„Á undanförnum árum hefur æ oftar verið rætt og skrifað um einmanaleika og félagslega einangrun. Brettum nú upp ermar og vinnum gegn einmanaleika.“
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB – Landssambands eldri brorgara skrifar.
Á undanförnum árum hefur æ oftar verið rætt og skrifað um einmanaleika og félagslega einangrun meðal eldra fólks. Margar þjóðir hafa tekið málið föstum tökum og sett sér markmið. Jafnvel skipað ráðherra sem fer sérstaklega með málaflokkinn. Drottning Danmerkur fjallaði um málið í áramótaávarpi sínu og lagði til að landsmenn tækju höndum saman til að sporna við vaxandi einmanaleika. Danir eru komnir langt í að greina vandann og leita lausna. Það að kortleggja vandann er eitt og þar eru komnar fram sláandi tölur. Má þar nefna að eftir 65 ára aldur eru yfir fimmtíu þúsund einstaklingar sem finnst þeir vera einmana daglega. Samkvæmt rannsóknum er einmanaleiki stórt vandamál hjá 350.000 manns. Aldraðir sem missa heyrn eða tapa hluta sjónar eða eru hreyfiskertir komast varla að heiman eða fara í félagsstarf til vina og eða vandamanna. Margir tala helst ekki um einmanaleikann og er því erfiðara að hjálpa þeim. Eldri karlar eru stór áhættuhópur, sérstaklega við makamissi. En hvað er verið að vinna að til lausna?
Þegar litið er á tölfræðina hjá „Ældre Sagen“ sem eru samtök eldri borgara í Danmörku, þá kemur ýmislegt í ljós. Hér koma nokkrar staðreyndir. Við borðum saman er verkefni og hefur náð til 25.000 manns til að borða saman. Kallast verkefnið: „Danmark spiser sammen“ sem er hluti af fjöldahreyfingu gegn einmanaleika auk símavina, ferðafélaga, aldraðir hjálpa öldruðum og heimsóknarvina. Áfram með tölfræðina. 5.000 heimsóknarvinir nota 34.000 stundir til að líta inn til eldra fólks í hverjum mánuði. 1.300 sjálfboðaliðar hringja í aldraða sem búa einir. 800 manns sitja hjá deyjandi fólki. Margar félagsdeildir hafa unnið að því að tengja saman börn og aldraða og er reynslan mjög jákvæð. Unnið hefur verið að fjölgun sjálfboðaliða. Hvað getum við lært af þessu?
Við hjá Landssambandi eldri borgara , LEB, höfum verið að herja á stjórnvöld að koma með framlag til okkar svo hægt sé að bretta upp ermar með félögum okkar og fleirum sem að slíku koma og rannsaka og gera tilraunir með nýjar leiðir til að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun.Það vantar líka meira um heilsufarslegu áhrifin, en meðal annars er rætt um kvíða, svefntruflanir, lélega næringu og minnkandi hreyfigetu. Tíðari ferðir til læknis eða jafnvel innlagnir á sjúkrahús í kvíðakasti. Margir læknar eru ráðþrota gagnvart þessum vágesti og finna vanmátt sinn. Félagsfærni minnkar og sumt okkar eldra fólks er lúið og finnst erfitt að leita til nágranna eftir félagsskap. Danir leggja til kaffi saman! Skotar eru líka að huga að sínu eldra fólki og þar er mikið verið að kynna símavini og fleiri úrræði. Enn fleiri eru einmana eða í félagslegri einagrun þar. Sameiginlegt átak með stjórnvöldum er í gangi og er í því lögð mikil áhersla á að finna leiðir til að rjúfa þetta ferli í Skotlandi.
Samstarf við Rauða krossinn hér á landi er hafið en þar á bæ eru nokkur verkefni sem eru alveg frábær. Má þar nefna Heimsóknarvini sem eru sjálfboðaliðar sem heimsækja fólk á heimilum þess, stofnanir, sambýli og dvalar- og hjúkrunarheimili. Ólík verkefni eftir þörfum þess sem heimsóttur er. Símavinir eru annað verkefni sem hófst 2016, þ.e. sjálfboðaliðar hringja í þá sem þess óska. Vinaspjall í um hálftíma í senn tvisvar í viku á tíma sem báðum hentar. Með símavini er hægt að draga úr vanda vegna fjarlægðar. Samvera og stuðningur er svo verkefni þar sem eru hundavinir, sérþjálfaðir hundar með eiganda sínum fara í ótal heimsóknir og er þetta verkefni vaxandi. Heimsóknarvinir Rauða krossins heimsækja á annað þúsund manns í hverri viku.Við viljum prófa fleiri nýjar leiðir og sjáum t.d. að tölvufærni skiptir miklu máli. Þess vegna var sótt um styrk til að vinna kennsluefni fyrir Ipad og spjaldtölvur sem nú eru tilbúið og komið til félaga eldri borgara um allt land. Með því að virkja þessa leið er sannað að samskipti á netinu hafa jákvæð áhrif á einmanaleika. Spjalla við vini á netinu; fylgjast með börnum og barnabörnum gefur mjög mikið. Eitt skemmtilegt dæmi er eldri kona sem setti inn á Facebook í miðri viku að á laugardaginn byði hún í vöfflukaffi. Það var eins og við manninn mælt; börn og barnabörn komu í vöfflur og kaffi. Það þekkist líka að fólk spjalli saman þegar það borðar eins og áðurnefnt verkefni, „Borðum saman“, felur í sér enda er einmanalegt að borða alltaf einn. Þá er betra að borða saman á netinu og segja og sýna hvert öðru hvað er á disknum. Svona má lengi finna góða samskiptamöguleika. Það er líka gaman finnst mörgum að hlusta á tónlist frá eldri tíma eða lesa blöð og fletta upp öllu mögulegu. Lærum alla ævi er markmið ESB fyrir eldra fólk. Allt þetta dregur úr einmanaleika og eykur lífsgæði til muna. Ef bætt er við góðri gönguferð í 30 mínútur er komin veruleg bót á líðan, ekki síst ef gengið er með öðrum. Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að bæði heilbrigðisráherra og félagsmálaráðherra hafa brugðist jákvætt við umleitunum okkar og þess vegna ætlum við að bretta upp ermar með góðu fólki og ráðast gegn einmanaleika eldra fólks. Það er mikilvægt.
Höfundur er formaður Landssambands eldri borgara.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2020.