Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara skrifar
Í flestum góðum stjórnarskrám er gert ráð fyrir að allir séu jafnir. En er það svo?
Til LEB hefur verið leitað vegna endurgreiðslna á akstri vegna læknisferða frá landsbyggðini. Ef fólk þarf að leita sér læknis utan sinnar heilsugæslu svo sem í geislameðferð, tímabundnar meðferðir eða göngudeildarþjónustu, sem talin er vera fólki nauðsynleg af heilsufarsástæðum, þá er gert ráð fyrir að sjúkratryggingar endurgreiði aksturskostnað fyrir viðkomandi nema unnt sé að fljúga. Þá gilda aðrar reglur fyrir sjúklinginn. Nokkrir aðilar hafa leitað ráða til okkar vegna sinna reikninga og spurt er þetta rétt?
LEB hefur leitað til Umboðsmanns Alþingis með málið út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Nokkur svör og athugasemdir bárust. Við erum ekki sátt hjá LEB. Málinu var vísað frá og bent á heilbrigðisráðuneytið og reglugerðir um málið.
Einnig kom skýrsla frá FÍB um mismunandi aksturkostnað eftir vegalengdum og vegategundum. Þar mátti finna lægsta akstursgjald en það er ekki það sem sjúklingum er úthlutað. Það er mun lægra. Þegar þetta byrjaði var akstursgjald pr. kílómeter 31.33 kr. Hæstvirtir Alþingismenn fengu þá kr.116.pr. kílómeter í snakkferðum um kjördæmin.
Hvers virði er þá heilsa fólks sem þarf að leita læknishjálpar miðað við flokksfundi hér og þar. Þrefalt minni rúmlega. Hvernig er okkar samfélag sem metur heilsu fólks svona naumlega? Hvernig finnst fólki þetta? Er einhver skali fyrir opinbera starfsmenn sem enginn á aðgang að? Þvílík mistök.
Erum við ein þjóð eða sérréttindahópar sem skammta sér ríkulega.
Mál þetta verður tekið fyrir í nýjum starfshóp á vegum Félagsmálaráðuneytisins sem hóf göngu sína 13. september.
Greinin birtist einnig á vefsíðunni Lifðu núna