fbpx

 

Á vefnum Lifðu núna birtist áhugavert viðtal við hjónin Ólaf Örn Thoroddsen  og Sigríði Jónsdóttur sem komin eru á eftirlaun.

 

Óli og Sigga eins og þau eru yfirleitt kölluð, hættu bæði launuðum störfum um sjötugsaldur.

Sigga sem er með BA próf í félagsfræði og masterspróf í stjórnsýslu og stefnumótun, vann síðast sem framkvæmdastjóri  Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu, sem sett var á laggirnar 2018. Áður vann hún meðal annars í félagsmálaráðuneytinu, á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og við háskólakennslu.

Óli vann hins vegar lengst af við hljóðvinnslu og hljóðhönnun í Borgarleikhúsinu, en hann er bæði leikari og rafeindavirki að mennt.

Við grípum niður í samtalið við þau þar sem þau fjalla um lífið eftir sjötugt og hvernig Sigga lítur á efri árin út frá reynslu sinni og þekkingu, sem hefur vakið mikla athygli.

Það stöðvast ekki allt þó maður fari á eftirlaun

Þau segja eftirlaunalífið „býsna gott“  „Mér finnst bara svo frábært að eiga tímann minn sjálf, eftir 50 ár, fyrst í námi og síðan í starfi“. segir Sigga. „Það er alltaf talað um það að fólk þurfi að hafa áhugamál þegar það kemst á eftirlaun. En þetta er líka spurning um að lifa lífinu og  vera í samskiptum við fólk almennt á starfsævinni. Hafi maður gert það býr maður að því þegar kemur að starfslokunum og hefur þá meiri tíma til að rækta samskiptin og gera ýmsa aðra hluti sem maður hefur áhuga á, en hafði kannski ekki tíma til að sinna“.

Sigga hefur tekið að sér verkefni á sínu sviði  eftir að hún hætti störfum og leiddi til dæmis starf nefndar  sem skilaði af sér seint á síðasta ári. „Maður heldur bara áfram að vera maður sjálfur“, segir Sigga um lífið á eftirlaunum og bætir við að þó að maður hætti í  launuðu starfi þá stöðvist ekki allt. „Fólk  hefur byggt upp þekkingu og það er í raun mikilvægt að hún nýtist áfram. Ég myndi vilja sjá aukinn sveigjanleika við starfslok og að sérfræðiþekking sé nýtt í ríkari mæli hjá fólki, þó það sé komið yfir sjötugt“.

Alltaf rætt um skort á hjúkrunarheimilum en ekki skort á heimaþjónustu

Sigga hefur í störfum sínum fengið mjög gott yfirlit yfir stöðu eldra fólks á Íslandi og hefur skoðanir á því hvernig hún er og ætti að vera.  „Það vantar mikið uppá að fólk fái að halda reisn sinni þegar það eldist,  missir færni og getu og þarf á þjónustu að halda. Það er einna verst að ekki skuli enn hafa tekist að koma á samþættri heimaþjónustu, sem er heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta veitt inni á heimili fólks, nema í Reykjavík. Fólk vill vera heima hjá sér eins lengi og unnt er, í sínu nærumhverfi. Hérlendis er þó raunin enn sú að alltaf þegar talað eru um svo kallaðan „fráflæðisvanda“ sjúkrahúsanna, hugtakið eitt sér segir mikið um viðhorfin, þá er lausnarorðið alltaf skortur á hjúkrunarrýmum, en skortur á félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun er ekki nefndur. Þessari hugsun þarf að breyta, því fólk getur verið lengur heima með þjónustu sem er betur sniðin að þörfum þess og þar kemur velferðartæknin líka inn í myndina. En til að gera samþætta heimaþjónustu um land allt að  veruleika þarf stýring þjónustunnar að vera á einni hendi og fjármagnið til heimaþjónustunnar í einum potti.“, segir hún, en ekki á hendi bæði ríkis og sveitarfélags eins og nú er. Þetta hefur verið reynt á Akureyri meðan það var tilraunasveitarfélag og gekk bara ljómandi vel. Það var slæmt að það hélt ekki áfram og var ekki yfirfært víðar.

Fyrirkomulagið hér sviptir fólk reisn og sjálfstæði

„Greiðslufyrirkomulag hjúkrunarheimila er úrelt“ , segir Sigga. „ Þegar fólk flyst á hjúkrunarheimili ætti greiðslufyrirkomulag að vera með þeim hætti að einstaklingurinn greiði  leigu, matarkostnað, lyf og þá þjónustu sem hann fær, en ekki er öll sú þjónusta gjaldskyld, svo sem heilbrigðisþjónustan.  Íbúar hjúkrunarheimila eiga ekki að þurfa að missa réttindi sem aðrir samfélagsþegnar hafa, eins og nú er, svo sem að fá nauðsynleg hjálpartæki fá SÍ, eða akstursþjónustu. Horfa má til fyrirkomulags í Danmörku sem eru með það sem þeir kalla „plejeboliger“ sem er skipulagt með svipuðum hætti og hér er nefnt. Það fyrirkomulag sem viðgengst hér á landi sviptir fólk bæði reisn, sjálfræði  og sjálfstæði“.

Fer að biðjast afsökunar á sjálfu sér

Sigríður Jónsdóttir er nú komin á eftirlaun. Mynd: Lifðu núna

Sigga segir aldursfordóma ríkjandi í íslensku samfélagi, eins og reyndar á vesturlöndum, stundum mætti  halda að yngra fólki í samfélaginu fyndist gamalt fólk óþægilegt, kannski af því að það minnir á dauðann. Eitthvað sem fólk vill ekki tala um. „Það eru fordómar í þeirri sýn að allt eldra fólk verði lasburða og veikt. Hér áður fyrr vann fólk fram í rauðan dauðann og lagðist að því búnu í kör. Mórallinn er enn svolítið þannig hér, að ef við erum ekki að vinna launavinnu gerum við ekkert gagn. Félagsauðurinn sem felst í eldra fólki er  vanmetinn. Ég held að það veki  hræðslu hjá yngra fólki að vita að maður verði gamall, það hljóti að vera ömurlegt, öll skemmtun búin. Það er á vissan hátt talað yfir eldra fólk, en ekki við það og það jafnvel hunsað og það kemur fram á mörgum sviðum þjóðlífsins. Viðmótið smitar svo út frá sér,  þannig að eldra fólk fer að biðjast afsökunar á sjálfu sér.  Veikindi og aldur eru í alltof ríkum mæli spyrt saman. Vissulega hrörnar fólk með aldrinum, en það breytir ekki þeirri staðreynd að fólk á öllum aldri veikist og missir heilsuna“, segir hún. „Það þarf að hugsa kerfið út frá því að þegar fólk missir færni og getu, fái það  þá þjónustu sem þörf er á óháð aldri. Við lífslok þarf síðan sérhæfða þjónustu og það þarf að hugsa þjónustuna heildrænt, sem þjónustukeðju“

 

Vinnumórall hér á landi og í Frakklandi

Sigga talar að lokum um vinnudyggðina sem hefur verið og er enn rík í menningu okkar og mótar m.a. afstöðu okkar til þess að eldast og hætta að vinna launavinnu.  „Við fórum eitt sinn í heimsókn í sendiráðið í París í tengslum við vinnustaðarkynnisferð. Þar var stödd ung kona af frönskum og íslenskum ættum sem ávarpaði hópinn og talaði um ýmsa fleti á muninum milli þessara þjóða. Ég á  tvo afa sagði hún, einn franskan og annan íslenskan, Franski afinn segir: Ég dey ef ég þarf að vinna lengur, en íslenski afinn segir: Ég dey ef ég þarf að hætta að vinna.

 

Viðtalið í heild sinni má lesa í heild sinni hér á vef: LIFÐU NÚNA