Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB – Landssambands eldri borgara skrifar:
Undanfarin ár hefur dregið í sundur með eldra fólki og fólki á vinnumarkaði á lægstu launum. Hvers vegna? Er þetta svo dýrt eða hvað. Stundum þurfa prósentur ekki að ganga upp allan launastigann á vinnumarkaði? Er það lausnin? Yfir 30% eldra fólks sem hefur leitað til Tryggingastofnunarinnar er í miklum vandræðum og neðsti hlutinn býr við sára fátækt. Er það hið íslenska velferðarkerfi? Hvar er vörnin hjá okkar stjórnmálmönnum? Er þeim sama? Eru þeir sumir ef til vill með rangar hugmyndir um stöðu hópsins? Nokkrir tala um að allir hafi yfir 300 þúsund. Það er ekki rétt. Þetta á bara við um þá sem búa einir og fá fulla heimilisuppbót. Enn aðrir hafa talað opinberlega um fólkið með eina millu… Hverjir eru það? Hverjir hafa eina millu í lægstu launastigunum? Aðeins lítill hópur sem oftar en ekki er opinberir starfsmenn í betur launuðu störfunum í þjóðfélaginu sem svo oft fá bónusa. Misskiptingin vex. Það er alveg óþolandi.
Hvað vill þjóðin gera í málefnum þeirra verst settu? Við höfum lagt upp með nokkrar leiðir. Ein er að sinna því fólki sem er með skerta búsetu. Hvað er það? Ef við búum ekki á Íslandi eða öðrum Evrópulöndum í 40 ár þá fáum við skertar lífeyrisgreiðslur. Takmark okkar er að fólk geti lifað af því sem það fær. Það hafa ekki allir feita lífeyrissjóði og sumir enga. Svo hefur margt gerst. Nokkrir lífeyrissjóðir fóru illa í hruni og áður. Svo eru líka lögbundnir lífeyrissjóðir sem standa ekki undi nafni. Einnig þarf að huga að því að lög um að allir greiði í lífeyrissjóð eru ekki gömul; bara frá 1997.
Það þarf að bretta upp ermar og skoða kosningaloforðin. Við getum ekki horft upp á að leiðrétting vegna mistaka verði til þess að þeir efnameiri hafi fengið mest við dómsúrskurðinn. Er þetta vitglóra? Nei, og aftur nei. Þarna hefði peningunum verið betur varið til þessa hóps sem verst stendur en ekki til hálaunahópa. Þvílíkur dómur um að 6 milljarðar séu teknir og settir í ranga vasa.
Eldri borgarar eru líka samkvæmt rannsóknum að sinna sínum nánustu í veikindum og á lokaspretti lífsins. Samkvæmt rannsóknum erum við þar efst í að þurfa að gefa tíma til umönnunar barna, fatlaðra og aldraðra. Hvað veldur? Sumir telja að upplýsingaflæði til fólks um rétt sinn sé ekki nægt og að sumum eldri borgurum finnist þeir segja sig á sveitina með því að þiggja hjálp. Kannski er það líka íslenska fjölskyldugerðin? Nánar fjölskyldur standa saman.
Nýlegt heilbrigðisþing var fjölskrúðugt og mikill fjöldi kom og tók þátt. Mikill fjöldi frummælanda reifaði hinar mörgu hliðar heilbrigðis, siðfræði og réttinda til læknismeðferðar. Vonandi mun þetta leiða eitthvað gott af sér. Mér finnst að enn og aftur verði að huga enn betur að endurhæfingu, heilsueflandi samfélögum og öllu sem getur stutt við að heilsan endist lengur án skakkafalla. Þarna er líka gap milli kvenna og karla sem þarf að rannsaka hvers vegna konur fara fyrr og oftar til læknis og heltast fyrr út af vinnumarkaði. Ætla mætti að allt okkar tal um heilbrigðan lífsstíl mundi smám saman leiða til betri heilsu. Öll umræða ýtir málum áfram hvað þá góð samstaða,
En athuga þarf að örlagavaldar á þessu sviði eru t.d. fátækt og einmanaleiki. Tvö stórmál sem þarf að vinna hratt í að draga úr. Einmanaleikinn er nú alls staðar til umræðu í hinum vestræna heimi og margt hefur verið gert til að finna lausnir. Sá nú síðast stórfína örþætti frá Danmörku þar sem börn heimsóttu aldraða til að vinna á þessu meini. Upp voru tekin skemmtileg viðtöl milli þessara aðila sem voru bæði fyndin og falleg. Til þess að vinna af alúð gegn þessu meini þurfum við að fá miklu fleiri sjálfboðaliða. Hvatning til fólks sem er að leita að verkefni.
Þessi grein birtist einnig í Morgunblaðinu 28. nóvember 2018