fbpx

                                     Fundargerð 290. fundar stjórnar LEB

haldinn 5. janúar 2017 kl. 13:30 – 15:30 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ) og Baldur Þór Baldvinsson (BÞB). Elísabet Valgeirsdóttir og Anna Sigrún Mikaelsdóttir boðuðu forföll.

HI setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna.

  1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 289

Fundargerð 289. stjórnarfundar, sem haldinn var 8. desember 2016, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

  1. Almannatryggingar

Löggjöf um breytta skipan almannatrygginga fyrir aldraða var tekin til umræðu. Vegna mikils álags við útgreiðslu ellilífeyris samkvæmt breyttu kerfi hefur TR ekki unnist tími til að sundurgreina upplýsingar um útgreiðslu 1. janúar 2017 og bera hana saman við útgreiðslu 1. janúar 2016. Þó liggur fyrir að heildargreiðsla TR til eldri borgara og öryrkja 1. janúar 2017 nam nálægt 7.800 milljónum króna en nam 6.500 milljónum króna 1. janúar 2016. Hefur útgreiðsla þvú aukist um 1.300 milljónir eða 20% á milli janúarmánuða.

Afgreiðsla stjórnar: Óskað verður eftir að TR geri eins fljótt og við verður komið og síðan ársfjórðungslega, samanburð á greiðslum til eldri borgara á árinu 2017 í samanburði við árið 2016.

  1. Ársreikningur LEB 2016

ÁE gerði grein fyrir að frágangur á ársreikningi 2016 væri hafinn og væri stefnt að því að reikningurinn verði fullfrágenginn af hendi löggilts endur skoðanda landssambandsins fyrir lok janúar og færi í framhaldi af því til endurskoðunar hjá félagskjörnum endurskoðendum.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsinga.

  1. Listin að lifa

Á fundinn kom Grétar Snær Hjartarson sem hefur umsjón með framleiðslu og útsendingu vetrarblaðs tímaritsins Listin að lifa sem nýlega er komið út. Hann sagði frá erfiðleikum við dreifingu blaðsins vegna bjögunar í áritun nafns og heimilisfangs, sem stundum passaði ekki saman, þannig að heimili var ranglega tilgreint og af þeim sökum rataði tímaritið ekki í réttar hendur. Dreifing í Reykjavík var viðunandi og eins hjá minni félögum á landsbyggðinni en hjá níu aðildarfélögum var dreifingin óviðunandi. 15 aðildarfélög sjá sjálf um að dreifa blöðum til félagsmanna sinna. Á fundi GSH, HI og ÁE með fulltrúum Póstdreifingar og Landsprents, sem annaðist áritanir vegna anna hjá Póstdreifingu, viðurkenndi Landsprent ábyrgð sína og að fyrirtækið mundi endurtaka prentun, áritun og dreifingu tímaritsins til þeirra sem orðið hefðu af tímaritinu í fyrstu atrennu.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin harmar þau óþægindi sem þessir hnökrar í framleiðslu og dreifingu ollu þeim félagsmönnum aðildarfélaganna sem þetta bitnaði á.

  1. Viðræður LEB og FEB í Reykjavík og nágrenni

HI gerði grein fyrir viðræðum sem nokkrir stjórnarmenn í LEB hafa að undanförnu átt við stjórnarmenn í FEB í Reykjavík og nágrenni. m.a. um starfsemi og samstarf aðila, stefnumótun, fjármál og fleira. Í umræðunum hefur m.a. komið fram óánægja með frammistöðu LEB í baráttu fyrir umbótum á almannatryggingum og að LEB hafi ekki tekið nægilegt tillit til og jafnvel lagst gegn skoðunum FEB í Reykjavík og nágrenni varðandi það mál. Einnig að aðildargjald að LEB sé of hátt og taki í enda hafi  rekstrarafkoma FEB verið neikvæð 10 af síðustu 12 árum á sama tíma og að um 10 þúsund félagsmenn geri sífellt meiri kröfur til þjónustu á skrifstofu félagsins. Hinn 29. desember 2016 sendi FEB bréf til LEB þar sem segir „Stjórn FEB hefur à fundum sínum margrætt mál LEB og niðurstaðan er sú að ákveðið var að senda inn úrsögn úr LEB frá og með 31.12.2016. Úrsögnin fer í þann farveg sem kveðið er á um í lögum FEB og LEB og tekur þá gildi að sex mánuðum liðnum ef engar þær breytingar sem ræddar hafa verið,  verða komnar til framkvæmda innan LEB og á starfi samtakanna.“ Jafnframt er tekið fram að vonir séu bundnar við „að LEB leggi fram tillögur um bætt vinnubrögð og bregðist við áánægju FEB“

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur mikilvægt að halda viðræðum aðila áfram og felur HI og SJ að leiða þeir fyrir hönd LEB þar sem mikilvægt sé að félög eldri borgara séu í einu landssambandi og að allur klofningur veiki stöðu eldri borgara við að berjast fyrir hagsmunamálum sínum.

  1. Afsláttur til eldri borgara

Rætt var um hvernig árangursríkast væri að að afla afsláttar á vörum og þjónustu fyrir eldri borgara. Bent var á að reynsla virtist vera sú að ef eldri borgari væri með félagsskírteini í einhverju FEB félagi fengi hann afslátt hvar sem væri á landinu svo framarlega að eldriborgaraafsláttur væri á annað borð í boði. Rætt var um afsláttarbókina og útgáfu hennar í samvinnu við FEB í Reykjavík og nágrenni og einnig hvort fá ætti verlanir og þjónustuaðila til að setja upp merki um að eldriborgaraafsláttur sé í boði.

Afgreiðsla stjórnar: Umræðunni verður fram haldið síðar.

  1. Önnur mál

Engin önnur mál voru rædd.

Næsti fundur verður boðaður síðar.