fbpx

haldinn 8. júní 2015 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ), Anna Sigrún Mikaelsdóttir (ASM), Baldur Þór Baldvinsson (BÞB)

HI setti fund kl 10:00 og bauð stjórnarmenn velkomna. Fundurinn hófst með almennum umræðum en allir aðal- og varamenn nema formaður eru að taka í fyrsta sinn sæti í stjórninni. Sögðu stjórnarmenn frá bakgrunni sínum og reynslu þar á meðal í málum aldraðra. Einnig sagði HI frá aðstöðu LEB að Sigtúni 42.

1. Fundargerð landsfundar LEB 5. – 6. maí 2015

HI rifjaði upp ákvæði 6. greinar laga LEB um afgreiðslu fundargerðar landsfundar:

„6.3. Fundarstjórar og fundarritarar landsfundar ganga frá fundargerð landsfundar til stjórnar LEB, sem skal senda aðildarfélögum sambandsins fundargerðina innan mánaðar frá landsfundi.

6.4. Komi ekki fram athugasemd frá aðildarfélögum innan mánaðar þaðan í frá skoðast fundargerðin  samþykkt.“

Fundarstjórar og fundarritarar hafa sent stjórn fundargerð landsfundar LEB 5.-6. maí, og lagði HI til að fundargerðin yrði send formönnum aðildarfélaga LEB í tölvupósti.

Afgreiðsla stjórnar: Tillagan var samþykkt.

2. Fundargerð stjórnarfundar nr. 280

HI lagði fram fundargerð 280. stjórnarfundar, sem haldinn var 6. maí 2015, og fór yfir reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara frá 10. desember 2013 og aðdraganda og ástæður fyrir setningu þeirra.

Afgreiðsla stjórnar: Fundargerðin var samþykkt.

3. Kjaramál

HI innleiddi umræður um þróun kjaramála, samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, kjarasamninga, verkföll og mikil vonbrigði eldri borgara með að bætur almannatrygginga hefðu ekki tekið sambærilegum breytingum og lægstu laun eins og krafist hefði verið í samþykkt í kjaramálaályktun landsfundar LEB 5.-6. maí svohljóðandi „Landsfundurinn krefst þess að lífeyrir almannatrygginga taki að lágmarki sömu hækkunum og lægstu laun sem samið verður um í næstu kjarasamningum“ Í kjölfar gerðar samkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda fól LEB Benedikt Jóhannessyni hjá Talnakönnun að taka saman minnisblað um áhrif kjarasamninga á bætur almannatrygginga og 1. júní skilaði Benedikt svohljóðandi minnisblaði til LEB:

„Í lok maí var gengið frá kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem þó hafa ekki verið samþykktir í atkvæðagreiðslum. Í kjarasamningunum var megináhersla lögð á að bæta kjör þeirra sem lægst hafa launin. Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara óskaði eftir því að Talnakönnun tæki saman stutt minnisblað um hvernig líta mætti á áhrif kjarasamninganna í tengslum við lífeyri almannatrygginga. Í 65. gr. laga um almannatryggingar (1993/117 með síðari breytingum) segir: „Bætur almannatrygginga … skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Líta má á málin frá nokkrum sjónarhornum. Miðað er við mánaðralegar bætur þeirra sem ekki eru með neinar aðrar tekjur. Reiknað er með sömu skerðingarreglum og nú eru:

1.     Lágmarkslaun með tekjutryggingu hækka samkvæmt samningunum í 245 þúsund krónur við undirskrift samningsins en þau eru í dag 214 þúsund krónur á mánuði. Í maí árið 2018 verða lágmarkstekjur 300 þúsund krónur á mánuði. Miðað er við lágmarkstekjur á mánuði fyrir fullt starf. Ferillinn er þannig að 1. maí 2016 er miðað við 260.000 kr. á mánuði í lágmarkstekjur, 280.000 kr. 1. maí 2017 og 300.000 kr. 1. maí 2018.  Núverandi bætur til ellilífeyrisþega sem býr einn eru 225.070 kr.  Ef miðað væri við að þessi einstaklingur færi í nú í 245 þúsund væri hækkunin um 8,86%. Eðlilegt væri þá að miða við að bætur einstaklings sem býr ekki einn færu úr 193.962 kr. í 211.137 kr. Hækkunarprósenturnar yrðu svo 6,1% árið 2016, 7,7% árið 2017 og 7,1% árið 2018 (1. maí ár hvert).

 

2.     Líta mætti svo á að lífeyrisþegar fylgi kauptöxtum. Allir kauptaxtar eiga að hækka um 25 þúsund krónur. Sé tekið mið af þessu hækka lífeyrisgreiðslur þeirra sem nú eru með 225.070 kr. í 250.070 kr. eða 11,1% og aðrir samsvarandi (215.491 kr.). Þess ber þó að geta að í samningunum er ákvæði um að draga megi hækkanir frá 1. febrúar 2014 frá hækkunum nú. Bætur almannatrygginga hækkuðu um 3% um áramót. Þetta þýðir að hækkunin nú ætti að vera 7,9% ef þessari aðferð er beitt (1,111/1,03 = 1,0787). Þetta gerir 242.783 kr. fyrir þá sem búa einir, en 209.226 kr. fyrir hina. Kauptaxtar hækka um 5,5% árið 2016, um 4,5% árið 2017 og 3,0% árið 2018 (1. maí ár hvert).

3.     Loks er hægt að horfa til grunnhækkunar launa, en hún er 7,2% að lágmarki fyrir laun undir 300 þúsund. Hér er aftur ákvæði um að lækka megi um hækkun frá 1. febrúar 2014 og þannig reiknað er hækkunin 4,1% (1,072/1,03 = 1,041). Þetta þýddi að grunnbætur til þeirra sem búa einir hækkuðu í 234.298 kr. og grunnbætur til þeirra sem ekki búa einir í 201.914 kr.  Grunnhækkun launa er svo miðuð við 5,5% 1. maí 2016, 3,0% 1. maí 2017 og 3,0% 1. maí 2018.

Af ofangreindu má sjá að hægt er að líta á málin frá fleiri en einni hlið, en ekki verður um það deilt að þeir sem ekki eru með neinar tekjur annars staðar að eru hliðstæðir við þá sem lægstu launin hafa. Eflaust mætti færa rök að því að launahækkanir eru breytilegar þannig að þeir sem meiri laun hafa fá hlutfallslega minni hækkun. Metinn kostnaðarauki launagreiðenda í upphafi er talinn 5,6%.

Reykjavík, 1. júní 2015

Benedikt Jóhannesson, Ph.D.

Stjórn LEB og fulltrúi LEB í endurskoðunarnefnd laga um almannatryggingar áttu fund með Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra 1. júní þar sem fulltrúar LEB áréttuðu óánægju og vonbrigði með að bætur almannatrygginga hafi ekki tekið sömu breytingum og lægstu laun auk þess sem farið var yfir ályktanir landsfundar LEB og áherslur LEB í endurskoðunarnefnd laga um almannatryggingar kynntar ráðherra. Einnig hefur LEB óskað eftir fundi með fjármálaráðherra vegna þessara mála. Miklar umræður urðu um stöðu kjaramála og mat á hvernig árangursríkast væri að vinna að hækkun bóta almannatrygginga.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur mikilvægt að ræða umbætur á kjörum eldri borgara á formlegan og óformlegan hátt við ráðamenn og fá tekna saman skýrslu um tekjur 67 ára og eldri árið 2014, skipt eftir uppruna tekna.

4. Endurskoðun laga um almannatryggingar

HI greindi frá að nefnd um endurskoðun almannatrygginga héldi um þessar mundir fundi tvisvar í viku og stefndi á að skila tillögum til stjórnvalda á næstunni og rifjaði upp samþykkt landsfundar LEB um endurskoðun laga um allmannatryggingar: „Landsfundur Landssambands eldri borgara haldinn 5.-6. maí 2015 skorar á stjórnvöld að ljúka endurskoðun laga um almannatryggingar. Endurskoðunin verður að leiða til þess að dregið sé úr óhóflegum tekjutengingum milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóða. Landsfundurinn vill að starfslok verði sveigjanleg og valkvæð. Landsfundurinn getur fallist á hækkun lífeyristökualdurs á löngum tíma, en breyting taki ekki gildi fyrr en að 5 árum liðnum frá gildistöku lagabreytinga. Með því skapast aðlögunartími fyrir þá sem eiga eftir allt að 5 ár í starfslokaaldur.“ HI lagði fram minnisblað til stjórnar LEB frá Jónu Valgerði Kristjánsdóttur fulltrúa LEB í endurskoðunarnefnd laga um almannatrygginga og einnig minnisblað frá Tryggingastofnun ríkisins til endurskoðunarnefndarinnar um skoðun á því hvernig þær breytingar sem fyrirhugaðar eru hjá nefnd um endurskoðun almannatrygginga komi út hjá hinum ýmsu hópum lífeyrisþega.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar því að nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar skili á næstunni tillögum til stjónvalda enda er það mikilvægt skref til að þoka umbótum í almannatrygggingakerfinu áfram.

5. Framkvæmdasjóður aldraðra

Eyjólfur Eysteinsson, fulltrúi LEB í stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra gerði grein fyrir starfi sjóðsins, fór yfir reglur um starf hans og gerði grein fyrir starfsemi hans. Hann taldi að mikil þörf væri á að fjölga hjúkrunarrýmum og hafi heilbrigðisráðherra gefið fyrirheit um að leggja á næstu mánuðum fram áætlun þar að lútandi. Einnig minnti hann á að LEB hefði rætt notkun fjármagns sjóðsins við Umboðsmanns.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin beinir því til EE að vinna áfram að bættri upplýsingagjöf um starfsemi sjóðsins.

6. Þátttaka LEB í fjölþjóðastarfi

Birna Bjarnadóttir alþjóðafulltrúi LEB gerði grein að málefni öldrunar og fjölgun eldri borgara væri ofarlega á baugi í stjórnmálaumræðu innan flestra Evrópulanda og að ríkisstjórnir norðurlandanna ættu með sér náið samstarfs og skoðanaskipti í þeim málum. Þátttaka LEB á þessu sviði fælist einkum í þátttöku í starfi norræna samtaka eldri borgara, NOPO, en þau tækju svo þátt í ýmsu starfi á vettvangi ESB og fleiri samtaka sem tengdust öldrunarmálum. Slík samtök leituðu gjarna eftir upplýsingum um stöðu öldrunarmála hjá þátttökuþjóðunum og hrósaði Birna hve LEB og aðildarfélög þess hefðu aðstoðað við slíka upplýsingagjöf. Hún minnti einnig á að í maí 2016 væri röðin komin að Íslandi að halda aðalfund NOPO og hafi hún rætt við forystumenn FEB á Suðurnesjum um að fundurinn verði haldinn þar og staðfesti SJ, formaður þess félags vilja til þess. BB sagði að stjórnarmenn í samtökum eldri borgara þar sem fundurinn er haldinn hverju sinni sitja oft fundina.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin felur Sigurði Jónssyni og Birnu Bjarnadóttur að undirbúa fund NOPO í Reykjanesbæ vorið 2016.

7.  Ályktanir landsfundar og framkvæmd þeirra

HI lagði fram yfirlit yfir efnisþætti ályktana landsfundar LEB. Hver liður var tekinn til umræðu og rætt um hvernig haga skuli framkvæmd hvers liðar.

Afgreiðsla stjórnar: Á næsta fundi stjórnar verður framkvæmdaáætlun unnin frekar.

8.  Starfsáætlun 2015 – 2017

HI lagði fram drög að starfsáætlun stjórnar fyrir yfirstandandi tveggja ára kjörtímabil.

Afgreiðsla stjórnar: Starfsáætlun verður tekin til frekari umræðu á næsta stjórnarfundi.

9.  Heimsóknir í aðildarfélög

HI lagði til að sett verði í forgang að heimsækja aðildarfélög sem ekki hafa verið heimsótt á sl. tveimur árum og að stjórnarmenn LEB sem búsettir eru á viðkomandi landssvæðum annist skipulagningu heimsóknanna.

Afgreiðsla stjórnar: Tillagan samþykkt og lögð áhersla á að hefja heimsóknir í síðari hluta ágúst.

10.  Rekstrarmálefni

HI fór yfir helstu samninga sem LEB er aðili að ásamt reglum um greiðslur til stjórnarmanna. Rætt var hvaða rekstrarfyrirkomulag henti starfseminni miðað við eðli hennar og umfang.

Afgreiðsla stjórnar: Löggiltum endurskoðanda LEB ásamt formanni, varaformanni og gjaldkera falið að yfirfara samninga og reglur og leggja fram tillögur á næsta stjórnarfundi um fyrirkomulag rekstrarins.

HI sleit fundi kl. 16:00. Næstu fundur stjórnar er fimmtudaginn 27. ágúst en milli funda munu stjórnarmenn eiga samskipti í tölvupósti.