fbpx

Þessi grein birtist á vefritinu Lifðu núna

Engin skerðing vegna séreignasparnaðar

Íslandsbanki hefur á undanförnum árum haldið fjölda fyrirlestra og erinda á vegum Íslandsbanka, þar sem fjallað er um fjármál við starfslok. Stærsti fundurinn var haldinn í Hörpu í gær, en þar fylltu tilvonandi og núverandi eldri borgarar salinn Silfurberg og hlusturðu á Björn Berg Gunnarsson deildarstjóra Greiningar og fræðslu hjá bankanum. Hann sagði meðal annars að fjárhagur fólks á efri árum gæti oltið á því hversu vel það þekkti kerfið sem greiðir þeim lífeyri þegar þar að kemur, lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingakerfið. Hann sagði mikilvægt fyrir alla að eyða tíma í að setja sig inní þessi kerfi, sem tækju stöðugum breytingum. „Það er þess virði að setja sig inní þetta. Tímakaupið er gott“, sagði hann.

Þarf að greiða skatt af séreignasparnaði

Björn fjallaði meðal annars um séreignasparnaðinn og sagði að fólk þyrfti að passa uppá hvenær hann væri tekinn út. Hann sagði það misskilning að menn ættu að taka hann út áður en þeir hættu að vinna, þar sem hann skerti lífeyri frá TR. „ Það er engin skerðing hjá TR vegna séreignasparnaðar“ sagði hann. „Það var þannig en er það ekki lengur“. Hann sagði að þegar kæmi að séreignasparnaðinum, gilti það sama og um peninga sem menn hefðu lagt inná banka.  Eina kvöðin sem gilti um séreignasparnaðinn væri hvenær mætti að taka hann út, en það er ekki hægt fyrr en fólk verður sextugt.  Sumir vildu taka séreignina út seinna, en aðrir eins hratt og þeir gætu. „En það þarf að greiða skatt af séreignasparnaðinum. Munið það“, sagði hann og bætti við að það gæti munað miklu á skattinum, eftir því hvort hann væri tekinn út smátt og smátt eða allur í einu. „Því má líka bæta við að það gæti borgað sig fyrir þá sem kjósa að hætta fyrr að vinna, að lifa á séreignasparnaðinum um skeið, því á meðan hækka upphæðirnar sem menn fá úr lífeyrissjóðum eða frá TR.

Króna á móti krónu skerðing fjármagnstekna ekki fyrir hendi

Björn Berg ræddi einnig um það ef menn ættu peninga við starfslok. Margir óttuðust skerðingar og sumum fyndist best að fela peningana undir koddanum eða setja þá í bankahólf. Hann benti á að frítekjumark fjármagnstekna hjóna væru 300.000 krónur hjá skattinum. Hann sagði einnig að „króna á móti krónu“ skerðing fjármagnstekna væri ekki fyrir hendi í almannatryggingakerfinu eins og margir héldu. „Ef ég fæ vexti fæ ég að minnsta kosti hluta þeirra í vasann, en ef ég fæ ekki vexti brenna peningarnir upp í verðbólgu“, sagði hann og hvatti fólk til að spá í þetta. „Það er ágætt að taka sér eitt kvöld í að fara yfir þetta“. Mikil áhersla var lögð á mikilvægi þess á fundinum að kynna sér málin sem best, áður en þeir færu á eftirlaun. Það væri gott að fara að huga að þessu í kringum 55 ára aldur. „Það hentar ekki öllum að gera það sama. Við erum ekki öll að hætta á sama tíma með sömu réttindi“, sagði Björn Berg.

Vantar uppá að menn kynni sér málin

Á fundinum var einnig farið yfir lífeyrissjóðina og almannatryggingakerfi TR, en stofnunin greiðir 80 milljarða í lífeyri á ári.  34.000 eldri borgarar fá greiðslur frá stofnuninni.  Edda Hermannsdóttir forstöðumaður Markaðs og samskiptasviðs bankans stýrði síðan umræðum, þar sem Björn tók þátt ásamt Þórunni Sveinbjörnsdóttur formanni Landssambands eldri borgara og Sigríði Lillý Baldursdóttur forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins (TR).  Þórunn sagði meðal annars að það væri langt í frá að menn þekktu fjármálin við starfslok nægilega vel, þar vantaði mikið uppá. Það ylli því að menn gerðu mistök sem hægt hefði verið að komast hjá. Menn þyrftu til dæmis að kanna hvaða áhrif sala hlutabréfa eða sumarbústaðar hefði á tekjurnar.  Sigríður Lillý sagði að TR færi eftir lögum og reglum, en semdi þær ekki. Hún sagði einnig að stofnunin veitti mönnum aðstoð til að gera tekjuáætlanir.

Systurnar Ólöf og Jenný Jensdætur

Gott að fá ýmsar „mýtur“ leiðréttar

Blaðamaður Lifðu núna hitti systurnar Ólöfu og Jenný Jensdætur á fundinum. Ólöfu fannst fundurinn frábær. Hún hefði verið á starfslokanámskeiði í vinnunni og verið ráðlagt að fara á þennan fund. Þeim systrum fannst mjög gott að það væri verið að leiðrétta ýmsar „mýtur“ sem verið hefðu í gangi. Fólk tæki þátt í umræðunni og ræddi um hvernig staðan væri, úr frá því sem var fyrir 5-10 árum. Hlutirnir breyttust og það væri nauðsynlegt að kynna sér þetta reglulega. „Það er gott að vita að þetta er ekki rétt“, sagði Jenný „að það er engin króna á móti krónu skerðingu og séreignasparnaðurinn og vaxtatekjur af honum skerðast ekki“.

Íslandsbanki hefur safnað saman gríðarlegum upplýsingum um fjármál þeirra sem eru sextugir og eldri og þær eru einkar aðgengilegar á vef bankans. Sjá hér.

 

Það var þétt setinn bekkurinn í Silfurbergi á fundi Íslandsbanka