fbpx

 

Umræða um eftirlaunaaldur er stöðug og nú sérstaklega þegar aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er að breytast. Þessi umræða helst í hendur við umræðuna um hina pólitísku ákvörðun stjórnvalda hversu hár ellilífeyrir eigi að vera og hverjar skerðingar eigi að vera á honum og með hvaða móti.

Þó vilja margir á móti vekja athygli á að Íslendingar á vinnumarkaði eru farnir nú á síðustu árum að efla til muna lífeyriseign sína í lífeyrissjóðum, svo eftir tvo áratugi eða svo verður allt öðruvísi hópur kominn á eftirlaunaaldur en nú er. Það fólk verði að mestu sjálfbært þegar kemur að efri árum. En vissulega verður alltaf til hópur fólks sem nýtur lélegra lífeyrissjóðstekna og þarf að fá trygga lífsafkomu úr sameiginlegum sjóðum okkar.

Drífa Snædal forseti ASÍ gerir að umtalsefni í nýlegum pistli sínum (28. janúar) vaxandi verðbólgu og húsnæðiskostnað, en ekki síst umræðuna um hækkun ellilífeyrisaldurs. En það sem einkum vekur athygli er að forseti ASÍ opnar á að kjör eftirlaunafólks verði hluti af væntanlegum kjaraviðræðum. Vissulega yrði það mikilsverður áfangi ef það verður.

Niðurlag pistils Drífu sem fjallar um lífeyrismál :

Annað stórt mál þessa dagana er hækkun lífeyrisaldurs. Vissulega er þrýstingur frá ákveðnum stéttum að hækka lífeyristökualdur. Margir opinberir starfsmenn vilja gjarnan vinna lengur en til sjötugs. Að hækka lífeyrisaldur á línuna er hins vegar algerlega vanhugsað út frá bæði stétt og kyni.

 

Fólk sem vinnur erfiðisvinnu andlega og líkamlega endist ekki starfsævin eins og örorkutölur segja til um og er láglaunafólk og konur þar í meirihluta. Að hækka lífeyristökualdur þess hóps er ávísun á lífsgæða- og kjaraskerðingu og fjölgun öryrkja. Nær væri að innleiða sérstakan forgangslífeyri fyrir erfiðisvinnufólk til að brúa bilið frá því að starfskraftar þverra þangað til komið er að lífeyristökualdri.

 

Önnur leið er að hækka frítekjumark gagnvart lífeyrissjóðstekjum til að létta undir með láglaunafólki sem tekur lífeyrinn fyrr. Að hækka lífeyristökualdur án þess að taka tillit til stéttar eða kyns er forréttindablinda sem viðheldur fátækt og heilsubresti þeirra sem vinna erfiðustu störfin.

 

Lífeyristökualdur á með réttu að semja um í kjarasamningum en ekki ákvarða með breytingum á reglugerðum á vegum fjármálaráðuneytisins. Það er eðlilegt að lífeyristökualdur verði undir í kjarasamningsviðræðum þessa árs.“

 

Pistil Drífu má lesa í heild sinni HÉR

 

 

Drífa Snædal, forseti ASÍ / mynd: ASÍ