fbpx

haldinn 12. ágúst 2014 kl. 14:00 – 17:00 í Bjarkarlundi, Reykhólasveit

Mættir: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (JVK), Haukur Ingibergsson (HI), Eyjólfur Eysteinsson (EE) og Anna Lúthersdóttir (AL). Ragnheiður Stephensen (RS) forfölluð vegna veikinda og Jón Kr. Óskarsson 1. varamaður einnig forfallaður.

JVK bauð fundarmenn velkomna og setti fund.

 

1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 273

Fundargerð 273 stjórnarfundar, sem haldinn var 6. maí 2014, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

 

2. Vinna formanns og stjórnar

JVK lagði fram yfirlit um vinnu formanns og stjórnar 4. júní til 12. ágúst 2014:

 

4. júní: Stjórnarfundur LEB á Akureyri. JVK,HI, EE og Jóhannes Sigvaldason.

4-5. júní: Ráðstefna Velferðarráðuneytis um velferðartækni á Akureyri. JVK,HI og EE.

18. júní: Fundur í Almannatrygginganefnd. JVK mætir.

19. júní: Fundur í Kjaranefnd LEB. JVK og nefndarmenn í kjaranefnd. Gylfi Arnbjörnsson kynnir niðurstöðu undirnefndar í Almannatrygginganefnd.

24. júní: JVK í viðtali í Sjónmáli á Rás 1 um LEB 25 ára, helstu áherslumál og baráttumál.

27. júní: JVK í viðtali á Útvarp Sögu um stjórnmálaflokk eldri borgara, hjúkrunarheimilin og starfsfólksvöntun,  húsnæðissamvinnufélög o.fl.

2. júlí:  JVK leiðsögumaður um  Reykhólahrepp fyrir eldri Akurnesinga.

4. júlí:  Fundur í stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra.  EE mætir.

10. júlí: JVK í viðtal við Spegilinn á RÚV um ýmis mál aldraðra.

14, júlí: Stjórn LEB samþykkir ályktun um öryggishnappa eldri borgara. Send á Heilbrigðisráðherra og sett á heimasíðu LEB. JVK talar við ritara ráðherra og pantar viðtal.

9. júlí: JVK leiðsögumaður um Reykhólahrepp fyrir eldri borgara úr Rangárvallasýslu.

16. júlí: JVK í  viðtal við Lifdununa.is um öryggishnappa.

23. júlí:  JVK í viðtali á Lifdununa.is um eldri konur og atvinnuleysi.

7. ágúst: JVK í viðtali við MBL um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga. Leggur áherslu á bætta heimaþjónustu.

8. ágúst. JVK í viðtal við Lifdununa.is um eftirlaunaaldur og starfslok.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

3. Skipun í samstarfsnefnd um málefni aldraðra

JVK gerði grein fyrir að félags- og húsnæðismálaráðherra hafi skipað Hauk Ingibergsson aðalmann og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur varamann í samstarfsnefnd um málefni aldraðra.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

4. Ályktun stjórnar LEB umöryggishnappa

JVK lagði fram svohljóðandi ályktun sem stjórn LEB samþykkti með tölvupóstsamskiptum 14. júlí 2014 um að 89% hækkun á kostnaði eldri borgara við notkun öryggishnapps verði afturkölluð.

„Stjórn Landssambands eldri borgara beinir þeim eindregnu tilmælum til heilbrigðisráðherra og Sjúkratrygginga Íslands að endurskoða nú þegar reglugerð um sjúkratryggingar sem tók gildi 1. apríl s.l. Í reglugerðinni er lækkun á framlagi sem Sjúkratryggingar greiða vegna öryggishnapps sem notaður er  mikið af eldri borgurum í heimahúsum og jafnframt eru hertar verulega þær reglur sem gera fólki  mögulegt að fá niðurgreiddan öryggishnapp.  Jafnframt vísar stjórn LEB til fundar  með heilbrigðisráðherra þ. 19. febrúar s.l. þar sem farið var yfir þessi mál og lofað endurskoðun á reglugerðinni. 

Landssamband eldri borgara minnir á þá stefnu stjórnvalda að stuðla að því að eldri borgarar geti búið á eigin heimili sem lengst. Víðtæk notkun öryggishnapps er einn mikilvægasti þáttur í farsælli framkvæmd þeirrar stefnu og dregur jafnframt úr þörf á útgjöldum hins opinbera til bygginga og reksturs sérhæfðs húsnæðis fyrir aldraða.

Með reglugerðarbreytingunni 1. apríl s.l. hækkaði kostnaður vegna öryggishnapps um 89%  frá fyrra ári.  Það er óviðunandi að skella slíkri hækkun á  notendur öryggishnappsins sem eru í flestum tilfellum eldri borgarar, sem enga möguleika hafa til að auka tekjur sínar. Fer Landssamband eldri borgara fram á að þessi reglugerðarbreyting verði afturkölluð og  kostnaður  notenda þar með lækkaður til fyrra horfs til að  auðvelda eldri borgurum að nýta þessa þjónustu.“

Afgreiðsla stjórnar: Samþykkt stjórnarmanna með tölvupósti staðfest.

 

5. Ályktun kjaranefndar LEB frá 19. júní

JVK lagði fram svohljóðandi ályktun kjaranefndar Landssambands eldri borgara 19. júní 2014 um fjölgun hjúkrunarrýma og fjölbreyttari úrræði:

„Kjaranefnd LEB hefur fjallað um skort á hjúkrunarrýmum á landinu og þá sérstöðu þar sem þunginn er mestur.  Mikið berst af athugasemdum til félaga eldri borgara  um langan og þungbæran biðtíma eftir hjúkrunarrýmum. Því vill kjaranefnd LEB beina því til heilbrigðisráðherra að vinna að því að fjölga hjúkrunarrýmum og einnig breytilegum valkostum.

Þegar aldraðir sem komast inn í hjúkrunarrými eru orðnir mjög lasburða og langveikir, eins og inntökuferlið er nú um stundir, þurfa aðstæður þeirra að taka mið af því. Við byggingu hjúkrunarrýma á undarförnum misserum er í mörgum tilvikum verið að taka mið af virkara fólki með meiri færni. Fjölbreytni þarf t.d. í stærð herbergja þar sem það hentar betur að eiga valkosti þar sem fólk leggur mismunandi áherslur á fylgihluti s.s innbú.  Einnig er mikils um vert að hugað sé að því að hægt sé með góðu móti að hjúkra því mikið veika fólki sem þarf margháttuð hjálpartæki  og mikinn stuðning við daglegar athafnir. Mönnun hefur því mikið að segja um lífsgæði fólks á hjúkrunarheimilum. Vinna þarf að nýrri hugsum miðað við þessa breyttu aðstæður.“

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin staðfestir ályktun kjaranefndar.

 

6. Tilnefning í Velferðarvaktina

JVK lagði fram bréf félags- og húsnæðismálaráðherra um að ákveðið hafi verið að starfsrækja Velferðarvaktina áfram og óskar eftir að LEB tilnefni fulltrúa í hana en tilnefna skal konu og karl sem ráðherra velur á milli þannig að kynjaskipting sé sem jöfnust.

Afgreiðsla stjórnar: Tilnefnd eru Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Haukur Ingibergsson

 

7. Tilnefning í lýðheilsunefnd

JVK lagði fram bréf frá heilbrigðisráðherra með ósk um að LEB tilnefni fulltrúa í lýðheilsunefnd en tilnefna skal konu og karl sem ráðherra velur á milli þannig að kynjaskipting sé sem jöfnust.

Afgreiðsla stjórnar: Tilnefnd eru Birna G Bjarnadóttir fv. formaður stjórnar Landssamtaka heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva og Sighvatur Björgvinsson fv. heilbrigðisráðherra.

 

8. Fundur með heilbrigðisráðherra

JVK greindi frá því að fundur heilbrigðisráðherra með fulltrúum LEB hafi verið ákveðiðnn 27. ágúst. Rætt var um hvaða mál LEB tæki til umræðu á fundinum.

Afgreiðsla stjórnar: JVK falið að undirbúa fundinn frekar.

 

9. Listin að lifa

JVK opnaði umræðu um hvort fjárhagslegt svigrúm væri til að gefa nýtt tölublað af Listinni að lifa út með haustinu.

Afgreiðsla stjórnar: Vilji er til að gefa tímaritið út og var HI falið að ræða málið við fulltrúa Sökkólfs ehf, sem aðstoðað hefur LEB við útgáfuna.

 

10. Heimasíða LEB

EE innleiddi umræðu um heimsíðu LEB og hvernig mætti bæta hana.

Afgreiðsla stjórnar: HI var falið að leggja minnisblað um heimasíðuna fyrir næsta fund stjórnar.

 

11. Skjalamál LEB

HI hafði framsögu um skjalamál LEB, mikilvægi þess að flokka og varðveita skjöl er varða starfsemina hvort sem þau eru á pappír eða í rafrænu formi, og lagði fram frumdrög að uppbyggingu skjalavistunarkerfis fyrir starfsemina.

Afgreiðsla stjórnar: HI falið að þróa málið frekar.

 

12. Málþing um úrvinnslu gagna um þjónustu við fatlaða

JVK kynnti að Samband íslenskra sveitarfélaga muni halda málþing 27. ágúst kl. 13:00-16:00 að Grand Hótel um úrvinnslu gagna um þjónustu við fatlaða.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar. JVK mun mæta

 

13. Ráðstefna um nýja hugsun og þróun í heimaþjónustu

JVK kynnti að Velferðarráðuneytið muni 3. október halda að Nauthóli, Reykjavík heils dags ráðstefnu um nýja hugsun og þróun í heimaþjónustu í hinum vestræna heimi og samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar. AL og HI hafa tilkynnt  mætingu.

 

14. Aðild LEB að Almannaheillum, samtökum þriðja geirans

JVK kynnti að á aðalfundi samtaka þriðja geirans, Almannaheilla, hinn 12. Júní, hafi aðild Landssambands eldri borgara að samtökunum verið samþykkt og að á sama fundi hafi Haukur Ingibergsson verið kosinn í stjórn samtakanna.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar þessum áfanga.

 

15. Framkvæmdasjóður aldraða

EE gerði grein fyrir starfi og viðfangsefnum Framkvæmdasjóðs aldraðra en hann hefur nýverið tekið sæti í stjórn sjóðsins fyrir hönd LEB.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin leggur áherslu á mikilvægi sjóðsins við fjölgun hjúkrunarrýma.

 

16. Varamenn vegna veikinda

Vegna veikinda Ragnheiðar Stephensen lagði JVK til að Sigríður J Guðmundsdóttir, Selfossi,  verði skipaður varamaður Ragnheiðar í samstarfsnefnd LEB með Tryggingastofnun ríkisins og Bryndís Steinþórsdóttir, Reykjavík, verði skipaður varamaður Ragnheiðar í Velferðarnefnd LEB.

Afgreiðsla stjórnar: Tillagan samþykkt.

 

17. Haustfundur NSK

JVK greindi frá að haustfundur og námskeið (seminarium)  NSK verði haldinn í Helsinki 13. – 15. október og lagði til að JVK og Birna Bjarnadóttir verði fulltrúar LEB á fundinum.

Afgreiðsla stjórnar:Tillagan samþykkt.

 

18. Stofnun Öldungaráða

JVK og EE ræddu um stofnun Öldungaráða sem víða er til umræðu á milli nýrra sveitarstjórna og aðildarfélaga LEB.

Afgeiðsla stjórnar: Lagt fram til umræðu.

 

19. Ráðstefna um atvinnumál eldra fólks

JVK kynnti hugmynd um ráðstefnu í haust um atvinnumál eldra fólks með hugsanlegu samstarfi við t.d.  Lifdununa.is, Vinnumálastofnun, Velferðarráðuneytið, Öldrunarráð Íslands o.fl.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin tekur undir hugmyndina.

 

Næsti fundur stjórnar er áætlaður 30. September.

Fundargerð ritaði Haukur Ingibergsson.