fbpx

LEB hyggur á samstarf við Rauða krossinn varðandi sjálfboðaliðastarf félaga eldra fólks um allt land. Rauði krossinn hefur mikla reynslu af því að þjálfa sjálfboðaliða og þess vegna er eðlilegt að LEB snúi sér til þeirra. Fyrir liggur samkomulag um slíkt samstarf sem mun fara í gang vonandi sem fyrst. Það er þörf fyrir sjálfboðaliða í margvísleg verkefni; til dæmis að lesa með börnum af erlendum uppruna og innendum, aðstoða fólk við að læra á tölvu, ipad, snjallsíma og margt fleira. Slík þekking mun einnig nýtast vel í að innleiða velferðartækni, sem við vitum að mun gera eldra fólki lífið auðveldara, auka möguleika þess á því að geta búið lengur heima sem langflestir vilja, þótt aldurinn færist yfir, og margt fleira. Það felst í því valdefling að vinna með öðrum og láta gott af sér leiða. Það vita allir þeir sem hafa tekið þátt í sjálfboðavinnu, ekki síst þar sem ávinningur af vinnunni er sýnilegur.

Ný skandinavísk könnun

Nýleg könnun hjá frændum okkar og frænkum í Skandinavíu sýnir að sjálfboðavinna eykur vellíðan, fólk verður hamingjusamara og á auðveldara með að umgangast annað fólk og það er líklegra til að sofna með bros á vör.

Það getur aukið hamingju að vinna í sjálfboðavinnu.

Ný rannsókn sem gerð var meðal rúmlega 14.000 manns í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi sýnir þetta. (Statens Institut for Folkesundhed).

Sú tilfinning sjálfboðaliða að þeir séu að leggja mikilvægu málefni lið og aðstoða aðra veldur því að þeir ná eins góðu andlegu heilbrigði eins og frekast er kostur.

  • Vera virk/virkur

Það er hægt að vera virkur á ýmsan hátt, líkamlega, félagslega og andlega. Sem sagt allt frá því að fara út að hlaupa til þess að vera í friði eða að vera nálægt vinum og fjölskyldu.

  • Gera eitthvað saman

Auk þess að vera með vinum og fjölskyldu, er hægt að taka þátt í ýmiss konar félagsskap þar sem verið er að prófa eitthvað nýtt. Það skiptir máli að gera eitthvað með einhverjum.

  • Láta gott af sér leiða

Að setja sér markmið, smá eða stór, að taka þátt í félagsstarfi, finna sér áhugamál, láta gott af sér leiða í sjálfboðaliðastarfi, eða einfaldlega taka þátt í einhverju bara einhverju sem skiptir máli og hentar þér. (Hér er ágætt að benda á að margir aldraðir búa við einsemd).

Andlegt heilbrigði

Í könnuninni er mælt hvernig andlegt ástand þátttakenda í könnuninni er með því að spyrja um tilfinningalífið, hamingjuna og hvernig þeim líður frá degi til dags.

Niðurstaðan er sú að þeir þátttakendur könnunarinnar sem sinna sjálfboðaliðastarfi að minnsta kosti einu sinni í viku geta búist við því að hafa tvisvar sinnum betra andlegt heilbrigði en þeir sem ekki sinna sjálfboðaliðastarfi.

Blómstrandi andlegt heilbrigði er það sem rannsakendurnir kalla „æðsta stig andlegs heilbrigðis.“ Eða með öðrum orðum jákvæðar tilfinningar, vellíðan og góðar félagslegar aðstæður og einnig hvernig fólki gengur að takast á við daglegt líf  t.d. í samskiptum við aðra.

Niðurstaða könnunarinnar á við alla þá sem taka þátt í sjálfboðavinnu burtséð frá aldri, félagslegum og fjárhagslegum bakgrunni og heilbrigði.

Lífsviðhorf skiptir máli

Samhengi er á milli lífsviðhorfs fólks og þess að taka þátt í sjálfsboðaliðastarfi. Það sem skiptir máli hjá þeim sem sinna sjálfboðaliðastarfi er, að þar er verið að aðstoða aðra um leið og stuðlað er að því að bæta heiminn. Að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi stuðlar að nýrri þekkingu, nýrri hæfni sem hvort tveggja styrkir sjálfsmyndina. Oft kemur ný hæfni fólki þægilega á óvart.

Því oftar sem fólk sinnir sjálfboðavinnu því betra, segir í niðurstöðu könnunarinnar.

Þýtt og endursagt úr fagligsenior.dk.