fbpx

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að veita þremenningunum í Gráa hernum gjafsókn í máli þeirra gegn Tryggingastofnun ríkisins. Þau Wilhelm Wessman, Ingibjörg Sverrisdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir höfðuðu mál á hendur TR en Málin snúast um lögmæti skerðinga á ellilífeyri og heimilisuppbót á móti greiðslum frá lífeyrissjóðum.

Málin voru höfðuð með stuðningi Málshöfðunarsjóðs Grás hersins, en mest hefur munað um stuðning Verlsunarmannafélags Reykjavíkur sem stutt hefur málið dyggilega. Gjafsókn þýðir að hluti þess kostnaðar sem til hefur fallið fæst endurgreiddur þegar dómur hefur verið kveðinn upp, – þó eftir nánari ákvörðun dómsins.

Málin voru fyrst tekin fyrir í lok nóvember í fyrra en aðalmeðferð málanna þriggja er nú á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október nk. og hefst kl. 9:15 í dómsal 102. Þar er pláss fyrir þónokkra áhorfendur og því óhætt hvetja þá sem áhuga hafa til að mæta og hlýða á málflutninginn. Reikna má með því að hann standi til hádegis eða þar um bil.

Uppfært: Aðalmeðferð hefur verið frestað að beiðni dómstólsins til föstudagsins 29. október kl. 9.15