fbpx

F U N D A R G E R Ð

formannafundar Landssambands eldri borgara

haldinn í Jónshúsi, Strikinu 6, Garðabæ,

þriðjudaginn 25. mars 2014 kl. 13:00 – 17:00.

Formaður LEB, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir setti fundinn og skipaði Ástbjörn Egilson, formann Félags eldri borgara í Garðabæ fundarstjóra og Rannveigu Björnsdóttir ritara félagsins ritara fundarins.

Í upphafi fundarins ávarpaði Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ fundarmenn, bauð fundarmenn velkomna og ræddi um mikilvægi öflugs starfs eldri borgara í sveitarfélögum landsins.

Þessu næst flutti Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður LEB eftirfarandi yfirlitsræðu um störf LEB frá landsfundi 2013:

Fundarstjóri, góðir félagar
Að landsfundi 5. – 6. maí 2013 loknum, sendi LEB til fjölmiðla þær ályktanir sem samþykktar voru um hin ýmsu mál á fundinum.  Við fylgdum þeim eftir með viðtölum við þá aðila sem málið varðaði og höfum verið að því af og til síðan.
Ljóst var í aðdraganda alþingiskosninga þar sem ég  var á fundum með frambjóðendum að vilji var til að draga til baka  skerðingar á bótum almannatrygginga.  Því miður var ekki grundvöllur til að halda áfram með það frumvarp sem unnið hafði verið að á tímabili fyrri ríkisstjórnar og hefði einfaldað kerfið talsvert mikið, en kjarabætur voru fremur litlar í því frumvarpi fyrstu tvö árin.  Það varð því að hamra járnið meðan heitt var og krefjast þess að staðið yrði við loforðin um að draga skerðingarnar til baka.
Í fyrravetur fengum við fundi með öllum þingflokkum á Alþingi og svo síðar með frambjóðendum flokkanna þegar leið að Alþingiskosningum.  Á öllum þessum fundum var lögð áhersla á að skerðingar frá árinu 2009 væru afturkallaðar og er það í samræmi við  samþykktir  landsfundarins í kjaramálum.  Við náðum að fá loforð þeirra flokka sem síðar mynduðu ríkisstjórn vorið 2013 um að svo skyldi gert og síðan hefur LEB hamrað á því að þau loforð væru efnd. Það var gert m.a. með fundum í júní með ráðherrum og velferðarnefnd Alþingis og síðan útifundi með Öryrkjabandalaginu í september.
Á miðju ári 2013 fór loks að nást árangur í að draga skerðingar frá árinu 2009 til baka.  Það kom fyrst með lögum sem tóku gildi 1. júlí að dregnar voru til baka tvær af þeim skerðingum sem tóku gildi 2009 og í fjárlögum 2014 eru 8,4 milljarðar til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Það er eini málaflokkurinn á fjárlögum ársins sem  var hækkaður,  allir aðrir fengu niðurskurð.
Það sem breytingarnar fela í sér frá 1. júlí 2013:
Í fyrsta lagi eru það atvinnutekjur eldri borgara sem nú eru færðar til samræmis við það sem er hjá öryrkjum.  Skerðingarmarkið gagnvart bótum almannatrygginga er hækkað úr 40.000 kr. á mánuði í 109.600 kr. á mánuði.  Það kemur þeim vel sem geta unnið og er þá komið jafnræði með eldri borgurum og öryrkjum hvað þetta varðar. Þetta kostar ríkissjóð um 300 milljónir á ári. Þetta er í samræmi  við eitt ákvæðið í  samþykkt landsfundar LEB 2013 um kjaramál, en þar segir: „Einnig samþykkti hópurinn (kjaramálahópurinn) að atvinnutekjur 67 ára og eldri skuli ekki skerða greiðslur frá Tryggingarstofnun“. – tilvitnun lýkur.  Þetta eru að vísu ekki allar atvinnutekjur eldri borgara,  eins og Norðmenn hafa það, en þó verulegur áfangi.  Ég tel þetta auka sjálfræði eldri borgara, þeirra sem mögulega geta aflað sér atvinnutekna.
Í öðru lagi er afnumin önnur skerðing frá 1. júlí 2009 þar sem grunnlífeyrir var tengdur við lífeyrissjóðstekjur.  Slík tenging hefur aldrei verið í gildi áður og litið á grunnlífeyri sem “heilagan“. Þetta hefur verið „prinsipmál“  hjá LEB.   Þetta er líka í samræmi við einn lið í  samþykkt landsfundar um kjaramál, þar sem segir: „LEB krefst þess að kjaraskerðingin frá 1. Júlí 2009 verði strax afturkölluð, það er réttlætismál“. Og oft hefur komið fram í ályktunum kjaranefndar að grunnlífeyrir eigi að vera fyrir alla óháð lífeyrissjóðstekjum.  Þetta kostar ríkissjóð um 1.400 milljónir á ári.  Og bætir kjör þeirra eldri borgara, sem margir tóku á sig 25% skerðingu tekna 2009. Þetta  snertir um 7.000 manns.
1. Janúar 2014 voru eftirfarandi breytingar:
Þar er lækkuð skerðing á tekjutryggingu almannatrygginga vegna annarra tekna úr 45% í 38,5%, eða sambærilegt og var fyrir kreppuna.  Auk þess hækkuðu bætur almannatrygginga nú um 3,6% samkvæmt fjárlögum á sama tíma og launahækkanir skv.kjarasamningum (sem enn eru þó ekki samþykktir af öllum) er 2,8%.  Jafnframt lækkar skerðing á heimilisuppbót úr 13% í 11% eins og var áður.  Einnig hækkar persónuafsláttur um rúmlega kr. 2.000  á mánuði, sem kemur öllum til góða.
Mér finnst því óhætt að segja að talsverður árangur hefur náðst í að bæta kjör lífeyrisþega frá því sem áður var, þó við séum vel meðvituð um að alltaf má gera betur, og þarf að gera betur. Og vissulega eru þetta ekki stórar upphæðir fyrir hvern og einn.  Hækkanir nú um áramót geta verið á bilinu 7-15.000 kr. í vasann hjá hverjum og einum.  Þetta hefur áhrif hjá um 19.000 manns.  Erfitt getur reynst að ná til baka þeirri kjararýrnun sem varð á kreppuárunum t.d. með frystingu bóta frá janúar 2009 til júní 2011og lægri prósentuhækkun lífeyris en kjarasamningarnir 2011 gerðu ráð fyrir.  Fyrst og fremst þarf að huga að hækkun lægstu bóta almannatrygginga svo fólk geti lifað af þeim og draga úr skerðingum vegna framfærsluuppbótar en þar hefur ekkert breyst.
Nýlega hefur í nefnd um endurskoðun lífeyrismála verið gerð úttekt á því hvernig lífeyrir almannatrygginga hefur þróast s.l. 10 ár eða tímabilið 2004 – 2014 miðað við launa- eða verðlagsþróun þessara ára og þá kemur í ljós að árið 2008 taka þessar bætur talsvert stökk þegar sett er á framfærsluuppbót sem gert var í ágúst 2008 og hækkuð í jan 2009.  Þá fóru lægstu bætur með framfærsluuppbót úr kr. 150.000 í kr. 180.000 fyrir skatt.  Síðan eins og áður sagði voru bætur frystar í rúm tvö ár og tóku engum hækkunum, en þá jafnaðist þessi hækkun út.  Niðurstaðan er sú að yfir 10 ára tímabil hafa lægstu bætur haldið nokkurn veginn í við verðlags- eða launaþróun í landinu, annað kemur í ljós ef miðað er við 1. Janúar 2009.  Í nefndinni er núna búið að skipa undirnefnd sem á að semja greinargerð um þetta  mál.  Sú greinargerð liggur ekki fyrir núna en  þið fáið  upplýsingar frá landssambandinu um leið og greinargerðin er tilbúin.
Lífeyrissjóðir landsins eru að eflast en eru fastir í  fjármagnshöftum eins og við öll.  Það  verður sífellt meira krefjandi að losa þau höft og að því er unnið en enginn veit hvenær það verður, þar eru  ýmis ljón í veginum.  En í dag er það svo að lífeyrissjóðirnir eru að greiða 60% af lífeyri okkar en TR 40%.  Þetta hlutfall mun  breytast á næstu 20 árum í 80% frá lífeyrissjóðunum og 20% frá TR.  Það ætti því að vera  möguleiki á að hækka lægstu bætur svo fólk geti lifað sómasamlegu lífi á eftirlaunum frá TR  þeir sem þá eru  algjörlega háðir því, en það verður alltaf einhver hópur.
Nefndir og ráðstefnur
Stjórnarmenn LEB eiga einnig sæti í mörgum nefndum sem skipaðar eru af Velferðarráðherra og  sitja þar reglulega fundi.  Þar má nefna: Samstarfsnefnd um málefni aldraðra, stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra,  nefnd um lífeyrismál og endurskoðun almannatrygginga, starfshóp um húsnæðismál,  starfshóp um fjölskyldustefnu, starfshópa um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga,  starfshóp um velferðartækni í félagsþjónustu  og  nefnd um endurskoðun laga um málefni fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga.  Einnig á LEB  sæti í Velferðarvaktinni,  Öldrunarráði Íslands,  Samstarfsnefnd  með TR og við erum í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða.

Frá hausti höfum við í stjórninni  verið að halda fundi með FEB-félögum út um landið og er búið að fara á fundi hjá 16 félögum á landsbyggðinni og nokkrum á höfuðborgarsvæðinu, og fleiri eru á döfinni á næstu mánuðum. Í október var ráðstefna á vegum Norrænu samstarfsnefndarinnar í Drammen í Noregi um velferðartækni sem formaður og Ragnheiður Stephensen sóttu.  Við höfum síðan verið að kynna það hjá félögum og í Listinni að lifa.  Í vor verður málþing um gæði í öldrunarþjónustu á vegum Öldrunarráðs Íslands, LEB og fleiri aðila.  Ráðstefna um velferðartækni í félagsþjónustu verður á Akureyri og þar komum við eitthvað að málum, en það er Velferðarráðuneytið sem stendur fyrir því.
Útgáfumál og þingmál
Listin að lifa kemur að jafnaði reglulega út tvisvar á ári og á árinu 2014 verður gefið út veglegt afmælisblað í tilefni 25 ára afmælis LEB en landssambandið var stofnað á Akureyri 19. Júní 1989.  Afsláttarbókin er komin  út í samvinnu við Reykjavíkurfélagið.  Heimasíðan er orðin öflugri eftir endurskoðun og nýjan umsjónaraðila þannig að ég tel að það sé allt á réttri braut.  Einnig hafa formaður og fleiri stjórnarmenn skrifað greinar um öldrunarmál í dagblöð, vikublöð og tímarit.  Auk þess hafa mörg viðtöl verið tekin við JVK sem birst hafa í ýmsum fjölmiðlum.

Umsagnir um þingmál hafa verið fyrirferðarmikil í vetur.  LEB hefur t.d. gefið umsögn um:  Frumvarp um breytingar á  lögum  um málefni aldraðra, nokkur frumvörp um almannatryggingar,  um byggingu nýs landsspítala, um forvarnarstarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli, um 40 stunda vinnuviku, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað o.fl.  Fyrst og fremst höfum við þá tekið fyrir atriði sem hefðu áhrif til hagsbóta fyrir eldri borgara. Allar þessar umsagnir eru á heimasíðu Alþingis undir viðeigandi þingmálum.  Nú síðast vorum við að gefa umsögn um frumvarp til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála og erum þar að reyna að koma inn ákvæði um umboðsmann aldraðra, þó að kannski heiti það réttindagæslumaður aldraðra.
Hlutverk landssambandins
Af þessu sjáið þið að Landssamband eldri borgara hefur margvíslegu hlutverki að gegna í samfélaginu og það skiptir miklu máli að við séum samstíga í okkar málum.  Þegar spurt er á fundum FEB-félaga:  Hvað fáum við fyrir aðildargjaldið sem við greiðum til LEB? þá er því til að svara að ef ekki væri landssamband hvernig ættum við þá að tala fyrir okkar málum, væri tekið mark á því þó eitt og eitt félag væri eitthvað að kvarta?  Ég er viss um að það væri eins og hjáróma rödd.

Á síðasta ári gerðu LEB og Velferðarráðuneytið samning þar sem kveðið er á um að LEB sé málsvari allra eldri borgara á landsvísu gagnvart stjórnvöldum, tiltekið að LEB sinni ákveðnum verkefnum og hlutverki, auk þess sem Velferðarráðuneytið skuldbindur sig til að greiða árlega fjármuni úr ríkissjóði til að styrkja starfsemi LEB.  Gerð þessa samnings er mikilvægur áfangi í að styrkja stöðu eldri borgara og landssambands þeirra til að berjast fyrir margvíslegum hagsmunamálum og koma þeim á framfæri við stjórnvöld.

Svo bendi ég líka á að þið fáið tímaritið Listin að lifa ókeypis með póstinum og eitt slíkt blað myndi kosta að lágmarki 800 kr ef selt væri í verslun. Og aðildargjaldið er 600 kr. pr. meðlim.  Og til viðbótar er svo afsláttarbókin sem unnin er á vegum LEB og sum félög  gefa sínum meðlimum, en önnur selja fyrir kostnaði.  Ef starf LEB væri ekki jafn öflugt og það er þá  væri  árangur  t.d. í kjarabaráttunni ekki sá sami.  Ég hef lagt áherslu á það í stjórn LEB að unnið sé á málefnalegum nótum,  málum fylgt eftir af einurð og festu, að við látum reglulega til okkar heyra og höfum gott samband við stjórnvöld á hverjum tíma, og skiptir þá engu máli hvaða pólitísk öfl ráða.  Sama gildir um sveitarstjórnirnar í landinu.  Þar kemur raunar meira til kasta hvers félags að fylgja sínum málum eftir í sínu nærumhverfi, en við í Landssambandinu styðjum við bakið á ykkur eftir getu.

Öldungaráð í öll sveitarfélög
Nú eru sveitarstjórnarkosningar í vor og þá þurfið þið í FEB-félögum að láta til ykkar heyra, tala við frambjóðendur og sveitarstjórnarmenn og  benda þeim á það sem betur má fara í að skapa aðstöðu og þjónustu fyrir eldri borgara sveitarfélagsins. Aðstaða félaganna er víðast hvar mjög góð en þó afar misjöfn.  Það er líka misjafnt hvernig þjónustunni er háttað, hvort það er starfsmaður frá sveitarfélaginu að sinna félagsstarfi eldri borgara eða hvort það er eingöngu sjálfboðavinna félagsmanna. Sjálfboðavinna er góð en þegar hún lendir eingöngu alltaf á sama fólkinu þá kemur að því að þeir þreytast með hækkandi aldri og þá myndast tómarúm.  Ég hef séð það í heimsóknum mínum til félaganna út um landið hversu misjafnt þetta er og við viljum að þjónustan sé sem allra mest  samræmd á landsvísu.

Í samstarfi LEB við sambærileg landssamtök á hinum Norðurlöndunum hefur komið í ljós að þar eru starfandi Öldungaráð sem skipuð eru eingöngu fólki 60 ára og eldra.  Komin eru lög um þetta á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi og Færeyjum.  Það er því afar brýnt að við höldum þessu verkefni á lofti nú fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar að vori.  Náist það fram erum við að auka áhrif okkar í samfélaginu.  Í LEB höfum við verið að kynna öldungaráð með blaðagreinum og  umræðum á fundum félaganna, en við ræðum það hér á eftir undir öðrum dagskrárlið.  Við leggjum áherslu á að það er tímabært að taka meira tillit til skoðana og tillagna eldri borgara um hvað betur má fara.  Við höfum mikilli reynslu og þekkingu að miðla og eigum að nýta hana okkur til hagsbóta og samfélaginu öllu  til góða.

Skýrsla gjaldkera
Eyjólfur Eysteinsson, Reykjanesbæ, gjaldkeri LEB, kynnti niðurstöður ársreiknings LEB 2013, sem endurskoðaðir eru af löggiltum endurskoðanda. Hann sagði að stjórn LEB sem kjörin var á landsfundi fyrir þremur árum hefði einsett sér að koma fjárhag og rekstri LEB á traustan grunn og það hefði tekist.  Samhliða hafi starfsemi LEB verið efld og áhrif þess aukist. Tekjur 2013 námu 19,1 mkr, útgjöld námu 16,5 mkr og rekstrarafkoma var jákvæð um 2,6 mkr. Peningaleg eign og skammtímakröfur í árslok námu 7,8 mkr. Gerður hefði verið formlegur samningur við Velferðarráðuneytið um fjárstuðning og framlög hollvina hafa aukist.

Jafnframt kynnti gjaldkeri fjárhagsáætlun 2014 og kom fram að landssambandið greiðir engin laun, aðeins útlagðan kostnað og greiðslur til verktaka. Þar ber hæst að vegna 25 ára afmælis LEB á árinu væri ætlunin að gefa út afmælisblað sem áætlað væri að kostaði um 5-6 milljónir og yrði það sent á öll heimili landsins þar sem einhver heimilismaður væri orðinn sextugur. Mikilvægt væri að aðildarfélögin efndu til átaks til að fjölga félagsmönnum samhliða þeirri útgáfu.  Hann þakkaði Grétari Snæ Hjartarsyni fráfarandi framkvæmdarstjóra sambandsins samstarfið og Hauki Ingibergssyni, sem tók við starfi hans, þeirra þátt í endurskipulagningu starfsins. Ársreikningurinn er lagður fram til skoðunar á formannafundinum og verður svo lagður fram á næsta landsfundi til formlegrar afgreiðslu.

Orðið var gefið frjálst um skýrslu formanns og reikninga. Fundarstjóri sagði skýrslurnar miklar og góðar og var þeim gefið gott klapp.

Nokkrar áskoranir 2014
Formaður þakkaði gjaldkera góð störf.  Hún minnti á að sveitarstjórnarkosningar væru í nánd og að eldri borgarar þyrftu að tala sínum málum. Sérstök áhersla er á stofnun öldungaráðs eins og tíðkast á Norðurlöndum.

Gjaldkeri greindi frá framgangi öldungaráðs á Suðurnesjum.  Hann sagði samstöðu sveitarfélaga nauðsynlega í þessu máli, sem væri stórt skref fram á við ef það næði fram að ganga.

Baldur Baldursson, Kópavogi ítrekaði að eldri borgarar ættu að nýta sveitarstjórnarkosningarnar til framgangs sínum málum

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Reykjavík sagði að öldungaráð væri á veg komið í Reykjavík og að þjónustuhópur aldraðra væri virkur þar.

Sigurður Hermannsson, Akureyri sagðist hafa kynnt hugmyndina um öldungaráð fyrir bæjarfulltrúum og að á nýlegum aðalfundi eldri borgara á Akureyri hafi hann borið upp ályktun til bæjarstjórnar um að hún beitti sér fyrir stofnun öldungaráðs.  Sigurður býst við að ráðið komist á legg fljótlega.  Hann segir nauðsynlegt að félögin miðli upplýsingum sín á milli til að auðvelda framgang þessa máls.

Magnús Sigsteinsson, Mosfellsbæ segir hugmyndina um öldungaráð hafa verið rædda meðal eldri borgara í Mosfellsbæ og kynnt fyrir bæjarstjórn þar sem henni var vel tekið.  Sigurður varpaði fram spurningunni um hvernig ætti að skipa í öldungaráð og benti á að til að byrja með gæti það verið stjórn félagsins á hverjum stað.

Sigríður J. Guðmundsdóttir, Selfossi sagði eldri borgara á Selfossi vera búna að fá vilyrði fyrir öldungaráði og búið er að skipa nefnd um það.  Sigríður sagði frá því að til stæði að byggja fyrir eldri borgara á Selfossi.

Gísli H. Jónsson, Vestmannaeyjum spurði hvort öldungaráð ætti að vera launað eða hvort um áframhaldandi sjálfboðavinnu verði að ræða.

Valgerður Sverrisdóttir, Grýtubakkahreppi sagði félagið í hreppnum ungt, aðeins 3ja ára.  Hún telur varla skilning hjá stjórnvöldum þar á stofnun öldungaráðs.

Ástbjörn Egilsson, Garðabæ sagði öruggt að öldungaráði yrði komið á í Garðabæ.  Ástbjörn hefur, sem formaður FEBG seturétt á nefndarfundum þar sem fjallað er um mál eldri borgara.

Eyjólfur Eysteinsson, Reykjanesbæ sagði ánægjulegt að heyra að mikill áhugi sé á þessu máli.  Aðstæður væru mismunandi eftir stöðum, fimm sveitarfélög séu t.d. á Suðurnesjum og þau þurfi að standa saman og þurfi öldungaráð.  Hann óskaði öllum til hamingju sem eru með þetta á dagskrá.  Eyjólfur telur að öldungaráð gætu e.t.v. verið á launum hjá sveitarfélögunum.

Formaður tók til máls og sagði að hér færi fram gagnleg umræða og fjölbreytileg.  Hún minnti á að formannafundur er ekki ályktunarbær heldur er hann til umræðna og kynningar á málum. Kynna þurfi þessar hugmyndir og tillögur sveitarstjórnum og frambjóðendum.  Hún sagði öldungaráð launað í Danmörku og að þjónustuhópur   aldraðra, sem á að vera allstaðar á landinu, eigi að vera launaður.

Formaður minnti á að LEB á 25 ára afmæli á árinu.  Það hét fyrst Samband aldraðra og var stofnað á Akureyri.  Nú stendur til að halda upp á afmælið með veglegu afmælisriti. Blaðið getur kostað 5-6 milljónir og verður nokkru stærra en venjulega. Því verður dreift á um 40.000 heimili þar sem 60 ára og eldri búa.  Landssambandið hefur skilað hagnaði tvö ár í röð.  Með útgáfu blaðsins í ár verður farið fram úr tekjum en fyrir því hefur verið sparað. Formaður spurði hvort sleppa mætti að gefa út blað í haust ef þetta yrði of dýrt og virtust fundarmenn sammála um að gefa þetta afmælisblað út og til greina kæmi að sleppa að gefa út blað í haust.

Ingimar Magnússon, Akranesi sagði félagið á Akranesi hafa gefið út afmælisrit.  Útgáfufyrirtækið Skessuhorn stóð að því.  Blaðið var gefið út í 3500 eintökum og dreift um Akranes og Hvalfjarðarsveit.

Þróun félagsstarfsins
Eftir að fundarmenn höfðu tekið kaffihlé fjallaði Haukur Ingibergsson framkvæmdastjóri og varaformaður LEB um þróun félagsstarfsins og minnti á aðeins væru 25 ár síðan eldri borgarar hafi fyrst fengið talsmann og baráttutæki með stofnun Landssambands eldri borgara. Þessi 25 ári hafi verið mikið framfaraskeið í málefnum eldri borgara, ekki síst yfirstandandi tímabil undir forystu Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur núverandi formanns.

Haukur ræddi um aldursbil innan félaganna og sagði að með hækkandi aldri fólks mætti skipta félagsmönnum í 3 hópa:  Yngsta hópinn, fólki í fullu fjöri sem væri hætt eða sæi fram á að fara að hætta störfum með þeirri umbreytingu sem slík tímamót hafa í för með sér. Ef til vill þurfi að gefa þessu fólki meiri gaum. Mikil fjölgun yrði í þessum hópi á næstu árum. Í öðru lagi væri hópurinn 70 – 85 ára sem sé uppistaðan í félögunum í dag, gegni þar flestum trúnaðarstöfum og væri áberandi í félagsstarfinu. Í þriðja lagi væri háaldraði hópurinn, 85 – 107 ára, og geta þessa hóps til að gangast fyrir félagsstarfi sé takmörkuð en mikilvægt sé að þessu fólki standi til boða þátttaka í við hæfi.

Haukur drap á ýmsa þætti sem fylgdu félagsstarfinu og svo sem að halda skrá yfir félagsmenn, gefa út félagsskírteini, innheimta árgjöld, viðhafa félagsstarf, viðhafa hagsmunagæslu og starfrækja Landssamband. Fundarmenn ræddu sérstaklega saman á borðum um félagsmannaskrár, félagsskírteini og afslætti til eldri borgara

Réttindi tengd stéttarfélagsaðild
Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður kjaranefndar LEB fjallaði um ýmis atriði tengd réttindum vegna stéttarfélagsaðildar sem mikilvægt væri að huga að í tengslum við starfslok. Meðal annars fjallaði hún um kostnað heyrnarskertra við kaup á heyrnartækjum, rafhlöðum og öðru því tengdu, þátt Tryggingarstofnunar og styrkja frá stéttarfélögum, en styrkir eru mismunandi háir eftir félögum.  Þórunn sagði það mikið á reiki hvaða rétt fólk ætti eftir starfslok.  Mikilvægt sé að fólk hugi að réttindum sínum fyrir starfslok  og hve lengi þau vari eftir starfslok.  Hún hvetur félagsmenn til að nota þá styrki sem í boði eru.

Önnur mál
Jóna Valgerður þakkaði ræðumönnum innleggið.  Hún sagði stjórn LEB í raun vita of lítið um hvernig aðstæður væru úti um land hjá félögunum varðandi húsnæði, styrki o.fl. og hreyfði þeirri hugmynd að fá skýrslu um þessi mál, útbúa eyðublöð sem félögin fylltu út árlega.

Ástbjörn Egilsson, fundarstjóri sagði frá starfinu í Garðabæ.  Hann lýsti ánægju með að hýsa fundinn.
Hann sagði frá 20 ára afmæli félagsins í fyrra og því hvernig félagið hefði minnt á sig með gjöfum í orgelsjóð Vídalínskirkju og til hjúkrunarheimilisins Ísafoldar, en það minnti á að eldri borgarar væru ekki bara þiggjendur heldur einnig veitendur.  Ástbjörn sagði að um 1600 manns 67 ára og eldri byggju í bænum og að bæjarfélagið styddi vel við bakið á félaginu með styrkjum, samkomusalnum, skrifstofuhúsnæði o.fl. Hann sagði samstarf FEBG og bæjarins samtvinnað. Íslandsbanki styrkir einnig starfið.  Mikil þátttaka er í öllu félagslífi sem er fjölbreytt.  Ástbjörn skýrði frá ráðstefnu um málefni eldri borgara sem halda á í Garðabæ 8. apríl n.k.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Reykjavík sagði margt á óskalistunum sem Ástbjörn lýsti að FEBG hefði og óskaði honum til hamingju með það.

Sigurður Hermannsson, Akureyri taldi að upplýsingastreymi milli félaga væri æskilegt t.d. fyrir þá sem eru að byrja í stjórn.  Hann sagði  að þau sveitarfélög sem gerðu vel við eldri borgara gætu verið stolt. Sigurður styður útgáfu afmælisrits.

Baldur Baldursson, Kópavogi sagði Kópavogsbæ gera vel í málefnum aldraðra.  Þéttskipuð starfsemi væri í félagsmiðstöð.  Baldur vill að  LEB beiti sér fyrir útgáfu bæklings um réttindi og þjónustu við aldraða.

Sveinn Hallgrímsson, Borgarfjarðardölum sagðist ekki hlynntur því að fá umboðsmann aldraðra.  Sagði hann að ef sett væri á fót stofnun í Reykjavík þá fái menn minni þjónustu úti á landi vegna þess að þjóðin eigi takmarkaða fjármuni.

Sigurbjörg Guðmannsdóttir V – Húnavatnssýslu skýrði frá því að í sínu félagi væri gott og fjölbreytt félagslíf og að gott samstarf væri við sveitarfélagið.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir sagði þetta góðan fund þar sem mismunandi skoðanir fólks kæmu fram.  Hún benti á að eldri borgarar væru auðlind sem færi ört vaxandi.  Hún telur að upplýsingar um réttindi og þjónustu við aldraða séu til í einum bæklingi, en fólki sé alltaf vísað á netið og aðeins hluti eldra fólks sé með það.  Jóna Valgerður vill að fengin séu börn úr efstu bekkjum grunnskóla til að kenna eldri borgurum á netið.  Við erum öll að vinna að sameiginlegum markmiðum, segir formaður, við þurfum að vinna saman.  Hún kvaðst vona  að fundurinn skili okkur fram á veginn, þakkaði fundarmönnum komuna, forsvarsmönnum góðan undirbúning og veitingar og sleit fundi kl. 17:10.