fbpx

                                     Fundargerð 289. fundar stjórnar LEB

haldinn 8. desember 2016 kl. 13:30 – 15:30 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ) og Baldur Þór Baldvinsson (BÞB). Elísabet Valgeirsdóttir, Sigríður J. Guðmundsdóttir og Anna Sigrún Mikaelsdóttir boðuðu forföll.

HI setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna.

  1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 288

Fundargerð 288. stjórnarfundar, sem haldinn var 10. október 2016, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

  1. Samningar vegna hjúkrunarheimila

Björn Bjarki Þorsteinsson, varaformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, kynnti „Rammasamning milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila“ ásamt kröfulýsingu sem er hluti af rammasamningnum. Hann fór yfir helstu atriði samningsins og breytingar sem samningurinn hefur í för með sér, m.a. til að skýra fyrirkomulag og hvað hjúkrunarheimilum beri að gera og hvað þeim beri ekki að gera og hvaða áhrif samningurinn geti haft á málaflokkinn. Í framhaldi af kynningunni urðu miklar umræður um stöðu og starf hjúkrunarheimila og mögulega þróun í fjármögnun og starfsemi þeirra.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórn Landsamband eldri borgara telur að samningurinn og kröfulýsingin

geti orðið grundvöllur framfara varðandi rekstur hjúkrunarheimila og mun LEB áfram vera í góðu samstarfi við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og stjórnvöld við þróun þessa hluta öldrunarþjónustunnar.

  1. Innleiðing á breytingu á lögum um almannatryggingar

HI gerði grein fyrir viðræðum sínum við verkefnisstjórn TR við innleiðingu breytinga á lögum um almannatryggingar nú um áramótin. Verkefnisstjórnin staðfestir að tölvukerfi TR muni vera hæf til að inna greiðslur almannatrygginga af hendi þegar breytingar á lögum um almannatryggingar taka gildi 1. janúar 2017 en fyrsta greiðsla samkvæmt nýju kerfi verður keyrð um áramótin.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar öflugu starfi TR við aðlögun tölvu- og upplýsingakerfa að breyttu fyrirkomulagi.

  1. Listin að lifa

Á fundinn kom Grétar Snær Hjartarson sem hefur umsjón með framleiðslu og útsendingu vetrarblaðs tímaritsins Listin að lifa sem nýlega er komið út. Vanhöld virðast hafa verið með dreifingu og útburð tímaritsins, og virðist bjögun hafa orðið í áritun nafns og heimilisfangs á tímaritið þannig að það rataði ekki í réttar hendur.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórn felur GSH að finna betur út hvort og hvað hafi farið úrskeiðis og hvaða aðgerða sé þörf.

  1. Greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum

ÁE gerði grein fyrir vinnu starfshóps Velferðarráðuneytisins um breytt greiðslufyrirkomulag íbúa á hjúkrunarheimilum. Starfshópurinn hefur haldið 8 fundi og gögnum safnað um núverandi tilhögun og mögulegar framtíðarútfærslur á þessu sviði.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin leggur áherslu á mikilvægi breytinga á þessu sviði þannig að eldri borgarar séu fjár síns ráðandi.

  1. Verkefni öldungaráða

Í framhaldi af samráðsfundi Landssambands eldri borgara og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa aðilar sammælst um að gera bækling með leiðbeiningum til sveitarfélaga og félaga eldri borgara um viðfangsefni og starfshætti öldungaráða.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar hve vel hefur tekist til með að koma öldungaráðum á fót enda séu þau mikilvægur vettvangur til að marka hvernig þjónustu við aldraða er sinnt og hún þróuð á sveitarstjórnarstiginu.

  1. Önnur mál

Engin önnur mál voru rædd.

Næsti fundur verður boðaður síðar.