fbpx

                                     Fundargerð 293. fundar stjórnar LEB

haldinn 28. mars 2017 kl. 13:30 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ), Anna Sigrún Mikaelsdóttir (ASM) og Baldur Þór Baldvinsson (BÞB).

HI setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna.

  1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 291 og 292

Fundargerðir 291 stjórnarfundar sem haldinn var 23. janúar 2017 og 292. stjórnarfundar sem haldinn var 28. febrúar 2017, hafa verið samþykktar í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

  1. Landsfundur LEB 23. – 24. maí 2017

Farið var yfir undirbúning og skipulag fundarins. Fundurinn hefur verið boðaður til formanna aðildarfélaga LEB með útsendingu tölvupósts og eftirfarandi sendibréfi undirrituðu af formanni LEB dagsettu 16. mars 2017:

Fundarboð á Landsfund 2017

„Stjórn Landssambands eldri borgara boðar hér með til landsfundar Landssambands eldri borgara 23. – 24. maí 2017 í Hraunseli, félagsmiðstöð Félags eldri borgara í Hafnarfirði, að Flatahrauni 3 þar í bæ. Fundurinn hefst kl. 13:30 þriðjudaginn 23. maí en afhending fundargagna hefst kl. 13:00. Fundarlok eru áætluð kl. 12:00 miðvikudaginn 24. maí.

Hvert aðildarfélag á rétt á 2 fulltrúum til setu á landsfundi, en félög með yfir 500 félagsmenn eiga rétt á einum viðbótarfulltrúa fyrir hverja 500 félaga, umfram 500 eða brot úr þeirri tölu sbr.  5. gr. laga Landssambands eldri borgara, „Fulltrúar á landsfund LEB.“ Vakin er athygli á eftirgreindum ákvæðum laga Landssambands eldri borgara varðandi landsfundinn:

Grein 15.2: „Tillögur til lagabreytinga skulu sannanlega hafa borist stjórn LEB með 2ja mánaða fyrirvara  fyrir landsfund og er þá stjórn skylt að kynna þær aðildarfélögum í fundarboði og leggja þær fram á landsfundi.“  Skilafrestur tillagna um lagabreytinga er til og með 22. mars.

Grein 4.5: „Tillögur ásamt greinargerð, sem aðildarfélög eða fulltrúar hyggjast leggja fyrir landsfund, skulu sendar stjórn LEB a.m.k. mánuði fyrir fundinn.“ Skilafrestur tillagna ásamt greinargerð er til og með 22. apríl 2017.

Grein 5.2: „Félagsstjórn aðildarfélags gefur út kjörbréf til landsfundarfulltrúa og skal senda þau til stjórnar LEB a.m.k. 2 vikum fyrir landsfund, þ.e. til og með 8. maí undirrituð af formanni og ritara aðildarfélags.“ Eins og á fyrri landsfundum verður kjörbréfanefnd þó heimilt að taka gild, réttilega undirrituð kjörbréf sem berast allt fram að setningu landsfundar.

Samkvæmt grein 4.4. skulu tillögur sem stjórn hyggst leggja fyrir landsfund fylgja fundarboði. Þær tillögur eru ekki tilbúnar en verða sendar út mánuði fyrir landsfund á sama tíma og tillögur frá aðildarfélögum.

Hjálagt er eyðublað fyrir kjörbréf en dagskrá landsfundarins má finna á bakhlið þessa bréfs. Nánari upplýsingar verða sendar í tölvupósti þegar nær dregur og ef spurningar vakna má senda þær á netfangið leb@leb.is.“

Skilafrestur tillagna um lagabreytinga rann út 22. mars og hefur ein tillaga hefur borist um lagabreytingar.  Farið var yfir ýmis atriði er snerta framkvæmd fundarins.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsinga.

  1. Áskorun Flokks fólksins vegna „Afturvirkni almannatryggingalaga“

HI kynnti svohljóðandi opið bréf dagsett 7. mars 2017 frá Ingu Sæland formanns Flokks Fólksins til formanns landssambands eldri borgara (LEB)

„Ágæti formaður landssambands eldri borgara Haukur Ingibergsson.

Stjórn Flokks Fólksins skorar hér með á stjórn (LEB) að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og höfða mál gegn ríkinu, er varðar meint lögbrot Tryggingarstofnunar ríkisins. (TR) á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 með síðari breytingum.

Ef LEB ætlar ekkert að aðhafast gagnvart þessu meinta lögbroti TR,  óskar Flokkur Fólksins eftir yfirlýsingu formanns LEB þess efnis innan 10 daga frá birtingu þessa bréfs.

Flokkur Fólksins mun í kjölfarið höfða mál á hendur ríkinu fyrir hönd eldriborgara og fá úr því skorið fyrir óvilhöllum dómstólum hver raunverulegur réttur þeirra er.

Með breytingum á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 féll niður ákvæði sem heimilaði Tryggingarstofnun ríkisins (hér eftir TR) að skerða lífeyri eldri borgara vegna  greiðslna sem þeir fengju úr lífeyrissjóði.

Í stað þess að taka mark á gildandi lögum nr. 100/2007 með síðari breygingum, greiddi TR ekki 5 milljarða króna af lögboðuðum greiðslum sínum til eldri borgara fyrir mánuðina janúar og febrúar 2017. Undirrituð telur, að með þessari háttsemi sinni hafi TR gert ríkið skaðabótaskylt gagnvart eldri borgurum sem urðu sannanlega af þessum greiðslum.“

Að höfðu samráði við stjórnarmenn í tölvupósti fékk formaður LEB Directa lögfræðiþjónustu og ráðgjöf til greina málið og skilaði lögfræðiþjónustan neðangreindu minnisblað til LEB 11. mars 2017:

MINNISBLAÐ (til Landssambands eldri borgara frá Directa, lögfræðiþjónustu og ráðgjöf)

Aðild félags að dómsmáli fyrir hönd félagsmanna

Óskað var eftir því þann 9. mars 2017 að undirrituð gæfi stutt álit á réttarstöðu varðandi

aðild Landssambands eldri borgara (LEB) að dómsmáli um afturvirkni laga. Ekki er um

ítarlegt álit að ræða.

Málsatvik og álitaefni

Landssamband eldri borgara er sjálfstætt starfandi landssamband sem hefur það hlutverk að

vinna að hagsmuna-, velferðar- og áhugamálum aldraðra og koma fram fyrir hönd

aðildarfélaganna gagnvart Alþingi, ríkisstjórn, stjórnvöldum og öðrum, sem sinna málefnum

aldraðra fyrir landið í heild.

Formanni Landssambands eldri borgara (LEB) hefur borist opið bréf frá stjórn Flokks Fólksins

þar sem skorað er á stjórn LEB að höfða mál gegn ríkinu er varðar meint lögbrot

Tryggingastofnunar ríkisins (TR) á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 með síðari

breytingum.

Óskað hefur verið eftir áliti Direktu lögfræðiþjónustu á því hvort að LEB gæti átt aðild að

dómsmáli því sem að ofan greinir.

Gögn

Opið bréf til formanns LEB dags. 7. mars 2017

Lagaumhverfi

Um réttarsvið þetta gilda lög um meðferð einkamála nr. 31/1991 (EML)

Réttarstaða

Félagasamtök á borð við LEB eru almennt hæf til þess að geta átt aðild að dómsmálum sbr.

  1. gr. EML og eru mörg fordæmi þess. Hins vegar verða aðilar að dómsmáli, hvort heldur

einstaklingar eða lögaðilar á borð við félagasamtök, að hafa af því lögvarða hagsmuni að

niðurstaða náist í máli. Þessi regla er þó ekki lögfest berum orðum en leiðir af 24. og 25. gr.EML.

Dómstólar verða þannig ekki krafðir svara við svokölluðum lögspurningum, þ.e. gefa ekki álit

um lögfræðileg efni nema til úrlausnar tiltekinnar kröfu. Þ.e. úrlausn máls þarf að hafa

raunhæft gildi fyrir réttarstöðu aðila málsins.

Í 3. mgr. 25. gr. EML segir þó að félag eða samtök manna geti í eigin nafni rekið mál til

viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum

þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem

dómkrafan tekur til.

Reglan í 3. mgr. 25. gr. EML kemur því aðeins til álita til þess að félagasamtök leggi fram

svokallaða viðurkenningarkröfu, aðrar kröfur koma ekki til álita samkvæmt þessari grein.

Þ.e. aðeins krafa um viðurkenningu á rétti eða lausn undan skyldu.

Félagasamtökin verða einnig að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um

viðurkenningarkröfuna sbr. 2. mgr. 25. gr. EML. T.d. er ekki hægt að leggja fram kröfu um

viðurkenningu á bótarétti nema aðili (í þessu tilfelli LEB) geti síðar lagt fram sjálfa bótakröfuna.

Þrátt fyrir að viðurkenning á bótarétti félagsmanna hafi ekki fengið náð fyrir augum

dómstóla virðast þeir hafa litið svo á að félagasamtök geti haft af því lögvarða hagsmuni að

fá úr því skorið hvort viðurkennt sé að útreikningar á bótum til félagsmanna séu ólögmætir,

þ.m.t. hvort reglur um slíka útreikninga skorti lagastoð. Það er hins vegar háð því hvort að

framlagning kröfunnar samrýmist hlutverki og tilgangi félagsins2.

Í lögum LEB kemur fram að tilgangur félagsins sé að vinna að hagsmuna-, velferðar- og

áhugamálum aldraðra og koma fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart Alþingi,

ríkisstjórn, stjórnvöldum og öðrum, sem sinna málefnum aldraðra fyrir landið í heild.

Er það mat undirritaðrar að viðurkenningarkrafa um gildi reglna sem notaðar eru við

útreikning á greiðslum til aldraðra falli að tilgangi félagsins og LEB gæti því verið aðili að slíku

máli. Það er þó ekki vafalaust enda er 3. mgr. 25. gr. EML undantekningarregla sem ber að

túlka þröngt skv. lögskýringarreglum.

Önnur leið til þess að fá dóm um álitaefnið er að félagsmaður LEB höfði sjálfur mál og geri

kröfu um greiðslu frá TR í stað kröfu um viðurkenningu á röngum lagagrundvelli, þ.e.

aðfararhæfa fjárkröfu í stað viðurkenningarkröfu. Minni hætta er á að vafamál skapist um

aðild að málinu sé slík leið farin.

Í svokölluðum Öryrkjadómum – Hrd. 125/2000 og Hrd. 349/2002, var Öryrkjabandalagið

málsaðili að því fyrra en einstaklingur í seinna málinu. Fyrra málið snerist um útreikning á

bótum og hið síðara um afturvirkni laga sem sett voru til að breyta þeim útreikningi.

Þriðja leiðin er svo möguleikinn á svokölluðu málsóknarfélagi. Hún kemur til greina ef

margir aðilar eiga kröfur á einn aðila og kröfurnar eiga allar rætur að rekja til sama atviks,

aðstöðu eða löggernings. Telja verður að sömu sjónarmið eigi við og þegar um aðilasamlag

er að ræða.

Í þessu tilfelli er reyndar hæpið að talið yrði að um sama atvik sé að ræða eða löggerning en

mögulega mætti þó segja að aðilar séu í sömu aðstöðu, þ.e. aldraðir að þiggja bætur frá TR á

tilteknum tíma reiknaðar út miðað við tilteknar reglur. Kröfugerð í slíku máli yrði þá

samanlögð upphæð fjárkrafna frá hverjum og einum í slíkum hópi. Hins vegar verður að

meta hvort að fjöldi einstaklinga sé svo mikill að af þessu verði meira óhagræði en hagræði

og hætta sé á flækjum innan málsóknarfélagsins og við útreikning á kröfufjárhæð.

Undirritaðri er ekki kunnugt um þá hlið málsins.

Samantekt og niðurstaða

Með vísan til ofangreinds telur undirrituð að LEB gæti átt aðild að dómsmáli varðandi

lögmæti útreikninga TR á greiðslum til félagsmanna LEB á ákveðnu tímabili. Eingöngu væri

þó hægt að leggja fram viðurkenningarkröfu í slíku máli, ekki fjárkröfu. Hætta er á að slík

málsókn rjúfi ekki fyrningu krafna einstaklinganna á hendur TR.

Einstaklingur gæti einnig látið á það reyna hvernig dæmt yrði um fjárkröfu á hendur TR,

sambærilegt og gert var í síðara máli ÖBÍ.

Hópmálsókn kæmi fræðilega til greina, en meta þarf hvort fjöldi einstaklinga sé það mikill að

af því verði óhagræði.

Að höfðu samráði við stjórnarmenn í tölvupósti sendi formaður LEB svohljóðandi bréf til Flokks Fólksins 14. mars 2017:

Efni: Málshöfðun vegna laga um almannatryggingar

Formanni Landssambands eldri borgara (LEB) barst opið bréf frá Ingu Sæland formanni Flokks fólksins dags. 7. mars 2017.  Í bréfinu er skorað á stjórn LEB að höfða mál gegn ríkinu er varði meint lögbrot Tryggingastofnunar ríkisins á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007.

Þakkað er fyrir bréfið og hefur stjórn LEB tekið málið til skoðunar og m.a. fengið lögfræðiálit um það hvernig aðild að dómsmáli því sem fjallað er um í bréfinu gæti verið háttað.  Samkvæmt því áliti koma þrjár leiðir til greina varðandi aðildina.

Í fyrsta lagi gæti LEB höfðað mál fyrir hönd félagsmanna aðildarfélaga sinna samkvæmt undanþáguákvæði í 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Í slíku máli er hins vegar eingöngu hægt að gera svokallaðar viðurkenningarkröfur og fá viðurkenningardóm.  Þ.e. ekki væri hægt að gera fjárkröfu eða bótakröfu í þess háttar máli. LEB gæti ekki sjálft átt bótakröfu á hendur ríkinu og gæti því ekki fengið viðurkenningardóm fyrir skaðabótaskyldu ríkisins. Því þyrfti að gera fjárkröfu á ríkið í framhaldinu og að því máli gæti LEB ekki verið aðili.

Í öðru lagi gæti einstaklingur höfðað mál og getur þá gert fullar kröfur um útreikning bóta eftir þeim reglum sem giltu í janúar og febrúar 2017 og þá á þeim grundvelli að nýsamþykkt breytingalög geti ekki afturvirkt breytt reglum þess tímabils.

Í þriðja lagi væri möguleiki að skoða svokallað málsóknarfélag sbr. 19. gr. a laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hins vegar verður að skoða hagkvæmni við slíkt félag í ljósi þess hversu stór hópur eigi kröfur og hversu einfalt eða flókið sé að reikna út kröfu hvers og eins.

Þegar þessir þrír kostir eru skoðaðir þá er það mat LEB að sú leið að einstaklingur höfði mál af þessu tagi sé fýsilegust. Það sé einfaldari leið en að setja saman málsóknarfélag en nái á sama tíma mun skýrari og afdráttarlausari dómsniðurstöðu en ef LEB væri aðili, þ.e. hægt væri að fá greiðsluskyldu staðfesta með aðfararhæfum dómi.  Slíkur dómur hefði svo fordæmisgildi gagnvart öðrum sem rétt ættu á greiðslu.

Landssamband eldri borgara mun því ekki verða við áskorun Flokks Fólksins um að „höfða mál gegn ríkinu, er varðar meint lögbrot Tryggingastofnunar ríkisins. (TR) á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 með síðari breytingum.“

Afgreiðsla stjórnar: Afstaða stjórnar til málshöfðunar kemur glögglega fram í bréfi því er sent var Flokki Fólksins um að sú leið að einstaklingur höfði mál sé fýsilegust til að ná fram afdráttarlausari dómsniðurstöðu og fá greiðsluskyldu staðfesta með aðfararhæfum dómi.

Jafnframt samþykkir stjórnin eftirfarandi: Breyting á lögum um Almannatryggingar tók gildi 1.janúar 2017. Villa var í nýju lögunum miðað við ásetning löggjafans. Lögin sem giltu í janúar og febrúar 2017 hefðu, að því er fram kom, þýtt 2,5 milljörðum hærri greiðslur til lífeyrisþega á mánuði heldur en Tryggingastofnun greiddi út. Alþingi samþykkti í lok febrúar breytingu á lögum í samræmi við upphaflegan ásetning laganna og voru þau afturvirk frá áramótum. Á fundi í Velferðarnefnd Alþingis 24. febrúar vöruðu fulltrúar LEB við þessum málatilbúnaði og mótmæltu afturvirkri lagasetningu.

Stjórn LEB telur nauðsynlegt að fá nákvæmar upplýsingar og skýringar á því hvernig umrædd upphæð 2,5 milljarðar á mánuði eða 5 milljarðar fyrir janúar og febrúar voru fundnir út og hvernig skipting á þessari upphæð milli lífeyrisþega hefði orðið, hefði þessi fjárhæð verið greidd út í samræmi við laganna hljóðan. Stjórnin felur formanni LEB að skrifa bréf til Velferðarráðuneytisins þar sem óskað verði skýringa og nánari upplýsinga.

  1. Viðræður við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni

HI og SJ greindu frá framgangi viðræðna við nýja forystu Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni um áherslur í samstarfi aðila.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin felur fulltrúum LEB að halda áfram viðræðum við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni með það að markmiði að félagið afturkalli úrsögn sína úr LEB.

  1. Listin að Lifa

HI lagði fram eintök af sumarblaði „Listin að lifa“ sem lokið er að prenta og er að fara í dreifingu sem lokið á að vera fyrir páska.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsingar.

  1. Önnur mál

Engin önnur mál lágu fyrir fundinum.

Næsti stjórnarfundur verður miðvikudaginn 26. apríl kl. 13:30.