Mættir: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (JVK), Haukur Ingibergsson (HI), Eyjólfur Eysteinsson (EE) og Anna Lúthersdóttir (AL). Ragnheiður Stephensen (RS) var forfölluð vegna veikinda og sótti Jón Kr. Óskarsson 1. varamaður hluta fundarins í hennar stað. Sveinn Hallgrímsson varamaður sat einnig fundinn en Jóhannes Sigvaldason, varamaður, sem ætlaði að sækja fundinn var veðurtepptur. Einnig sátu hluta fundarins Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður kjaranefndar LEB. Sif Friðleifsdóttir formaður stjórnar Velferðarvaktarinnar og Birna Bjarnadóttir alþjóðafulltrúi LEB.
JVK bauð fundarmenn velkomna og setti fund.
1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 276
Fundargerð 276. stjórnarfundar, sem haldinn var 9. desember 2014, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.
2. Vinna formanns og stjórnar
JVK lagði fram yfirlit um vinnu formanns og stjórnar 9. des. 2014 til 10.feb 2015:
5. des. Fundur hjá FEB-Biskupstungum. JVK, HI, EE. Öll voru með erindi.
8. des. Fundur hjá Velferðarvaktinni. HI mætir.
9. des. Stjórnarfundur LEB. JVK, HI, EE, Al, JKÓ. Viðtal við JVK á Bylgjunni um málefni aldraðra, virðingu o.fl.
10. des. Velferðarvaktin fundur. HI mætir. JVK vann að umsögn um fjárlög eftir aðra umræðu.
12. des. Zagas-mál á dagskrá. Bréf frá lögmanni um innheimtu. Krafa 460.000. Farið yfir málið og rifjað upp. Kom upphaflega fram 2008.
15. des. Fundur um búsetumál aldraðra hjá Samfylkingu. JVK mætir. Fundur um Zagas mál. JVK, HI, EE , GSH.
17. des. Hagsmunahópur TR. Sigríður. Guðm. Ástbj.Egilsson. og HI mæta. JVK á fundi með Reyni Karlssyni lögmanni v. Zagas máls. JVK tekur saman greinargerð um málið eftir fundinn og sendir HI og EE. Send umsögn um þingmál 35, Aldurstengd örorkuuppbót.
19. des. Fundur með JVK, GSH, EE og Borgþór Kjærnested. Leitað lausna í Zagas-máli. JVK tekur eftir fundinn saman minnisblað um fundinn. Lausn samþykkt af fundarmönnum með tölvupósti.
22. des. Gengið formlega frá samkomulagi við Reyni lögmann um Zagas-mál.
22. des.-5.jan. Vegna vöntunar á blaðapakka af Listin að lifa á Ísafjörð og eftir ítrekaða leit hjá Póstdreifingu, sem bæði JVK og GSH hafa fylgt eftir, var upplýst að pakkinn finnst ekki og Póstdreifing lofar prentun á 340 blöðum hið fyrsta.
1. jan. JVK mætir fyrir LEB í nýársboð forseta Íslands á Bessastöðum .
4. jan. JVK sendir umsögn um þingmál nr. 322 um almannatryggingar.
5. jan. JVK og HI taka saman greinargerð um verkefni samkv. samningi við VEL. HI með endurskoðanda vegna ársreiknings 2014.
6. jan. HI undirbýr ferð á Eyjafjarðarsvæði fyrir stjórn LEB. HI á fund með fulltrúum VEL um nýjan verkefnasamning. JVK sendir bréf um skipan uppstillingarnefndar til nefndarmanna.
7. jan. HI á fundi í VEL um verkefnasamning. HI á fundi með FEB-R um afsláttarbók.
10. jan. JVK semur blaðagrein um Leiðréttingarnar. Tekur einnig saman nýjársfréttabréf til FEB-félaga.
12. jan. JVK, HI, AL og EE fljúga norður á Akureyri til fundahalda. Gista hjá kunningjum.
13. jan. Ekið af stað kl. 10 frá Akureyri til Húsavikur. Fundur þar í safnaðarheimilinu með eldri borgurum kl 13:00. Mættir um 50 manns. Kl. 16.00 fundur með FEB í Þingeyjarsveit haldinn í Hafralækjarskóla . Þar mættu 40 manns. Að lokum súpufundur á Grenivík kl 19:00 þar voru mættir svo til allir félagsmenn, eða um 30 manns. Alls staðar voru menn verulega ánægðir yfir komu okkar og með það efni sem við fluttum.
14. jan. Fundur með FEB Akureyri í Bugðusíðu 1 kl 13:00. Þar mættu yfir 100 manns, og síðan haldið að Hrafnagili og fundað með félaginu í Eyjafjarðarsveit. Þar voru um 15 manns, enda veður að versna og margir báðu fyrir kveðju en hættu við að koma. Á fundunum töluðu allir stjórnarmenn um tiltekin mál og skiptu þannig með sér verkum. Rædd voru mál sem efst eru á baugi hjá LEB s.s. kjaramál, breytingar á almannatryggingum, velferðartækni, öldungaráð og lífeyrisssjóðina. Einnig upplýstu heimamenn um sín mál, aðstöðu og félagsmál.
15. jan. var fyrirhhugað að fara á Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð, en veðurspá var þannig að varað var við snjóflóðum í Ólafsfjarðarmúla og mikilli snjókomu. Við ætluðum á Dalvík um morguninn en þá kom í ljós að ófært var þangað eða ekki búið að moka. Það var því öllum fundum þann daginn frestað. HI og AL tóku flug heim þann dag.
16. jan. JVK fór í viðtal á sjónvarpsstöðinni N4 sem starfar á Akureyri. Sjá má viðtalið í heild á leb.is, þar er slóð á viðtalið. JVK flýgur til RVK kl 16:00.
19. jan. Fundur hjá Velferðarvaktinni HI mætir. Grein birtist í Fréttablaðinu eftir JVK um Ár leiðréttinganna.
20. jan. JVK og HI ganga frá fréttabréfi til FEB-formanna.
21. jan. Samráðsnefnd Tryggingarstofnunar. HI, SJG. og ÁE mæta.
23. jan. Fundur í nefnd um endurskoðun Alm.tr. JVK mætir. Fundur í starfshópi um endurskoðun á félagsþjónustu sveitarfél. o.fl. HI mætir.
24-28. jan. HI vinnur að endurnýjun samnings við VEL.
28. jan. Stjórnarfundur Öldrunarráðs Íslands JVK mætir.
28. jan. Kynning á skýrslu Velferðarvaktarinnar, HI mætir.
29. jan. Samningur VEL og LEB undirritaður. HI mætir.
30. jan. Fundur í ritnefnd LaL. Mætt eru: HI, JVK, GSH, BS. ÞK og JBG ritstjóri.
4. feb. Ráðstefna um nægjanleika lífeyrissparnaðar. JVK og HI mæta. Dreift verður útkominni skýrslu á næsta stjórnarfundi.
5. feb. Fundur hjá FEB-R um slysavarnir í heimahúsum. JVK mætir.
6. feb. Fundur í endurskoðunarnefnd almannatrygginga. JVK mætir.
9.feb. Viðtal á Stöð2 við JVK um hjúkrunarheimilin og umboðsmann aldraðra.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.
3. Samningur LEB við Velferðarráðuneytið
JVK gerði grein fyrir að samningur LEB við Velferðarráðuneytið um starfsemi Landssambands eldri borgara hafi verið endurskoðaður og undirritaður en meginmarkmiðið með samningnum er að styrkja LEB til að sinna hlutverki sínu sem heildarsamtök aldraðra á Íslandi. HI gerði grein fyrir helstu breytingum frá fyrra samkomulagi en samningurinn gildir til 31. desember 2017 með endurskoðunarákvæði á tímabilinu fyrir báða samningsaðila.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar endurskoðun samningsins og telur hann mikilvægt skref fram á við. Formaður þakkaði framkvæmdastjóra fyrir elju og úthald við að ná fram svo hagstæðum samningi. Einnig væri hann búinn að skila greinargerð til ráðuneytis um framkvæmd LEB á fyrri samning og engar athugasemdir komið við það.
4. Ársreikningur LEB 2014
EE lagði fram ársreikning LEB fyrir árið 2014, undirritaðan af löggiltum endurskoðanda LEB, félagskjörnum skoðunarmönnum reikninga LEB og stjórn LEB en endanlega afgreiðsla ársreikningsins fer fram á landsfundi LEB 2015. Tekjur umfram gjöld voru 3,0 m.kr., rekstrargjöld voru 21,3 mkr., rekstrartekjur voru 24,3 mkr. og eignir í árslok vo ru 11,3 mkr. EE sagði rekstur LEB vera orðinn traustan og hagkvæman og hafi sambandið nú fjármuni til að leggja í verkefni sem tiltekin eru í samningi LEB og Velferðarráðuneytisins.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar góðum rekstri og traustri fjárhagsstöðu LEB.
5. Umsagnir um fjárlög og 35. og 322. þingmál
JVK lagði fram umsagnir um eftirgreind þingmál en efni þeirra hefur verið unnið af stjórnarmönnum í tölvupósti:
Umsögn um fjárlagafrumvarp 2015 frá Landssambandi eldri borgara, eftir breytingartillögur sem fram komu við 2. umræðu:
Eftirlaunaþegar hafa undanfarin ár tekið á sig miklar skerðingar á kjörum sínum. Nokkuð af því var leiðrétt 1. júlí 2013 og 1. janúar 2014. Í þessu fjárlagafrumvarpi eru engar leiðréttingar sjáanlegar fyrir eldri borgara. Í þeim breytingartillögum sem nú eru fram komnar er hins vegar verið að lækka framreikning sem áður var fyrirhugaður á lífeyristekjum frá almannatryggingum úr 3,5% í 3%. Þessu mótmælum við harðlega. Jafnframt er verið að hækka virðisaukaskatt á nauðsynjavöru eins og mat úr 7% í 11% án þess að neinar mótvægisaðgerðir séu áætlaðar fyrir eldri borgara. Við höfðum lagt til að virðisaukaskattur á lyf væri færður úr efra þrepi vsk. í neðra þrepið og væri það þá mótvægi við hækkun matarskattsins. Við því var ekki orðið í þeim breytingartillögum sem nú eru fram komnar.
Eldri borgarar bíða enn leiðréttingar á kjaragliðnun síðustu ára. Eðlilegt hefði verið að eitthvað í þá veru væri sjáanlegt í þessu fjárlagafrumvarpi. Öryrkjabandalagið hefur lagt til að byrjað væri að leiðrétta kjaragliðnunina með því að hækka tekjutryggingu lífeyrisþega um 10% auk 3,5% hækkunar, eða alls um 13,5%. Það myndi koma þeim sem lægstan lífeyri hafa til góða. Undir það tekur stjórn Landssambands eldri borgara.
Gjaldskrárhækkanir í heilbrigðisþjónustu á yfirstandandi ári hafa verið langt umfram almennar hækkanir og verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Nú er gert ráð fyrir að hækka viðmiðunarfjárhæðir í greiðsluþátttökukerfi almennra lyfja og fella útgjöld vegna S-merktra lyfja undir greiðsluþátttökukerfið. Greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu er orðin með því mesta sem gerist ef borið er saman við Norðurlöndin. Þegar betur árar í efnahagslífinu er það eitt af því sem þyrfti að draga úr, en ekki að auka kostnaðinn, enda um grunnþjónustu að ræða.
Við í Landsambandi eldri borgara höfum ítrekað lagt til að persónuafsláttur væri hækkaður. Það er sú aðgerð sem kæmi láglaunahópum og lífeyrisþegum hvað best. Það er einföld leið og skilvirk sem flækir ekki skattkerfið. Nú er greiddur skattur af eftirlaunum (lífeyristekjum) yfir 135.384 kr. Með verulegri hækkun persónuafsláttar myndu skattleysismörkin hækka, sem kæmi öllu láglaunafólki vel.
Við hvetjum alþingismenn til að forgangsraða fjármunum í þágu velferðar og reyna með því að útrýma fátækt á íslandi sem ekki á að sætta sig við í jafn velmegandi landi eins og Ísland er. Við óskum eindregið eftir því að tillit verði tekið til þessara ábendinga fyrir 3. umræðu fjárlaga.
Umsögn Landssambands eldri borgara um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 með síðari breytingum. Þingskjal 35, mál 35.
Landssamband eldri borgara er hlynnt þeim breytingum á lögum um almannatryggingar sem bætt geta hag öryrkja og eldri borgara. Aldurstengd örorkuuppbót hefur ekki fylgt þegar fólk hefur farið á ellilífeyri af örorkubótum. Það teljum við ekki réttlátt og því þarf að breyta. Auk þess hafa skerðingarmörk verið í gangi gagnvart örorkuuppbótinni hvað varðar aðrar bætur almannatrygginga s.s. framfærsluuppbót. Þar eru 100% skerðingar viðhafðar. Við teljum mikla nauðsyn á að einfalda kerfi almannatrygginga og draga úr þeim skerðingum sem þar eru gangvart hinum ýmsu tekjum eða lífeyri sem fólk á rétt á. Tekjutengingar og skerðingarmörk í almannatryggingakerfinu eru allt of mikil og setja lífeyrisþega fasta í fátæktargildru. Því þarf að gæta þess, ef frumvarp þetta verður samþykkt að allar breytingar sem eiga að vera til bóta hafi ekki áhrif til að skerða aðrar tryggingabætur eða lífeyri.
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um almannatryggingar 322.mál, þskj.393/2014-2015.
Um 2.gr.
Landssamband eldri borgara (LEB) telur að í 2. gr. d lið í frumvarpinu felist of víðtæk heimild fyrir ráðherra til að ákveða staðsetningu Tryggingarstofnunar og þjónustumiðstöðva hennar út um landið eða að sameina hana öðrum stofnunum. LEB minnir á að TR er ein mikilvægasta stofnun ríkisins þegar kemur að þjónustu velferðarmála ekki síst gagnvart eldri borgurum. Það skiptir miklu máli fyrir eldri borgara að þjónustan sé sem næst þeirra heimili, en ekki staðsett vegna „ hagkvæmnisástæðna“ í margra kílómetra fjarlægð. Við minnum á það, að þó sífellt fjölgi þeim sem geti nýtt sér rafræna þjónustu, er enn stór hluti eldri borgara sem ekki er fær um það. Því teljum við að það sé of þröng skilgreining að fela það einum aðila að ákvarða staðsetningu svo mikilvægrar stofnunar sem hefur víðtæku þjónustuhlutverki að gegna við þá sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu s.s. vegna aldurs. Landssambandið telur eðlilegra og lýðræðislegra að það væri hlutverk Alþingis að ákveða það.
Um 3.gr.
Landssamband eldri borgara lysir yfir ánægju með að í frumvarpinu sé verið að leggja af hugtakið vasapeninga til á öldrunarheimilum, en orðið ráðstöfunarfé notað í staðinn.
Um 16.gr.
Þar segir: Nú afplánar lífeyrisþegi refsingu í fangelsi, sætir gæsluvarðhaldi eða er á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun og skulu þá falla niður allar bætur til hans sbr. 53.gr. Við teljum það all harkalegt að fella niður allar bætur við þessar aðstæður og vitna til þess í greinargerð að þar sé um sanngirnisástæður að ræða gagnvart öðrum föngum. Ellilífeyrisþegar hafa tæplega möguleika á því að taka launaða vinnu meðan á afplánun stendur, eins og yngri fangar og er því ekki jafnræði að því leyti milli lífeyrisþega og annarra fanga. Slíkur tekjumissir getur haft þau áhrif að viðkomandi missi eignir s.s. húsnæði og getur þá verið afar illa staddur þegar afplánun lýkur. Við teljum því að þetta ákvæði ætti að fella niður.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin hefur samþykkt umsagnirnar í tölvupósti og þær verið sendar Nefndasviði Alþingis.
6. Ályktun kjaranefndar LEB frá 5. febrúar
ÞSv fór yfir neðangreinda ályktun kjaranefndar Landssambands eldri borgara frá 5. febrúar:
Kjaranefndin lýsir yfir undrun sinni á ummælum forsætisráðherra í nýjársávarpi sínu um að búið væri að leiðrétta skerðingar eldri borgara. Enn er ólokið við að meta og lagfæra skerðingar á tímabilinu 2009- 2014. Talið er að þær nemi 17-18 milljörðum. Þá er ólokið við að draga úr fjármagnstekjuskatti og áhrifa hans á lífeyristekjur.
Lítið hefur spursts til bygginga hjúkrunarheimila sérstaklega á suðvesturhorninu en þar er vandinn mestur. Notkun á fjármunum í rekstur úr framkvæmdasjóði aldraðra er óásættanlegt. Hér er um nefskatt að ræða sem ætlaður er til að byggja upp hjúkrunarheimili.
Nefndin lýsir yfir þungum áhyggjum af lokun endurhæfingarrýma á Hrafnistu í Reykjavík sem þjónar fólki af höfuðborgarsvæðinu til að gera því kleift að búa lengur heima og eykur lífsgæði þeirra s.s. gönguöryggi og betri líkamlega færni. Sparnaður af því mun auka kostnað annars staðar í heilbigðiskerfinu.
Þörfin fyrir Umboðsmann aldraðra hefur enn aukist og teljum við að það megi ekki dragast að stofna embætti Umboðsmanns aldraðra.
Skortur á viðunandi leiguhúsnæði fyrir eldri borgara eykur á misskiptingu. Skorturinn er orðinn mjög alvarlegur og hefur valdið miklu hærri leigu sem fáir ráða við.
Í hópi aldraðra er fólk sem á ekki fyrir nauðsynjum út mánuðinn. Hver ber ábyrgðina?
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin staðfestir ályktun kjaramálanefndar.
7. Fréttir frá nefnd um endurskoðun lífeyrismála
JVK gerði grein fyrir starfi nefndar um endurskoðun lífeyrismála og fór yfir minnisblað um helstu niðurstöður nefndarinnar sem nú séu til umræðu.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin styður þær hugmyndir sem formaður reifaði.
8. Fréttir af starfi Öldrunarráðs Íslands
JVK greindi frá starfi ráðsins en það fundar að jafnaði mánaðarlega. Um þessar mundir er m.a. verið að fjalla um starf samstarfsnefndar um málefni aldraðra og útfærslu hugmyndar um málþing um stefnumótun í málefnum aldraðra.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.
9. Fréttir af starfi Framkvæmdasjóðs aldraðra
EE gerði grein fyrir starfi sjóðsins. Síðan í maí 2014 hafa stjórninni borist erindi 24 aðila og hefur sjóðurinn samþykkt 11 þeirra. Hið raunverulega vald sé hins vegar hjá ráðherra og allt of mikill hluti fjármuna sjóðsins fari í rekstur hjúkrunarheimila í stað þess að nýtast til uppbyggingar. Hann greindi einnig frá að Félag eldri borgara á Suðurnesjum hafi samþykkt að endurflytja í Öldungaráði Suðurnesja ályktun um endurbyggingu hjúkrunarheimilisins Garðvangs. Einnig lagði lagði EE fram eftirfarandi tillögu.
„Landssamband eldri borgara mótmælir því harðlega að fjármagn Framkvæmdarsjóðs aldraðra verði notað til þess að greiða rekstur hjúkrunarheimila. Aðalmarkmið sjóðsins er að stuðla að fjölgun hjúkrunarheimila. Neyðarástand er að skapast vegna vöntunar á hjúkrunarrýmum , á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og víðar á landinu. Ástandið á enn eftir að versna ef ekkert er að gert, þar sem áætlanir gera ráð fyrir mikilli fjölgun þeirra sem verða að leita eftir þjónustu og geta ekki bjargað sér lengur heima hjá sér vegna veikinda. Samfélagið allt verður að bregðast við vandanum nú þegar með gerð áætlunar um fjölgun hjúkrunarrýma til að mæta áætlaðri þörf á næstu árum. Brýnt er að sveitarfélög og ríki standi saman að gerð slíkrar áætlunar ásamt Landssambandi eldri borgara.“
Afgreiðsla stjórnar: Tillagan var samþykkt og formanni falið að ganga á fund heilbrigðisráðherra og kynna hana.
10. Fréttir af starfi nefndar um endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga o.fl.
HI kynnti að vinna nefndarinnar beindist um þessar mundir einkum að því að greina hvort fella ætti lög um málefni fatlaðs fólks inn í lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga og hafa þannig ein lög eða hvort hafa ætti að hafa tvenna löggjöf eins og nú er.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur að heppilegra sé að halda óbreyttu fyrirkomulagi og hafa tvenna löggjöf.
11. Fréttir af starfi Velferðarvaktarinnar
Á fundinn kom Siv Friðleifsdóttir formaður stjórnar Velferðarvaktarinnar og bauð JVK hana velkomna. Siv fór yfir stofnun og tilgang Velferðarvaktarinnar, skipan nefndarinnar og skipulag starfsins. Þessu næst fór hún yfir nýútkomna skýrslu Velferðarvaktarinnar, rakti megintillögur sem þar eru gerðar eru og hugmyndir um hvernig koma mætti tillögum í framkvæmd.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.
12. Fréttir af nefndarstarfi NSK
Á fundinn kom Birna Bjarnadóttir alþjóðafulltrúi LEB. Hún gerði grein fyrir þátttöku norrænu öldrunarsamtakanna NSK, sem LEB er aðili að, í ýmsum fagnefndum um öldrun sem starfa á vettvangi ESB. Hefur Birna verið tilnefnd sem fulltrúi norðurlandanna til að sitja í nefnd um farsæla öldrun og er það í fyrsta sinn sem fulltrúi frá LEB er tilnefndur sem fulltrúi norðurlandanna í Evrópusamstarfi. Hún gerði grein fyrir nokkrum þáttum þess starfs sem unnið er að í öldrunarmálum á Evrópuvísu og þar megi ýmislegt læra þó ljóst sé af fjölþjóðlegum könnunum að Ísland sé í fremstu röð í öldrunarmálum og baráttan hljóti því að miðast við að halda þeirri stöðu.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar
13. Stofnun öldungaráða
JVK opnaði umræðu um stofnun öldungaráða og að svo virtist sem mikill áhugi væri á stofnun þeirra og viðræður eða undirbúningur að stofnun Öldungaráða væri hafinn hjá ýmsum aðildarfélögum LEB. Mikill ávinningur virtist vera af því að fulltrúar sveitarfélaganna kæmu á opna fundi í aðildarfélögunum þegar fulltrúar LEB kæmu í heimsókn samanber heimsókir til aðildarfélaga á austanverðu Norðurlandi í Janúar.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.
14. Ársskýrslur aðildarfélaga
HI rifjaði upp að á síðasta ári hefði verið ákveðið að biðja aðildarfélögin að senda LEB ársskýrslu í stöðluðu formi um grunnatriði í starfsemi félagsins þannig að fá megi betri yfirsýn yfir starfsemina heldur en verið hefur Nokkrir formenn hefðu tekið þátt í að prófa slíkt form. Formið hafi síðan verið sent til allra aðildarfélaga og hafi meira en helmingur félaga skilað inn ársskýrslu 2014 nú þegar.
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar góðum árangri af þessari nýjung í starfseminni.
15. Útgáfa afsláttarbókar
HI rifjaði upp að samstarf hafi verið um árabil með LEB og FEB félaginu í Reykjavík um útgáfu afsláttarbókar sem nýtist öllum aðildarfélögum LEB. Alltaf sé álitamál og hvort þörf sé á að gefa bókina út á hverju eða annaðhvert ár. Þar sem FEB í Reykjavík hafi verið duglegt við að afla nýrra afsláttaraðila síðustu 12 mánuði hafi verið ákveðið að gefa bókina út á þessu ári þótt síðasta útgáfa hafi verið í mars 2014.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar en stjórnin telur þörf á að skoða hvort ekki sé nægilegt að gefa bókina út annað hvort ár.
16. Listin að lifa – vorblað
JVK sagði frá að ritnefnd undirbúi nú útgáfu á vorblaði Listarinnar að lifa. Stefnt sé að því að blaðið komi út í mars.
Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.
17. Landsfundur LEB 2015
JVK ræddi um Landsfund LEB 2015 sem haldinn verður í félagsheimili Félags eldri borgara í Kópavogi 5-6 maí.
Afgreiðsla stjórnar: Ákveðið var að senda fundarboð til aðildarfélaga fyrir lok Febrúar.
18. Umboðsmaður aldraðra
JVK minnti á umræðu um mikilvægi þess að koma á embætti umboðsmanns aldraðra og hver næstu skref í baráttu fyrir því gætu verið
Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin felur formanni að bjóða Umboðsmanni Alþingis á fund stjórnar LEB til að ræða hugmyndina um umboðsmann aldraðra og gagnsemi embætta umboðsmanna almennt.
19. Samstarf við Landsbjörg
ÞSv greindi frá að FEB í Reykjavík og fulltrúar frá Landsbjörg hefðu átt fund til til að ræða um átak í slysavörnum aldraðra og hefðu sammælst um að þar sem þetta væri verkefni á landsvísu væri eðlilegra að LEB kæmi að beinu samstarfi við Landsbjörg um þetta mál.
Afgreiðsla stjórnar: Samþykkt.
20. Samstarf við Samgöngustofu
ÞSv sagði frá umræðum FEB í Reykjavík við Samgöngustofu um samstarf um aldraða og akstur þar á meðal um eldri ökumenn í umferðinni, endurnýjun réttinda og áhrifa heilsu á akstur og umferðaröryggi. Hún taldi að rétt væri að LEB kæmi að þessu verkefni enda næði það til landsins alls.
Afgreiðsla stjórnar: Samþykkt.
Næsti fundur stjórnar verður haldinn þriðjudaginn 17. mars kl. 10:00
Fundi slitið kl. 14:15
Fundargerð ritaði Haukur Ingibergsson.