fbpx


Félag eldri borgara á Ísafirði og nágrenni á afmæli um þessar mundir. Afmælisfagnaðurinn var haldinn 26. september s.l.

Félagið var stofnað þann 6. nóvember 1994. Skráðir félagar í lok árs 2018 voru 325. Annað félag eldri borgara er starfandi í Ísafjarðarbæ og er það á Flateyri.

Formanni LEB, Þórunni Sveinbjörnsdóttur, var boðið að taka þátt í afmælisfagnaðinum. Hér skrifar hún um upplifunina:

Haldið var upp á 25 ára afmælið á Hótel Ísafirði. Búist var við fjölda fólks en það komu enn fleiri og streymdi fólk að til að fagna tímamótunum.

Ávarp formanns Sigrúnar C Halldórsdóttur var virðulegt og hnitmiðað. Svo kom söngur frá nemanda tónlistarskólans á Ísafirði. Söngkonan var tær snilld.

Bergur Torfason ritari félagsins fór yfir söguna í mjög ítarlegri ræðu og rakti m.a. sögu upphafs margra félaga innan LEB. Hafðu þökk fyrir þitt framlag til að varðveita sögurnar.

Næst var formanni LEB gefið orðið og flutti ágrip af því sem LEB er að vinna að um þessar mundir. Því næst var afhent gjöf frá LEB; falleg mynd eftir Steinu Matt í Búðardal en hún er að vestan. Myndin var af föður hennar og afastelpu að fletja fisk á steina. Þakklæti og gleði.

Kaffiveitingar og frábært meðlæti á Hótel Ísafirði.

Bæjarstjórinn á Ísafirði, Guðmundur Gunnarsson, kvaddi sér hljóðs og ræddi málefni eldri borgara. Gaf síðan félaginu loforð um að hátalarakerfi yrði afmælisgjöfin.

Fleiri tóku til máls og var þessi samkoma Félagi eldri borgara á Ísfirði og nágrenni öllum til sóma.

Takk fyrir.
Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB.

 

 

      Sigrún C. Halldórsdóttir, formaður Félags eldri borgara á Ísafirði og nágrenni flytur afmælisávarp

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB, flytur afmælisávarp á Ísafirði