fbpx

 

Nokkrar jákvæðar breytingar fyrir eldri borgara tóku gildi nú um áramótin.

Engar hækkanir verða á komugjöldum í heilsugæslu um áramótin. Almenn komugjöld lækkuðu 1. janúar 2021 úr 700 krónum í 500 krónur. Þessi gjöld eru óbreytt og sem fyrr greiða börn, öryrkjar og aldraðir ekkert komugjald. Gjöld sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu að öðru leyti hækka um 2,5% frá 1. janúar sl. í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

Frá sama tíma hækka fjárhæðir bóta slysatrygginga almannatrygginga og sjúkradagpeningar um 4,6% og sömuleiðis viðmiðunarfjárhæðir vegna greiðsluþátttöku aldraðra fyrir stofnanaþjónustu.

Greiðsluþátttaka lífeyrisþega vegna tannlæknaþjónustu lækkar og sömuleiðis greiðsluþátttaka almennings vegna nauðsynlegra tannlækninga af völdum meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.


Aukin greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna tannlækninga

Frá og með 1. janúar sl. eykst greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í almennum tannlæknakostnaði öryrkja og aldraðra úr 57% í 63% og kostnaður þeirra lækkar að sama skapi. Áætlaður útgjaldaauki sjúkratrygginga vegna þessa nemur um 200 milljónum króna á ársgrundvelli. Þetta er hluti af gjaldskrárbreytingum vegna heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi um áramótin.

 

Hækkun greiðsluþátttöku sjúkratrygginga  vegna sértækra tannvandamála

Þann 15. júlí síðastliðinn tók gildi rammasamningur Sjúkratrygginga Íslands og tannlækna um nauðsynlegar tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma samkvæmt reglugerð nr. 451/2013. Fram að því höfðu endurgreiðslur þeirra sem áttu rétt á þeim miðast við gjaldskrá sem ekki hafði verið uppfærð til verðlags frá árinu 2014.

Með nýrri gjaldskrá samhliða rammasamningnum hækkaði greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í kostnaði allra sem áttu rétt á endurgreiðslu. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna nauðsynlegra tannlækninga aldraðra og öryrkja hefur numið 80% en 50% hjá öðrum. Frá og með 1. janúar hækkar greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hjá síðarnefnda hópnum í 80% til jafns við lífeyrisþega. Áætlaður útgjaldaauki sjúkratrygginga vegna þessa nemur 180 milljónum króna á ársgrundvelli.

 

Áfram engin komugjöld í heilsugæslu fyrir ellilífeyristaka

Engar hækkanir verða á komugjöldum í heilsugæslu um áramótin. Almenn komugjöld lækkuðu 1. janúar 2021 úr 700 krónum í 500 krónur. Þessi gjöld eru óbreytt og sem fyrr greiða börn, öryrkjar og aldraðir ekkert komugjald.

 

Fréttin er byggð á upplýsingum af vef stjórnarráðsins.