Fundargerð 292. fundar stjórnar LEB
haldinn 28. febrúar 2017 kl. 13:30 að Sigtúni 42
Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ), og Baldur Þór Baldvinsson (BÞB). Anna Sigrún Mikaelsdóttir boðaði forföll.
HI setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna.
- Ársreikningur Landssambands eldri borgara 2016
ÁE lagði fram til afgreiðslu og undirritunar ársreikning Landssambands eldri borgara fyrir árið 2016 sem kynntur verður á landsfundi 2017. Verulegt aðhald hefur verið í rekstrinum og á árunum 2015 og 2016 hefur tekist að byggja upp varasjóð sem nýta má til rekstrar landssambandsins takist ekki að endurnýja samning við ríkisvaldið 2018 um fjárstuðning við LEB eða að landssambandið lendi í fjárhagslegum áföllum af öðrum ástæðum.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar góðum rekstrarárangri.
- Landsfundur Landssambands eldri borgara 2017
HI innleiddi umræðu um landsfund Landssambands eldri borgara 2017 og gerði tillögu um að þegið yrði boð Félags eldri borgara í Hafnarfirði um að landsfundurinn yrði haldinn í félagsmiðstöð félagsins, Hraunseli, þriðjudaginn 23. og miðvikudaginn 24. maí. Fundurinn hæfist kl. 13:00, 23. maí og fundarlok yrðu ekki síðar en kl. 12:00, 24. maí.
Afgreiðsla stjórnar: Tillagan var samþykkt.
- Framkvæmd landsfundar
HI lagði fram yfirlit yfir helstu atriði er snerta framkvæmd fundarins og tímasetningar þeirra samkvæmt lögum LEB þar á meðal:
- Boðun fundarins í síðasta lagi apríl.
- Útgáfa kjörbréfa í síðasta lagi 8. maí.
- Leggja fram skýrslu stjórnar ásamt ársreikningum 2015 og 2016 í síðasta lagi 15. maí.
Afgreiðsla stjórnar: Ákveðið var að skipa þrjár nefndir til að leiða undirbúning og framkvæmd fundarins;
- a) Málefnanefnd sem Sigurður Jónsson leiði og með honum í nefndinni séu Sigríður J Guðmundsdóttir og Haukur Ingibergsson,
- b) Fundarhaldsnefnd sem Elísabet Valgeirsdóttir leiði og með henni séu Baldur Þór Baldvinsson, Valgerður Sigurðardóttir og Jónína Óskarsdóttir.
- c) Uppstillinganefnd sem verði skipuð síðar.
Jafnframt var ákveðið að fá Margréti Jónsdóttur, sem hafði umsjón með fundarritun og skjalamálum á síðasta landsfundi og formannafundi, til að annast það verk á landsfundinum 2017og að halda utan um skjalamál o.fl. varðandi undirbúning landsfundarins 23-24. maí.
- Viðræður við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni
HI og SJ gerðu grein fyrir viðræðum við fulltrúa Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni þar sem ýmislegt hefur borið á góma þar á meðal varðandi samstarf aðila, málefnaundirbúning, sýnileika LEB, tíðni landsfunda og fulltrúafjölda á þeim, landshlutafundi LEB, árgjald o.fl.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin felur fulltrúum LEB að halda áfram viðræðum við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni með það að markmiði að félagið afturkalli úrsögn sína úr LEB.
- Frítekjumark almannatrygginga
HI opnaði umræður um framkvæmd laga um almannatryggingar hvað varðar frítekjumarkið. Mikil óánægja er með að fjárhæð frítekjumarksins sé aðeins 25 þúsund krónur á mánuði eins og stjórn LEB ítrekaði á fundi sínum með félags- og jafnréttismálaráðherra auk þess sem minnt var á fyrirheit í stjórnarsáttmála um hækkun á þessari fjárhæð. Rætt var um hvernig halda megi þrýstingi á málið þannig að af breytingum verði.
Afgreiðsla stjórnar: Mikilvægt að halda málinu vakandi meða annars með samstarfi LEB við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
- Afturvirk breyting á almannatryggingalögum
HI gerði grein fyrir að þegar lögum um almannatryggingar var breytt síðasta haust með það að markmiði að sameina bótaflokka og einfalda skerðingarkerfið hafi verið gerð mistök við lagasetningu þannig að eftir lagatextans hljóðan skyldu greiðslur úr lífeyrissjóðakerfinu ekki koma til frádráttar við útreikning á ellilífeyri líkt og stefnt var að. Velferðanefnd Alþingis hyggist leiðrétta þetta með afturvirkri lagasetningu en hefði TR greitt lífeyrinn eftir ákvæðum laganna hefði það kostað ríkissjóð um 2,5 milljarða króna fyrir hvorn mánuð, janúar og febrúar. HI og EV fóru á fund velferðarnefndar Alþingis ásamt fulltrúum Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni þar sem mál þetta var rætt. Það samræmist hvorki stjórnarskrá né góðum stjórnsýsluháttum að gera afturvirkar breytingar á lögum og það gildi í þessu tilviki sem öðrum og það hafi verið meginstefið í málflutningu fulltrúa LEB.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur atburðarás af því tagi sem hér um ræðir vera óskiljanleg og harmar að hún hafi gerst. Umdeilt er hvort eignarréttindi handa ellilífeyrisþegum hafi skapast með mistökum Alþingis og felur stjórnin HI að fá lögfræðiálit um þetta efni.
- Greining á högum og líðan aldraðra á Íslandi 2016
HI gerði grein fyrir að 31. janúar hefði skýrsla sem Landssamband eldri borgara, Velferðarráðuneytið og Velferðarsvið Reykjavíkurborgar staðið fyrir kynningu á niðurstöðum könnunarinnar Hagir og líðan aldraðra á Íslandi árið 2016 sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Landssamband eldri borgara, Velferðarráðuneytið og velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þetta er í fjórða sinn sem könnun á högum og líðan aldraðra er lögð fyrir, en hún var fyrst gerð árið 1999, síðan árið 2006 og í þriðja sinn árið 2012. Í niðurstöðunum má alls staðar sjá þróun þar sem upplýsingar til þess eru fyrir hendi, en einnig var bætt við nokkrum nýjum spurningum. Tekið var 1800 manna tilviljunarúrtak fólks 67 ára og eldri úr þjóðskrá og spurningar lagðar fyrir ýmist í síma eða með netkönnun. Svarhlutfall var 59%. Spurningarnar sem lagðar voru fyrir lúta meðal annars að almennu heilbrigði fólks 67 ára og eldri, viðhorfum þess til heilbrigðisþjónustunnar, spurt var um heilbrigðisútgjöld, hvort og hvaða aðstoð fólk fær inn á heimili sitt, eins var spurt um búsetuhagi, atvinnuhagi, fjárhag, félagslega virkni, tölvunotkun og notkun samfélagsmiðla og margt fleira.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar gerð þessarar könnunar og að Landssamband eldri borgara skuli nú, í fyrsta sinn, vera aðili að framkvæmd hennar.
- Önnur mál
Engin önnur mál voru rædd. Næsti stjórnarfundur verður 28. mars.