fbpx
Anna J. Hallgrímsdóttir formaður Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum skrifar pistilinn:

 

Stiklað á sögu Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum

 

Stofnfundur F.a.B. var haldinn 24. mars 1991 að Kleppjárnsreykjum.  Á fundinn mættu 47 aðilar.  Fyrsti formaður var Jón Þórisson, Reykholti.

Félagsfundir eru vikulega í Brún, Bæjarsveit.  Borgarbyggð lánar húsnæði okkur að kostnaðarlausu. Mæting á fundi er gjarnan um  40%.

Félagsmenn Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum koma reglulega saman og njóta samvista

Fundir eru í nokkuð föstum skorðum, ljóð dagsins lesið og félagsmenn segja frá lífreynslusögum og eða sögum frá liðnum tíma.  Þá er gjarnan leitað í Gullastokkinn en þangað er safnað saman því sem fram fer á fundunum.  Gullastokkurinn er nú kominn á netið svo félagsmenn geta nálgast frásögur þar þegar þeir vilja.

Haldið er upp á dag íslenskrar tungu og er þá skólabörnum úr sveitinni boðið til okkar.  Þegar réttað er bjóðum við upp á „réttarsúpu“, síðan er sviðamessa og Þorrablót.  Þá er gjarnan sungið af hjartans lyst, Snorri Hjálmarsson forsöngvari og undirspil í höndum Bjarna Guðmundssonar með gítarinn og Guðbjartur Björgvinsson með nikkuna.  Félagsvist og bingó er síðan eitthvað sem enginn vill missa af.

Vor- og haustferðir eru farnar og er þá um að ræða dagsferðir.  Á sumrin er farið í 3ja daga ferð og þá fengnir leiðsögumenn í því héraði sem er ferðast um.

Stjórn félagsins í dag skipa þau Anna J. Hallgrímsdóttir form., Sigurjón Valdimarsson, Glitstöðum, ritari og Magnús B. Jónsson, Hvanneyri gjaldkeri.

 

Heimsókn Helga formanns LEB í Borgarfjörð

 

Þann 29 mars 2023 veittist okkur í Félagi aldraðra í Borgarfjarðardölum sá heiður að taka á móti Helga Péturssyni og Birnu konu hans.

Anna Hallgrímsdóttir formaður Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum og Helgi Pétursson formaður LEB

Ríflega helmingur félagsmanna var mættur til þess að heyra hvað helst væri um að vera  hjá L.E.B.

Félagsmenn fengu greinagóða mynd af stöðunni og baráttumálum þeim sem helst var verið að vinna að.

Ljóst að ekki veitir af þessum öflugu starfsmönnum sem LEB hefur  yfir að ráða til að ná í land með þau mál sem okkur varða helst.

Gerður var góður rómur að tölu Helga og honum þakkað með löngu lófaklappi.

Að loknum kaffiveitingum var brugðið á leik og fjöldasöngur hafinn með undirleik Dr. Bjarna Guðmundssonar.

Við félagar þökkum þeim heiðurshjónum innilega fyrir komuna í Borgarfjörðinn.

Anna J. Hallgrímsdóttir formaður FAB

 

 

Sungið af hjartans list í Borgarfirðinum