fbpx

Fundargerð 285. fundar stjórnar LEB

haldinn 23. febrúar 2015 kl. 10:00 – 15:00 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ), Anna Sigrún Mikaelsdóttir (ASM) og Baldur Þór Baldvinsson (BÞB).

HI setti fund kl 10:00 og bauð stjórnarmenn velkomna.

  1. Tillögur nefndar um endurskoðun almannatrygginga

Gestur fundarins undir þessum dagskrárlið, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, sem er fulltrúi LEB í nefnd um endurskoðun almannatrygginga, lagði fram eftirfarandi skilagrein um starf nefndarinnar sem nú er að ljúka:

„Miðvikudaginn 10. febrúar 2016 var lokafundur í endurskoðunarnefnd almannatrygginga. Þá er búið  að halda 41 fund en auk þess til viðbótar all marga fundi í undirnefndum.  Nefndin var skipuð 13. nóvember 2013 og áttu 19 fulltrúar þar sæti auk starfsmanna frá TR og VEL. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hefur verið aðalfulltrúi fyrir LEB í nefndinni og Haukur Ingibergsson varamaður hennar. Undirritun skýrslunnar fór fram þennan dag og jafnframt  var lögð  fram bókun Landssambandsins  með lítilsháttar breytingum, sem kynnt hafði verið á  stjórnarfundi LEB í ágúst 2015. Fylgir bókunin  hér með í fylgiskjali.

Ljóst er að ekki náðist full samstaða í nefndinni. Mikill meirihluti lýsir yfir stuðningi við breytingarnar með undirritun, en skilar bókun um ýmis atriði til áréttingar.  ÖBÍ  mun ekki skrifa undir en skilar séráliti. Þá boðuðu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna að þeir myndu ekki skrifa undir en skila bókun og taka undir með ÖBÍ.  Fulltrúi Samfylkingar lýsti þó  jafnframt yfir að hann styddi þær tillögur sem varða eldri borgara.

Helstu  atriði samkomulagsins sem snerta eldri borgara eru:

Megintillaga nefndarinnar er sú að almannatryggingar greiði einn lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega sem komi í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Þessi lífeyrir lækki um 45% af samanlögðum tekjum viðkomandi og verði án frítekjumarka.

Tillagan lýtur að því að einfalda bótakerfi almannatrygginga og festa í sessi þá lágmarksfjárhæð sem framfærsluuppbótin tryggir þeim sem hafa lægstu tekjurnar í dag ásamt því að breyta uppbótinni frá því  að vera félagslegur stuðningur í áunnin réttindi. Það hefur í för með sér hækkun bóta til þeirra sem búa erlendis en hafa áunnið sér rétt hér á landi. Loks kemur það í veg fyrir krónu á móti krónu lækkun framfærsluuppbótar gagnvart öllum tekjum.

Mjög mikilsvert er að þarna er verið að færa framfærsluuppbótina sem er  félagslegur stuðningur  yfir í flokk ellilífeyris.  Það hefur lengi verið ósk bæði eldri borgara og örorkuþega að þessi bótaflokkur yrði sameinaður ellilífeyri vegna hinna háu skerðingarmarka þar. Þetta mun  hækka  lífeyri frá almannatryggingum til þeirra sem hafa haft verulega lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Fulltrúi TR hefur tekið sem  dæmi að  ef  einhver hefur í dag 60.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur þá hækka bætur almannatrygginga um 35.000 kr. samkvæmt þessum tillögum.

Hér er um kerfisbreytingar að ræða, en nefndin leggur til að hækkanir á bótum fylgi svo þróun lágmarkslauna. Kerfisbreytingin getur þó leitt til þess að tekjur þeirra sem hafa lágar atvinnutekjur minnki, þess vegna þurfi að setja bráðabirgðaákvæði um að bera saman greiðslur þess hóps fyrir og eftir og viðkomandi fái þá greiðslu sem hærri reynist.  Nefndin bendir í skýrslunni á nánari  útfærslu til að  leiðrétta þetta.

Heimilisuppbótin verður með sama hætti og áður fyrir þá sem búa einir, en skerðingarhlutfall hennar gagnvart öðrum tekjum lækkar úr 11,3% í 7,5%.  Lagt er til að skoða  þær skilgreiningar sem liggja að baki við mat á því hvort um fjárhagslegt hagræði er að ræða af sambýli við aðra eða ekki. Á það sérstaklega við ungmenni  18 ára sem búa heima og stunda nám.

Hækkun lífeyrisaldurs.

Nefndin leggur til að lífeyrisaldur hækki í skrefum, m.a. vegna hækkandi lífaldurs. Ekki eru lagðar til breytingar á eina snemmbæra lífeyrisflokknum í almannatryggingum, þ.e. svokölluðum sjómannalífeyri (60 ár). Er því vísað til stéttarfélaga að skoða  það.

Nefndin er nokkuð sammála um að æskilegt sé að lífeyrisaldur sé hinn sami í báðum lögbundnu lífeyriskerfunum. Tvenn lög gilda í dag auk mismunandi reglna samkvæmt samþykktum einstaka lífeyrissjóða. Tillögur lífeyrissjóðanna eru að  lífeyrisaldur hækki um 2 mánuði á ári  á 12 árum og síðan um 1 mánuð í  12 ár eða alls 24 ár, en þá væri lífeyrisaldurinn kominn í 70 ár. Samkomulag er í nefndinni um þá tilhögun.  Það þýðir að sá sem í dag er 46 ára á rétt á  fullum ellilífeyri 70 ára, en getur jafnframt tekið hann 65 ára en þá með einhverjum skerðingum samkvæmt tryggingafræðilegu mati. Geymdur réttur skapar jafnframt hækkanir á lífeyri TR. Þá bendir nefndin á að  tiltekinn hópur kann að þurfa á sértækum úrræðum að halda, þar sem hann getur ekki unnið lengri starfsævi vegna slits/erfiðisvinnu án þess þó að um örorku sé að ræða vegna sjúkdóma eða fötlunar.

Sveigjanleg starfslok.

Sveigjanleg starfslok verða með þeim hætti að hægt er að taka hálfan lífeyri og vinna 50% vinnu. Þá hækkar hinn geymdi lífeyrir mánaðarlega samkvæmt tryggingarfræðilegu mati. Hægt er að fresta starfslokum til allt að 80 ára og greiða menn þá í lífeyrissjóð á meðan þeir halda áfram vinnu. Einnig verður  hægt að taka  ellilífeyri fyrr en þó ekki fyrr en 65 ára, en þá lækkar hann samsvarandi og hann  hækkaði ef frestað er töku lífeyris. Markmiðið er að hvetja þá sem til þess hafa getu að vinna lengur. Í dag er heimilt að fresta töku lífeyris hjá TR frá 67 ár aldri til 72 ára aldurs gegn 30% hækkun lífeyris eða 0,5% fyrir hvern frestaðan mánuð. Sérfræðingar segja okkur að tryggingarfræðilegt mat væri mjög  líklega hærra. Lagt er til að hækka starfslokaldur opinberra starfsmanna í 75 ár en því er vísað til stéttarfélaga og Fjármálaráðuneytis til úrvinnslu

Lokaorð.

Það má öllum vera ljóst að í  svo fjölmennri nefnd sem þessari sem nú er að ljúka störfum er aldrei hægt að ná fram öllum kröfum hvers og eins. Ég hef lagt fram bókun um þau helstu atriði sem mér finnst standa út af og  ég hefði viljað koma fram, m.a. í lægri  skerðingarprósentu vegna annarra tekna og hafa frítekjumark vegna atvinnutekna. Hér er um að ræða einar mestu breytingar á almannatryggingum í áratugi,  náist þetta fram í lögum sem lagt er til.  Breytingarnar eru  til mikilla bóta fyrir ellilífeyrisþega og sérstaklega þá sem eru með  lágar lífeyrissjóðstekjur og hafa jafnframt þurft að treysta á framfærsluuppbótina.  Það fólk hefur verið fast í  fátæktargildru.  Þarna er því verið að lagfæra kjör  verulega stórs hóps eldri borgara.  Þá eru sveigjanleg starfslok  og möguleikar á töku á  hálfum  lífeyri og að  vinna hálfa vinnu einnig nýmæli. Það hef  ég lagt ríka áherslu á að yrði  í tillögunum og  var ég  jafnframt formaður undirnefndar sem um það fjallaði. Hækkun á lífeyristökualdri er löngu tímabær að margra áliti. Þegar 67 ára aldursmarkið var sett í lög var meðaldur á Íslandi 68 ár. Ef farið er að tillögum nefndarinnar um að hækkun lífeyristökualdurs verði á 24 árum má vel við það una. Nefndin leggur til að þessar  breytingar  verði að lögum 1. Jan. 2017.

Á lokafundi nefndarinnar lagði fulltrúi LEB fram eftirfarandi bókun:

Bókun Landssambands eldri borgara um skýrslu og tillögur starfshóps um endurskoðun á  lögum um  almannatryggingar sem skipaður var  af velferðarráðherra í nóvember 2013.  Jóna Valgerður Kristjánsdóttir var skipuð aðalmaður og Haukur Ingibergsson varamaður fyrir LEB.

Landssamband eldri borgara tekur heilshugar undir það markmið endurskoðunarinnar að fækka bótaflokkum, einfalda kerfi almannatrygginga og gera það skiljanlegra  fyrir notendur.  Með þessum tillögum er verið að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót í einn flokk ellilífeyris. Með því er framfærsluuppbótin sem er félagslegur stuðningur færð í flokk ellilífeyris. Þarna hafa verið afar mismunandi skerðingarákvæði m.a. 100% skerðing á framfærsluuppbót gagnvart öllum öðrum tekjum. Lagt er til að skerðing á hinum nýja ellilífeyri verði 45%  vegna annarra tekna og engin  frítekjumörk. Við í Landssambandinu  hefðum  viljað sjá lægri skerðingarprósentu en 45% og höfum lagt fram tillögu um það og vitnað til þess að í nágrannlöndum okkar er skerðing vegna annarra tekna ýmist engin sbr. atvinnutekjur lífeyrisþega  hjá Norðmönnum, eða 30% eftir frítekjumark atvinnutekna, eins og hjá Dönum.  Við leggjum til að með batnandi efnahag landsins verði unnið að því að lækka skerðingarákvæði á lífeyrisgreiðslum í áföngum á næstu árum. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að hækka lífeyristökualdur í 70 ár á 24 árum og það höfum við samþykkt.  Jafnframt að starfsaldur og lífeyristaka verði sveigjanlegri, m.a. að hægt verði að taka 50% lífeyri og stunda 50% vinnu.  Þá taki hinn geymdi lífeyri hækkun mánaðarlega samkvæmt tryggingafræðilegu mati, allt að 80 ára aldri lifeyrisþegans. Einnig hefur því verið beint til samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda að hækka starfsaldur opinberra starfsmanna  í 75 ár.  

Við lýsum okkur fylgjandi því að tekið sé upp starfsgetumat í stað örorkumats.  Útfærsla á því verði unnin í nánu samráði við ÖBÍ og taki gildi í áföngum. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að það geti tekið um 15 ár að innleiða það að fullu. 

Í þeim útreikningum sem starfshópurinn hefur fengið bæði frá fulltrúa Tryggingarstofnunar og  Talnakönnunar munu þær breytingar að sameina bótaflokka og hafa 45% skerðingarhlutfall fyrir allar tekjur aðrar, leiða til hækkunar fyrir lífeyrisþega, nema þá sem hafa atvinnutekjur.   Því leggjum við til að áfram verði í gildi frítekjumark hvað varðar þær tekjur. Með þessum breytingum sem lagðar eru til er verið að skapa hvata til meiri þátttöku lífeyrisþega á vinnumarkaði, bæði öryrkja og eldri borgara ef heilsa og geta leyfir og sá hvati verður þá að vera fyrir hendi hvað varðar atvinnutekjur. Þá leggjum við til að endurskoðunarákvæði verði  um þær breytingar sem gerðar verða á lögum um almannatryggingar í framhaldi af  skýrslu starfshópsins. Sú endurskoðun færi fram eftir 3-5 ár.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fulltrúi LEB í starfshópnum.

Haukur Ingibergsson formaður LEB

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin þakkar Jónu Valgerði fyrir ómetanlegt starf í nefndinni til að færa fyrirkomulag almannatrygginga til betri vegar og að bæta kjör aldraðra.

Einnig gerði stjórnin eftirfarandi bókun:

Stjórn Landssambands eldri borgara skorar á alþingismenn og stjórnvöld að lögleiða frá 1. janúar 2017 tillögur nefndar um endurskoðun á almannatryggingum eldri borgara. Tillögurnar fela í sér stór framfaraskref í átt til aukinnar sanngirni, einföldunar og samþættingar lífeyriskerfa auk þess að fjölga valkostum eldri borgara og búa í haginn fyrir þjóðfélagið varðandi hækkandi lífaldur og fjölgun eldri borgara á næstu áratugum.

  1. Umsögn Landssambands eldri borgara um tillögu til þingsályktunar um embætti umboðsmanns aldraðra, 145. löggjafarþing 2015–2016. Þingskjal 14, 14. mál.

HI lagði fram svohljóðandi umsögn LEB um frumvarp til laga um framangreint mál sem sent var milli stjórnarmanna LEB í tölvupósti til samþykktar áður en það var sent Alþingi:

Tillagan er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að leggja fyrir árslok fram á Alþingi frumvarp til laga um embætti umboðsmanns aldraðra.“

Stofnun embættis umboðsmanns aldraðra hefur um árabili verið eitt helsta baráttumál Landssambands eldri borgara og tillögur um stofnun slíks embættis hafa margoft verið lagðar fram á Alþingi. Landsfundur Landssambands eldri borgara 5.-6. maí 2015 samþykkti svohljóðandi tillögu: „Landsfundur Landssambands eldri borgara haldinn 5.-6. maí 2015 fagnar því að komin er fram þingsályktun um Umboðsmann aldraðra og skorar á Alþingi að samþykkja tillöguna og koma á fót embætti umboðsmanns aldraðra.“  Landssamband eldri borgara skorar því á alþingimenn að samþykkja þá tillögu sem hér um ræðir þannig að markviss undirbúningur um stofnun og uppbyggingu slíks embættis geti hafist.

Ekki er vafi á að mikil þörf er fyrir embætti umboðsmanns aldraðra. Hlutverk hans verði að gæta réttinda og hagsmuna aldraðra. Það geri hann m.a. með því að leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé gegn þeim, gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra auk þess að tryggja að vilji aldraðra komi fram áður en teknar eru ákvarðanir sem vörðuðu þá, fylgdist með því að þjóðréttarsamningar, lög og stjórnsýslureglur væru í heiðri hafðar og bregðast við ef talið væri að með at­höfnum eða athafnaleysi væri brotið gegn réttindum, þörfum eða hagsmunum aldraðra.

Öldrunarmál eru stór og stækkandi málaflokkur, öldruðum fer mjög fjölgandi á næstu árum og áratugum og þjónusta við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Löggjöf um málaflokkinn er margþætt, taka til beggja stjórnsýslustiga og síðast en ekki síst eru aldraðir misjafnlega færir um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfir eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni.

Landssamband eldri borgara skorar á alþingismenn að samþykkja þá tillögu sem hér um ræðir.

Reykjavík 11. febrúar 2016

  1. h. Landssambands eldri borgara

Haukur Ingibergsson, formaðu

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkti umsögnina og ítrekar hversu mikilvægt er að þetta mál nái fram að ganga og að embætti umboðsmanns aldraðra verði stofnað.

  1. Endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga

HI gerði grein fyrir að nefnd um endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga stefni að því að ljúka störfum á næstu vikum og lagði fram drög að lagabreytingum sem nefndin er að þróa, þar á meðal um aukið notendasamráð svo sem á vettvangi öldungaráða og hefur verið ágætt samstarf með fulltrúum sveitarfélaga í nefndinni um það atriði.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur að þeir breytingar sem rætt er um á lögunum séu til bóta og leggur áherslu á að starfinu verði lokið á þeim nótum og frumvarp verði lagt fram á yfirstandandi þingi.

  1. Stefnumörkun um heilbrigðisþjónustu

HI gerði grein fyrir aðkomu sinni, SJG, ÁE og EV að stefnumörkun heilbrigðisráðherra um heilbrigðisþjónustu við aldrað fólk, og þátttöku í vinnustofu um stefnu í heilbrigðisþjónustu við aldraða til 2035 sem haldin var á Grand Hótel 28. janúar og undirbúningsfundi helstu hagsmunaaðila sem haldinn var hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga 25. janúar. Um er að ræða mikilvægt verkefni til að búa samfélagið undir fyrirsjáanlega fjölgun aldraðra á næstu áratugum.

Afgreiðsla stjórnar: Um er að ræða málefni sem mikilvægt er að LEB taki þátt í til að gæta hagsmuna aldraðra til framtíðar litið.

  1. Samstarfsverkefni um Notendastýrða Persónulega Aðstoð (NPA)

HI kynnti að verkefnisstjórn um Notendastýrða Persónulega Aðstoð (NPA) vinni um þessar mundir að endurmati á NPA á grundvelli reynslu sem skapast hafi á þessu sviði. Verkefnisstjórin skoði sérstaklega tillögur að lagaumgjörð fyrir NPA, nýja handbók um NPA fyrir Ísland, samningsform um framkvæmd NPA og fjármögnun NPA. Þótt NPA hafi fremur verið tengt málefnum öryrkja en aldraðra hafi aldraðir hagsmuni á þessu sviði enda kann NPA að geta lengt tímann sem aldraðir geti dvalið á eigin heimili fremur en fara á stofnun

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

  1. Upplýsingavefur um öldrun og aldraða

HI greindi frá áhuga Samstarfsnefndar um málefni aldraðra (SUMA) um að komið verði upp upplýsingavef fyrir almenning varðandi öldrun og aldraða og lagði fram minnisblað þar að lútandi.  Grunnhugmyndin gengur út á að Velferðarráðuneytið feli Landssambandi eldri borgara umsjón með upplýsingavefnum, sem í stað þess að byggja upp nýjan vef, semji við Þjóðskrá Íslands um að vefurinn verði hluti af vefnum island.is þar sem nú þegar er mikið af gagnlegu efni um málaflokkinn. Nefndin fól nefndarmönnunum Hauki Ingibergssyni, formanni LEB og Rannveigu Einarsdóttur, sviðsstjóra Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, að þróa málið áfram, m.a. í samráði við Gyðu Hjartardóttur starfsmann Sambands íslenskra sveitarfélaga, en stór hluti af þjónustu við eldri borgara er hjá sveitarfélögum. Rætt hafi verið við Þjóðskrá Íslands sem taki hugmyndinni vel.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin hvetur til að unnið verði áfram að málinu.

  1. Samstarf við Rauða krossinn

HI lagði fram minnisblað og kynnti viðræður sínar við Rauða krossinn um samstarf til að draga úr félagslegri einangrun og auka öryggi aldraðra, en hugmyndin komst á umræðustig í kjölfar ráðstefnum um Farsæla öldrun á Selfoss sl. haust. Samstarfið feli í sér viðbót við símaþjónustu Rauði krossins, í samvinnu við LEB og einstök aðildarfélög þess, sem gengur út á að hringt er á fyrirfram ákveðnum tíma í tiltekna einstaklinga sem eiga við félagslega einangrun eða einsemd að etja.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin hvetur til þess að unnið verði áfram að málinu.

  1. Fjárhagur öldrunarstofnana

Pétur Magnússon varaformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu var gestur fundarins undir þessum dagskrárlið. Hann gerði grein fyrir fjárhagserfiðleikum hjúkrunarheimilanna í landinu en alls eru 45 hjúkrunarheimili starfandi. Áætlað sé að á þessu ári vanti allt að tvo milljarða króna til viðbótar í málaflokkinn svo hægt sé að koma í veg fyrir að skerða þurfi þjónustu við íbúana. Farið var yfir stöðu viðræðna um málið og möguleika á lausnum. Rætt var um mikilvægi þess að forsvarsmenn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Landssamband eldri borgara hafi formlega samráðsfundi nokkrum sinnum á ári.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur afar mikilvægt að rekstur hjúkrunarheimila sé tryggilega fjármagnaður og ítrekar afstöðu LEB um að hjúkrunarheimili starfi samkvæmt þjónustusamningi þar sem fram komi hvaða þjónusta sé þar veitt enda auðveldi það notendum og aðstandendum þeirra að gera sér grein fyrir hvers er að vænta varðandi þjónustuna auk þess að vera málefnalegur grundvöllur fjármögnunar. Samþykkt að koma á formlegum samráðsfundum með LFV. Jafnframt var ítrekaður vilji til að núverandi dagpeningakerfi vistmanna sé aflagt.

  1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 284

Fundargerð 284. stjórnarfundar, sem haldinn var 15. desember 2015, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara

  1. Ársreikningur LEB 2015

ÁE kynnti niðurstöður ársreiknings LEB fyrir árið 2015. Hann rifjaði upp helstu ákvæði í 12. grein laga LEB, sem fjallar um fjármál þess efnis að stjórn LEB ber ábyrgð á fjármálum og öllum rekstri sambandsins og skuli haga haga rekstri í samræmi við tekjur af félagsgjöldum, framlögum og styrkjum. Ársreikninga hvers árs skal leggja fram á stjórnarfundi á fyrsta ársfjórðungi nýs árs, áritaða af löggiltum endurskoðenda og skoðunarmönnum reikninga sambandsins. Ársreikninga þess árs sem landsfundur er ekki haldinn skal leggja fyrir fund formannaráðs til skoðunar en að öðru leyti er þeim vísað til næsta landsfundar.

Afgreiðsla stjórnar: Reikningar voru samþykktir og áritaðir af stjórn og verða lagðir fram á formannafundi LEB 2016

  1. Formannafundur 2016

HI rifjaði upp samþykkt stjórnar á 284. fundi um að formannafundur verði haldinn þriðjudaginn 26. apríl, hefjist kl. 13:00 og ljúki ekki síðar en kl. 17:00. Fyrir fundinum lá boð Félags aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni um að halda fundinn í Hlégarði í Mosfellsbæ. Rætt var um dagskrá fundarins og að tvö meginmál fundarins verði annars vegar tillögur um breytingu á lögum um almannatryggingar og hins vegar staða og þróun í heilbrigðismálum.

Afgreiðsla stjórnar: Ofanritað var samþykkt.

  1. Heimsóknir til aðildarfélaga

HI gerði grein fyrir heimsóknum sínum á félagsfundi hjá Félagi aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni 11. janúar, hjá Félagi eldri borgara í Rangárvallasýslu ásamt SJG 18. janúar, hjá Félagi eldri borgara á Seltjarnarnesi ásamt EV 23. Janúar, á aðalfund Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni 18. febrúar og aðalfund Félags eldri borgara í Garðabæ 22. febrúar. Á fundunum flutti HI kveðjur frá LEB og ræddi um ýmis málefni er varða eldri borgara.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

  1. Næsti fundur stjórnar LEB

Næsti fundur stjórnar LEB verður haldinn 26. apríl kl. 10:00-12:00 að Sigtúni 42.

  1. Rekstrarmál

HI fór yfir nokkur mál er varða rekstur LEB:

  1. Ársskýrslur aðildarfélaga LEB 2015

Formenn aðildarfélaga LEB hafa verið beðnir um að senda ársskýrslu 2015 útfyllta á netfangið leb.is fyrir lok febrúar. Form fyrir skýrsluna er sambærilegt og fyrir ársskýrslu 2014 nema hvað nú er einnig spurt um stöðu mála varðandi stofnun og starfsemi öldungaráða.

  1. Afsláttarbók LEB

Undanfarin ár hefur LEB, í samstarfi við FEB í Reykjavík og nágrenni, gefið út bók með lista yfir aðila sem veita öldruðum afslátt af verði vöru og þjónustu. Vegna lítilla breytinga hefur verið ákveðið að gefa ekki út sérstaka afsláttarbók fyrir árið 2016 heldur láta afsláttarbók 2015 gilda áfram.

  1. Umfjöllun fjölmiðla um málefni tengd öldruðum

Unnið er að því að Fjölmiðlavaktin sendi upplýsingar um umfjöllun fjölmiðla um málefni tengda öldruðum í tölvupósti til allra formanna aðildarfélaga Landssambands eldri borgara án endurgjalds.

  1. „Listin að lifa“ aðgengileg á vefnum timarit.is

Á vefnum timarit.is. sem rekinn er af Landsbókasafninu eru öll eintök tímarits LEB „Listin að lifa“ nú aðgengileg í rafrænu formi.

  1. Heimasíða LEB uppfærð

Heimasíðan LEB, www.leb.is. hefur nú verið uppfærð, uppsetningu breytt og efnisflokkar greinilegar aðgreindir þannig að auðvelt sé fyrir lesendur að finna það efni sem leitað er að.

  1. Símaþjónusta LEB endurbætt

Símþjónusta LEB endurbætt. Nú er svarað í síma LEB, 567 7111, kl. 08:00 til 18:00 alla virka daga. Fyrirtækið Miðlun, sem annast símsvörun fyrir ýmis félagasamtök, annast símsvörunina.

  1. Önnur mál

Engin önnur mál voru lögð fram og var fundi slitið.