fbpx

Fundargerð 287. fundar stjórnar LEB

haldinn 22. ágúst 2016 kl. 10:00 – 15:00 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Anna Sigrún Mikaelsdóttir (ASM) og Baldur Þór Baldvinsson (BÞB). Sigurður Jónsson boðaði forföll.

HI setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna.

 1. Fundargerð formannafundar 2016

Fundargerð formannafundar, sem haldinn var 26. apríl 2016, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda Landssambands eldri borgara.

 1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 286

Fundargerð 286. stjórnarfundar, sem haldinn var 26. apríl 2016, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

 1. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar

HI gerði grein fyrir að félag- og húsnæðismálaráðherra hefði í júní birt til umsagnar á vef Velferðarráðuneytisins drög að frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem unnið hefur verið að um árabil. Frumvarpsdrögunum fylgja tvö fylgiskjöl, þ.e. drög að kostnaðarmati og drög að mati á kynbundnum áhrifum frumvarpsins. Umsögn Landssambands eldri borgara sem send var ráðuneytinu um málið er svohljóðandi:

U M S Ö G N

Til:      Velferðarráðuneytis

Frá:    Landssambandi eldri borgara

Efni:   Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar ofl.

Dags:  29. júlí 2016

Í rúman áratug hafa staðið yfir umræður um endurskoðun á lögum um almannatryggingar, skipan lífeyrismála og samspil á þeim vettvangi og hvernig bregðast skuli við nýjum áskorunum í þróun íslensks samfélags.

Á þessu tímabili hafa ýmsir starfshópar og nefndir, yfirleitt skipaðir fulltrúum hagsmunaaðila, stjórnsýslunnar og stjórnmálanna, unnið að endurskoðuninni, nú síðast í nefnd sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í nóvember 2013. Í henni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, Landssambands eldri borgara, Landssamtakanna Þroskahjálpar, samtaka aðila vinnumarkaðarins og Öryrkjabandalags Íslands. Nefndin skilaði skýrslu sinni og tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í byrjun mars 2016 og byggist það frumvarp sem hér um ræðir einkum á tillögum hennar.

Landssamband eldri borgara hefur jafnan tekið þátt í því endurskoðunarstarfi sem að fram hefur farið. Í bókun Landssambands eldri borgara með skýrslu nefndarinnar í mars sl. kemur fram að Landssamband eldri borgara tekur heilshugar undir það markmið endurskoðunarinnar að fækka bótaflokkum, einfalda kerfi almannatrygginga og gera það skiljanlegra fyrir notendur. Með þessum tillögum er verið að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót í einn flokk ellilífeyris. Með því er framfærsluuppbótin sem er félagslegur stuðningur færð í flokk ellilífeyris. Þarna hafa verið afar mismunandi skerðingarákvæði m.a. 100% skerðing á framfærsluuppbót gagnvart öllum  öðrum tekjum. Lagt er til að skerðing á hinum nýja ellilífeyri verði 45%  vegna annarra tekna og engin  frítekjumörk.  Við í Landssambandinu  hefðum  viljað sjá lægri skerðingarprósentu en 45% og höfum lagt fram tillögu um það og vitnað til þess að í nágrannlöndum okkar er skerðing vegna annarra tekna ýmist engin sbr. atvinnutekjur lífeyrisþega  hjá Norðmönnum, eða 30% eftir frítekjumark atvinnutekna, eins og hjá Dönum.  Við leggjum til að með batnandi efnahag landsins verði unnið að því að lækka skerðingarákvæði á lífeyrisgreiðslum  í áföngum á næstu árum.  Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að hækka lífeyristökualdur í 70 ár á 24 árum og það höfum við samþykkt.  Jafnframt að starfsaldur og lífeyristaka verði sveigjanlegri m.a. að hægt verði að taka 50% lífeyri og stunda 50% vinnu.  Þá taki hinn geymdi lífeyri hækkun mánaðarlega samkvæmt tryggingafræðilegu mati, allt að 80 ára aldri lifeyrisþegans. Einnig hefur því verið beint til samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda að hækka starfsaldur opinberra starfsmanna  í 75 ár.  

Við lýsum okkur fylgjandi því að tekið sé upp starfsgetumat í stað örorkumats. Útfærsla á því verði unnin í nánu samráði við ÖBÍ og taki gildi í áföngum. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að það geti tekið um 15 ár að innleiða það að fullu. Í þeim útreikningum sem starfshópurinn hefur fengið bæði frá fulltrúa Tryggingarstofnunar og Talnakönnunar munu þær breytingar að sameina bótaflokka og hafa 45% skerðingarhlutfall fyrir allar tekjur aðrar,  leiða til hækkunar fyrir lífeyrisþega, nema þá sem hafa atvinnutekjur. Því leggjum við til að áfram verði í gildi frítekjumark hvað varðar þær tekjur. Með þessum breytingum sem lagðar eru til er verið að skapa hvata til meiri þátttöku lífeyrisþega á vinnumarkaði, bæði öryrkja og eldri borgara ef heilsa og geta leyfir og sá hvati verður þá að vera fyrir hendi hvað varðar atvinnutekjur. Þá leggjum við til að endurskoðunarákvæði verði um þær breytingar sem gerðar verða á lögum um almannatryggingar í framhaldi af  skýrslu starfshópsins. Sú endurskoðun færi fram eftir 3-5 ár.“

Landsamband eldri borgara telur afar mikilvægt að það frumvarp sem hér um ræðir sé lagt fram á Alþingi þegar þing kemur saman nú í ágúst og að Alþingi ljúki lögfestingu þess þannig að það taki gildi 1. janúar 2017, enda endurspeglast í frumvarpinu umræða síðustu ára um aðkallandi framfarir í málaflokknum, núverandi og framtíðar eldri borgurum til hagsbóta.

Fyrir hönd Landssambands eldri borgara

Haukur Ingibersson, formaður

Á fund stjórnar komu starfsmenn Velferðarráðuneytisins, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir og Hildur Sverrisdóttir Röed, sem unnið hafa að gerð frumvarpsins. Fóru þær yfir efnisatriði þess og svöruðu spurningum stjórnarmanna.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórn Landsamband eldri borgara ítrekar að afar mikilvægt er að það frumvarp sem hér um ræðir verði lögfest og taki gildi 1. janúar 2017, enda endurspeglast í frumvarpinu umræða síðustu ára um aðkallandi framfarir í lífeyrismálum, núverandi og framtíðar eldri borgurum til hagsbóta.

 1. Starfshópur um breytt greiðslufyrirkomulag á dvalar- og hjúkrunarheimilum

ÁI, fulltrúi LEB í starfshópi sem félags- og húsnæðismálaráðherra tilnefndi um breytt greiðslufyrirkomulag á dvalar- og hjúkrunarheimilum gerði grein fyrir starfi hópsins. Hópurinn hefur haldið 4 fundi en málið er ekki einfalt og krefst m.a. nokkurra laga- og fyrirkomulagsbreytinga. Öllum hjúkrunarheimilum var gefinn kostur á að vera með í verkefninu og virðist áhugi fyrir hendi og sýndu ýmis hjúkrunarheimili áhuga á þátttöku í tilraunaverkefni. Hópurinn hefur kynnt sér hvernig málum er háttað, einkum í Danmörku. Gengið er út frá að ríkið greiði hjúkrunar- og umönnunarþáttinn en heimilismaðurinn greiði húsnæðiskostnað og uppihald. Gerður verði samningur á milli heimilismanns og hjúkrunarheimilis og var farið yfir möguleg efnisatriði slíks samnings.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin minnir á fyrri samþykktir Landssambands eldri borgara um að afnema beri núgildandi vasapeningakerfi.

 1. Drög að breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga

HI gerði grein fyrir starfi nefndar um endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðs fólks. Félag- og húsnæðismálaráðherra hefði birt til umsagnar á vef Velferðarráðuneytisins drög að frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar. Í drögum að frumvarpinu eru meðal annars að finna eftirfarandi greinar,

 1. mgr. 38. gr. verður svohljóðandi:

Í hverju sveitarfélagi, eða í fleiri en einu sveitarfélagi sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.

 1. gr. orðast svo ásamt fyrirsögn:

Samráð við notendur.

Samráð skal haft við notendur þjónustunnar með það að markmiði að þeir séu virkir þátttakendur í undirbúningi ákvörðunar um þjónustu og hvernig þjónustunni verður háttað. Þá skal hafa samráð við notendur við almenna stefnumörkun innan sveitarfélagsins. Sveitarfélög skulu að minnsta kosti árlega funda með hagsmunasamtökum notenda félagsþjónustunnar og skulu starfrækja sérstök notendaráð, s.s. notendaráð fatlaðs fólks og fólks sem býr við fátækt, sem tryggi aðkomu hagsmunasamtaka notenda við stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélags í málefnum er varða meðlimi þeirra. Tryggja skal þátttakendum stuðning og þjálfun til virkrar þátttöku í notendasamráði.

Umsögn Landssambands eldri borgara sem send var ráðuneytinu um málið er svohljóðandi:

U M S Ö G N

Til:      Velferðarráðuneytis

Frá:    Landssambandi eldri borgara

Efni:   Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Dags:  23. ágúst 2016

Landssamband eldri borgara tilnefndi fulltrúa í starfshóp undir formennsku Willums Þórs Þórssonar alþingismanns til að endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga ofl. en ýmis ákvæði laganna eru komin til ára sinna og þurfa endurskoðunar við í takt við samfélagsþróun og breytt viðhorf. Starfshópurinn vann drög að tveimur frumvörpum, annars vegar til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með sérstakar þjónustuþarfir og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í drögum að frumvarpinu eru m.a. lögð til nýmæli um notendaráð fyrir þá hópa sem nýta sér þjónustu sveitarfélaga auk þess sem ákvæði varðandi málsmeðferð, eftirlit, kæruheimildir og starfsleyfi hafa verið endurskoðaðuð. Lagt er til að tryggja skuli að samráð sé haft við notendur þjónustunnar með það að markmiði að notendur séu virkir þátttakendur í undirbúningi ákvörðunar um þjónustu og hvernig þjónustunni verður háttað og heimilt verði að gera notendasamninga um þjónustuna. Þá skuli hafa samráð við notendur við almenna stefnumörkun innan sveitarfélagsins og sveitarfélög skuli að minnsta kosti árlega funda með hagsmunasamtökum notenda félagsþjónustunnar og eftir atvikum starfrækja sérstök notendaráð ýmissa hópa, t.d. öldungaráð í því skyni að tryggja aðkomu hagsmunasamtaka notenda á stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélags í málefnum er varða meðlimi þeirra.

Á undanförnum misserum hafa öldungaráð verið stofnuð og eru starfrækt í ýmsum sveitarfélögum um allt land. Landssamband eldri borgara leggur mikla áherslu á að starfsemi öldungaráða sé skapaður lagagrunnur fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar eins og lagt er til í drögum að frumvarpinu þar sem segir:

„Í hverju sveitarfélagi, eða í fleira en einu sveitarfélagi er eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráð.“

Landssamband eldri borgara telur afar mikilvægt að framangreind frumvarpsdrög verð lögfest þar sem ýmis framfaraskref yrðu stigin með því móti.

Fyrir hönd Landssambands eldri borgara

Haukur Ingibergsson, formaður

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur að í drögum að frumvarpinu séu mikilvæg skref tekin á átt til aukins samráðs stjórnvalds og notenda og ítrekar stjórnin mikilvægi þess að ákvæði um starfsemi öldungaráða verði lögfest og gangi í gildi fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

 1. Starfsemi öldungaráða

HI gerði grein fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga hyggist gera í haust könnun meðal sveitarfélaga á starfi og skipulagi öldungaráða sem þegar hafa verið stofnuð og mun hafa LEB með í ráðum um spurningar og framkvæmd könnunarinnar. Gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir síðla hausts

 

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar þessu framtaki og góðri samvinnu Landssambands eldri borgara og Sambands íslenskra sveitarfélaga um málefni aldraðra. Jafnframt telur stjórnin að Landssamband eldri borgara þurfi að undirbúa þátttöku félagsmanna í starfi öldungaráða og verði það mál rætt á næsta stjórnarfundi.

 1. Tannlæknakostnaður

HI fór yfir að upplýsingar séu að koma fram um að eldri borgara hafi í fyrra greitt rúmlega tvöfalt meira í tannlæknakostnað en reglugerð heilbrigðisráðherra kveður á um og að stjórnvöld segi að 800 milljónir króna á ári vanti til að leiðrétta þennan mun.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin ákvað að senda heilbrigðisráðherra svohljóðandi bréf:

Til Velferðarráðuneytisins,

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Stjórn Landssambands eldri borgara fjallaði á fundi sínum í dag um þá óásættanlegu stöðu sem uppi er að eldri borgarar greiði tugi prósenta meira í tannlæknakostnað en reglugerð kveður á um. Landssamband eldri borgara skorar á heilbrigðisráðherra að gangast þegar í stað fyrir úrbótum á þessu ástandi og tryggja að endurgreiðsluhlutfall til aldraðra sé í reynd það hlutfall sem kveðið er á um í reglugerð.

 1. Stefnumótun í samstarfsnefnd um málefni aldraðra

HI kynnti drög að stefnumótun Samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem nefndin hefur unnið að og hyggst leggja fyrir Velferðarráðuneytið á næstu vikum. Farið var yfir nokkur atriði varðandi stefnumörkun nefndarinnar.

Stjórn fagnar þeim áherslum sem fram koma í stefnumótun og áherslum nefndarinnar.

 1. Stefnumótun í Öldrunarráði Íslands

Öldrunarráð Íslands eru regnhlífasamtök þeirra sem starfa að hagsmunum og bættum hag  aldraðra. Aðild að þeim eiga samtök, félög, fyrirtæki og stofnanir, þar með talið sveitarfélög, sem vinna að málefnum aldraðra. Eru aðilar nú alls 32. Tilgangi sínum hyggst ráðið meðal annars ná með því að:

 1. vinna að samræmdri stefnu í málefnum aldraðra og framkvæmd hennar
  b. koma fram fyrir hönd aðila sinna eftir því sem við á
  c. standa fyrir námskeiðum og ráðstefnum og beita sér fyrir almennri upplýsinga- og fræðslustarfsemi um málefni aldraðra
  d. efla rannsóknir í öldrunarmálum með starfsemi sérstaks rannsóknarsjóðs
  e. veita aðilum sínum aðstoð við skipulagningu verkefna og framkvæmd þeirra
  f. annast samskipti við erlenda aðila

Stjórn Öldrunarráðs Íslands skipa níu aðilar. Formaður er Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns en HI var kjörinn í stjórn samtakanna á síðasta aðalfundi og greindi hann frá að 5-6 september mundi stjórnin koma saman til stefnumótunar fyrir komandi starfsár.

Afgreiðsla stjórnar: Mikilvægt er að áherslur LEB í málefnum aldraðra endurspeglist í stefnumálum Öldrunarráðs á komandi starfsári.

 1. Kannanir á högum aldraðra

HI gerði grein fyrir tveimur könnunum á högum aldraðra sem stefnt væri að ef fjármagn fengist til. Annars vegar væri könnun á landsvísu unnin af Velferðarráðuneytinu, Reykjavíkurborg og Landssambandi eldri borgara. Hins vegar könnun gerð af Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni í tilefni af 30 ára afmæli félagsins. Lagði HI til að LEB styrkti hvora könnun með allt að 500.000.- kr.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar gerð slíkra kannana og samþykkti fram komna tillögu um fjárstuðning.

 1. Heimsóknir í aðildarfélög

HI lagði fram yfirlit um heimsóknir fulltrúa LEB til aðildarfélaga frá því stjórnin var kjörin á landsfundi 2015. Alls er um að ræða heimsóknir á viðburði, einkum félagsfundi eða aðalfundi í 37 aðildarfélögum.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin leggur áherslu á áframhald heimsókna og að öll aðildarfélög séu heimsótt á starfstímabili stjórnarinnar.

 1. Listin að lifa

HI greindi frá því að ritnefnd Listin að lifa áformi að hittast í fyrri hluta september til að undirbúa útgáfu haustblaðs sem út komi fyrripartinn í nóvember.

Afgreiðsla stjórnar: Komið hafa fram kvartanir yfir slælegri dreifingu blaðsins og hvetur stjórn ritnefnd að leita úrbóta.

 1. Starfsáætlun til vors

Rætt var um fundahald stjórnar fram að páskum.

Afgreiðsla stjórnar: Ákveðið var að halda  stjórnarfundi dagana 11. október, 13. desember, 21. febrúar og 28. mars kl. 10:00-15:00.

 1. Haustfundur NSK

Boðað hefur verið til haustfundar norrænna landssambanda eldri borgara í Stokkhólmi 19. október og námsstefnu um slys eldri borgara vegna dettni daginn eftir.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til upplýsinga.

 1. Önnur mál

Engin önnur mál voru rædd.

Næsti fundur verður 11. október kl. 10:00-15:00.