fbpx

haldinn 9. desember 2014 kl. 10:00 – 14:00 að Sigtúni 42

Mættir: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (JVK), Haukur Ingibergsson (HI), Eyjólfur Eysteinsson (EE) og Anna Lúthersdóttir (AL). Ragnheiður Stephensen (RS) var forfölluð vegna veikinda og mætti Jón Kr. Óskarsson 1. varamaður í hennar stað.

JVK bauð fundarmenn velkomna og setti fund.

1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 275

Fundargerð 275. stjórnarfundar, sem haldinn var 7. október 2014, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

2. Vinna formanns og stjórnar

JVK lagði fram yfirlit um vinnu formanns og stjórnar 7. okt til 8. des 2014:

7. okt. Stjórnarfundur LEB. JVK, HI, EE,AL, JKÓ mæta. Fundur í Velferðarnefnd LEB; JVK AL og aðrir nefndarmenn.

9. okt. Fundur hjá FEB Hveragerði. JVK situr fyrir svörum. Fundur í Kjaranefnd FEB-R. JVK mætir vegna Almannatrygginganefndar.

10. okt. Nemdendur frá HI í félagsráðgjöf koma til LEB og fræðast um starfið. JVK og HI mæta.

11. okt. Fundur í ritnefnd JVK og HI mæta.

13. okt. Fundur með fulltrúm FEB félaga í uppsveitum Árnessýslu að Brautarholti. HI mætir.

13.-15. okt. Stjórnarfundur NSK í Helsinki og námskeið um alsheimer o.fl. öldrunarmál. JVK og BB mæta.

16. okt. Fundur hjá FEB Suðurnesjum um öldungaráð og alm.tr. JVK mætir með Eyjólfi.

21. okt. JVK boðuð á fund um búsetulausnir aldraðra hjá Samfylkingunni til að ræða framtíðarstefnu. Var forfölluð.

22. okt. Fundur í Velferðarnefnd LEB. AL og aðrir nefndarmenn skoða hjúkrunarheimili. Fundur hjá ÖBÍ um alm.tr. HI og EE mæta. JVK mikið í síma og tölvuvinnu vegna útgáfu LaL.

24. okt. Fundur í endursk.nefnd alm.tr. JVK mætir.

25. okt. Símafundur í stjórn LEB. Samin ályktun um læknaverkfall og send í fjölmiðla. Lesin í Rúv, Bylgjuni og birt í MBL. Viðtal við JVK.

27. okt. Heimsókn til FEB-félaga á Snæfellsnesi, JVK, HI og EE. Lagt af stað kl 8 að morgni og komið til RVK aftur kl 21:00. Byrjað í Ólafsvík fyrir hádegi og síðan Grundarfjörður og Stykkishólmur. Alls mættu yfir 100 manns á þessum fundum. Farið yfir starf LEB, alm.tr. lífeyrissjóðina, velferðartækni o.fl. Gerður góður rómur að þessari heimsókn á öllum stöðunum.

28. okt. Ráðstefna á Grand hótel haldin af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. JVK mætti. Rætt um hver þjónustar eldri borgara í framtíðinni, fjölgun og vöntun hjúkrunarrýma og fleira því tengt.

29. okt. Stjórnarfundur Öldrunarráðs Íslands. JVK mætir. Afhending rannsóknarstyrkja.

30. okt. Kl. 9:00 er fundur í endurskoðunarnefnd almtrygginga, JVK mætir. Kl. 12:00 er fundur um búsetulausnir aldraðra hjá Samfylkingu. JVK mætir. Kl. 15:30 er fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um umsögn LEB um fjárlagafrumvarpið. JVK og HI mæta. Kl. 16:30 fundur hjá Krabbameinsfélaginu um reglugerð um krabbameinsskoðun kvenna, einkum eldri kvenna. JVK mætir og gagnrýnir að konur geti ekki komið í endurskoðun óháð aldri. LEB hafði sent ályktun um málið fyrr á árinu, þegar reglum var breytt.

31. okt. Fundur í nefnd um félagsþjónustu sveitarfélaga. HI mætir.

3. nóv. JVK semur umsögn um þingmál 257 og 207. Sendir á milli í tölvupósti til aðalmanna í stjórn LEB Sendir svo á nefndarskrifstofu Alþingis.

4. nóv. Velferðarnefnd LEB í heimsókn í Reykjanesbæ. AL og aðrir nefndarmenn mæta. Kl 7:30 er JVK í viðtal í RÚV í Morgunglugganum ásamt ÞSv. um búsetumál aldraðra, kjaramál, o.fl. Kl. 8:30 er starfshópur um búsetulausnir, JVK mætir. Kl. 17:00; Þingmenn stórnarandstöðu boða hagsmunahópa á fund að ræða tillögur í endursk.nefnd alm.tr. JVK mætir.

5. nóv. Kl. 9:00 Fundur í endursk.nefnd alm.tr. JVK mætir. Komnar tillögur og drög að skýrslu, en ekki endanlegt samkomulag. JVK sendir umsagnir til Alþingis um mál 25 og 27, áður sent á milli stjórnarmanna.

6. nóv. Ráðstefna Samtaka Félagsráðgjafa í Hafnarfiði um eldri borgara sem vannýtta auðlind. JVK mætir. Um morguninn fór JVK í heimsókn í FEBR í Stangarhyl. Hitti ýmsa og vann að pökkun jólakorta.

10. nóv. Fundur hagsmunaaðila hjá ASÍ um hugsanlegar aðgerðir til að mótmæla skerðingarákvæðum í fjárlagafrumvarpi. JVK og ÞSv. Mæta. Ýmsar hugmyndir, en ekkert ákveðið. Fundur í Velferðarvaktinni, HI mætir.

12. nóv. Kl 11:00 Málþing í Norræna húsinu um gæði og þjónustu við aldraða sem er samnorrænt verkefni. JVK tekur þátt í umræðum í pallborði. HI mætir. Kl. 15:00 fundur í VEL um sameiningu þjónustuskrifstofa TR og Vinnumálastofnunar sem er á umræðustigi. JVK, HI og EE mæta fyrir stjórn LEB. Lögð er áhersla á af hálfu LEB að þjónusta skerðist ekki og sé þar sem fólkið er, en ekki þurfi að sækja hana um langan veg. Gerð athugasemd við það óöryggi sem skapast hefur hjá eldri borgurum við umræðuna. Lögð áhersla á að í hverju sveitarfélagi sé þjónustufulltrúi frá TR til staðar.

13. nóv. Fundur í Framkvæmdasjóði aldraðra. EE mætir.

17. nóv. JVK vinnur að umsögnum um þingmál 31 um Lánasjóð ísl. námsmanna.

18. nóv. Fundur í starfshópi um búsetumál aldraðra. Rætt um millistig milli hjúkrunarheimila og Heimaþjónustu. JVK mætir.

19. nóv. Kl 10 – 16 Námskeið um sjálfræði aldraðra í Endurmenntun H.Í. JVK með erindi og situr fyrir svörum. Mættir félagsmálastarfsmenn af landinu.

20. nóv. Fundur kl 10:00 í Kjaranefnd LEB. ÞSv og nefndarmenn mættir og JVK og HI. Gengið frá ályktun sem send er í fjölmiðla og á heimasíðuna. Fundur hjá FEB Hafnarfirði um störf LEB. JVK og HI mæta með innlegg og JVK situr fyrir svörum.

21. nóv. Fræðslumynd um félagsstarf eldri borgara í Hæðargarði „Við erum til“ sýnd. Umræður m.a. með borgarstjóra á eftir. HI og EE mæta. Fundur JVK og HI með Kjartani sem hefur umsjón heimasíðu LEB um gerð félagagsmannaskráningarkerfis sem FEB-félög gætu nýtt.

24. nóv. JVK mætir í RÚV: Mannlega þáttinn. Umræða um atvinnumál aldraðra og ráðstefnu sem er næsta dag. Ráðstefna um lífeyrismál sem Lífeyrissjóðir standa að, JVK mætir. JVK sendir umsögn um mál 31. eftir að hafa sent á milli stjórnarmanna í tölvupósti.

25. nóv. Kl 13:30 Ráðstefna á Hótel Natura um sveigjanleg starfslok og atvinnumál aldraðra. Öldrunarráð ásamt fleirum m.a. LEB standa að henni. JVK með erindi og tekur þátt í pallborði. Um morguninn er fundur í starfshópi um búsetumál aldraðra, JVK mætir.

26. nóv. Stjórnarfundur Öldrunarráðs Íslands, JVK er í stjórn þar og mætir.

27. nóv. Jólafundur FEBDOR í Búðardal. JVK mætir.

28. nóv. Fundur í nefnd um félagsþjónustu sveitarfélaga. HI mætir.

29. nóv. Stofnfundur Öldungaráðs Suðurnesja. EE og HI mæta.

1-3. des. JVK semur umsögn um mál 39, Heilbrigðisáætlun. Sent á milli stjórnarmanna og til nefndasviðs Alþingis. Breytingartillaga kemur fram í fjárlaganefnd um lækkun bóta TR. JVK sendir athugasemd á fjölmiðla, til formanna fjárlaganefndar og velferðarnefndar Alþingis. Skrifar grein um málið og sendir í Fréttablaðið.

4. des. Fundur í stjórn Almannaheilla. HI mætir.

5. des. Félagsfundur í Félagi eldri borgara í Biskupstungum. JVK, HI og EE mæta

8. des. Fundur í Velferðarvaktinni HI mætir.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

3. Fjárlög 2015

JVK gerði grein fyrir framgangi hagsmunamála aldraðra og rifjaði upp aðgerðir LEB í því sambandi. Borist hefur bréf frá ÖBÍ sem snertir breytingatillögur við 2. umræðu fjárlaga.

Afgreiðsla stjórnar: Formanni falið að gera umsögn um þær breytingatillögur sem fram hafa komið við umfjöllun um frumvarp til fjárlaga og senda þær á milli stjórnarmanna í tölvupósti áður en þær verða sendar fjárlaganefnd. Formanni falið að bregðast við bréfi ÖBÍ.

4. Umsagnir um þingmál

JVK lagði fram umsagnir um eftirgreind þingmál en efni þeirra hefur verið unnið af stjórnarmönnum í tölvupósti:

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármögnun byggingar nýs Landspítala. Mál nr. 25/2014:

Landssamband eldri borgara studdi þingsályktunartillögu um byggingu nýs Landsspítala sem samþykkt var á síðasta þingi, mál nr. 10. Við styðjum einnig þessa tillögu sem gerir ráð fyrir að vinna að framgangi fyrri tillögu. Við teljum það afar brýnt að þetta mál nái fram að ganga. Að öðru leyti vísum við í umsögn okkar frá 27. nóv. 2013 um mál nr 10 á 143. Löggjafarþingi.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Mál nr. 27/2014:

Með tillögu þessari er lagt til að efla fjarheilbrigðisþjónustu um allt land. Ljóst er að það myndi auka öryggi sjúklinga og spara umtalsvert ferðakostnað bæði sjúklinga og starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar. Samkvæmt greinargerð með tillögunni eru mörg lönd farin að nýta sér slíka fjarþjónustu og má nefna Grænland sem dæmi, sem er mjög strjálbýlt land. Við teljum að það væri til verulegra bóta að efla fjarheilbrigðisþjónustu á Íslandi og ekki síst í dreifbýli þar sem læknaskortur er fyrirsjáanlegur og er jafnvel staðreynd nú þegar. Landssamband eldri borgara mælir því eindregið með samþykkt tillögunnar.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna með síðari breytingum (endurgreiðsla lána og niðurfelling) Mál nr. 31/2014:

Stjórn Landsambands eldri borgara telur þetta frumvarp vera mikið réttlætismál. Það er afar erfitt fyrir fólk sem komið er á eftirlaun þar sem tekjur hafa í flestum tilfellum lækkað verulega að þurfa enn að vera að greiða af námslánum. Við teljum að fella ætti niður greiðslu námslána þegar lánþegi nær 67 ára aldri. Einnig ef lánþegi andast áður en lánið er að fullu greitt og fyrir 67 ára aldur þá falli lánið niður, hvort sem um gömul eða ný lán er að ræða. Allir vita að á árum áður þótti það vinargreiði að gerast ábyrgðarmaður á námslánum. Það er því nauðsynlegt að setja í lög að ábyrgð ábyrgðarmanns falli niður þegar hann nær 67 ára aldri. Jafnframt að við fráfall ábyrgðarmanns, ef það er fyrir 67 ára aldur, falli niður krafa um að greiða þau námslán sem hann hefur gengist í ábyrgð fyrir . Þó að vissulega sé það kostnaðarauki fyrir ríkisssjóð ef frumvarpið nær fram að ganga má minna á að á öðrum Norðurlöndum eru námslán að stórum hluta veitt sem óendurkræfur styrkur.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um gerð framkvæmdaáætlunar til langs tíma um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Mál nr. 39/2014:

LEB hefur alltaf lagt áherslu á að mótuð sé stefna til langs tíma hvað varðar þjónustu við aldraða. Á það bæði við um heilbrigðisþjónustu og félagslega þjónustu, sem við viljum að sé samræmd á landsvísu. Samkvæmt skýrslu Boston Consulting Group sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið 2011, er einnig að finna ábendingar um að samræmd rafræn sjúkraskrá sé nauðsynlegur þáttur til að auka gæði og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu hér á landi. Boston Consulting Group leggur líka til að að Ísland verði skipt í 7 heilbrigðisumdæmi. Hvert umdæmi verði skipulagt sérstaklega með hliðsjón af uppbyggingu hjúkrunarstofnana og þjónustu við sjúka. Í framhaldi af þeirri skýrslu var efnt til mikillar vinnu margra aðila með vinnufundum í þjóðfundarstíl og tóku stjórnarmenn LEB þátt í þeirri vinnu. Vafalaust er þar eitthvað sem nýtist við að gera framkvæmdaáætlun til langs tíma um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Við teljum einnig að nýta mætti í auknum mæli ýmsar tæknilausnir til að auka þjónustu og hagræða í heilbrigðiskerfinu og á það ekki síst við um þjónustu við aldraða. Við mælum með því að unnið sé að því í samræmi við tillögur starfshóps um tækni í velferðarþjónustu sem skilaði af sér skýrslu um málið til félagsmálaráðherra nú í haust. Þó að oft sé talað um „aldurssprengju“ sem kalli á mikla þjónustu við aldraða viljum við benda á að á næstu 5-10 árum fjölgar aðallega í yngri aldurshópum, sem eru mun betur á sig komnir og frískari, en eldri aldurshópar. Samþætting hjúkrunar og heimaþjónustu við aldraða er eitt af skilyrðum til þess að bæta og hagræða í þjónustu við aldraða svo að þeir geti sem lengst búið á eigin heimili. Rannsóknir sýna að meirihuti aldraðra vill búa á eigin heimili eins lengi og mögulegt er, en til þess þarf viðeigandi þjónusta að vera í boði. Ekki hvað síst er mikil þörf á því að gera heildstæða áætlun um byggingu hjúkrunarheimila sem taki tillit til allra þátta í þjónustu við aldraða. Jafnframt viljum við benda á að við slíka langtímaáætlun sem tillaga er um í þessari þingsályktun þarf einnig að gera ráð fyrir millistigi á milli þess að búa á eigin heimili og hins að þurfa að fytja á hjúkrunarheimili. Það millistig hefur verið dvalarrými, sérstaklega á landsbyggðinni og það þarf að vera fyrir hendi, eða einskonar sambýli þeirra aldraðra sem ekki geta verið heima en eru ekki hjúkrunarsjúklingar. Á þéttbýlli stöðum gætu þjónustu- eða öryggisíbúðir gegnt því hlutverki. Landsamband eldri borgara lýsir yfir stuðningi við tillöguna, og bendir á að samvinna þarf að vera við hagsmunaaðila um frekari útfærslu verði tillagan samþykkt.

Umsögn um frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála. Mál nr. 207/2014:

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er skv. frumvarpinu: „Úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og veita álit eða úrskurða í öðrum ágreiningsmálum eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Úrskurðarnefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum.“ Við þær breytingar sem hér eru lagðar til um að sameina 7 úrskurðarnefndir í eina úrskurðarnefnd velferðarmála er áætlað að meiri skilvirkni og fagleg vinna verði við að úrskurða í þeim málum sem eru á borði núverandi úrskurðarnefnda. Einnig er verið að leggja til að fastir starfsmenn sinni þeirri vinnu sem að mestu hefur verið unnin með annarri vinnu hingað til. Það verður því að gera ráð fyrir að afgreiðslutími úrskurða muni styttast, en oft hafa verið gerðar athugasemdir við síðbúna afgreiðslu þeirra mála sem nefndirnar hafa fengið til meðferðar. Landssamband eldri borgara telur að það muni verða til að bæta vinnubrögð og faglegt starf og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Umsögn um frumvarp til laga um sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu. Mál nr. 257/2014:

Í athugasemdum með frumvarpinu segir m.a: „Þá mun stofnunin veita velferðarþjónustu í þeim skilningi að hún mun fela í sér samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Hluti þjónustunnar telst vera heilbrigðisþjónusta, m.a. þjónusta lækna, útgáfa vottorða, rannsóknir o.fl., auk þess sem stór hluti starfsmanna miðstöðvarinnar telst heilbrigðisstarfsmenn í skilningi laga um heilbrigðisstarfsmenn. Hins vegar er þjónusta stofnunarinnar að miklu leyti félagslegs eðlis í ljósi þess að henni er ekki síður ætlað að miða að því að bæta félagslega stöðu þeirra sem hún þjónar með því að vinna gegn neikvæðum félagslegum afleiðingum fatlana og sjúkdóma, með ráðgjöf, greiningu, meðferð, hæfingu, fræðslu og rannsóknum auk fræðslu og þjálfunar starfsfólks annarra þjónustustofnana, svo sem skóla og starfsmanna sveitarfélaga sem vinna að málaflokknum.“ Þar sem hér er mælt fyrir um samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu vill Landssambandið nota tækifærið og benda á nauðsyn þess að samþætta slíka þjónustu við aldraða, sem nú er á hendi bæði sveitarfélaga og ríkis. Landssamband eldri borgara styður frumvarpið og telur það ætíð horfa til betri vegar að gerðar séu ráðstafanir til þess að vinna betur að ákveðnum málaflokkum og auka skilvirkni stjórnvalda. Því teljum við að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu geti stuðlað að aukinni hagræðingu og skilvirkni í þjónustu við þá aðila sem til þjónustumiðstöðvarinnar þurfa að leita.

Afgreiðsla stjórnar: Samþykkt stjórnarmanna með tölvupósti staðfest.

5. Ályktun kjaranefndar LEB frá 20. nóvember og 3. desember

JVK lagði fram svohljóðandi ályktanir kjaranefndar Landssambands eldri borgara 20. Nóvember og 3. desember:

Kjaramálaályktun LEB 20. nóvember 2014

Kjaramálanefnd Landssambands eldri borgara telur að í fjárlagafrumvarpi 2015 séu ekki efnd loforð Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar frá útifundi LEB og ÖBÍ á Austurvelli í september 2013. Dregið hefur úr skerðingum en enn er ólokið nokkrum þáttum auk kjaragliðnunar liðinna ára.

Æ fleiri úr hópi þeirra sem minnst hafa til að framfleyta sér leita til hjálparsamtaka. Það að þurfa að biðja um stuðning á efri árum til að lifa af út mánuðinn er okkur sem þjóð til skammar. Við erum að tala um fólk sem vann langan vinnudag á lágum launum þegar unnið var að uppbyggingu velferðar þessarar þjóðar. Er þetta inneignin?

Við viljum árétta þörfina fyrir að vinna að úrbótum á Landspítalanum og úreltum og biluðum tækjabúnaði þar. Stærsti notendahópurinn er fólk á efri hluta ævinnar. Bygging nýs Landspítala er brýn m.a. vegna kostnaðar við að reka 2 sjúkrahús sem kostar þjóðina hundruðir milljóna árlega.

Mörg réttindamál eldri borgara hafa verið fryst s.s. niðurgreiðslur á heyrnartækjum frá 2006 og á tannlækningum frá svipuðum tíma. Þetta hefur valdið því að þúsundir manna og kvenna hafa frestað því að fá heyrnartæki og eða leita til tannlæknis.

LEB og félög innan þess hefur unnið að bættri ímynd aldraðra m.a. með aukinni fræðslu um mikilvægi þriðja aldurskeiðsins í samfélaginu öllu. Fólk les með börnum, vinnur hluta úr degi eða fulla vinnu, sækir börn í skóla eða skutlar í tómstundir auk fjölda sjálfboðaliðastarfa sem nú aukast óðum í samfélginu.

Lífaldur lengist og fólk vill vera hluti lifandi samfélags sem lengst. Það er skylda stjórnvalda að gera fólki kleyft að lifa með sæmd á efri árum svo virðing milli kynslóða haldist.

Kjaramálaályktun LEB 3. desember 2014

Kjaramálanefnd Landssambands eldri borgara lýsir yfir undrun sinni á framkomnum tillögum fjárlaganefndar um að skerða væntanlega hækkun á bótum Almannatrygginga um tæpar 500 milljónir um næstu áramót. Í fjárlagafrumvarpi 2015 var gert ráð fyrir 3.6% hækkun sem nú á að lækka í 3% og er það byggt á væntanlegu góðæri á næsta ári.

Kjarasamningar á árinu 2014 eru nú komnir að meðaltali í 7% launahækkun. Það er því verulegt bil þarna á milli. Það sama gerðist fyrir ári síðan og síðan má ekki gleyma að núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lofað eldri borgurum leiðréttingu vegna skerðinga frá árinu 2009.

· Vita menn ekki að nokkur þúsund eldri borgarar búa við fátækt?

· Vita menn ekki að stór hópur er á leigumarkaði og eiga ekki fyrir mat í lok mánaðar?

· Vita menn ekki að lyf og læknishjálp hafa hækkað og fólk á oft ekki fyrir lyfjum né læknisferð?

· Vita menn um afleiðingar biðar eftir aðgerðum?

· Vita menn ekki að þeim fjölgar sem leita til hjálparsamtaka?

· Vita menn að margt eldra fólk á ekki fyrir jólagjöfum til barnabarna?

· Vita menn hvað er að velta hverri krónu fyrir sér?

Er ekki komið nóg af þessum vinnubrögðum. Fjöldi fólks leitar til barna sinna í sínum vandræðum. Við skorum á Alþingi að huga að þessum hópi eldra fólks sem hefur lagt grunn að okkar velferðarsamfélagi og menntun í landinu. Ekki lítilsvirða fólk eftir langa starfsævi. Við fáum reynslusögurnar. Þær eru svo þungbærar að tekur engu tali. Nóg komið af slíku.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin staðfestir ályktun kjaramálanefndar.

6. Stofnun Öldungaráða

JVK og HI fóru yfir stöðu mála varðandi stofnun Öldungaráða. Undirbúningur er hafinn hjá ýmsum félögum og formleg stofnun hefur þegar átt sér stað a.m.k. á Suðurnesjum og í Hveragerði. EE sagði frá stofnun Öldungaráðs á Suðurnesjum.

Í samþykktum ráðsins kemur m.a. fram að Öldungaráð Suðurnesja gætir hagsmuna eldri borgara á Suðurnesjum og er bæjarstjórnum á Suðurnesjum og þeim sem mál þeirra varða til ráðgjafar um þau málefni. Ráðið skal vera ráðgefandi um framtíðarskipulag öldrunarþjónustu, uppbyggingu hjúkrunarheimila, þjónustu- og öryggisíbúða á Suðurnesjum. Ráðið vinni að samþættingu á þjónustu og áhersla lögð á að efla andlega og líkamlega líðan eldri borgara m.a. með skilvirkri læknisþjónustu, heimahjúkrun, félagslegri heimþjónustu, dagvistun, iðju og sjúkraþjálfun sem hvetur til líkamsræktar og lífsleikni. Ráðið skal hafa sem víðtækust samráð við samtök aldraðra á Suðurnesjum og aðra þá sem láta málefni þeirra til sín taka. Skipað skal í öldungaráð að fengnum tilnefningum. Skipunartími fulltrúa bæjarfélaganna er kjörtímabil bæjarstjórnanna, annarra fulltrúa verði 2 ár. Heimili og varnarþing Öldungaráðs Suðurnesja skal vera í Reykjanesbæ.

Öldungaráð er bæjarstjórnum á Suðurnesjum og þeim sem mál þeirra varða til ráðgjafar um málefni eldri borgara á Suðurnesjum.Til að stuðla að því að þessu markmiði verði náð skuli:

· Bæjarráð hvers bæjarfélags kynni stjórn Öldungaráðs árlega með fundi eða skriflega, þá þjónustu sem í boði er fyrir eldri borgara og þær hugmyndir og tillögur í fjárhagsáætlunum, sem varða eldri borgara.

· Þjónustuhópur aldraðra haldi 1 fund árlega með stjórn Öldungaráðs þar sem staða mála er kynnt og hugmyndir lagðar fram.

· Fjölskyldu- og félagssvið og/eða félagsþjónusta hvers sveitarfélags haldi 1 fund árlega með stjórn Öldungaráðs þar sem stefnumótun, samþætting og nýjungar er tengjast málefnum aldraðra er til sérstakrar umfjöllunar.

· Stjórn Öldungaráðs haldi fund einu sinni á ári með fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, þar sem mál er varða eldri borgara og tengjast stofnuninni eru kynnt og hugmyndir lagðar fram.

· Í Öldungaráði verði lögð áhersla á samvinnu og samnýtingu á sérfræðiþjónustu, öldrunarlækningum og annarri þjónustu sem varða eldri borgara s.s. heimahjúkrun, heimilishjálp, iðju- og sjúkraþjálfun.

· Samráðsferlið á að gefa ráðinu hugmyndir um hver staða öldrunarþjónustu er hverju sinni á Suðurnesjum. Öldungaráð vinnur úr þeim upplýsingum og kemur þeim í réttan farveg til kynningar og úrlausnar.

Eftirtaldir aðilar tilnefna í Öldungaráð Suðurnesja:

· Félag eldri borgara á Suðurnesjum tilnefni 2 fulltrúa og 1 til vara frá hverju bæjarfélagi á Suðurnesjum sem aðilar eru að ráðinu.

· Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar tilnefna hvert bæjarfélag af bæjarstjórnum sínum 2 fulltrúa og 1 til vara.

· Sérhvert hjúkrunarheimili á Suðurnesjum tilnefnir 1 fulltrúa og 1 til vara.

· Þjónustuhópur aldraðra tilnefnir 1 fulltrúa og 1 til vara.

· Félagmálastjórar bæjarfélaganna eða staðgenglar þeirra eru skipaðir í Öldungaráðið.

· Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja tilnefnir 1 fulltrúa og 1 til vara

Stjórnina Öldungaráðs Suðurnesja skipa: Jórunn Alda Guðmundsdótttir Sandgerði formaður, Hanna B. Konráðsdóttir Reykjanesbæ varaformaður, Sigurður Jónsson Sandgerði ritari, Jóngeir Hlinason Sveitarfélaginu Vogar gjaldkeri, og meðstjórnendur Eyjólfur Eysteinsson Reykjanesbæ, Magnús Magnússon Sandgerði og Kristín Þyrí Þorsteinsdóttir félagsmálastjóri Voga, Sandgerðis og Garðs.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

7. Bréf frá Útvarpsstjóra RÚV

JVK lagði fram bréf frá útvarpsstjóra sem er svar við bréfi LEB um að raddir eldri borgara heyrist ekki nógu oft í RÚV. Í bréfinu tekur útvarpsstjóri undir sjónarmið LEB og heitir því að úr verði bætt. Sjónvarpsþáttur í umsjón eldra fólks var tekinn á dagskrá 8. desember.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

8. Listin að lifa

JVK gerði grein fyrir útgáfu tímaritsins „Listin að lifa“ og rifjaði upp að afmælisblað sem gefið var út í vor hafi verið sent á öll heimili þar sem einhver sextugur eða eldri var heimilisfastur en blað sem gefið var út í haust hafi verið sent út samkvæmt félagsmannaskrám aðildarfélaganna. Í báðum tilfellum komu fram hnökrar í dreifingu.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar en stjórnin telur að endurskoða þurfi fyrirkomulag dreifingar.

9. Endurskoðun laga um almannatryggingar

JVK gerði grein fyrir stöðu mála í starfi nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar. Verið er að vinna drög að skýrslu um verkefni nefndarinnar en áformað er að nefndin verði kölluð saman eftir áramótin.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

10. Starf Öldrunarráðs Íslands

JVK greindi frá starfi Öldrunaráðs Íslands og þeim verkefnum sem þar eru í undirbúningi og lagði fram fundargerðir af fundum ráðsins, þar á meðal frá stefnumótunarfundi sem haldinn var í september, og verkefnastyrkja sem ráðið hefur veitt.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

11. Endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga

HI sagði frá starfi nefndar um endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Nefndin hefur haldið nokkra fundi auk starfsdags, og markast starfið nokkuð af nýlegum flutningi málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga og ákvæðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga í því samhengi.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar

12. Velferðarvaktin

HI sagði frá starfi Velferðarvaktarinnar. Í forgangi er að takast á við sára fátækt og málefni tekjulágra fjölskyldna. Valin hafa verið fimm svið sem sjónum er einkum beint að þ.e. húsnæðismál, grunnþjónusta, lágmarksframfærsla, staða frjálsra félagasamtaka og málstjórar. Stefnt er að því að skila ráðherra tillögum 9. febrúar.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

13. Starfsemi Almannaheilla

HI sagði frá starfsemi Almannaheilla. Þar er einkum unnið að því að fá lokið gerð frumvarps nefndar undir formennsku Rögnu Árnadóttur um starfsemi félagasamtaka þriðja geirans, sem byggjast mikið á starfi sjálfboðaliða og framlagningu frumvarpsins á Alþingi. Frumvarpið er að mestu tilbúið ef frá er talinn skattakafli frumvarpsins sem er í skoðun hjá skattayfirvöldum.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

14. Landsfundur LEB 2015

JVK ræddi um Landsfund LEB 2015 og lagði til að hann yrði haldinn í Gullsmára, félagsheimili Félags eldri borgara í Kópavogi, þriðjudag og miðvikudag 5. og 6. maí 2015. Fyrirkomulag fundarins verði svipað og 2013, fundurinn hefjist kl. 13:00 á þriðjudegi og fundarlok verði kl. 12:00 á miðvikudegi. Rætt hefur verið við Hótel Smári, sem er í nágrenni við fundarstað um að taka frá herbergi vegna fundarins. Jafnframt lagði JVK til að uppstillinganefnd fundarins skipi eftrtaldir: Grétar Snær Hjartarson Mosfellsbæ formaður, Gunnar Kristmundsson Árborg og Þrúður Kristjánsdóttir Dalabyggð.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkir tillögur formanns.

15. Ársreikningur LEB 2014

EE og HI gerðu grein fyrir að frágangur ársreiknings LEB fyrir árið 2014 væri hafinn og stefnt væri á að ljúka gerð hans í janúar 2015.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

Jón Kr. Óskarsson fór af fundi

16. Tilnefning alþjóðafulltrúa

JVK greindi frá að Birna Bjarnadóttir hefði á aðalfundi NSK verið kosin fulltrúi NSK til setu í nefnd ESB um heilbrigða öldrun og væri það í fyrsta sinn sem fulltrúi LEB sé fulltrúi Norðurlanda á Evrópuvettvangi. Vegna þessa og sívaxandi umræðu á Norðurlöndunum og í Evrópu um öldrun og öldrunarmál lagði JVK til að Birna yrði tilnefnd alþjóðafulltrúi LEB sem hefði það hlutverk að fylgjast með og hafa yfirsýn yfir það Norðurlanda- og Evrópusamstarf sem LEB hefði hagsmuni af að tengjast eða taka þátt í. HI vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

Afgreiðsla stjórnar: Tillagan samþykkt.

17. Fundargerð Lýðheilsunefndar

JVK lagði fram fundargerð 1. fundar lýðheilsunefndar.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

18. Framkvæmdasjóður aldraðra

EE gerði grein fyrir starfi Framkvæmdasjóðs aldraðra og lagði fram fundargerð 6. fundar stjórnarinnar.

Afgeiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

19. Samstarfsyfirlýsing LEB, Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd og stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands

JVK gerði grein fyrir að framangreind samstarfsyfirlýsing hafi verið gerð til þriggja ára og nú sé komið að endurnýjun hennar.

Afgeiðsla stjórnar: JVK og HI falið að vinna að endurnýjun yfirlýsingarinnar.

20. Staða geðheilbrigðismála

JVK gerði grein fyrir tölvupósti Velferðarráðuneytisins með spurningum til LEB um stöðu geðheilbrigðismála aldraðra.

Afgeiðsla stjórnar: Stjórnin telur að LEB geti ekki svarað þessum spurningum nema á grundvelli kannana sem LEB hefur ekki aðstöðu til að láta fram fara innan þeirra tímamarka sem veitt eru til að svara erindinu. Formanni falið að svara bréfinu í samræmi við umræður á fundinum.

Næsti fundur stjórnar verður boðaður síðar. Fundi slitið kl. 14:15

Fundargerð ritaði Haukur Ingibergsson.