó við verðum sjötug“. Hún er vongóð að málið skili frelsi til starfsloka. Að fólk fái sjálft að ákveða starfslok sín í samráði við vinnuveitendur. Þórunn segir að læknar megi vinna til sjötugs á spítala en til 75 ára aldurs á eigin stofu, því séu til frávik, og á almennum vinnumarkaði séu í raun engin aldursmörk. Ríkið verði því að breyta leikreglum sínum.

Fréttin birtist á RÚV   Frétt af vef RÚV