fbpx

haldinn 27. ágúst 2015 kl. 10:00 – 15:00 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ), Anna Sigrún Mikaelsdóttir (ASM), Baldur Þór Baldvinsson (BÞB)

HI setti fund kl 10:00 og bauð stjórnarmenn velkomna.

1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 281

Fundargerð 281. stjórnarfundar, sem haldinn var 8. júní 2015, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

2. Fundargerð landsfundar LEB 5. – 6. maí 2015

Fundargerð landsfundar LEB sem haldinn var 5-6 maí 2015 hefur verið afgreidd í samræmi við ákvæði 6. greinar laga LEB um afgreiðslu fundargerðar landsfundar.

3. Umsókn „Félagsins 60 plús í Laugardal“ um aðild að LEB

HI kynnti umsókn Félagsins 60 plús í Laugardal um aðild að LEB en félagsmenn þess eru 44 talsins. Um slíka umsögn gilda ákvæði 3 gr. félagslaga LEB svohljóðandi: „3.3. Aðild nýrra aðildarfélaga er háð samþykki landsfundar LEB en stjórn LEB getur veitt nýju félagi aukaaðild og rétt til þátttöku í starfsemi sambandsins án annarra réttinda fram að næsta landsfundi þar sem tillaga um aðild verður afgreidd.“

Afgreiðsla stjórnar: Samþykkt var að veita félaginu aukaaðild að LEB.

4. Umsögn um frumvarp til laga um húsnæðisbætur

HI lagði fram umsögn LEB um frumvarp til laga um húsnæðisbætur, sem send var milli stjórnarmanna LEB í tölvupósti fyrir útsendingu þess.

Til: Alþingis

Frá: Landssambandi eldri borgara

Dags: 10. ágúst 2015

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um húsnæðisbætur, lagt fyrir á 144. löggjafarþingi 2014 – 2015, þingskjal 1402, 788. mál.

Vel byggt, hlýtt og hentugt húsnæði, sem allur almenningur hefur ráð á að nýta sér, er ein mikilvægasta undirstaða velferðar- og heilbrigðismála á Íslandi. Það frumvarp sem hér um ræðir er afsprengi þeirrar umræðu um húsnæðismál sem stjórnvöld hafa haft forgöngu um að fram hafi farið á undanförnum árum. Landssamband eldri borgara hefur tekið þátt í þeirri umræðu og stefnumótun á sambærilegan hátt og margir aðrir hagsmunaaðilar sem til hafa verið kallaðir.

Grundvallarviðhorf Landssambands eldri borgara er að stuðningur hins opinbera vegna búsetuúrræða eigi að ráðast af efnahag viðkomandi fjölskyldu eða einstaklings en ekki því hvort viðkomandi er eigandi, leigjandi eða búseturéttarhafi íbúðarhúsnæðis, enda geta margvíslegar aðstæður legið til mismunandi stöðu hvað það áhrærir, einkum þegar líður á mannsævina. Frumvarp þetta er skref í þessa átt því þar er lagt til að húsaleigubætur og vaxtabætur verði sameinaðar í eitt kerfi húsnæðisbóta sem miðist við efnahag viðkomandi en ekki búsetuform.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins annist framkvæmd laganna verði frumvarpið að lögum og annist afgreiðslu umsókna um húsnæðisbætur ásamt greiðslu bótanna. Landssamband eldri borgara fagnar þeirri fyrirætlan þar sem stofnunin er sérhæfð í stjórnsýslu og framkvæmd opinberra bóta og hefur yfir að ráða þekkingu, landsþekjandi þjónustukerfi og trausta gagnameðhöndlun til að geta öðrum fremur tryggt farsæla og fjárhagslega hagkvæma framkvæmd verði frumvarpið að lögum.

Landssamband eldri borgara mælir með að frumvarpið verði að lögum.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkti umsögnina.

5. Heimsóknir í aðildarfélög

HI gerði grein fyrir að hann hafi 17. ágúst sótt fundi í félögum eldri borgara í Mývatnssveit og Vopnafirði og 18. ágúst ásamt Önnu Sigrúnu Mikaelsdóttur stjórnarmanni sótt fundi hjá félögum eldri borgara á Þórshöfn, Raufarhöfn og Kópasker. Fyrirhugað er að sækja fundi í fleiri aðildarfélögum á næstu vikum.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar heimsóknum forráðamanna LEB í aðildarfélög LEB og telur þær mikilvægan þátt í starfi stjórnar LEB.

6. Ráðstefna um „Farsæla öldrun“ á Selfossi

SG gerði grein fyrir að í samvinnu Öldrunarráðs Íslands, Sveitarfélagsins Árborg, Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara á Selfossi væri fyrirhugað að halda á Selfossi í október framtíðarþing um farsæla öldrun. Sambærilegt þing var haldið í Reykjavík 2013 og á Akureyri s.l. vorið 2015 og tókust þessi þing mjög vel. Markmið þingsins er að fara yfir málefni eldri borgara með sérstakri áherslu á virkni og framtíðarsýn. Einnig að skapa leiðbeiningar til stjórnvalda hvernig aldraðir líta mál sín til framtíðar. Þá er undirliggjandi markmið að skapa vettvang fyrir þá sem koma að öldrunarmálum á Íslandi og koma af stað heilbrigðri og skynsamlegri umræðu um þessa kynslóð. Þingið á að vera opið fyrir sunnlendinga sem áhuga hafa á þessu málefni.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar þessu mikilvæga framtaki.

7. Landsmót UMFÍ fyrir 50+

HI rifjaði upp að honum hefði verið boðið að ávarpa setningarhátíð landsmóts UMFÍ sem haldið var á Blönduósi 26-28 júní. Í ávarpinu hafi hann meðal annars sagt:

„Fyrir áratug hófst umræða á milli Ungmennafélags Íslands og Landssambands eldri borgara um mikilvægi þess að skapa vettvang, landsmót, þar sem eldri íþróttamenn gætu komið saman til íþróttaiðkunar og ánægjulegrar samveru. Góður skilningur var hjá báðum aðilum á þeirri þörf enda eru margir af forystumönnum í félögum eldri borgara fyrrverandi forustumenn í ungmennafélögum. Annar ávöxtur umræðunnar var að Landssamband eldri borgara flutti skrifstofu sína í húsakynni Ungmennafélags Íslands við Sigtún í Reykjavík.

Rannsóknum okkar bestu vísindamanna á sviði öldrunarmála ber saman við niðurstöður erlendra vísindamanna um að reglubundin hreyfing og að taka þátt í félagslífi séu tvær af fjórum mikilvægustu undirstöðum farsællar öldrunar. Hinar tvær eru hollt matarræði og að halda huganum virkum. Víða um land njóta eldri borgarar góðs af aðstöðu til hreyfingar í íþróttaaðstöðu sem byggð hefur verið upp að tilhlutan ungmennafélaganna. Það fyrirkomulag hefur reynst farsælt, aukið nýtingu íþróttamannvirkja og bætt heilbrigði, lífsgleði og aukið samvistir þátttakenda á öllum aldri.

Við setningu þessa landsmóts flyt ég ykkur kveðju og árnaðaróskir Landssambands eldri borgara og þeirra 55 aðildarfélaga sem starfa um land allt með á 3. tug þúsunda félagsmanna. Einnig óska ég Ungmennafélagi Íslands, Ungmennasambandi Austur-Húnvetninga og Blönduósbæ til hamingju með þetta glæsilega landsmót.“

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar samstarfi LEB og UMFÍ að íþróttamálum aldraðra.

8. Fundur með formanni Framkvæmdasjóðs aldraðra

HI gerði grein fyrir að hann hafi notað tækifærið, er hann átti leið um Akureyri 19 ágúst, að hitta Sigrúnu Björk Jakobsdóttur fyrrverandi bæjarstjóra á Akureyri og núverandi formann stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra, og eiga viðræður um ýmis atriði er varða öldrunarmál og starfsemi sjóðsins. Í fundinum hafi verið farið yfir ýmis atriði er varðað geta þróun sjóðsins og hvernig hann geti betur náð markmiðum sínum.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórni fagnar viðræðum formanns LEB og FA.

9. Rekstrarfyrirkomulag Landssambands eldri borgara 2015-2017

Á 281. fundi stjórnar LEB sem haldinn var 8. júní 2015, var formanni, varaformanni og gjaldkera ásamt löggiltum endurskoðanda LEB, sem síðar baðst undan setu í hópnum sakir fjarveru og anna, falið að yfirfara samninga og reglur og leggja fram tillögur á næsta stjórnarfundi um fyrirkomulag rekstrarins. Hópinn lagði fram eftirfarandi tillögu sem miðar við að stjórnunarkostnaður LEB haldist óbreyttur milli ára:

a) Formaður stjórnar LEB sé starfandi formaður og annist daglega framkvæmdastjórn landssambandsins og skrifstofu þess. Samningur Landssambands eldri borgara og Ráðgjafaþjónustunnar ehf. dagsettur 9. september 2013 haldist óbreyttur.

b) Auk gjaldkerastarfa annist gjaldkeri LEB rekstur heimasíðu LEB og fær greiddar 15 klst. á mánuði á sama tímagjaldi og um ræðir í samningi LEB og Ráðgjafaþjónustunnar ehf. sbr. I. lið.

c) Útlagður kostnaður aðal- og varamanna vegna stjórnarfunda skal greiddur samkvæmt framlögðum reikningum. Fyrir akstur á eigin bifreið er greitt sama gjald og ríkisstarfsmönnum.

d) Hverjum aðal- og varamanni eru árlega greiddar 50.000 kr. til að standa straum af tölvu-, hugbúnaðar-og fjarskiptakostnaði.

Afgreiðsla stjórnar: Tillagan var samþykkt

10. Kosning í blaðstjórn „Listin að lifa“ og heimasíða LEB

HI rifjaði upp ákvæði félagslaga um útgáfu „Listin að lifa“ þess efnis að stjórn LEB skuli skipa ritstjórn 3 manna en landsfundur sambandsins kjósi tvo menn í ritstjórn og tvo varamenn þeirra. Landsfundur kaus Jónu Valgerði Kristjánsdóttur og Eyjólf Eysteinsson aðalmenn og Bryndísi Steinþórsdóttir og Jóhannes Finn Halldórsson varamenn. HI gerði að tillögu sinni að stjórnin skipi Grétar Snæ Hjartarson fv. framkvæmdastjóra LEB, Sigurð Jónsson stjórnarmann og Hauk Ingibergsson formann í ritstjórnina. Einnig var rætt um heimasíðu LEB sem þarf að endurgera.

Afgreiðsla stjórnar: Tillaga um skipan í ritstjórn samþykkt. Einnig kaus stjórnin í heimasíðunefnd Ástbjörn Egilsson, formann, Baldur Þór Baldvinsson og Sigurður Jónsson

11. Fjölþjóðlegt samstarf í öldrunarmálum

HI greindi frá því sem á döfinni væri í samþjóðlegu samstarfi í öldrunarmálum:

15-17 sept: Haustfundur og árleg ráðstefna NOPO, norrænna samtaka eldri borgara í Helsingjaeyri, Danmörk. Formaður LEB og alþjóðafulltrúi hafa sótt þann fund á undanförnum árum. Kostnaður LEB er einn flugfarmiði.

28-29 sept: Fundur í einni af starfsnefndum AGE verkefnis ESB í Brussel. Alþjóðafulltrúi LEB er fulltrúi NOPO í nefndinni. Kostnaður LEB er enginn.

19-22 okt: Kynnis- og námsferð fulltrúa frá NOPO til ESB í Brussel þar sem gert er ráð fyrir þátttöku alþjóðafulltrúa LEB og nefndarmanni NOPO auk formanns LEB. Kostnaður LEB tveir flugmiðar.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkir framangreinda þátttöku.

12. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra

HI greindi frá að fyrsti fundur nefndarinnar að loknu sumarhléi væri boðaður 28. ágúst.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar

13. Fundur í nefnd um félagsþjónustu sveitarfélaga

HI greindi frá því að fundir í nefnd um endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga hæfust á ný 28 ágúst.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar

14. Endurskoðun laga um almannatryggingar

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fulltrúi LEB í nefnd um löggjöf um almannatryggingar gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar sem nú væru til lokafrágangs í nefndinni. Einnig kom á fundinn Sigurður Grétarsson reiknifræðingur TR í þessum málaflokki. Þau fóru yfir tillögur nefndarinnar og útreikninga á áhrifum breytinga á bótakerfum. Einnig var farið yfir ýmis atriði er varða aukinn sveigjanleika aldraðra varðandi atvinnuþátttöku, samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða og ýmis önnur atriði sem varða mögulega breytingu á fyrirkomulagi almannatrygginga.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur að hér sé um framfaramála að ræða sem bæta muni kjör eldri borgara og auka valkosti þeirra varðandi atvinn- og lífeyristöku.

15. Staðan í kjaramálum eldri borgara

Almennar umræður urðu um stöðuna í kjaramálum aldraðra. Staðan var greind, rætt um markmið, leiðir og aðgerðir.

Afgreiðsla stjórnar: Umræðu stjórnar verður haldið áfram.

16. Ályktanir landsfundar og framkvæmd þeirra

Farið var yfir tillögur landsfundar og rætt um hvernig árangursríkast væri að standa að framkvæmd þeirra.

Afgreiðsla stjórnar: Hugmyndir verða sendar á milli stjórnarmanna í tölvupósti.

17. Önnur mál

Engin önnur mál voru lögð fram.