Fundargerð 291. fundar stjórnar LEB
haldinn 23. janúar 2017 kl. 14:00 – 16:00 að Sigtúni 42
Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ), og Baldur Þór Baldvinsson (BÞB). Anna Sigrún Mikaelsdóttir boðaði forföll.
HI setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna.
- Fundargerð stjórnarfundar nr. 290
Fundargerð 290. stjórnarfundar, sem haldinn var 5. janúar 2017, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.
- Fundur með félags- og jafnréttismálaráðherra
Rætt var um áhersluatriði á fundi stjórnar LEB með félags- og jafnréttisráðherra, Þorsteini Víglundssyni og starfsmönnum Velferðarráðuneytisins sem haldinn verður 25. janúar. Ákveðið að leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
Almannatryggingar
LEB fagnar endurbættu almannatryggingakerfi og leggur sérstaka áherslu á:
- að fylgst sé með virkni kerfisins og að TR geri á þessu ári ársfjórðungslega samanburð á greiðslum samkvæmt hinu nýja kerfi samanborið við ef greitt væri eftir því fyrirkomulagi sem gilti 2016.
- að frítekjumark vegna atvinnutekna verði hækkað nú á vorþingi sbr. ákvæði í stjórnarsáttmála um að „Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað“
- að tillögum „Pétursnefndarinnar“ verði að fullu komið í framkvæmd m.a. hvað varðar sveigjanleika og valkosti í atvinnuþátttöku eldri borgara sem geti nýtt starfsgetu sína og reynslu með því að sveigjanleg starfslok verði meginregla.
Þjónusta sveitarfélaga
- Sveitarfélög veita eldri borgurum margháttaða þjónustu. Á síðustu árum hefur formlegum samstarfsvettvangi, sem nefnist öldungaráð, verið komið á í 23 sveitarfélögum þar sem 230.000 manns, eða 70% landsmanna búa. Stofnun öldunaráða er í undirbúningi í fleiri sveitarfélögum.
- Fyrir liggja í ráðuneytinu tillögur að breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar er m.a. lagt til að lögfesta öldungaráð sem samráðsvettvang sveitarfélags og félags eldri borgara. LEB leggur mikla áherslu á að fyrirliggjandi tillögur að frumvarpi verði að lögum.
- LEB hefur ítrekað ályktað um að breyta þurfi greiðslufyrirkomulagi íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum þannig að þeir missi ekki fjárráð eins og nú er, en þess í stað greiði íbúar fyrir dvalarkostnað í samræmi við gæði og stærð rýma. Starfshópur var skipaður sl. vor sem vinnur að því að setja af stað tilraunaverkefni með breytt fyrirkomulag á grundvelli lagabreytinga.
- Fyrir áratug var nokkur umræða um að flytja málefni aldraðra til sveitarfélaga. Vegna efnahagsörðugleika og að menn vildu fá reynslu af flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga var málið sett á bið. LEB telur tímabært að hefja á ný markvissa vinnu við að greina kosti og galla þess að flytja málefni aldraðra til sveitarfélaga.
Ýmis mál
- Sífellt þarf að hafa í huga að eldri borgarar geti búið á eigin heimili sem lengst. Heimaþjónusta, heimahjúkrun og að eldri borgarar eigi kost á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) og að hentugt húsnæði sé fyrir hendi, eru lykillinn að árangri á þessu sviði.
- Margháttuð velferðartækni skiptir væntanlega sköpum um hagstæða þróun og nýjungar í öldrunarmálum og mikilvægt er að stjórnvöld veiti öfluga forystu um innleiðingu á því sviði.
- Efla þarf upplýsingamiðlun og auðvelda aðgengi að þekkingu fyrir aðstandendur um öldrun og valkosti á því sviði þegar elli sækir á ættmenni.
- Komið verði á réttindavakt eða embætti umboðsmanns aldraðra til að auðvelda öldruðum að leita réttar síns telji þeir á sér brotið.
Afgreiðsla stjórnar: Mikilvægt er fyrir LEB að byggja upp og eiga gott samstarf við félags- og jafnréttisráðherra og ríkisstjórnina alla um framgang hagsmunamála eldri borgara og er fyrirhugaður fundur mikilvægt skref í þá átt.
- Viðræður við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni
HI og SJ gerður grein fyrir viðræðum við fulltrúa Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni vegna úrsagnar félagsins úr LEB og ýmis atriði sem þar hefur borið á góma. Jafnframt var kynnt lögfræðiálit sem LEB óskað eftir að Direkta lögfræðiþjónusta tæki saman og gæfi álit á réttarstöðu varðandi úrsögn aðildarfélaga úr Landssambandi eldri borgara (LEB). Niðurstaða þess álits er að „fram sé komin sannanleg tilkynning um úrsögn FEB úr LEB. Engu breyti um gildi úrsagnar hvort nánar tilgreind skilyrði FEB verði uppfyllt eða ekki. FEB heldur fullri aðild þar til hún fellur niður þann 1. janúar 2018. FEB getur hins vegar óskað eftir því að draga úrsögn sína til baka á hvaða tímapunkti sem er fram til 1. janúar 2018 en telja verður að LEB verði að samþykkja slíka afturköllun.“
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur afar mikilvægt að félög eldri borgara á Íslandi séu öll innan eins landssambands, enda gefi það sterkasta stöðu til ná árangri í baráttu fyrir bættum hag aldraðra á ýmsum sviðum. Stjórnin felur fulltrúum LEB að halda áfram viðræðum við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni með það að markmiði að félagið afturkalli úrsögn sína úr LEB.
- Ársreikningur LEB 2016
ÁE lagði fram drög að ársreikningi LEB 2016 sem er í endurskoðun hjá löggiltum endurskoðanda félagsins og fer síðan í endurskoðun hjá félagskjörnum endurskoðendum áður en hann verður lagður fyrir stjórn til undirritunar.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsingar
- Listin að lifa – vorblað
HI kynnti útgáfuáætlun ritnefndar vorblaðs „Listin að lifa.“ en tímaritið verður gefið út í 21.000 eintökum. Skilafrestur efnis og auglýsinga verður fyrir lok febrúar þannig að dreifingu verður lokið fyrir páska. Umræða var um dreifingu síðasta blaðs og verður strax farið að undirbúa dreifilista þannig dreifing verði hnökralaus.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsingar.
- Ársskýrslur aðildarfélaga
HI gerði grein fyrir að aðildarfélög LEB hafi verið beðin um að skila ársskýrslum 2016 í sambærilegu formi og síðustu ár og að þær berist LEB fyrir 15. febrúar.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsingar.
- Starfsemi öldungaráða
HI greindi frá að Samband íslenskra sveitarfélaga í samráði við LEB væri að undirbúa gerð bæklings með leiðbeiningum um starfsemi öldungaráða. Vegna þess starfs hefðu aðildarfélög LEB verið beðin um að senda LEB efni sem tengdist starfsemi öldungaráða svo sem reglur um ráðin, fundargerðir, dagskrár funda og annað það sem veitti innsýn í starfsemi slíkra ráða.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar þessu verkefni og telur það mikilvægt til að efla og samræma starf Öldungaráða..
- Skýrsla um könnun á högum og líðan aldraðra
HI kynnti að skýrsla um könnun sem Félagsvísindastofnun HÍ hefur unnið að um hagi og líðan aldraðra sé í lokafrágangi og muni verða kynnt um mánaðarmótin janúar/febrúar. Skýrslan er unnin í samvinnu Landssambands eldri borgara, Velferðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar en ámóta kannanir hafa verið gerðar áður.
- Önnur mál
Engin önnur mál voru rædd.
Næsti fundur verður boðaður síðar