fbpx

                                     Fundargerð 288. fundar stjórnar LEB

haldinn 10. október 2016 kl. 11:00 – 15:00 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ), Anna Sigrún Mikaelsdóttir (ASM) og Baldur Þór Baldvinsson (BÞB).

HI setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna.

  1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 287

Fundargerð 287. stjórnarfundar, sem haldinn var 22. ágúst 2016, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

  1. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar

Farið var yfir stöðuna varðandi frumvarp félag- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um almannatryggingar sem um þessar mundir er til umfjöllunar á Alþingi, en frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem unnið hefur verið að um árabil. Á fundinn komu starfsmenn Velferðarráðuneytisins, Ágúst Þór Sigurðsson, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir og Hildur Sverrisdóttir Röed, sem unnið hafa að gerð frumvarpsins. Fóru þau yfir helstu efnisatriði frumvarpsins svo sem útreikning og fjárhæðir greiðslna auk þess sem rætt um framkvæmd, innleiðningu og kynningu þeirra breytinga sem verða á almannatryggingum verði frumvarpið það að lögum.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórn Landsamband eldri borgara ítrekar að afar mikilvægt er að það frumvarp sem hér um ræðir verði lögfest og taki gildi 1. janúar 2017, enda endurspeglast í frumvarpinu umræða síðustu ára um aðkallandi framfarir í lífeyrismálum, núverandi og framtíðar eldri borgurum til hagsbóta. Stjórnin telur að mikilvægt sé að vinna náið með velferðarnefnd alþingis, einstökum nefndarmönnum og öðrum þeim sem lagt geta lið til að frumvarpið verði lögfest.

  1. Fundur fulltrúa LEB og Sambands íslenskra sveitarfélaga

HI gerði grein fyrir fundi fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara sem haldinn var þriðjudaginn 4. október 2016 hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að Borgartúni 30. Af hálfu LEB sátu fundinn Haukur Ingibergsson formaður, Sigríður J. Guðmundsdóttir varaformaður, Ástbjörn Egilsson gjaldkeri og Elísabet Valgeirsdóttir meðstjórnandi. Af hálfu sambandsins sátu fundinn Karl Björnsson framkvæmdastjóri, Gyða Hjartardóttir félagsþjónustufulltrúi, Tryggvi Þórhallsson lögfræðingur og Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðarbæjar og fulltrúi sambandsins í Samstarfsnefnd um málefni aldraðra (SUMA).

  • Fyrir fundinum lágu þessi gögn:
    • Minnispunktar frá fundi með LEB 19. september 2014
    • Tillögur SUMA um mótun stefnu í málefnum aldraðra
    • Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga
    • Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar
    • Minnisblað sambandsins dags. 19. september 2016 um öldungaráð
  • Karl Björnsson bauð fulltrúa Landssambands eldri borgara, velkomna til fundar í húsakynnum sambandsins. Hann rifjaði upp efni fyrri funda og sagði mikilvægt að viðhalda góðum tengslum með reglulegum samskiptum. Stefna ætti að því að hafa slíka samráðsfundi að minnsta kosti árlega
  • Haukur Ingibergsson innleiddi umræðuna af hálfu stjórnar LEB og sagði að stóra verkefnið sem hefði verið til umfjöllunar og úrvinnslu væri frumvarp það um breytingar á almannatryggingum sem nú væri til afgreiðslu á Alþingi. Hann sagði frá stöðu málsins og þeim breytingartillögum sem væru til meðferðar.
  • Rætt var almennt um þetta frumvarp og voru allir sammála um mikilvægi þess að þingið lyki umfjöllun sinni og næði að afgreiða málið. Jafnframt var vikið að atriðum sem ekki náðu inn í það frumvarp sem lagt var fyrir þingið m.a. um stöðu þeirra einstaklinga, þar á meðal eldri borgara, sem flyttust hingað til lands frá öðrum löndum og fyrir lægi að viðkomandi myndi einungis öðlast skertan rétt, jafnvel engan rétt, í almannatryggingakerfinu.
  • Rakin voru dæmi um einstaklinga sem lentu í þessari stöðu og var samhljómur um að taka þyrfti til sérstakrar skoðunar hvernig réttarstöðu fólks af öðrum uppruna en íslenskum væri háttað, þegar það tekur upp búsetu hérlendis. Sérstaklega var vikið að stöðu aldraðra sem hingað koma, m.a. sem liður í fjölskyldusameiningum.
  • Þá var einnig rætt um stöðuna á mögulegri yfirfærslu á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. Fulltrúar LEB töldu að hefja ætti þá umræðu að nýju því að forsendur hefðu breyst að ýmsu leyti frá því ákveðið var að setja vinnu við yfirfærsluna á bið.
  • Framkvæmdastjóri sambandsins greindi frá vinnu sem verið væri að ljúka varðandi lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila. Um þær og fleiri atriði er fjallað í rammasamningi sem skýrir verulega margvíslega óvissuþætti í þjónustu heimilanna sem menn höfðu áður staldrað við og urðu þess valdandi að umræður frestuðust um mögulega yfirfærslu. Þá nefndi Karl Björnsson að það væri það liður í stefnumörkun sambandsins 2014 – 2018 að hafa í forgangi að skoða heimahjúkrun og fleiri þjónustuþætti á forræði heilsugæslunnar.
  • Fulltrúar LEB tók undir þessa áherslu og nefndi formaðurinn sérstaklega að skoða ætti að taka heimahjúkrun inn undir þá starfsemi sem samið er um við hjúkrunarheimili. Hjúkrunarheimili gætu þannig orðið ákveðnar miðstöðvar þjónustunnar, þar sé til staðar þekking og möguleiki á því að tryggja betur samfellu og samþættingu í þjónustu.
  • Kröfulýsingar til öldrunarþjónustu bar á góma í þessu sambandi og lögðu fulltrúar sambandsins mikla áherslu á að nýjungar eða breytt viðmið í kröfulýsingum séu kostnaðarmetnar.
  • Rifjað var upp á fundi sambandsins og stjórnar LEB í september 2014 hafi sérstaklega verið rætt um öldungaráð innan sveitarfélaga, sem séu samstarfsvettvangur milli sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa þeirra og starfandi félaga eldri borgara á hverjum stað.
  • Öldungaráðum fer nú fjölgandi í sveitarfélögum eins og fram kemur í könnun sem sambandið lét gera í ágúst/september 2016. Þetta form virðist því hafa sannað sig og gefist vel. Voru fundarmenn sammála um að halda áfram innleiðingu öldungaráða og stíga ákveðin skref til þess að festa þau í sessi.
  • Í því sambandi var sagt frá því að í fyrirliggjandi drögum að breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er miðað við að öldungaráð fái lagastoð og að ráðgert verði að slík ráð starfi í sem flestum sveitarfélögum. Jafnframt er sérstaklega gert ráð fyrir að öldungaráð geti starfað á svæði sem sameinar fleiri en eitt sveitarfélag eins og dæmi eru um t.d. á Suðurnesjum.
  • Tillagan í frumvarpsdrögunum gerir ennfremur ráð fyrir að með lögfestingu öldungaráða sem samstarfsvettvangs falli niður ákvæði um þjónustuhóp aldraðra sem nú eru í lögum um málefni aldraðra. Þessi ákvæði hafa ekki haft mikla þýðingu eftir að breytingar voru gerðar á vistunarmati (nú færni- og heilsumat). Fundarmenn voru sammála um að ekki væri lengur þörf á skipun þessara svokölluðu þjónustuhópum enda myndu öldungaráð taka yfir það samráðs- og samhæfingarhlutverk sem hópunum hefði verið ætlað.
  • Í umræðum um öldungaráðin kom einnig fram að mikilvægt væri að styðja formenn félaga innan LEB í því að formbinda samstarfið við sveitarfélög á starfssvæðinu. Sú hugmynd var kynnt að LEB myndu í samstarfi við sambandið útbúa bækling um starfsemi öldungaráða sem lista myndi upp þau málefni sem út frá reynslu gætu komið til umfjöllunar á vettvangi ráðanna. Um gæti verið að ræða 10-15 atriði ásamt leiðbeiningum.
  • Fulltrúar sambandsins tóku vel í að koma að gerð og útgáfu slíks bæklings. Áréttað var einnig mikilvægi þess að fólk úr félögum eldri borgara ætti kost á námskeiðum og fræðslu við sitt hæfi.
  • Húsnæðismál fengu töluverða umræðu á fundinum og var sérstaklega horft til þess að tilkoma stofnframlaga ríkis og sveitarfélaga gæti gagnast við áætlanir um uppbyggingu þjónustuíbúða.
  • Sveitarfélög munu fá aukið lögbundið hlutverk í húsnæðismálum og er m.a. falið að gera áætlanir um uppbyggingu til þess að mæta þörfum fyrir leiguhúsnæði og önnur úrræði. Ljóst er að mikil vöntun er á húsnæði, m.a. fyrir hópa eldri borgara eins og dæmi um langa biðlista sýna. Fram hefur komið gagnrýni á sveitarfélögin en binda má vonir við að ný framtíðarskipan húsnæðismála muni auðvelda sveitarfélögum og öðrum framkvæmdaraðilum að hefjast handa við uppbyggingu á fjölbreyttum úrræðum. Jafnframt þarf að taka skipulagsmál föstum tökum og þar hefur tilkoma landsskipulagsstefnu jákvæð áhrif.
  • Fulltrúar sambandsins sögðu frá vinnu á vettvangi þess við að fækka svokölluðum gráum svæðum í velferðarþjónustunni. Nokkur slík grá svæði varða óskýra verkaskiptingu í öldrunarþjónustu m.a. hvaða þjónustu sveitarfélög eigi að veita inni á hjúkrunarheimilum. Möguleikar fólks yngra en 67 til þess að sækja dagvist eru einnig á gráu svæði sem og skilin milli félagslegrar heimaþjónustu annars vegar og heilbrigðisþjónustu hins vegar (umönnun á heimili og heimahjúkrun).
  • Sammæli var um að gera átak í því að fækka gráum svæðum í velferðarþjónustunni enda eru það alltaf notendur þjónustunnar sem óskýr verkaskipting bitnar á. Lagt er til að tekin verði ákveðin skref í þá átt í frumvarpsdrögum sem verið er að leggja lokahönd á í starfshópi sem bæði LEB og sambandið eiga aðild að.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur að framangreindur fundur sýni vel hve mikilvægt sé að virkt samstarf sé á milli LEB og Sambands íslenskra sveitarfélag á landsvísu og FEB félaga og sveitarstjórnar í hverju sveitarfélagi eða samstarfssvæði.

  1. Breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga

HI gerði grein fyrir starfi nefndar um endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðs fólks. Í nefndinni er samstaða um að leggja til „að í hverju sveitarfélagi, eða í fleiri en einu sveitarfélagi sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skuli starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála.“ Nefndin hyggist skila tillögum sínum til ráðuneytisins fyrir þinglok en væntanlega muni málið bíða til næsta kjörtímabils.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin ítrekar fyrri samþykkt sína um að í drögum að frumvarpinu séu mikilvæg skref tekin á átt til aukins samráðs stjórnvalds og notenda og ítrekar stjórnin mikilvægi þess að ákvæði um starfsemi öldungaráða verði lögfest og gangi í gildi fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

  1. Könnun á högum aldraðra

HI gerði grein fyrir að Velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg og Landssamband eldri borgara leita nú tilboða frá könnunarfyrirtækjum til að framkvæma könnun á högum eldri borgara en og stefnt sé að því að niðurstöður könnunarinnar liggi fyrir á þessu ári.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsingar.

  1. Þjónustustefna Tryggingastofnunar

LEB hafa borist drög að þjónustustefnu Tryggingastofnunar til umfjöllunar og athugasemda.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnarmenn telja að lítið sé um kvartanir með þjónustu Tryggingastofnunar og umboðsmanna hennar og vísar málinu til fulltrúa LEB í samráðshópi með TR.

  1. Önnur mál

Engin önnur mál voru rædd.

Næsti fundur verður 13. desember kl. 10:00-15:00.