Helgi Pétursson formaður LEB skrifar:
Á nýju ári leyfi ég mér að trúa því að tekið verði mark á þeim áherslum sem Landssamband eldri borgara setti fram og samþykkti sem stefnumarkandi og baráttumál 55 félaga eldra fólks um land allt með hátt í 30 þúsund félagsmenn innan sinna vébanda.
LEB kynnti þar fyrir öllu stjórnmálakerfinu, verkalýðshreyfingu, samtökum atvinnurekenda og fleiri áhrifaaðilum fimm megináhersluatriði sem samtökin munu berjast fyrir.
Ber þar hæst hækkun frítekjumarka vegna lífeyrissjóðsgreiðslna og að lögum verði einfaldlega fylgt um hækkun ellilífeyris til samræmis við lægstu laun.
Við viljum kanna möguleika eldra fólks til þess að vinna lengur ef það vill og getur og að starfslok miðist við færni en ekki aldur.
Við viljum að heilsugæslan verði vagga stórefldrar öldrunarþjónustu og höfum vakið athygli á nauðsyn fjöldbreyttari búsetuúrræða, eins konar millistigs milli heimilis og hjúkrunarheimilis.
Loks höfum við bent á brýna nauðsyn þess að einfalda allt laga- og regluverk hvað varðar málefni eldra fólks.
Það kom í ljós við yfirferð okkar með stjórnmálafólki, fagfólki og sveitarstjórnarfólki að um þetta eru allir sammála. Og hafa lengið verið. Allir. Það bara gerist ekki neitt.
Það sást á málefnaskrám allra stjórnmálaflokkanna og núna í stjórnarsáttmála, að þær eru að síast inn í stjórnmálaumræðuna þær miklu breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar sem eru þegar orðnar og þær breyttu þarfir mun yngra og frískara eldra fólks sem nú spyr sig: Hvernig verða þessi 20-25 ár sem ég gæti hæglega átt eftir? Hvað get ég gert til þess að þau verði sem ánægjulegust og hvernig verður afkoma mín tryggð?
Það hefur dottið upp úr stöku ráðamönnum að það þurfi að gera róttækar breytingar á almannatryggingum og öllu umönnunarkerfi fyrir eldra fólk í landinu. Gleðilegast þykir mér að nýja og yngra fólkið á Alþingi er að setja sig inn í málefni eldra fólks.
En kerfið lætur ekki að sér hæða. Það þurfti banvæna heimsplágu til þess að farið væri að huga að lausn á „fráflæðisvanda“ Landspítalans þar sem meðferð á okkar elstu bræðrum og systrum í bið eftir þjónustu á hjúkrunarheimili er ævarandi skammarblettur.
En spennan eykst. Það er búið að kanna, skýrslugera, nefndarsetja og eiga samtöl um alla þætti er lúta að daglegu lífi eldra fólks hér á landi. Það liggur allt fyrir. Það þarf ekki eina nefndina í viðbót.
Við gætum byrjað á því að ákveða hvar við ætlum að byrja: Eigum við að fara dönsku leiðina og byrja alveg upp á nýtt?
Kær nýárskveðja frá Landssambandi eldri borgara til ykkar allra!